Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Við erum hér að tala um frv. til laga um þingsköp Alþingis. Ég vil aðeins víkja að því sem hér kom fram í ræðu hv. 1. þm. Austurl. í sambandi við þá brtt. sem kom fram í Nd. um að fjölga í fjárlaganefnd úr níu mönnum í ellefu. Mér finnst vera heldur dapurlegur blær á þessari umræðu allri, en kemur manni kannski ekki svo mjög á óvart. Ég treysti því hins vegar að þetta mál verði skoðað ítarlega í nefndinni. Ég held að menn hafi ekki stigið hér rétt skref.
    Ég vildi einnig spyrja um það hvort fljótlega yrði boðað til nefndarfundar þannig að það kæmu þá ekki fleiri óskir fram og hvort það sé búið að ganga frá því tryggilega að þetta nægi Alþfl. og Alþb. eða hvort við verðum hér eitthvað áfram og þurfum frekar að huga að breytingum vegna úrslita nýafstaðinna kosninga. Mér finnst sem sé vera heldur leiðinlegur blær á þessu máli.
    Hér var einnig vikið að öðru máli. Ég vakti athygli á því hér þegar ekki óskylt mál var hér til umræðu sem er brtt. við 25. gr. Ég hreyfði því máli og Nd. hefur breytt frv. nokkuð í anda þess sem ég lagði þá til. Mín hugmynd var sú að binda það að fyrir lok nóvembermánaðar skyldi 2. umr. fjárlaga hafa farið fram og ég vildi einnig tímasetja 3. umr. við 15. des. Hér hefur sjálfsagt verið gerð einhver málamiðlun og í sjálfu sér ætla ég ekki að gera athugasemdir við það. Þó hefði ég talið betra að fastar hefði verið kveðið á um að 2. umr. færi fram fyrir lok nóvembermánaðar.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en get ekki farið úr þessum ræðustól öðruvísi en minnast aðeins á það sem hér kom fram hjá hv. 9. þm. Reykv. og var einnig minnst á af hv. 2. þm. Reykn. sem tók nokkuð undir þá hugmynd að opna fyrir stöðugt útvarp og þá helst líka sjónvarp frá Alþingi. Ég vildi nú svona góðfúslega benda þessum ágætu þingmönnum á að í mínum huga er það a.m.k. nær að við áttum okkur á því að við þurfum fyrst að koma þessum fjölmiðlum til þjóðarinnar þannig að þjóðin geti fylgst með Ríkissjónvarpi og Ríkisútvarpi. Ég vona að menn átti sig á því að það eru ekki nálægt því allir Íslendingar sem hafa þá aðstöðu að geta hort á Ríkissjónvarpið og hlustað á Ríkisútvarpið. Ég hef marghreyft þessu máli hér í sölum Alþingis og alltaf fengið góðar undirtektir. En framkvæmdirnar hafa hins vegar alla tíð látið á sér standa. Ég held að það væri nær fyrir okkur að gera einhverjar heitstrengingar um það að koma þessum sjálfsagða ríkisfjölmiðli og þessu mikla öryggistæki til þjóðarinnar heldur en fara í beina tengingu héðan frá Alþingi.