Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það var aðeins vegna síðustu orða hv. 4. þm. Norðurl. v. sem ég vildi benda honum á að ég var ekki beint að taka undir að ég væri sammála því að það ætti að útvarpa og sjónvarpa stöðugt frá Alþingi en ég tók undir að mér fyndist það athygli vert að kanna það og benti á að það hefði bæði sína kosti og galla. En ég get alveg tekið undir það sem kom fram hjá hv. þm. að það er vissulega slæmt til þess að vita að ekki skuli vera þau skilyrði um allt landið að allir eigi kost á því að hlusta á útvarp og horfa á sjónvarp.
    Ég hef nokkra reynslu af þessu sjálf því að það vill nú svo til að þar sem ég bý er ekki nokkur möguleiki á að horfa t.d. á Stöð 2 þó að ég noti alls konar tæknilegar græjur til þess að reyna að bæta úr því. Ég vildi aðeins skjóta því að hv. þm. að ég hef góðan skilning á því sem hann var að nefna í þessu sambandi.