Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég er þakklátur hv. 2. þm. Vestf. fyrir að taka svo til orða að menn hafi haft stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar lengi til aflestrar. Það er bersýnilegt að þingmaðurinn hefur ekki farið á hraðlestrarnámskeið. En varðandi bakskjölin sem rætt hefur verið um hefur það margkomið fram að að sjálfsögðu hafi stjórnarflokkarnir lagt í margvíslega vinnu til að undirbúa sitt samstarf og sinn samstarfssáttmála. Það hefur verið frá því greint að þessi gögn yrðu stjórnarflokkunum til halds og trausts við vinnu þeirra við þá hvítu bók sem verður gefin út með haustdögum.
    Mér finnst alveg fráleitt að halda því fram að þingmaður geti hér á Alþingi krafist þess að gögn stjórnmálaflokka séu eins og opinber gögn afhent honum, það gengur ekki. ( Gripið fram í: Gögn stjórnmálaflokka?) Gögn stjórnmálaflokka já, séu afhent honum. Það gengur ekki.