Steingrímur J. Sigfússon (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég hefði að vísu ekkert haft á móti því að landbrh. væri viðstaddur en ég ætlaði þó aðallega að ítreka það út frá orðum m.a. hæstv. heilbrrh. hér áðan, sem hélt nú eiginlega nokkuð sérkennilega ræðu undir liðnum þingsköp, að það verður að gera greinarmun á því hvort um er að ræða einhver minnisblöð eða pappíra, hvaða nafni sem þeir nefnast, sem stjórnarflokkarnir kunna að hafa sett á blað t.d. um innbyrðis verkaskiptingu sína og koma þeim einum við. Ef t.d. stjórnarflokkarnir hafa samið um það að eftir tvö ár færist til formennska í einhverri nefnd sem þeir hafa á sínu valdi eða eitthvað af því tagi sem óumdeilanlega kemur þeim einum við, þá það. Það eru þeirra mál. Þau skjöl mega þeir geyma hvar sem helst. En þegar þannig háttar til að það er vitnað í stefnuskjal sem ekki verður ráðið annað af orðum hæstv. utanrrh. en að liggi fyrir og einmitt það stefnuskjal kann að hafa áhrif á hagsmunamál heildarsamtaka úti í þjóðfélaginu, skipta miklu fyrir þúsundir fólks, þá er það ekki lengur bara eitthvað sem kemur stjórnarflokkunum einum við og eitthvað sem þeir geta farið með af sinni hentisemi.
    Að vísu verð ég að segja vegna orða hæstv. heilbrrh. hér áðan, af því að hann vitnaði í samkomulag og undirmál eða leyndarmál milli stjórnarflokka fyrr á tíð um þingrof, að það væri ákaflega fróðlegt að fá það upplýst ef til er skriflegt samkomulag milli stjórnarflokkanna um þingrof. Var þetta svona ,,freudian slip`` hjá hæstv. heilbrrh.? Var það óvart að læðast út úr honum að m.a. slíkir hlutir væru festir á blað í leynisamkomulagi stjórnarflokkanna? Ég býst við að fleiri en ég hafi haft áhuga á því að vita um slíkt. En ég vil fyrst og fremst undirstrika að hér er ekki um eitthvað að ræða sem hæstv. ráðherrar geta bara farið með og haft sín í milli án þess að nokkrum öðrum komi það við. Það er ekki svo.
    Eins og m.a. ég í fyrri ræðu minni hér í dag og hv. 9. þm. Reykv. undirstrikuðum, þá verður það að komast á hreint núna hvort í þessu skjali eru einhverjir þeir hlutir sem hafa áhrif á framkvæmd búvörusamningsins t.d. og auðveldast og einfaldast væri auðvitað að fá þá skjalið birt. Reyndar er það svo að öðru verður ekki trúað en hæstv. ríkisstjórn ætli sér að virða búvörusamninginn. Til að mynda ef vitnað er í og miðað við ummæli eins og hæstv. forsrh. í sjálfri kosningabaráttunni þegar hann var reyndar ekki skilinn öðruvísi, t.d. í sjónvarpsþætti, en ef eitthvað væri þyrfti að gera ívið betur við bændur en fyrri ríkisstjórn hefði gert. Þess vegna verður ekki öðru trúað, nema það komi þá í ljós, en að við þennan samning eigi að standa.
    Þess vegna ætla ég að lokum að segja það að auðvitað á ríkisstjórnin einn leik sem kannski dugar henni til þess að menn láta sér það lynda að hún geymi nú hvíta skjalið, stefnuskjalið um landbúnaðarmál sem hæstv. landbrh. hefur ekki séð. Það er nú sérkennileg uppákoma í einni ríkisstjórn að landbrh. hefur ekki séð stefnuskjalið um landbúnaðarmálin. Það væri gaman að vita hvort fjmrh. hefur séð stefnuskjalið um fjármál o.s.frv. En ef hæstv. forsrh. og/eða hæstv. landbrh. gefa hér skýr og afdráttarlaus svör um það að ríkisstjórnin ætli að virða búvörusamninginn að fullu og öllu, þá skiptir það að mínu mati minna máli þó að þetta landbúnaðarskjal liggi með hinu eitthvað fram á haustið. Ástæða þess að það er ekki þolandi að því verði leynt . . . ( Landbrh.: Maður verður nú að komast í stólinn til þess að geta sagt eitthvað.) Hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur stundum leyst slík vandamál með því að kalla fram í.
    En ef ríkisstjórnin gefur hér eitt stutt og skýrt já við því að hún ætli að virða búvörusamninginn og hæstv. utanrrh. mótmælir því ekki eða segir það sjálfur, þá held ég að við getum stytt umræðuna eða a.m.k. ég að mínu leyti því ég er ekki í þessu sem einhverjum æfingum hér af því að ég hafi gaman af því. Hér er allt of mikið í húfi til þess og ég sé að hæstv. forsrh. er mér sammála um það. Það eru svo stórir hagsmunir hér í húfi og svo erfiðir hlutir í raun og veru sem að baki liggja að það er ómögulegt að búa við það að ekki fáist hér alveg skýr og afdráttarlaus niðurstaða.
    Ég veit að ég þarf ekki að rökstyðja það fyrir hv. þm. hvers vegna það er ómögulegt að láta vorið og sumarið líða án þess að algjörlega skýr niðurstaða fáist í málin a.m.k. að þessu leyti. Það verður ekki gert nema með tvennum hætti, annaðhvort að skjalið verði birt, og vonandi eyðir það þá óvissu sem uppi er, eða að hæstv. ríkisstjórn gefi hér svo skýr og afdráttarlaus svör að þar verði ekki um neitt að villast.