Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög mikið. Í raun og veru stytti svar hæstv. sjútvrh. áðan mitt mál að verulegu leyti vegna þess að það voru ákaflega skýr svör sem þar komu fram. Áður en ég held lengra vildi ég hins vegar óska eftir því, af því að ég veit að hæstv. sjútvrh. er í húsinu, að forseti gerði ráðstafanir til þess að hann yrði hér viðstaddur þegar á mitt mál liði.
    Einnig hefði ég þurft að eiga orðastað við hæstv. forsrh. vegna þess sem fram kom hér í hans máli áðan. Það kom fram hjá hæstv. landbrh. í ræðu hans að hann stæði við hvert orð af því sem hann hefði sagt um búvörusamninginn. Það var býsna merkilegt. Ég er hér með Dagblaðið frá þriðjudeginum 7. maí þar sem blaðamennirnir Haukur Hauksson og Kristján Ari Arason spyrja hæstv. landbrh. út í stefnuna í landbúnaðarmálum. Fyrsta spurningin er svona, með leyfi forseta: ,,Alþfl. vill skera kostnað vegna búvörusamningsins niður um a.m.k. 5 milljarða. Hver er afstaða þín til þessa?`` ,,Alþýðuflokkurinn átti sæti í þeirri ríkisstjórn,`` svarar hæstv. landbrh., ,,sem gerði þennan búvörusamning. Ég hef ekki rætt það við Alþfl. hvaða hugmyndir hann hefur til að ná fram 5 milljarða sparnaði. Það er of snemmt að spyrja menn hvernig þeir ætli að bregðast við viðkvæmum málum sem varða heila starfsstétt eftir aðeins viku setu í ráðuneyti.``
    Þá spyrja blaðamennirnir: ,,Ætlar þú að framfylgja stefnu Alþfl. í landbúnaðarmálum?`` ,,Ég veit ekki hver hún er,`` er svar hæstv. landbrh.
    Í þriðja lagi spyrja þeir: ,,Hvaða breytingar vilt þú gera á búvörusamningsdrögunum?`` Svar hæstv. landbrh. er þetta: ,,Búvörusamningurinn er bindandi að því leyti sem tekur til niðurskurðarins og fyrirgreiðslu til bænda.`` --- Og fyrirgreiðslu til bænda. Það er það auðvitað sem skiptir höfuðmáli.
    Hér áðan gerði forsrh. allar þessar yfirlýsingar, sem hæstv. landbrh. var að taka fram að hann stæði við, í raun og veru ómerkar þegar hann sagði að þetta þyrfti allt saman að skoða. Á bls. 16 í stefnuræðu hæstv. forsrh. segir, með leyfi forseta: ,,Fjórða meginverkefni stjórnarinnar verður að framkvæma þá stefnu í landbúnaðarmálum sem mörkuð hefur verið af stjórnvöldum og bændum í sameiningu hin síðari ár.`` Núna, viku seinna hefur hæstv. forsrh. breytt þessari stefnu hér í þingsalnum. Það sem stóð í stefnuræðunni gildir því ekki lengur.
    Fleira ætla ég ekki að segja um landbúnaðarmál en vil segja nokkur orð um sjávarútveginn og þá hefði ég gjarnan viljað að hæstv. sjútvrh. væri viðstaddur. Fyrst ætla ég að vísa í orð úr ræðu hæstv. utanrrh. frá umræðunni í fyrrakvöld þar sem hann segir: ,,Nú er það svo að það eru skiptar skoðanir í öllum stjórnmálaflokkum, jafnvel líka Framsfl., um fiskveiðistjórnina. Og það er alveg ljóst að sú stefna sem Alþfl. hefur gert að sinni hefur ekkert verið samþykkt fyrir fram í þessu stjórnarsamstarfi út af fyrir sig, þ.e. sá þáttur stefnunnar sem er tillaga um að taka upp gjaldtöku

fyrir veiðileyfi í áföngum á næstu árum hefur ekki verið hafnað,`` eins og hæstv. utanrrh. leggur áherslu á. ,,Því hefur hins vegar ekki verið slegið föstu að hún skuli koma til framkvæmda. Ástæðurnar fyrir þessu eru mjög einfaldar.`` Nú vildi ég spyrja hæstv. sjútvrh.: Tekur hann undir þessi orð hæstv. utanrrh. úr umræðunni fyrir tveimur kvöldum síðan að því hafi ekki enn þá verið slegið föstu að innheimta á gjaldi fyrir veiðileyfi komi til greina? Telur hæstv. sjútvrh. að þetta komi til greina?
    Ég vil vitna í viðtal við hæstv. sjútvrh. sem Morgunblaðið átti við hann. Á aðalfundi Íslenskra sjávarafurða hf., sem er gamla Sjávarafurðadeild Sambands ísl. samvinnufélaga, segir hæstv. sjútvrh.: ,,,,Ætlunin er hins vegar ekki að skipta um kerfi annað eða þriðja hvert ár. Sjávarútvegurinn verður að byggja á því kerfi sem nú er. Þetta kerfi er þó ekki gallalaust og við verðum að þróa það og sníða af því gallana,`` fullyrti Þorsteinn. Hann sagði að fiskimiðin væru sameign þjóðarinnar og hugsanlega yrði að binda þennan sameiginlega rétt í stjórnarskrá. ,,Ég er andvígur því að stjórna veiðum með skattheimtu eða uppboði á veiðileyfum.````
    Í Dagblaðinu 3. maí var sjútvrh. í yfirheyrslu hjá blaðamanni Dagblaðsins. Blaðamaðurinn spyr hæstv. sjútvrh. þannig: ,,Þú lýsir því yfir í DV í vikunni að hugmyndum krata um leigukvóta yrði stungið undir stól og undir engum kringumstæðum hrundið í framkvæmd. Má búast við einhverri breytingu á þessari afstöðu þinni?`` Svarið er mjög skýrt eins og þau voru skýr sem komu hér fram áðan frá hæstv. sjútvrh. Svarið er nei. ,,Ertu hlynntur auðlindaskatti?`` er þá spurt. ,,Nei,`` er svar hæstv. sjútvrh. ,,Ég tel að auðlindaskattur feli í sér aukin ríkisumsvif, hann dregur fjármuni frá atvinnugreininni. Þetta er í eðli sínu landsbyggðarskattur sem dregur fjármuni frá landsbyggðinni til miðstjórnarvaldsins. Það er andstætt mínum grundvallarhugmyndum í pólitík.`` Þannig orðar hæstv. sjútvrh. það.
    Nú vil ég því spyrja hæstv. sjútvrh. Og af því að hæstv. utanrrh. lét liggja að því í umræðunni fyrir tveimur kvöldum síðan að það væri auðvitað ekki sjútvrh. að ákveða hvort þetta gjald yrði sett á eða ekki heldur væri það fjmrh. Og hann ítrekar það í blaðaviðtali við Dagblaðið daginn eftir að það sé fjmrh. að ákveða það hvort tekið verði gjald fyrir kvótana og það þýði ekki fyrir einhverja að þverskallast við í þeim efnum þegar loka þurfi fjárlögunum. En hæstv. sjútvrh. segir að þetta sé andstætt sínum grundvallarhugmyndum. Verði það nú ofan á hjá hæstv. fjmrh. að leggja slíkan skatt á sjávarútveginn, mun hæstv. sjútvrh. þá starfa undir þeim kringumstæðum í þessari ríkisstjórn sem sjútvrh.?
    Ég ætlaði einnig að spyrja hæstv. sjútvrh. út í nefndarskipunina sem gerð hefur verið að umtalsefni. Hans svör voru svo skýr og greinargóð hér áðan í þeim efnum að ég ætla ekki að lengja umræðuna frekar.