Ríkisfjármál 1991
Miðvikudaginn 29. maí 1991


     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Það er aðeins örstutt leiðrétting. Ég hélt að þingmönnum Vestfirðinga væri um það kunnugt að það er ákveðið að byrja á jarðgöngum fyrir vestan nú á þessu ári og það verður staðið við þann framkvæmdahraða á þessu ári sem hafði verið ákveðinn áður. Þó svo að greiðslur til þeirra framkvæmda verði með nokkuð öðrum hætti en sumir höfðu kannski reiknað með breytir það engu um verkhraða né verklok. Ég bjóst af þeim sökum við að þingmenn Vestfirðinga mundu láta í ljósi ánægju yfir því að ráðist yrði í þetta verk nú og verður bráðlega skrifað undir verksamning þar að lútandi.
    Ég vil að þetta komi fram. Þetta hefur að vísu komið fram í blöðum hvað eftir annað en svo virðist sem ýmsir eigi erfitt með að skilja hvernig þetta mál stendur. Það verður farið í jarðgöng fyrir vestan eins og ákveðið hafði verið. Það er ekki gert ráð fyrir því að fresta í einu né neinu gerð jarðganga né verklokum og mun ég með glöðu geði um leið og frá verksamningi er gengið kynna þingmönnum Vestfirðinga greiðslur, tilhögun og annað sérstaklega, þannig að þeir þurfi ekki að vera í vafa um hvernig að því verki verður staðið.
    Um vegamálin vil ég að öðru leyti segja að óhjákvæmilegt var, eins og ástandið var í ríkisfjármálum, að draga nokkuð úr útgjöldum ríkissjóðs á þessu ári og að sjálfsögðu hlaut ég að taka þátt í því sem samgrh. og geri ráð fyrir því að meiri hluti þingmanna skilji nauðsyn þess.