Ríkisfjármál 1991
Miðvikudaginn 29. maí 1991


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Hæstv. forseti. Ég hef verið að velta því svolítið fyrir mér undanfarna daga hvort ég ætti að blanda mér í það uppgjör og þá fortíðarhyggju sem hér hefur riðið húsum undanfarna daga og hef setið á mér þar til nú. Ég ætla ekki að velta mér upp úr fortíðinni enda má kannski segja að maður hafi hér undanfarna daga verið vitni að því sem mætti kalla nokkurs konar uppgjör hjúskaparaðila eða hjóna og það er heldur óviðurkvæmilegt að blanda sér í slíkt. Það er best að sleppa því að blanda sér í slík uppgjör.
    Ég er ekki dómbær á það hvort skilnaður var eina færa leiðin hjá þeim sem bjuggu saman fram að 1. maí sl. eða hvort nær hefði verið að halda því hjónabandi áfram, þó ekki væri nema út af sameiginlegum afkvæmum Alþfl. og Alþb. Ég hélt að einhver í stjórnarliðinu hefði kannski hlotið eitthvert uppeldi í guðfræði og gæti gengið á milli ef það væri vandamál.
    En ég ætla sem sagt ekki að velta mér upp úr fortíðinni. Mig langar að horfa aðeins til þess sem er að gerast þessa dagana í ríkisfjármálum og þess sem snertir kannski ekki síst heimilin í landinu og það eru vaxtahækkanir í húsnæðiskerfinu. Þá á ég bæði við vaxtahækkanir á lánum Byggingarsjóðs ríkisins og hækkaða ávöxtunarkröfu húsbréfa sem hefur komið fram að undanförnu.
    Ég verð að segja það fyrir mig að mér finnst það þyngra en tárum taki hvað húsnæðislánakerfið hefur farið í gegnum margar kollsteypur á undanförnum árum. Það er þyngra en tárum taki hvað stjórnvöld eru gersamlega rúin öllu trausti í þessum málaflokki hjá almenningi. Það þýðir ekkert fyrir talsmenn flokkanna að koma hér í pontu og benda hver á annan því að hér eiga margir hlut að máli. Enda má kannski segja að forsagan nái um 30 ár aftur í tímann og hún hefjist þegar farið var að brenna sparifé landsmanna á verðbólgubálinu og veita lán til húsbyggjenda og til atvinnurekenda á neikvæðum vöxtum.
    Mín kynslóð, við sem höfum verið að reyna að koma undir okkur fótunum á árunum eftir 1980, hefur mátt súpa seyðið af þeim neikvæðu vöxtum sem voru hér um árabil sem og gamla fólkið sem fær nú mun minna út úr lífeyrissjóðunum en efni stóðu til.
    Ég sagði að þessi saga væri kannski orðin 30 ára saga, hún hefði hafist þegar farið var að brenna upp spariféð. Næsta tímabil í þessari sögu má segja að byrji með húsnæðiskerfinu frá 1986. Þetta kerfi hefur verið nánast í andarslitrunum frá því að því var komið á eða kannski má segja að dauðateygjurnar hafi byrjað árið 1987 þó að nú fyrst sé formlega verið að jarðsetja þetta kerfi. Kerfið hefur alla tíð verið meingallað og það hefur verið gagnrýnt frá fyrstu tíð af fjölmörgum og m.a. af þingkonum Kvennalistans. Ég vil minna á það hér í þessari umræðu að þingkonur Kvennalistans hafa alla tíð gagnrýnt þetta kerfi og þegar í upphafi fyrir tvennt. Í fyrsta lagi fyrir það að það væri of mikill vaxtamunur í þessu kerfi sem fengi aldrei staðist til lengdar. Í öðru lagi var kerfið gagnrýnt fyrir að það væri fráleitt að allir ættu sama rétt til láns með niðurgreiddum vöxtum, óháð eignum og tekjum. Þetta fyrirkomulag hlaut að leiða til þess að skriðan færi af stað.
    Hv. þm. Halldór Ásgrímsson kom hér í pontu fyrir nokkrum dögum og ræddi um húsnæðislánakerfið. Hann gagnrýndi húsbréfakerfið m.a. fyrir það að með húsbréfunum væri verið að fjármagna neyslu fólks vegna þess að það er verið að endurfjármagna gamlar íbúðir. Það má því kannski segja að verið sé að fjármagna neyslu að vissu marki. Þetta gerðist líka í kerfinu frá 1986. Niðurgreiddir vextir buðu upp á það að við íbúðaskipti tóku þeir lán sem áttu skuldlausar íbúðir fyrir. Að sjálfsögðu tóku þeir lán með niðurgreiddum vöxtum þannig að kerfið frá 1986 fjármagnaði neyslu ekki síður en húsbréfakerfið og hafði í rauninni að mínu mati áhrif á þá þenslu sem hér varð á árunum 1987 og 1988.
    Það voru ýmsir skafankar sniðnir af þessu kerfi frá 1986 en eftir stóð samt niðurgreiðsla vaxta til allra. Að mínu mati er löngu tímabært að taka á vanda þessa kerfis og vaxtahækkunin á nýjum lánum, vaxtahækkunin úr 3,5% í 4,5% var dregin allt of lengi. Menn hikuðu ekki við það í fyrri ríkisstjórn að hækka vexti á húsbréfum úr 5,75% í 6% af því að húsbréfin eru markaðstengd en létu hitt kerfið malla í 3,5% vöxtum allt of lengi. Ég reikna með að það hafi m.a. verið gert í krafti þess að búið var að skilgreina stóran hóp sem var í hinni svokölluðu biðröð sem forgangshóp. Þetta var með öðrum orðum hópur fólks sem var í íbúðum undir ákveðnum stærðarmörkum og því eðlilegt að það stækkaði við sig eða keypti sér sína fyrstu íbúð. Það breytir ekki því að það voru margir slíkir úti í samfélaginu sem ekki komust inn í þessa biðröð, þeir komust aldrei með fótinn inn fyrir dyrnar áður en kerfinu var lokað, voru fyrir utan og var vísað á húsbréfakerfið. Sá hópur er ekkert betur settur þó hann hafi ekki komist með fótinn inn fyrir dyr. Ég tel í sjálfu sér ekki óeðlilegt að uppræta þessa biðröð eins og gert var.
    Húsnæðiskerfið frá 1986 er afurð kjarasamninga það ár og þar af leiðandi skilgetið afkvæmi ASÍ, VSÍ, VMS og ríkisstjórnarflokkanna sem þá voru Framsfl. og Sjálfstfl. Þessi tilurð kerfisins skýrir kannski að hluta til af hverju verkalýðshreyfingin hleypur alltaf í vörn fyrir þetta kerfi, sem byggir á því að niðurgreiða fjármagn til ríkra jafnt sem blankra. Mér finnst vörn verkalýðshreyfingarinnar fyrir þessu kerfi vera í grundvallaratriðum andstæð þeim hugmyndum sem verkalýðshreyfingin að öðru leyti byggir á þannig að ég á afskaplega erfitt með að skilja þetta. Hins vegar er enginn vandi að skilja af hverju verkalýðshreyfingin mótmælir afturvirkum vaxtahækkunum, og ég vil kalla þær afturvirkar þó svo að fjmrh. hafi mótmælt því hér í pontu áðan. Það voru gefin mjög ákveðin fyrirheit 1986 um að vextirnir yrðu 3,5% og mundu ekki hækka, a.m.k. ekki í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat. Ég hygg að flestir, a.m.k. almenningur, hafi skilið það sem svo að það væri eiginlega verið að festa þessa vexti. Engu að síður er kveðið á um það

í því skuldabréfi sem fólk fékk upp í hendurnar að vextir væru breytilegir og fólki bæri að greiða þá vexti sem ríkisstjórnin ákvæði á hverjum tíma. Þetta kom m.a. fram í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan og er vissulega rétt.
    Hins vegar var ákvæði í þessu skuldabréfi sem baktryggði fólk í rauninni gagnvart þessari vaxtahækkun. Það var ákvæði sem kvað á um að það væri ákveðið greiðslumark og ef hækkun yrði á þessu greiðslumarki vegna misgengis lánskjaravísitölu og launa eða ef hækkun yrði á því vegna hækkunar á raunvöxtum skyldi mismunurinn á breyttu greiðslumarki og upphaflegu færast á sérstakan jöfnunarreikning og bætast við höfuðstól lánsins. Þetta þýddi með öðrum orðum að lánstími lengdist og í þessu ákvæði fólst trygging lántakanda gagnvart misvitrum stjórnvaldaaðgerðum og ráðstöfunum í efnahagsmálum. Sá sem tekur lán, sá sem skrifar undir lán, hefur ekki bara skyldur, hann hefur líka ákveðin réttindi. Þetta voru réttindi þess fólks sem skrifaði undir skuldabréfin. Mig langar til þess að lesa hér 4. gr. sem er með stærra letri aftan á þeim skuldabréfum sem fólk fékk upp í hendurnar. Þar segir: ,,Lánakjör, þ.e. vextir, þóknun og verðtrygging skv. 3. gr., eru breytileg.`` --- Þannig að það er skýrt að þau eru breytileg. --- ,,Heimilt er að breyta þeim skv. 30. gr. laga nr. 60/1984, sbr. lög nr. 54/1986, enda verði slík breyting kynnt opinberlega er hún tekur gildi. Sú greiðsla sem nefnd er í skuldabréfinu er miðuð við upphafleg lánskjör. Tilgreindir ársvextir og þóknun eru einnig miðaðir við upphaflega vexti. Lánakjör breytast einnig samkvæmt lögum nr. 63/1985, um greiðslujöfnun fasteignaveðlána. Skuld á jöfnunarreikningi sem til verður vegna ákvæða um greiðslumark telst hluti af höfuðstóli lánsins. Lánskjör, þar með taldir vextir og verðtrygging, vegna skuldar á jöfnunarreikningi, skulu vera hin sömu og af upprunalegu láni.``
    Það er skýrt kveðið á um það í þessu skuldabréfi að þarna sé ákveðin baktrygging í lögunum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána. Þessi trygging var hins vegar tekin af hér á hinu háa Alþingi daginn fyrir þingslit í vor. Þar með var búið í haginn fyrir þá afturvirku vaxtahækkun sem nú á sér stað, það var verið að búa í haginn fyrir það að vaxtahækkunin gæfi af sér tekjur í ríkissjóð. ( Félmrh.: Líka tryggja vaxtabætur.) Ég veit að það var gert til þess að tryggja vaxtabætur og ég ætla að koma inn á það hér á eftir, hæstv. félmrh. ( Fjmrh.: Rennur ekki í ríkissjóð.) Ja, Byggingarsjóð ríkisins, fyrir mér er þetta nú bara að fara úr einum vasanum í annan. Ég veit ekki hvort fjmrh. er sammála mér í því, en hann getur þá komið hér upp á eftir og útskýrt það.
    Þessi breyting á lögunum var gerð að frumkvæði fyrrv. stjórnarflokka. Í mínum huga er þessi breyting kannski enn alvarlegri en vaxtabreytingin nú. Hún er enn alvarlegri vegna þess að þetta var baktryggingin sem fólk hafði á skuldabréfinu. Það kemur skýrt fram á skuldabréfinu að vextir geti verið breytilegir og fólki beri að greiða vexti sem ákveðnir eru hverju sinni af ríkisstjórn Íslands. Þegar þessi lög voru sett voru

menn vel meðvitaðir um hvað gæti gerst. Þetta gerist ekki óvart, þetta fer ekki óvart inn í lögin á sínum tíma, menn voru meðvitaðir um hvað þeir voru að gera.
    Þó að félmrh. segi að þetta hafi verið gert til þess að tryggja vaxtabætur, þá er það nú þannig að vaxtahækkun ein og sér hefði litlu breytt fyrir lántakendur. Hún hefði afskaplega litlu breytt fyrir lántakendur sem eru með þessi lán, vegna þess að þetta hefði bæst við höfuðstólinn. Þetta hefði ekki þyngt árlega greiðslubyrði þeirra. Vaxtabæturnar sem verið var að tryggja þessu fólki koma kannski í fyrsta lagi til álita eftir 15 -- 20 ár og þá á væntanlega flest af þessu fólki orðið það mikið í eignum sínum að vaxtabætur koma hvort eð er ekki til greina. Ég held því að vaxtabæturnar hafi fyrst og fremst verið yfirvarp. Þetta var yfirvarp hér á Alþingi. Þessi breyting fór hins vegar tiltölulega hávaðalaust fram enda var hún kynnt þannig að það væri verið að búa til rétt til vaxtabóta og var kynnt afskaplega jákvætt. Það vakti athygli mína að það tók ekki nokkur einasti þingmaður til máls um þetta hér á Alþingi í vor, ekki nokkur einasti. Félmrh. kynnti málið og það tók enginn til máls um þetta. Ég ætla ekki að ásaka þingmenn fyrir það í sjálfu sér, ég held að þetta sé kannski dæmi um það hvernig mál, mjög mikilvæg mál fyrir almenning í landinu, fara hér í gegnum þingið á síðustu dögum á vorin án þess að menn átti sig nokkuð á því hvað hér er að gerast. Ég held að þingmenn hafi ekki áttað sig á því að þetta var miklu alvarlegri hlutur en vaxtahækkunin.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson kom inn á það að menn yrðu að hafa visst siðferði í stjórnarathöfnum. Það sem gerðist hér í vor er ekki siðferði í stjórnarathöfnum. Það er ekki siðferði vegna þess að baktryggingin sem fólkið hafði þegar það tók lánin var tekin af.
    Með lagabreytingunni sem varð í vor og með hækkun vaxta nú er búið að breyta þeim grundvallarforsendum sem þúsundir einstaklinga byggðu lántökur sínar og greiðsluáætlanir á þegar þeir tóku þessi lán. Þetta er með öllu óþolandi og það eru svona vinnubrögð, sem ég vil leyfa mér að kalla óvönduð, sem hafa eyðilagt tiltrú almennings á stjórnvöldum. Stjórnvöld virðast sníða sín lög og miða aðgerðir sínar við að tjaldað sé til einnar nætur og það sé alltaf hægt að breyta lögunum þegar þeim sýnist svo. Þetta eru ekki ábyrgar stjórnarathafnir. Þegar fólk er að fjárfesta í íbúðarhúsnæði er það ekki einnar nætur ævintýri. Það er verið að skipuleggja framtíðina og það er verið að fjárfesta til frambúðar.
    Mig langar í þessu sambandi að minnast sérstaklega á einn hóp sem nú fær á sig vaxtahækkun. Þessi hópur er aldraðir. Aldraðir voru á sínum tíma hvattir til að fjárfesta í söluíbúðum fyrir aldraða. Talsvert stór hópur fólks gerði þetta, fjárfesti í söluíbúðum fyrir aldraða þrátt fyrir að ævisparnaður þess, sá ævisparnaður sem það átti í skuldlausum íbúðum, dygði ekki til þess að kaupa nýjar sérhannaðar söluíbúðir fyrir aldraða. Það fór út í það að kaupa þessar íbúðir þrátt fyrir þetta vegna þess að það buðust

hagstæð lán. Því buðust hagstæð lán á 3,5% vöxtum, mörgum hverjum og öðrum á 4,5% vöxtum. Nú er þessu fólki gert að greiða 4,9% vexti og það bendir allt til þess að þeir vextir geti hækkað enn frekar því það segir á bls. 25 í skýrslu fjmrh., með leyfi forseta: ,,Í þessari ákvörðun um vaxtahækkun er gengið út frá því að vextir á lánum lífeyrissjóðanna til sjóðsins verði ekki hærri en 6,5% á næstu árum. Að öðrum kosti þarf að hækka vexti á útlánum sjóðsins enn frekar til að tryggja eiginfjárstöðu hans.`` Það má því eins búast við því að vaxtahækkanirnar verði meiri síðar.
    Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. félmrh. hvort aðstæður þessa hóps hafi verið skoðaðar sérstaklega, þ.e. fólks sem býr í sérhönnuðum söluíbúðum fyrir aldraða og fjárfesti í þeim vegna hagstæðra lánakjara. Og mig langar líka til að spyrja hvort það hafi verið skoðað hversu stór þessi hópur er, hve stór hópurinn er sem er með 3,5% vexti og hversu stór hópurinn er sem er með 4,5% vexti. Mig langar líka til að spyrja hvort ekki sé ástæða til að kanna möguleikana á því að halda lægri vöxtum á þessum lánum en öðrum lánum frá Byggingarsjóði ríkisins. Ástæðan fyrir því að ég spyr að þessu er sú að söluíbúðir aldraðra eru ekki á almennum markaði, þetta eru ekki íbúðir sem fólk getur selt hverjum sem kaupa vill, heldur er yfirleitt á þeim félagslegur forkaupsréttur, þ.e. að það er tryggður forkaupsréttur ýmist hjá Samtökum aldraðra, Verslunarmannafélagi Reykjavíkur eða hverjum þeim sem byggði þessar íbúðir. Og síðan eru þær endurseldar öðru fólki yfir 65 ára aldri, þannig að þær eru ekki á hinum frjálsa markaði á sama hátt og aðrar íbúðir sem fjármagnaðar eru af byggingarsjóðnum.
    Við vitum það öll að það er erfitt fyrir fullorðið fólk að binda sér skuldabagga þegar það er komið á þennan aldur og það er mjög erfitt fyrir þetta fólk að sjá ekki greiðslubyrði sína svart á hvítu, að geta ekki vitað nákvæmlega hver greiðslubyrðin er af þeim skuldum sem það er að taka á sig. Þetta fólk getur ekki bætt við sig vinnu ef greiðslubyrði þyngist eins og við sem yngri erum, það hefur hreinlega enga möguleika á því. Í þessu sambandi langar mig til að benda á það að almennar kaupleiguíbúðir eru núna á 4,5% vöxtum og félagslegar kaupleiguíbúðir eru á enn lægri vöxtum. Þetta er það kerfi sem viðbúið er að notað verði fyrst og fremst til að byggja yfir aldraða í framtíðinni. Ég sé ekki af hverju aldrað fólk, sem ekki átti kost á kaupleiguíbúðum á sínum tíma, á að bera hærri vexti en þeir sem eru inni í almenna kaupleiguíbúðakerfinu.
    Sú vaxtahækkun sem nú á sér stað getur ekki bara skrifast á reikning núv. ríkisstjórnar, þótt ég ætli síst af öllu að afsaka hana. Það blasir við og var margsinnis á það bent í kosningabaráttunni að þessi vaxtahækkun var í pípunum, ef svo má segja. Mín skoðun er sú eftir að hafa kynnst þessum breytilegu vöxtum sem fólk býr líka við á lífeyrissjóðslánunum og má eins búast við að hækki á næstu dögum, að fastir vextir á langtímalánum séu mun skynsamlegri en

breytilegir vextir. Það er kannski kosturinn við húsbréfakerfið að þar er gert ráð fyrir föstum vöxtum sem fólk getur þá reiknað með og það getur reiknað út sína greiðslubyrði vegna þess. Húsbréfakerfið hefur hins vegar ekki fengið þann frið sem það þarf til að þróast. Ég held að þetta sé alls ekki óskynsamlegt kerfi. Mikil lánsfjárþörf ríkissjóðs og þar af leiðandi hörð samkeppni á peningamarkaðinum hefur hins vegar unnið gegn húsbréfakerfinu og það hafa komið fram ýmsir veikleikar í framkvæmd húsbréfakerfisins. Það dapurlega við þessi kerfi öll, sem við erum alltaf að taka upp í húsnæðismálunum, er að það koma alltaf holskeflur tæpu ári eftir að kerfinu er komið af stað vegna þess að það reiknar enginn með að sú þörf fyrir fjárfestingu í íbúðarhúsnæði sé fyrir hendi sem síðan kemur fram. Það hafa verið nokkur óheillaspor í húsbréfakerfinu að undanförnu og ég held að stærsta óheillasporið og það langversta hafi verið þegar Landsbréf, viðskiptavaki húsbréfanna, hætti einn góðan veðurdag að kaupa húsbréfin. Ég verð að segja það að sem áhorfandi úti í bæ og sem manneskja sem er hugsanlega að velta fyrir sér að sækja um lán í húsbréfakerfinu var þetta reiðarslag. Þetta virkaði á mann eins og skemmdarverk, eins og tekin hafi verið pólitísk ákvörðun í Landsbankanum um það að hætta nú að kaupa húsbréf.
    Annað óheillaspor sem hefur átt sér stað í húsbréfakerfinu var þegar stórum kaupendum skuldabréfa ríkissjóðs voru boðnir 7,05% vextir ef þeir keyptu fyrir nógu háar upphæðir. Þá voru húsbréfin á 5,75% vöxtum. Það var náttúrlega borin von að lífeyrissjóðirnir litu við húsbréfum á 5,75% vöxtum meðan þeir gátu keypt skuldabréf ríkissjóðs á 7,05%, enda leiddi það til hækkunar vaxta í 6%. Með öðrum orðum, mikil lánsfjárþörf ríkissjóðs hækkaði vexti hjá húskaupendum í 25 ár. Hún jók greiðslubyrði húskaupenda í 25 ár.
    Það þriðja sem hefur mistekist í framkvæmd húsbréfakerfisins, og hefur reyndar verið bent á hér í þessum ræðustól undanfarna daga, er markaðskynningin því hún hefur verið með eindæmum slæm. Ég held að almenningur í landinu átti sig ekkert á því hvað verið er að tala um þegar ýmist er verið að tala um ávöxtunarkröfu, afföll, nafnvexti, raunvexti og annað slíkt í tengslum við húsbréfin.
    Það blasir við að húsbréfakerfið er í klemmu. Það er 8,8% ávöxtunarkrafa á húsbréfum og hún er allt of há. Það eru 22,6% afföll og þau eru líka allt of mikil. Það kom fram hér í máli bæði hæstv. viðskrh. og félmrh. í umræðum fyrir nokkrum dögum að þetta væri kannski ekki eins alvarlegt og menn vildu vera láta því það hefðu alltaf verið afföll inni í húsnæðiskerfinu. Sá væri munurinn að afföllin væru nú ljós þar sem lánin væru öll á einum stað. Ef ég man rétt þá orðaði hæstv. viðskrh. það einhvern veginn á þá leið að fólk þyrfti ekki lengur að taka skammtímalán, framlengja þau, velta á undan sér og fá ættingja til þess að skrifa upp á skuldir sínar.
    Við þessu vil ég segja það að það er til fjöldi fólks og hefur alltaf verið til og verður til sem greiðir sín lán á gjalddögum, sem tekur ekki á sig meiri skuldir en það ræður við að greiða og fólk sem bindur ekki ættingjum sínum skuldabagga ef það kemst hjá því og veltir ekki undan sér skammtímalánum. Þetta fólk þarf núna að taka á sig afföllin í húsbréfakerfinu rétt eins og hinir, það losnar ekkert við afföllin inni í húsbréfakerfinu. Ég vil því vísa þessum rökum til föðurhúsanna.
    Ég hef sagt það hér fyrr að það sé óþolandi að búa við stöðugar kollsteypur í húsnæðismálum. Eins og málin hafa verið á undanförnum árum, allt frá 1986, má segja að það sem fólk hefur átt að gera er að grípa gæsina meðan hún gefst vegna þess að hún getur verið flogin á morgun. Það er stöðugt verið að breyta kerfinu, það er stöðugt verið að gera lagabreytingar, það er stöðugt verið að gera vaxtabreytingar, þannig að þetta er alltaf spurning um að grípa gæsina því á morgun er hún flogin. Með þessu er verið að ýta undir happdrættishugarfar í húsnæðismálum og þeim er hálft í hvoru refsað sem ekki hoppa á tilteknu augnabliki sem hentar ríkiskerfinu, hentar markaðnum, þó að það henti alls ekki einstaklingunum.
    Félmrh. hefur komið hér upp og varið húsbréfakerfið með oddi og eggju. Ég hef sagt það hér að ég telji húsbréfakerfið í grundvallaratriðum gott, en mér finnst hins vegar hæstv. félmrh. verja þetta kerfi umfram það sem skynsamlegt getur talist. Hún hefur m.a. haldið því fram að húsbréfakerfið dragi ekki til sín aukið lánsfé. Munurinn sé fyrst og fremst sá að húsnæðislán séu nú á einum stað. Þetta er ekki rétt samkvæmt mínum kokkabókum a.m.k. Húsnæðislánakerfið hefur dregið til sín sífellt meira fjármagn á undanförnum árum. Árið 1986 tók það til sín 12,3 milljarða, árið 1987 14,7 milljarða, árið 1988 19,5 milljarða og 1990 20,5 milljarða og þetta er á verðlagi í maí 1991. Þannig hefur verið stöðug aukning inni í þessu kerfi.
    Húsbréfakerfið hækkar vexti vegna þess að það dregur til sín svo mikið lánsfé. Húsbréf hafa flesta eiginleika ríkisskuldabréfa en ríkið hefur ekki sömu stjórn á útgáfu húsbréfa og ríkisskuldabréfa og þar með minnka möguleikar ríkisins til að hafa áhrif á vexti. Ég held að það sé nauðsynlegt að ríkið hafi meiri stjórn á útgáfu húsbréfa en það hefur haft til þessa. Ég sé enga ástæðu til að hafa nánast sjálftöku í húsbréfunum eins og er í dag. Það sem þarf fyrst og síðast að gera er að setja þak á lán úr húsbréfakerfinu.
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði í viðtali við eitthvert dagblaðanna um síðustu helgi að þetta kerfi væri eiginlega óalandi og óferjandi. Það sem þyrfti þó að gera væri að það þyrfti að takmarka lán til annarra en þeirra sem væru að kaupa eða byggja í fyrsta sinn. Þessu vil ég mótmæla. Ég vil mótmæla því að fyrst og fremst séu veitt lán til þeirra sem eru að kaupa eða byggja í fyrsta sinn vegna þess að það er til fullt af fólki sem hefur farið mjög varlega í sínar fjárfestingar, er búið að fjárfesta einu sinni í íbúð, býr þröngt og á afskaplega lítið í þessum íbúðum þó það sé búið að borga af þeim í mörg herrans ár. Það

hefur ekki eignast mikið í þessum íbúðum á þeim tíma og það á ekki að setja þessu fólki stólinn fyrir dyrnar. Það á hins vegar að setja þeim stólinn fyrir dyrnar sem eiga talsverðar eignir og hafa miklar tekjur og geta lagt talsvert af mörkum til þess að eignast dýra eign. Þeir sem hafa löngun til og ráð á að eignast 15 millj. kr. eign ættu að fjármagna hana meira með eigin fé en gert er í dag. Hámarkslán úr húsbréfakerfinu er núna 9,4 millj. og ég sé enga ástæðu til þess að veita svo há lán úr þessu kerfi.
    Nú er verið að tala um að veita greiðsluerfiðleikalán og það er byrjað að veita greiðsluerfiðleikalán út úr húsbréfakerfinu. Núna eru til dæmi um greiðsluerfiðleikalán upp á 9,4 millj. kr. Ég verð að segja að það orkar mjög tvímælis, svo ekki sé meira sagt, að veita fólki lán sem skuldar svo mikið og er með slíkan greiðsluvanda. Fólk sem er með greiðsluvanda upp á 7 -- 9 millj. kr. vegna íbúðarhúsnæðis á hreinlega að selja þá íbúð sem það getur ekki staðið í skilum með. Það eru hreinar öfgar að koma og sækja um greiðsluerfiðleikalán vegna slíkra hluta. Ekki síst þegar horft er til þess að sá sem skuldar 7,3 millj. kr. og er í erfiðleikum þarf að fá 9,4 millj. út úr húsbréfakerfinu vegna affallanna, þannig að skuldir hans aukast brúttó um 2 millj. kr.
    Það sem ég hef verið að reyna að segja hér varðandi húsbréfakerfið er að þó ég sé fylgjandi því í grundvallaratriðum, þá óttast ég þensluna og ég óttast sjálfvirknina í húsbréfakerfinu. Ég óttast líka að það sé skekkja í áætlunum mjög margra sem nú eru að taka húsbréf. Margir sem núna taka húsbréfalán telja sig geta staðið undir þessum lánum vegna vaxtabótanna. En hvernig lítur dæmið út eftir 15 ár hjá þessu fólki? Húsbréfalánin eru jafngreiðslulán, þ.e. summa vaxta og afborgana er allan tímann sama upphæð að raungildi. Vextirnir eru hæstir fyrst í þessu kerfi en vægi þeirra minnkar eftir því sem á líður og vægi afborgana eykst. Samhliða þessu, þegar hluti afborgana stækkar og vaxtagreiðslan minnkar þó að greiðslubyrðin sé sú sama, þá minnka einnig möguleikar fólks til vaxtabóta. Það fær ekki vaxtabætur út á afborganirnar.
    Í vaxtabótakerfinu kemur svo það til viðbótar að þar er engu að treysta. Það er hægt að breyta vaxtabótakerfinu árlega ef stjórnvöldum býður svo við að horfa og fólk er að taka lán til 25 ára. Það getur ýmislegt breyst á 25 árum er ég hrædd um. Svo mikið hefur breyst á undanförnum árum í húsnæðismálum að ég tel að það sé engu að treysta í vaxtabótakerfinu. Vaxtabótakerfinu var breytt strax á fyrstu mánuðum þess. Mig minnir að lögin um vaxtabætur hafi verið sett á haustmánuðum 1989. Strax í desember 1989 var lögunum breytt. Upphaflega átti að draga 5% af tekjum fólks frá vaxtagjöldum. Í desember var því breytt í 6% með handauppréttingu hér á Alþingi. Miðað við reynsluna af stjórnvaldsaðgerðum í þessum málum er því engu að treysta. Og það er ekki óhætt að mínu mati fyrir fólk að gera út á vaxtabótakerfið.
    Þetta er m.a. ástæðan fyrir því að fulltrúi Kvennalistans í húsnæðismálastjórn samþykkti ekki vaxtahækkun þar núna á lánum Byggingarsjóðs ríkisins, úr 3,5% og 4,5% í 4,9%. Við treystum ekki ríkisvaldinu í vaxtabótamálum.
    Ríkisstjórnin hefur látið þau boð út ganga að vaxtahækkunin nú sé í raun til þess gerð að lækka vexti, eins mótsagnakennt og það nú er. Þetta þýðir væntanlega að hækkun vaxta á að draga úr eftirspurn eftir lánsfé, þar af leiðandi ætti verðið á lánsfénu að lækka. Þetta getur þó tæplega gerst meðan það er ríkið sjálft sem heldur uppi eftirspurninni eftir þessu sama lánsfé. Vaxtalækkun verður ekki varanleg fyrr en lánsfjárþörf ríkisins minnkar og töfrabrögð eins og þau sem heyrst hafa í fjölmiðlum, að selja húsbréf á erlendum markaði, duga ekki, þau breyta ekki þessu dæmi. Í mínum huga getur það ekki verið annað en erlend lántaka á mun hærri raunvöxtum en nokkur ástæða er til. Ég sé enga ástæðu til að greiða yfir 8% raunvexti á erlendum markaði eins og húsbréfin bjóða nú upp á.
    Mig langar til þess að vekja athygli á því vegna þessara vaxtahækkana að það er allt sem bendir til þess að vextir muni hækka á lífeyrissjóðslánunum. Þá er ég ekki að tala um skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna hjá byggingarsjóðunum, heldur er ég að tala um þau lífeyrissjóðslán sem hafa verið lánuð út til einstaklinga. Það er margt sem bendir til þess að vextir þar, sem eru víða 7%, muni hækka í 8 -- 9%. Og þessi vaxtahækkun hittir líka fyrir íbúðareigendur, hún hittir fyrir þetta sama fólk. Að stórum hluta til er það þessi svokallaði misgengishópur sem er með þessi lán á sínum herðum, hann hefur ekkert losnað við þau. Jafnvel þó hann sé kominn inn í 1986 - kerfið hafa þessi lán fylgt fólkinu úr einni íbúð í aðra.
    Ég er sannfærð um það að þessar vaxtahækkanir geta haft mjög alvarlegar afleiðingar á vinnumarkaði. Þær auka verulega greiðslubyrði fólks vegna húsnæðis og eins vegna þess að framfærsluvísitalan mun hækka, eins og kom fram í máli fjmrh., og enn frekar ef verður af þeirri hækkun á gjaldskrám opinberra fyrirtækja sem hér var boðuð og talin nauðsynleg.
    Að lokum langar mig aðeins til þess að koma inn á Lánasjóð ísl. námsmanna vegna þess að þar er boðaður niðurskurður. Menn geta svo sem bókfært hann hvernig sem þeir vilja en samkvæmt skýrslu fjmrh. á að lækka viðbótarfjárþörf til Lánasjóðsins um 300 millj. kr. Þetta þýðir með öðrum orðum að það þarf að skera 300 millj. kr. niður á haustlánum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Námsmenn hafa látið hafa það eftir sér að þetta þýði í raun 800 -- 900 millj. kr. skerðingu á lánunum á ársgrundvelli.
    Menntmrh. hefur falið stjórn Lánasjóðsins að gera tillögur um aðgerðir til að ná fram þessari skerðingu. Tillögur sem heyrst hafa eru fyrst og fremst þær að skerða framfærslugrunninn og samhliða því átti að draga úr skerðingu lána vegna atvinnutekna. Skerðingin á framfærslugrunninum átti að vera um 16,7%, eftir því sem ég fregnaði síðast, eða úr 56.106 kr. í 46.716 kr. pr. einstakling. Með þessu er hægt að draga úr kostnaði Lánasjóðsins. En samhliða þessu átti, eins og ég sagði áðan, að draga úr skerðingu lána

vegna atvinnutekna og það átti að vera vinnuhvetjandi. Þetta þýðir með öðrum orðum að áður var það þannig að 75% af tekjum námsmanns í leyfi umfram grunnframfærslu komu til frádráttar lánum, nú eiga það að vera 50%. Þetta hefur ekki í för með sér minnkuð útgjöld Lánasjóðsins. Ég reikna með að þetta eigi að vera einhver plástur á sárið sem skerðingin á framfærslugrunninum er. Þessi plástur finnst mér mjög vafasamur vegna þess að ég er sannfærð um að þetta kemur miklu fremur körlum en konum til góða. Karlmenn hafa hærri sumartekjur en konur og þar af leiðandi hafa þeir meiri möguleika en konur á að auka samanlagðar tekjur og lán yfir árið með þessum reglum. Ég vil því vara við þessum hugmyndum og tel að það ætti mun fremur að skerða framfærslugrunninn minna og hafa óbreytt tekjuviðmið eins og það er í dag, þ.e. að 75% af umframtekjunum komi til frádráttar en ekki 50%.
    Mig langar til þess að spyrja að því hvort sú skerðing sem þarna er verið að vinna að í Lánasjóðnum sé tímabundin eða varanleg, hvort þetta þýði að námsmenn megi hugsanlega búast við því að tekjur sjóðsins verði skertar um allt að einn milljarð á næsta ári samkvæmt þessu.