Ríkisfjármál 1991
Miðvikudaginn 29. maí 1991


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi segja nokkur orð um þann sérkennilega og afar óvenjulega hátt sem þessi umræða hefur mótast af. Ég teldi nauðsynlegt að hv. þm. Pálmi Jónsson væri hér í salnum og reyndar einnig hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Geir Haarde.
    Það var þannig fyrr í dag að það komu óskir til þingflokka stjórnarandstöðunnar frá formönnum þingflokka stjórnarliðsins og hæstv. ríkisstjórn um að stjórnarandstaðan greiddi fyrir umræðum í þinginu og meðferð mála með því að þeir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem væru á mælendaskrá í stefnuumræðunni færu af þeirri mælendaskrá
og samið yrði um það að hún yrði sérstaklega stytt til þess að hæstv. fjmrh., sem skiljanlega var orðinn nokkuð órór yfir því að hafa orðið að bíða hér lengi eftir að flytja sína skýrslu, gæti komist að með eðlilegum hætti. Stjórnarandstaðan varð við þessari ósk. Við gerðum það í góðri samvinnu hér í dag að ryðja mönnum út af mælendaskrá í umræðunni um stefnuræðu forsrh. til þess að geta greitt fyrir því að hér gæti hafist umræða í kvöld sem við héldum að yrði aðallega milli fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna og hæstv. ríkisstjórnar. En eins og hér hefur komið fram hefur þessi umræða nú staðið í tæpa þrjá tíma og henni hefur verið hagað þannig af hálfu stjórnarliðsins að einn þingmaður Sjálfstfl., hv. þm. Pálmi Jónsson, hefur talað lengur en allir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem hafa talað í þessari umræðu til þessa. Það er staðreynd málsins. (Gripið fram í.) Ég heyri það greinilega að hv. þm. er mjög ánægður með þessa framgöngu sína og er hreykinn af henni. En ég hef ekki vanist því fyrr að svona sé haldið á málum hér á Alþingi. Venjan hefur verið sú hér þegar stjórnarandstaða hefur greitt þannig fyrir gangi mála í þinginu að þeirri eðlilegu reglu sé fylgt þegar ráðherra mælir fyrir skýrslu að áður en þingmenn stjórnarliðsins hefja umræður um að mál fái a.m.k. einn fulltrúi frá hverjum stjórnarandstöðuflokki að tala um skýrslu ráðherrans. Það er afar óvenjulegt að ríkisstjórnin kjósi að halda þannig á máli að fulltrúi Sjálfstfl. í fjvn. komi hér rakleiðis í ræðustól eftir að tveir ráðherrar Sjálfstfl. hafa talað og einn þingmaður Kvennalistans talaði í tæpar tíu mínútur, ekki lengur. Eini fulltrúi stjórnarandstöðunnar, fulltrúi Kvennalistans hafði talað hér í tæpar tíu mínútur en tveir ráðherrar Sjálfstfl. höfðu talað þegar þriðji þingmaður Sjálfstfl. kemur hér í ræðustól og talar í rúmar 40 mínútur, og flutti ræðu sem ég ætla ekki að gera mjög að umræðuefni hér en það er ræða sem við sem sátum hér á þingi á síðasta kjörtímabili erum búin að heyra oft. Í þessari ræðu var nánast ekkert vikið að skýrslu fjmrh., mjög lítið. Og það litla sem að henni var vikið þá var gefið til kynna að hún væri kannski ekki marktæk. En að öðru leyti var þetta bara svona almenn endurtekning á þeim fullyrðingum sem hv. þm. flutti hér ekki einu sinni, ekki tvisvar, ekki tíu sinnum, kannski tuttugu til þrjátíu sinnum á síðasta þingi.

    Ég verð að segja við virðulega ríkisstjórn að ég botna nú satt að segja ekkert í þessari stjórn á málum hér í þinginu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Að koma til stjórnarandstöðunnar í dag og biðja um skilning og fyrirgreiðslu á meðferð umræðunnar, fá þann skilning og fyrirgreiðslu og haga málum síðan þannig að Sjálfstfl. nánast einokar þessa umræðu fyrstu þrjár klukkustundirnar tæpar. Nánast, sagði ég. Það eina sem hefur komist að er fyrst einn þingmaður Kvennalistans með hógværa málefnalega ræðu í tæpar tíu mínútur þegar þriðji þingmaður Sjálfstfl. kom í umræðuna, hinir tveir sem töluðu á undan voru að vísu ráðherrar, en þegar tveir ráðherrar Sjálfstfl. höfðu talað þá kom þingmaður Sjálfstfl. eftir að stjórnarandstaðan hafði haft tæpar 10 mínútur af umræðunni og talaði fjórum sinnum lengur en stjórnarandstaðan hafði þá talað í umræðunni.
    Ef þeir stjórnarþingmenn sem hér eru á mælendaskrá töluðu jafnlengi og hv. þm. Pálmi Jónsson þá mundi þessi umræða standa til klukkan 9 í fyrramálið. Ég tel þess vegna alveg nauðsynlegt að hæstv. forseti og formenn þingflokka stjórnarflokkanna íhugi nú í rólegheitum í ljósi þess sem hér hefur gerst af hálfu Sjálfstfl. hvort það sé ekki eðlileg kurteisi og viðbrögð við stjórnarandstöðuna og þingheim eftir þetta að umræðunni verði lokið hér eða frestað eftir skikkanlegan tíma. Eða er það virkilega ætlunin eftir það kurteislega og vinsamlega samkomulag sem tókst hér í dag og þann skilning sem stjórnarandstaðan hefur sýnt að fara að setja þingmenn stjórnarandstöðunnar í þá stöðu að annaðhvort verði þeir að skera ræður sínar niður í brot af því sem fulltrúi Sjálfstfl. úr hópi þingmanna talaði hér áður en nokkur þingmaður Alþb. og áður en nokkur þingmaður Framsfl. hafði kvatt sér hljóðs? Er það ætlunin að setja þingmenn stjórnarandstöðunnar í þá stöðu að þurfa að skera ræðutíma sinn niður í brot af því sem hv. þm. Pálmi Jónsson notaði hér eða láta fundinn standa ella til kl. 9 eða 10 í fyrramálið látlaust? Og er þá aðeins tekið mið af þeim sem nú þegar eru komnir á mælendaskrá. Ég veit að það þarf ekki að útskýra það fyrir hæstv. forseta, hæstv. forsrh. og fjmrh. og formönnum þingflokka Sjálfstfl. og Alþfl. að þetta er ekki hægt.
    Ég tek sem dæmi að á kjörtímabilinu 1979 -- 1983 var sá lengsti fundur sem þá var haldinn og var hann einstakur á því fjögurra ára tímabili, var honum lokið u.þ.b. kl. 6 um morguninn. Það var einstakt. Ég ætla hins vegar ekki að fara fram á það hér að þessari umræðu verði frestað fljótlega upp úr miðnætti eða svona í hæsta lagi kl. 1 eða 2 eða svo, ég ætla ekki að fara fram á það vegna þess að ég tel það satt að segja óþarft. Því ég vænti þess að formenn þingflokka stjórnarflokkanna, forsrh. og forseti þingsins sýni í ljósi þess sem hér hefur gerst þá sjálfsögðu kurteisi við stjórnarandstöðuna að taka afleiðingum af framgöngu hv. þm. Pálma Jónssonar og annarra sem hér hafa talað af hálfu stjórnarliðsins vegna þess að þeir geta ekki farið með málið á þann veg að stjórnarandstöðunni sé ekki veittur sami möguleiki og stjórnarþingmaður tekur sér hér í umræðum.

    Virðulegi forseti. Ef ég færi út í það að svara öllu því rugli sem hv. þm. Pálmi Jónsson var með hér í sinni ræðu, þessari almennu pólitísku ræðu sem hann flutti hér, þá þyrfti ég til þess svona einn til tvo klukkutíma. Ég er þess vegna settur í þær stellingar hér, virðulegur forseti, og hæstv. forsrh. og fjmrh. að annaðhvort láti ég þessum fullyrðingum hv. þm. Pálma Jónssonar ómótmælt og hann geti þá komið á eftir og sagt: Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrv. fjmrh., svaraði í engu því sem ég sagði um hans störf og þar með er hann auðvitað með sinni þögn að samþykkja það sem ég var að segja. Ég er settur í þá stöðu að annaðhvort fari ég í það hér lið fyrir lið að hrekja þessar fullyrðingar eða taka þessa áhættu að þingmaðurinn segi í framhaldinu: Ja, þarna sjáið þið, ég tók þingmanninn fyrir, fyrrv. ráðherra, strax og þingið kom saman að loknum kosningum, tætti í sundur hans fjármálastjórn og hann svaraði engu.
    Þetta er staðan sem búið er að skapa í þessari umræðu af hálfu Sjálfstfl. Þegar stjórnarandstaðan greiðir fyrir þingstörfum með því að ætla að taka á þessari umræðu, sem við héldum að væri eðlilegt, að hæstv. fjmrh. flytti sína ræðu, síðan kæmi einn talsmaður frá hverjum stjórnarandstöðuflokkanna og síðan einstakir þingmenn í kjölfarið um einstaka þætti og umræðunni gæti lokið á skikkanlegum tíma.
    Ég ætla hins vegar ekki að fara að flytja hér einhverja tveggja tíma svarræðu við öllu þessu rugli sem kom fram hjá hv. þm. Pálma Jónssyni. Ég bið hins vegar forráðamenn ríkisstjórnarinnar og forseta þingsins og formenn þingflokkanna að hugleiða hér í hliðarsölum hvernig þeir ætla að bregðast við framhaldinu í þessari umræðu því að þetta er alvörumál. Þetta er ekkert svona grínmál, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. ( ÖS: Ég er að hugleiða.) Já, það er gott.
    Ég ætla hins vegar að segja það við hv. þm. Pálma Jónsson að hann flutti þessa ræðu sem hann flutti hér áðan alloft á síðasta kjörtímabili. Hann flutti hana við 1. umr. fjárlaga, 2. umr. fjárlaga, 3. umr. fjárlaga, 1. umr. um lánsfjárlög, 2. umr. um lánsfjárlög, 3. umr. um lánsfjárlög og við mörg önnur tækifæri. (Gripið fram í.) Jú, það má líta þannig á en hún var líka margflutt, hv. þm. Og það er einmitt það sem ég er að vekja athygli hér á að af hálfu Sjálfstfl. hefur þessari umræðu nú þegar, áður en nokkur þingmaður talar af hálfu Framsfl. eða Alþb., verið breytt í almenna pólitíska umræðu af því tagi sem fram fór hér á síðasta kjörtímabili þegar við hins vegar skildum ríkisstjórnina þannig hér í dag og forustumenn þingflokka stjórnarflokkanna að menn vildu samninga um auðvelda meðferð mála hér á þessu sérstaka aukaþingi. Ef þetta eru leikreglurnar sem okkur er boðið upp á í samningum við stjórnarandstöðuna þá er eiginlega ekki hægt að gera neina samninga. Það er alveg ljóst.
    Við hv. þm. Pálma Jónsson vil ég einfaldlega segja þetta: Hann flutti þessa ræðu oft. Og þótt Sjálfstfl. fengi fjmrn. og þótt Sjálfstfl. fengi landbrn. og þótt hv. þm. Pálmi Jónsson á þingflokksfundi í Sjálfstfl. gerði sérstakt tilkall til þessara ráðherraembætta þá dæmdi þingflokkur Sjálfstfl. þennan málflutning ótvírætt í vali sínu á ráðherrum. Þingflokkur Sjálfstfl., þrátt fyrir allan þennan ræðuflutning, þrátt fyrir allan þennan málflutning á síðasta kjörtímabili, taldi það ekki þjóna hagsmunum flokksins að gera þennan hv. þm., Pálma Jónsson, að ráðherra ríkisfjármála eða landbúnaðarmála. Þar með hefur Sjálfstfl. auðvitað kveðið upp sinn dóm yfir þessum málflutningi. Því samkvæmt öllum venjulegum siðum innan flokka hefði auðvitað hv. þm. verið valinn til ráðherradóms af hálfu Sjálfstfl. ef trúnaðurinn og traustið hefði verið fyrir hendi af hálfu flokksins.
    Það var hins vegar athyglisvert að hv. þm. Pálmi Jónsson sagði ekki orð um það í sinni ræðu sem hann hefði fordæmt mjög harðlega ef sá sem hér stendur eða fyrrv. samgrh. hefðu staðið að því sem núv. hæstv. samgrh. og núv. hæstv. fjmrh. hafa gert varðandi niðurskurð og aðferðir og vinnubrögð í vegamálum. Þá hefði verið flutt hér löng fordæmingarræða. Hv. þm. hefur utan þings sagst vera andvígur þeim niðurskurði m.a. í hafnarframkvæmdum á Blönduósi sem ákveðinn er af ríkisstjórninni og fjallað er um í þessari skýrslu sem hér er til umræðu. En hv. þm. sagði ekki orð um það. Hann sagði ekki orð um það sem er mikilvægast í þeirri skýrslu sem hér er flutt, þ.e. tillögurnar sem ríkisstjórnin er með, þótt það liggi fyrir að þingmaðurinn, ef hann er sjálfum sér samkvæmur, sé á móti þessum tillögum. Þannig að það sem er kjarni málsins, hvort hv. þm. Pálmi Jónsson styður tillögur ríkisstjórnarinnar núna eða ekki, var hvergi að finna í hans ræðu. Þess vegna er það auðvitað jafnskýr spurning eftir þessa 40 mínútna ræðu, lengstu ræðu þingmanns sem enn hefur verið flutt í þessari umræðu, og það var áður, hvort hæstv. fjmrh., sem nú er að ganga úr salnum, hefur stuðning fulltrúa Sjálfstfl. í fjvn. við þessum tillögum eða ekki.
    Hv. þm. Egill Jónsson lýsti því yfir í sjónvarpinu í kvöld að hann styddi ekki þessar tillögur. Þannig að það liggur fyrir að tveir fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn., þeir einu sem hér eru á þingi, styðja ekki tillögurnar. Það hefðu einhvern tímann þótt tíðindi að fulltrúar flokks fjmrh. í fjvn. styddu ekki tillögurnar. Og þá auðvitað vaknar sú spurning: Er þingmeirihluti hér fyrir þessum tillögum eða ekki? Er þingmeirihluti fyrir þessum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar eða ekki? Þegar yfirlýsingar fulltrúa Sjálfstfl. í fjvn., sem nú hafa komið fram opinberlega, að vísu ekki hér í þingsalnum en í fjölmiðlum, liggja fyrir um andstöðu þeirra við þessar tillögur þá er auðvitað alveg óhjákvæmilegt að hæstv. forsrh. og fjmrh., áður en þingið fer heim, leiði það í ljós með einhverjum hætti hér í þinginu hvort þessar aðgerðir hafa þingstuðning eða ekki.
    Það kom okkur í stjórnarandstöðunni satt að segja á óvart þegar við fórum að lesa í fjölmiðlum yfirlýsingar frá þeim tveimur hv. þm. sem ég hef nú nefnt eða hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, svo ég haldi áfram að bæta við, þingmönnum stjórnarliðsins sem hafa lýst því yfir opinberlega að þeir séu á móti þessum tillögum, því við höfðum talið í barnaskap okkar að þessar tillögur hefðu verið blessaðar í þingflokkum stjórnarliðsins. Nú kemur í ljós að svo var ekki. Þetta er

bara eitthvað sem var ákveðið á ríkisstjórnarfundinum og þar með talið að málið sé afgreitt. En, virðulegir ráðherrar, hér er þingræði. Það dugir ekki bara að það sitji einhverjir menn í kringum borð í gamla fangelsinu við Lækjartorg og segi: Hlutirnir eiga að vera svona og svona. En það sé ekki leitt í ljós hvort þeir hafa þingmeirihluta á bak við sig fyrir þessum tillögum. Og það sérkennilega kom fram í fjölmiðlum í dag að það eru þingmenn stjórnarandstöðunnar sem taka þessum tillögum af meiri skilningi og meiri stuðningi heldur en þingmenn stjórnarliðsins. Þannig að það kann að vera komin upp sú staða hér að hæstv. ríkisstjórn þurfi á atkvæðum stjórnarandstöðuþingmanna að halda hér í þinginu til að hafa meiri hluta á bak við þessar aðgerðir sínar.
    Þess vegna vil ég spyrja að því hvort það sé ekki ætlun hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. að leita með einhverjum hætti eftir staðfestingu þingsins núna á þessum aðgerðum þannig að hér í þinginu fari fram einhvers konar atkvæðagreiðsla um þessar aðgerðir. Ég vænti þess að þeir, sem hafa talað hæst og lengst á síðasta kjörtímabili um vinnubrögð í ríkisfjármálum, um að leita þurfi eftir samþykki Alþingis við hverju því sem gert er og að öll tvímæli séu tekin af varðandi stuðning eða ekki stuðning við einstök atriði í ríkisfjármálum, fari ekki nú að hopa frá. Sérstaklega þegar þessir sömu menn hafa nú þegar lýst því yfir, eins og hv. þm. Egill Jónsson og hv. þm. Pálmi Jónsson, að þeir séu á móti þessum aðgerðum, þá fari þeir ekki að sitja hér í þinginu eins og einhverjar dúkkulísur og brjóta öll sín boðorð, rífa í tætlur allar sínar ræður frá síðustu þremur til fjórum árum um vinnureglur í ríkisfjármálum sem við vorum sammála um að ætti að beita og enginn ágreiningur var hér á síðasta kjörtímabili um að ætti að beita. ( PJ: Það hefur engin yfirlýsing komið frá mér um það.) Að það eigi ekki að beita þeim aðferðum? (Gripið fram í.) Ég las í blaði viðtal við hv. þm. þar sem það kom fram að niðurskurður á framkvæmdum í höfnum kæmi honum mjög á óvart og væri í andstöðu við það sem hann hefði viljað. ( PJ: Þetta er rangt.) Ja, við getum bara flett þessu upp í blöðum, hv. þm. En það er þess vegna nauðsynlegt í ljósi þessa frammíkalls að taka af öll tvímæli í málinu. Alla vega er það ljóst að hv. þm. Egill Jónsson lýsti því yfir í sjónvarpinu í kvöld að hann styðji ekki þessar aðgerðir. Það er a.m.k. ljóst. Það hlustaði ég sjálfur á núna í kvöldmatarhléinu. Og ég ætla að vona að þessi hæstv. ríkisstjórn fari ekki að gera það í sinni fyrstu göngu að ganga hér fram án þess að leita eftir umboði og staðfestingu þingsins á því sem stjórnin er að gera.
    Þess vegna er mín fyrsta spurning til hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh.: Munu þeir í ljósi þessa ekki bera þessar aðgerðir með einum eða öðrum hætti upp hér í þinginu þannig að atkvæðagreiðsla fari fram um málið?
    Áður en hv. þm. Pálmi Jónsson flutti sína ræðu hafði ég eingöngu ætlað mér að ræða hér tiltölulega stutt og kurteislega við hæstv. fjmrh. Því það er nú einu sinni þannig með þennan klúbb fyrrverandi fjármálaráðherra að þeir hafa svona vissa samúð með þeim sem embættinu gegnir í það og það sinn. Ég hafði ekki ætlað mér að fara að flytja hér einhverja langa ræðu í kappræðustíl til að svara því sem hæstv. fjmrh. sagði hér. Ég verð að vísu að segja það að það kom mér dálítið á óvart að framsagan fyrir skýrslunni var eiginlega meira um mig heldur en skýrsluna. ( Fjmrh.: Það er vegna þess að . . . ) Já, hæstv. fjmrh., það er nú skiljanlegt að hann reyni að leika sér að frægu orðatiltæki sem ég notaði einu sinni með þessum hætti. ( Fjmrh.: Um hvern var það?) Það veit hæstv. ráðherra jafn vel og ég vegna þess að ég held að hann hafi nú þegar vitnað í það hér á þessu stutta þingi. Þannig að hann þarf ekki að látast hér í sæti sínu eins og hann þekki það ekki. ( HÁ: Það var eitthvað um skó líka.) Já, það var nýtt hjá ráðherranum, hv. þm. Halldór Ásgrímsson. Þess vegna væri kannski tilefni til að fara í einhverja langa yfirferð um stöðu ríkisfjármála fram og aftur. Ég ætla hins vegar ekki að gera það. Ég ætla bara að segja örfá orð um þessar skýrslur allar saman sem menn hafa talað hér um.
    Í ágústmánuði 1989 lagði ég fyrir þáv. ríkisstjórn skýrslu um stöðu ríkisfjármála á árinu 1990. Niðurstaða þessarar skýrslu var sú að hallinn á fjárlögum árið 1990 yrði 15 milljarðar ef ekkert væri að gert og engar nýjar ákvarðanir yrðu teknar. Skýrslur af þessu tagi eru hefðbundin vinna í fjmrn. Þær eru í samræmi við þær eðlilegu forsendur sem embættismenn fjmrn. gefa sér þegar þeir framreikna óbreytt ástand á þeirri forsendu sem er sú eina forsenda sem þeir sem embættismenn geta gefið sér, að engar nýjar ákvarðanir verði teknar af neinu tagi. Þannig var sú skýrsla sem embættismenn fjmrn. settu saman á lokadögum mínum í fjmrn. samkvæmt --- hæstv. fjmrh. ( Fjmrh.: Ég heyri í þér og get svarað þessu öllu saman á eftir.) Ég er ekkert að segja þetta endilega til þess að hæstv. ráðherra geti svarað því, ég er ekkert endilega að segja það þess vegna. --- Sú skýrsla, sem embættismenn fjmrn. gerðu í lok aprílmánaðar og hæstv. fjmrh. vitnaði hér til og reyndi að nota til þess að ómerkja það sem ég gerði grein fyrir, var nákvæmlega eins. Það var skýrsla sem var byggð á því að engar nýjar ákvarðanir væru teknar. Það er kannski rétt að það komi fram hér, hæstv. fjmrh., að það var ég sem óskaði eftir því að þessi skýrsla yrði sett saman. Þetta var ekki eitthvert plagg sem ég vildi ekki að yrði unnið. Þvert á móti. Ég setti embættismönnunum það fyrir strax að loknum kosningum að vinna þessa skýrslu og sagði þeim reyndar fyrir kosningar að þeir ættu að vera tilbúnir að gera hana. ( Fjmrh.: Hvaða skýrslu notaði ráðherrann til annarra hluta?) Ég kem að því líka, hæstv. ráðherra. Það er alveg óþarfi fyrir ráðherrann að grípa svona fram í eða vera svona órólegur. ( Fjmrh.: Ég er svo spenntur.) Og það er líka alveg óþarfi fyrir ráðherrann að vera svona spenntur eða kannski er hann að bíða eftir því að ég segi hérna í lokin hvað ég mundi gera ef ég væri fjmrh. svo að hann viti kannski hvað hann eigi að gera. En ég er að segja þetta hér, virðulegi ráðherra, vegna þess að mér finnst þetta ekki alveg sanngjarnt. Mér

finnst þetta ekki samboðið --- fyrirgefðu þó að ég segi það --- mér finnst þetta ekki samboðið manni í embætti fjármálaráðherra að vera að leika sér svona með þessum hætti. Ég get skilið leiðarahöfunda Morgunblaðsins. Ég geri engar kröfur til þeirra. En fjármálaráðherra finnst mér að geti ekki leyft sér að túlka þetta með þessum hætti.
    Ég lagði síðan fram greinargerð sem var miðuð við það að það yrðu teknar ákvarðanir, m.a. yrði tekin sú ákvörðun að sækja þær tekjur sem í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að yrðu sóttar. En embættismenn fjmrn. gáfu sér það að þar sem það hefði ekki verið gert nú þegar á fyrstu þremur til fjórum mánuðum ársins, yrði það ekki gert á þeim átta til níu mánuðum sem eftir væru. Það var auðvitað eðlileg embættisleg forsenda, en afar óeðlileg pólitísk forsenda. Og bara með þessu eina atriði er eytt helmingnum af þeim mun sem tölulega séð er á þeirri niðurstöðu sem ég var með og sem embættismenn fjmrn. voru með. Hinn þátturinn í muninum felst í því að þeir gáfu sér að þar sem ekki væri búið að ná inn þeim sparnaði, m.a. í heilbrigðiskerfinu, sem gert hefði verið ráð fyrir í fjárlögum, þá yrði það ekki gert á þeim mánuðum sem eftir væru af árinu. Aftur eðlileg embættisleg forsenda en afar óeðlileg pólitísk forsenda af þeim sem taka við að stýra ráðuneytinu pólitískt. Og þegar þetta er tekið inn í myndina, þá er enginn munur, hæstv. fjmrh., á þeirri skýrslu sem ég lagði fram og þeirri greinargerð sem embættismenn ráðuneytisins sögðu --- það þýðir ekki að taka um magann og þykjast hlæja í einhverju ,,nervösiteti`` hér í salnum. (Gripið fram í.) Já, ég ætla að vona að hæstv. ráðherra geri það, en það væri hins vegar fróðlegt að vita hjá hæstv. forseta hvort það verður milli kl. 10 og 11 í fyrramálið miðað við það vinnulag sem virðist eiga að vera á þessum umræðum. ( Forseti: Forseti getur strax upplýst hv. þm. um það að það er ekki gert ráð fyrir að fundir hefjist hér kl. 10 í fyrramálið. Það er gert ráð fyrir að fundir hefjist kl. 2.) Ég átti ekki við það, virðulegi forseti. Ég átti við það hvort ætlunin væri að þessi fundur stæði til kl. 10 í fyrramálið, sem nú er. ( Forseti: Ekki hafði forseti gert ráð fyrir því, nei.) Nei, en ef þingmenn stjórnarandstöðunnar haga sér eins og þingmenn stjórnarliðsins, þá stendur sá fundur svona lengi, virðulegi forseti, og það er þess vegna sem ég lýsti því hér í upphafi minnar ræðu að það er óhjákvæmilegt ef forseti og formenn þingflokka stjórnarliðsins vilja halda góðri samvinnu hér við stjórnarandstöðuna að þá verði fyrri áform þeirra um fundahöld hér í alla nótt endurskoðuð, í friði og án frekari þrýstings af hálfu stjórnarandstöðunnar. Og ef það verður ekki gert sjálfkrafa af hálfu forseta og formanna þingflokka stjórnarflokkanna, þá er það alvarleg yfirlýsing um það hvernig forseti og formenn þingflokka stjórnarflokkanna hyggjast vinna hér í framhaldinu.
    Þær þrjár skýrslur sem hér hafa verið til umræðu, Ríkisendurskoðunar, embættismanna fjmrn. og mín, eru þess vegna allar mjög líkar. Það eru hins vegar í þeim fólgnar mismunandi forsendur á þann veg að Ríkisendurskoðun gefur sér það að ekkert aðhald sé

neins staðar og engar nýjar ákvarðanir teknar. Embættismenn fjmrn. gefa sér það að það verði aðhald en engar nýjar ákvarðanir teknar. Ég gekk hins vegar út frá því að það væri bæði aðhald og ríkisstjórn tilbúin til þess að taka nýjar ákvarðanir sem þyrfti að taka því það hvarflaði satt að segja aldrei að mér að menn ætluðu að gefa sér þá forsendu að sitja hér í ríkisstjórn án þess að taka nokkrar nýjar ákvarðanir. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því og reyndar líka hæstv. viðskrh. hvort það sé virkilega ætlun núv. hæstv. ríkisstjórnar að ná ekki inn þeim tekjum sem gert er ráð fyrir í fjárlögunum að náð sé inn. Þá er ég ekki að tala um það hvort stjórnin ætli að hækka skattana í heild sinni, heldur samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef stefnir í það að verði ekki teknar nýjar ákvarðanir, þá muni tekjuhlutfall ríkisins lækka.
    Hæstv. ráðherrar hafa talað mikið hérna um þenslu. Ég veit að ég þarf ekki að útskýra það fyrir hæstv. viðskrh. hagfræðilega að sé hérna þensla þá er það auðvitað galin ríkisstjórn sem fer að lækka það tekjustig sem í fjárlögunum er gert ráð fyrir. En það er það sem núv. hæstv. ríkisstjórn er að gera. Með því að taka engar nýjar ákvarðanir --- og hún hefur ekki enn þá boðað það, ekki í þessari skýrslu og ekki í ræðu ráðherrans hérna áðan --- þá benda upplýsingar til þess að hún sé að lækka tekjustigið um núll komma eitthvað á landsframleiðslu. Og svo segið þið við fólkið sem er að mótmæla vaxtahækkununum, virðulegir ráðherrar og hæstv. félmrh.: Við verðum að gera þetta slæma, að hækka vextina vegna þenslunnar. Ríkisstjórn sem sækir sér ekki það tekjustig sem er í fjárlögunum nú þegar lögfest getur ekki sagt: Við erum neydd til þess að hækka vextina vegna þenslunnar. Það er ekki hægt, hæstv. félmrh. Það eru blekkingar. Og það fólk, venjulegt launafólk, sem núna er knúið til þess að borga tugi þúsunda eða jafnvel rúmlega 100 þúsund í viðbótarkostnað vegna vaxta, það er verið að spila með það þegar ríkisstjórnin segir: Vegna þenslunnar verðum við að gera þetta, en hún ætlar ekki að sækja sér tekjustigið. Þess vegna hef ég m.a. bent ríkisstjórninni á það hvernig hún geti farið að því að hluta til: Með því að fresta lækkun jöfnunargjaldsins.
    Hæstv. fjmrh. vitnaði í það að utanrrh. hefði skrifað til Brussel ákveðið bréf þar sem hann hefði sagt að ríkisstjórnin ætlaði að fella þetta gjald niður. Það er að vísu rétt að hæstv. núv. utanrrh. skrifaði á sínum tíma bréf til Brussel, sem hann reyndar bar nú aldrei upp í síðustu ríkisstjórn, virðulegi fjmrh., hann bar það bréf aldrei upp í síðustu ríkisstjórn. Það bréf var aldrei samþykkt í síðustu ríkisstjórn þannig að það liggur engin ríkisstjórnarsamþykkt fyrir á bak við það bréf. Það bréf skrifaði hann upp á sitt eindæmi, en látum það nú vera. Það er að vísu mikilvæg staðreynd í málinu. Þá er það alveg ljóst, virðulegi fjmrh., að það yrðu engar eða a.m.k. mjög litlar athugasemdir gerðar við það í Brussel ef þrepunin yrði með þeim hætti að hér yrði staðar numið þó að gjaldið allt væri fellt niður um næstu áramót. Því að það sem meginkrafan er um af hálfu Evrópubandalagsins og

EFTA er að gjaldið sé fellt niður um næstu áramót. Þeir gera ekki miklar athugasemdir við það þó að það sé tekið í einu þrepi strax um næstu áramót en ekki í tveimur eða þremur þrepum á árinu sjálfu. Þar með er engin fyrirstaða, virðulegi ráðherra, fyrir því að gera þetta með þeim hætti sem ég hef lýst. En sú aðferð sem ég lýsti getur skilað ríkinu nokkur hundruð millj. kr. í þær tekjur sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. að ríkið nái inn. Það sem auðvitað stendur upp á hæstv. ríkisstjórn að svara hér í þessum umræðum, sérstaklega þá ráðherra sem vilja láta taka sig alvarlega í efnahagslegri umræðu, er þetta: Hvernig rökstyður ríkisstjórnin það að láta tekjustigið vera með þessum hætti í fjárlögunum ef ríkisstjórnin er að berjast gegn þenslu og er ekki að skera ríkisútgjöldin niður að neinu marki? Það er aðeins ein skýring á því. Það eru pólitískir hagsmunir Sjálfstfl. en það eru ekki efnahagsleg rök fyrir því. Þar með er það auðvitað alveg ljóst að núv. hæstv. ríkisstjórn er ekki að bregðast með rökréttum efnahagslegum hætti við þessum aðgerðum. Ég sé hins vegar að hæstv. ráðherrar tveir, viðskrh. og fjmrh., eru búnir að vera hér í svona 5 -- 10 mínútur í hörkuumræðum um þetta atriði og það er kannski í fyrsta sinn sem þeir ræða þetta vandamál sín á milli. Það er nú gott. ( ÓÞÞ: Það er bakskjal til um þetta allt.) Nei, ég held að það sé ekkert bakskjal til um þetta því það hefur ekki komið fram, virðulegi þm. Ólafur Þ. Þórðarson, að neitt sameiginlegt bakskjal sé til um tekjuöflun eða niðurskurð í ríkisfjármálum. ( ÓÞÞ: Þá er heiðursmannasamkomulag um það.) Nei, það er ekki heldur heiðursmannasamkomulag um það. Það er bara ekki neitt. Og eins og ég sagði um hæstv. fjmrh. daginn sem hann tók við, að hann væri ekki öfundsverður af því hlutverki að vera fjmrh. í ríkisstjórn sem hefur ekkert prógramm í ríkisfjármálum.
Það er þess vegna sem ég mun hafa mikla samúð með hæstv. fjmrh. og fara mildum höndum um hann hér í þinginu vegna þess að hann hefur verið settur í þá erfiðu stöðu að vera fjmrh. í ríkisstjórn sem hefur ekkert prógramm í ríkisfjármálum og verður bara að reyna að klóra sig fram úr þessu frá degi til dags. Og það skýrist best á því þegar maður skoðar þessa skýrslu.
    Hæstv. fjmrh. sagði það hér, að mig minnir, í ræðunni, alla vega kemur það fram í skýrslunni, að með þessum svokölluðu aðgerðum sé stefnt að því að draga úr lánsfjárþörf --- eða því sem er kallað á vondu máli lánsfjárhalli og er hluti af hinni sérkennilegu mállýsku sem tíðkast hér í efnahagsumræðunni og þjónar eiginlega þeim tilgangi einum að búa til mikinn vegg milli almennings í landinu og þeirra sem ræða þessi mál í vinnunni hjá sér --- en að draga úr lánsfjárþörf hins opinbera í heild um 6 milljarða. Þetta er sagt í skýrslunni og þetta er sagt af ráðherranum hér.
    Ég hef lesið þessa skýrslu nokkuð oft og það má vera að það sé mín sök en ég hef ekki komið þessu upp í nema 3,6 milljarða hvernig svo sem ég les þessa skýrslu. Mér þætti þess vegna mjög fróðlegt að

fá upplýsingar um það hér hvernig menn fá þessa 6 milljarða, sem er svona þessi heilaga tala sem búið er að blása hér út í öllu fjölmiðlakerfinu, í skýrslunni, í leiðurunum, að nú sé ríkisstjórnin þó með þetta prógramm um að draga úr lánsfjárþörfinni í heild um 6 milljarða. En þegar ég legg saman sundurliðunina í skýrslunni þá fæ ég ekki út nema 3,6, ég fæ út rétt rúmlega helming. (Gripið fram í.) Nei, ég held ég leggi alveg rétt saman, hv. þm. Það er auðvitað lykilatriði áður en þessi umræða heldur lengra áfram að hæstv. fjmrh. útskýri fyrir mér og öðrum hér í salnum: Hvernig er þessi tala fengin? Eða er þessi umræða kannski bara öll byggð á einhverri vitleysu, einhverjum misreikningi?
    Ég fór hins vegar að reyna að átta mig á því hvernig menn gætu fundið þessa tölu, 6 milljarða. Niðurstaða mín varð sú að það gæti verið að gert sé ráð fyrir því að 1,5 milljarðar til viðbótar við þessa 3,6 komi með því að Húsnæðisstofnun endurgreiði ríkissjóði skammtímaskuldina, þennan fræga víxil, virðulegi félmrh., sem ég samþykkti að yrði tekinn fyrir ráðherrann og Húsnæðisstofnun en ráðherrann og Húsnæðisstofnun gátu svo ekki staðið í skilum með. En sá er bara galli á gjöf Njarðar að þessi 1,5 milljarða víxill er lánveiting innan hins opinbera. Hann er lánveiting innan hins opinbera í eðli sínu og uppruna þannig að þótt hann sé greiddur þá breytir það engu um heildarlánsfjárþörf hins opinbera. Það er því ekki hægt að telja greiðslu á þessari 1,5 milljarða lánveitingu Húsnæðisstofnunar þannig að ef það sé greitt sé verið að draga úr lánsfjárþörf hins opinbera, því það er bara tilflutningur milli tveggja aðila sem báðir eru í opinbera geiranum.
    Það er hins vegar líka algjörlega skilið eftir opið í þessari skýrslu hvernig Húsnæðisstofnun ætli að endurgreiða þennan víxil. Það má segja að hún geti gert það með því að hún afli sér lánsfjár á markaðnum, hjá lífeyrissjóðunum eins og félmrh. er alltaf að tala um. Þessir vondu lífeyrissjóðir vilja ekki kaupa þessa pappíra. Jú, jú, hún gæti kannski gert það þannig. En þá væri ekkert verið að minnka lánsfjárþörf hins opinbera, þá mundi hún aukast aftur um þessa 1,5 milljarða. Það er kannski hægt að gefa sér það að það dragi úr eftirspurn eftir húsnæðislánum um tæpa 2 milljarða vegna vaxtahækkunarinnar, en það er líka mjög hæpið og nánast algjörlega úr lausu lofti gripið. Þannig að þó ég reyni með öllum góðum vilja þá ég sé ekki hvernig hægt er að ná þessari 6 milljarða tölu út úr þessari skýrslu. Ég botna bara ekkert í því og það væri fróðlegt að vita hvernig ríkisstjórnin hefur farið að því. Ég hef spurt ýmsa og ég hef ekki fengið nein svör. Nema menn telji þessa 1,5 milljarða með í 6 milljörðunum, en það er bara blöff. Ég vona að fyrsta ganga ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og vinar míns hæstv. fjmrh. sé ekki byggð á svona einföldu blöffi.
    En jafnvel þótt þessi upphæð, 1,5 milljarðar, sé tekin með þá vantar enn þá u.þ.b. milljarð og hvernig geta menn reiknað með honum? Jú, það er hugsanlegt að gefa sér þennan milljarð með því að eftirspurn eftir húsbréfum minnki vegna vaxtahækkunarinnar. Það er hugsanlegt að 1 milljarður af þessum 6 sé fenginn með þeim hætti. En það er náttúrlega bara eins og að labba út á stéttina hjá sér í fyrramálið og segja: Það mun rigna 20. ágúst, því það hefur ekki nokkur maður hugmynd um það hvort vaxtabreytingarnar hafa yfir höfuð nokkur áhrif á eftirspurnina eftir húsbréfum eða hver þau áhrif kunni að verða. ( Fjmrh.: Sagðirðu 20. ágúst?) Ég tók það bara svona sem dæmi. Ég hefði alveg eins getað sagt 10. ágúst, virðulegi ráðherra. (Gripið fram í.) Já, það má vel vera, hæstv. forsrh., að þið séuð nú þegar komnir á það stig í efnahagsstjórninni að vera eins og frumstæðu þjóðflokkarnir í Afríku sem telja það bara sniðugast að fara út á stétt og gá til veðurs og gá hvort það muni rigna eftir þrjá mánuði. En ég verð að segja að Persakeisari var nú bara hátíð hjá slíkum vinnubrögðum.
    En, virðulegi fjmrh., ég hef lesið þessa skýrslu af athygli og vandlega og með vinsemd og ég kem því ekki heim og saman hvernig þessir 6 milljarðar eru fengnir. Mér þætti þess vegna nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. kæmi hér í ræðustól fljótlega og útskýrði þetta grundvallaratriði, vegna þess að ef 6 milljarðarnir eru fengnir með því að vera með 1,5 milljarða í þessum húsnæðisvíxli og endurgreiðslu á honum og svo 1 milljarð í spekúlasjónum út af minni eftirspurn eftir húsbréfum, þá er alveg ljóst að tæpur helmningur af þessum 6 milljörðum er bara hókus pókus og bara svona gamaldags, simpill hókus pókus, sem hefur engin áhrif á efnahagslífið hér í landinu. Ég bara vona að þetta sé ekki þannig. Ég vona að þetta sé þannig að ég hafi lesið þetta vitlaust. Ég tel alveg nauðsynlegt að það mál sé gert klárt hér í umræðunni strax. Því ef það er virkilega þannig að hæstv. ríkisstjórn í sinni fyrstu göngu hafi feilreiknað sig um 50% þá verður bara að byrja á öllu upp á nýtt.
    Þar að auki, virðulegi fjmrh., af þessum 3,6 milljörðum sem þó er hægt að finna í skýrslunni eru 900 millj. vegna erlendra lána, vegna lækkunar á erlendum lánum, þ.e. tæpur 1 / 6 af þessum svokölluðu 6 milljörðum, sem þó finnast ekki, en segjum 900 millj. af þessum 3,6 milljörðum er lækkun á erlendum lánum. Hins vegar er sagt að aðgerðin sé gerð til þess að minnka lánsfjáreftirspurnina innan lands. Það er öll röksemdin sem menn eru með fyrir aðgerðunum. Minnka þensluna innan lands með því að draga úr lánsfjáreftirspurninni innan lands og þess vegna spyr ég: Af hverju er þá verið að reikna þessar 900 millj. þar sem dregið er úr erlendum lántökum með í þessum 3,6 milljörðum? Það er auðvitað ekki hægt. Það er auðvitað þriðji hókus pókusinn í þessu ef málflutningur stjórnarinnar er tekinn gildur. Ef hann er dreginn frá, þá standa eftir 2,7 milljarðar sem eru sannanlega og finnanlega minnkun á innlendri lánsfjáreftirspurn --- 2,7 milljarðar en ekki 6. Innan við helmingur af því sem ríkisstjórnin segist vera að gera og allt sjónarspilið um vaxtahækkunina á þetta allt saman er réttlætt með.
    Ég verð að segja alveg eins og er að ég varð bara pínulítið hryggur þegar ég las þetta. Mér fannst þetta

svo skrýtið og svo undarlegt og það gæti bara ekki verið að mennirnir væru vitandi vits að setja þetta fram með svona hætti eða hvort það hefði orðið einhver alvarleg brotalöm innan ríkisstjórnarinnar í þessari ákvarðanatöku þannig að mennirnir vissu bara ekki hvað þeir væru að gera sjálfir og kæmu til þingsins og þjóðarinnar og segðu: Við erum að minnka þetta um 6 milljarða --- en það er bara í reynd um 2,7. --- Nú er hæstv. utanrrh. kominn í salinn, hann var þó fjmrh. í rúmt ár, hann hlýtur að vita hvað hann var að gera. Og ég vona að hæstv. utanrrh. sem hefur hvað eftir annað sagst vera mikill snillingur í ríkisfjármálunum og á alltaf svona stóra bunka af tillögum og hugmyndum um það hvernig eigi að fara með ríkisfjármálin, að hann útskýri það fyrir mér hérna á eftir hvernig hann fær þessa 6 milljarða eða fái endursögn af þeim spurningum sem ég hef verið að bera hérna fram vegna þess, í fullri vinsemd, virðulegi utanrrh., að samkvæmt skýrslunni sjálfri er ekki hægt að koma þessu upp í nema 2,7 milljarða. (Gripið fram í.) Ekki ef maður dregur svo frá 900 millj. sem eru minnkun á erlendum lántökum, sem ég nefndi hér áðan, vegna þess að það er sagt að þessir 6 milljarðar séu til þess að minnka lántökuþörfina hér innan lands.
    En þessar 900 millj. í erlendum lántökum sem þarna er verið að breyta eru 200 millj. vegna fjárhagsvanda loðnu-, rækju- og síldarverksmiðjanna, 300 millj. vegna lántöku Byggðastofnunar og 400 millj. vegna lántöku Landsvirkjunar. ( Gripið fram í: Fjmrh. er að láta reikna þetta út.) Virðulegi þm. Ég ætla ekki að gera neina athugasemd við það þó hæstv. fjmrh. ráðgist við embættismenn sína hér í hliðarsölum og tel ekki sanngjarnt að það sé verið að gera neina athugasemd við það hér í þingsalnum. Ég tel satt að segja rétt að hann geri það vegna þess að ef málið er svona eins og ég hef verið að lýsa því, þá er bara öll þessi skýrsla og allar þessar svokölluðu aðgerðir byggðar á einhverjum hróplegum misskilningi og það er þá nauðsynlegt að ríkisstjórnin komi saman til fundar í fyrramálið og átti sig á þeim misskilningi og komi þá til þingsins á morgun eða föstudaginn og útskýri það nákvæmlega hvort hún ætlar að standa við það sem hún er búin að segja þjóðinni núna í nokkra daga að sé kjarninn í stefnu stjórnarinnar og fyrstu aðgerðum, að minnka innlendu lánsfjárþörfina um 6 milljarða, ef það er áfram stefnan þá lýsi hún nákvæmlega hvernig á að minnka þetta um 6 milljarða þannig að það sé alveg ótvírætt, en það sé ekki byggt að helmingi á svona hókus pókus sem ég hef hér verið að lýsa.
    Virðulegi forseti. Fjmrh. sagði það hér í sinni ræðu að ráðið væri að hækka vextina og það væri það sem ríkisstjórnin hefði gripið til í þessum málum. Nú lýsti ég því hér fyrir nokkru síðan að ég teldi þetta algjörlega misráðið hjá hæstv. ríkisstjórn eins og hún fer í þessar vaxtabreytingar. Ég vil hins vegar strax taka það fram, eins og ég hef gert áður hér í þinginu, að ég hef ekki gert athugasemd við það þótt vextirnir á ríkisvíxlum væru hækkaðir eitthvað og ég get endurtekið það hér. Ég geri ekki athugasemd við það. Ég hefði að vísu ekki hækkað þá eins mikið og hæstv. fjmrh. gerði, a.m.k. ekki strax og ekki í einu. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að segja neitt um það vegna þess að það sem mér finnst á skorta í öllum málflutningi ríkisstjórnarinnar og kannski á skorta í skilningi hennar líka vegna þess að ég vil ekki gefa mér það að hún sé viljandi að blekkja þingið og þjóðina með þessum hætti, ég vil ekki gefa mér það, þá finnst mér á skorta að gerður sé greinarmunur af hálfu ríkisstjórnarinnar á ríkisvíxlunum og markaðseðli þeirra annars vegar og spariskírteinunum hins vegar.
    Hæstv. fjmrh. sagði það hér áðan að það hefði orðið að hækka vexti á ríkisverðbréfum, hann notaði samheitið fyrir ríkisvíxlana og spariskírteinin, þetta var allt í einum potti. Og hæstv. ráðherra sagði reyndar líka að það hefði enginn keypt skuldabréfin --- sem voru nú vonandi mismæli vegna þess að staðreyndirnar eru með allt öðrum hætti, eins og ég mun hér lýsa. Ég stend þess vegna í þeim sporum að velta því fyrir mér: Skilja mennirnir ekki við hvað þeir eru að fást eða eru þeir virkilega svona óskammfeilnir að halda að við hér í þingsalnum og þar með þjóðin sjáum ekki í gegnum svona blekkingar?
    Ríkisvíxlarnir eru skammtímapappírar sem taka mið af skammtímasveiflum fyrst og fremst í millibankavöxtum bankakerfisins. Spariskírteinin eru hins vegar langtímapappírar og vextirnir á þeim mynda grundvöllinn að vaxtagólfinu í landinu í heild til langframa.
    Ef ríkissjóði tekst á árinu að selja nægilega mikið af ríkisvíxlum jafnt og þétt, þessum skammtímapappírum sem hver um sig hefur gildistíma í fáeinar vikur, þá þarf ekkert að hreyfa vextina á spariskírteinunum. Það var þess vegna engin nauðsyn að hreyfa vextina á spariskírteinunum ef vaxtahækkunin, hin mikla vaxtahækkun á ríkisvíxlunum var réttlætanleg og hefði fengið að standa út árið, vegna þess að það skiptir engu máli efnahagslega hvað snertir árangurinn að draga úr þenslunni, og við skulum gefa okkur það að það þurfi að gera það aðeins. Þá skiptir það engu máli hvort ríkissjóður nær þessu inn með ríkisvíxlum eða spariskírteinasölu ef magnið í heild helst árið á enda. Þannig að ef nægilegt magn af ríkisvíxlum er selt á þessum háu vöxtum ríkisvíxlanna, þá er hægt að láta spariskírteinin vera kyrr og þar með komast hjá því að hækka allt raunvaxtastigið í landinu um þriðjung. En að fara í hvort tveggja í einu í sambærilegu stökki, að hækka vextina á ríkisvíxlunum og vextina á spariskírteinunum er auðvitað slíkt glæfraspil að maður undrast annaðhvort fífldirfskuna eða eitthvað annað sem ég ætla ekki að nefna hér, hjá hæstv. ríkisstjórn að gera það, enda er það komið á daginn þremur eða fjórum dögum eftir að hæstv. ríkisstjórn tók þessa ákvörðun að það er byrjað að spila með þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar, ekki af stjórnarandstöðunni heldur af Seðlabankanum.
    Því hvað var það sem gerðist í gær? Það sem gerðist í gær var það að Seðlabanki Íslands, líklegast sömu mennirnir og ráðlögðu hæstv. fjmrh., eins og

þeir voru alltaf að reyna að sannfæra mig um, að hækka vextina á spariskírteinunum upp í 8%, að á verðbréfaþinginu hækkaði Seðlabankinn ávöxtunarkröfuna á spariskírteinunum úr 8,15% í 8,65 -- 8,85%.
Ég vil segja við virðulegan fjmrh.: Ekki hefði ég viljað fá svona rýtingsstungu frá Seðlabankanum í bakið á mér. Því þessi ákvörðun Seðlabankans er hrein og klár rýtingsstunga í bakið á fjmrh. Þar með er Seðlabankinn að koma í veg fyrir það að fjmrh. geti selt eitt einasta skírteini á þeim 8% vöxtum eða 7,9% vöxtum sem hann var nýlega búinn að hækka þau í því að auðvitað fara allir í Seðlabankann og kaupa þau á 8,65 -- 8,85%. Eða með öðrum orðum, virðulegi forsrh., Seðlabankinn sjálfur er fáeinum dögum eftir að ríkisstjórnin hækkaði spariskírteinin í 7,9% búinn að hækka ávöxtunarkröfuna upp í næstum því alveg þessi frægu 9% sem hæstv. fjmrh. keypti sín spariskírteini á sællar minningar.
    Hæstv. forsrh. getur labbað í fyrramálið upp í Seðlabanka og keypt spariskírteini ríkisins á 8,85% raunvöxtum. En samt eru ekki liðnir nema tæpir þrír sólarhringar síðan hæstv. forsrh. stóð hér í ræðustól í salnum og tók sem dæmi um það sem óhugsandi væri nú að spariskírteinin færu í 9% eins og hann hefði keypt þau á 1986 eða 1987, óhugsandi, það nánast lá í orðunum. En það vantar bara í dag 0,15% upp á það að hann geti það í Seðlabankanum í fyrramálið. Ég þess vegna bara spyr: Hvað er að gerast eiginlega? Það er Seðlabankinn sjálfur, meiri hluti bankastjórnarinnar, Jóhannes Nordal og Birgir Ísleifur Gunnarsson, sem afhjúpa á innan við viku vitleysuna í því sem ríkisstjórnin var að gera með vaxtabreytingu sinni og sanna þar með það sem ég sagði hér í ræðustólnum að þessi ákvörðun mundi bara leiða til vaxtaskrúfu. Seðlabankinn er strax búinn að búa hana til. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjmrh. og reyndar hæstv. forsrh. sem fer með stjórn efnahagsmála: Reiknuðu þeir með því þegar þeir fyrir tæpri viku síðan hækkuðu ávöxtunarkjör spariskírteinanna um tæp 30%, eða upp í 7,9%, að innan viku mundi Seðlabankinn hækka ávöxtunarkröfuna á verðbréfaþinginu í 8,65 -- 8,85%?
    Ég vil til samanburðar nefna það að þegar ríkisstjórnin hækkaði vextina í 7,9% var ávöxtunarkrafan á verðbréfaþinginu 7,95%. Og við sem höfum staðið í því að reyna að stýra sölu þessara markaðsbréfa reiknuðum með því að það væri skilningur á milli Seðlabankans, fjmrn. og ríkisstjórnarinnar um það að Seðlabankinn mundi ekki breyta ávöxtunarkröfu hjá sér, hvarflað aldrei annað að okkur. (Gripið fram í.) Það má vel vera, hæstv. landbrh., að það hafi verið barnaskapur. Það má kannski skilja þetta frammíkall hæstv. landbrh. þannig að hann hafi vitað að Seðlabankinn mundi hækka ávöxtunarkröfuna upp í tæp 9% raunvexti. Var það þannig að hæstv. landbrh. vissi það? (Gripið fram í.) Ég held að það sé hins vegar þannig að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki vitað þetta. Þess vegna ætla ég ekki hér í kvöld að skamma hæstv. ríkisstjórn fyrir þetta. En það sýnir hins vegar fáránleik þess sem hér er að gerast og það verðbólgubál sem

búið er að kveikja með þessari aðgerð að það er Seðlabankinn sem fyrstur setur vaxtaskrúfuna af stað. Það eru ekki viðskiptabankarnir. ( Fjmrh.: Hvaða verðbólgu spáir hann nú?) Það skal ég ekkert um segja. Ég hef ekki séð þau skjöl. En ég bara sé að það er Seðlabankinn sjálfur sem setur þessa vaxtaskrúfu af stað og það er Seðlabankinn sem mætur fyrstur í samkeppnina við fjmrh. Það er þess vegna sem ég sagði hér: Ég hefði ekki viljað fá svona rýtingsstungu í bakið á mér frá Seðlabankanum ef ég hefði verið fjmrh.
    Það er auðvitað alveg ljóst að ávöxtunarkrafan á húsbréfunum hlýtur að hækka bara næstu daga í kjölfarið á þessu. Það segir sig sjálft. Það getur ekki annað gerst. Já, afföllin fara í svona 25 -- 30% og kannski yfir 30%. Og hvað ætlar hæstv. félmrh. að segja þá vegna þess að hún sagði í síðustu viku að nú þyrfti ekki meira? Hvað ætlar hæstv. félmrh. að segja þegar afföllin verða komin upp í 25 -- 30% eftir fáeinar vikur, kannski strax í næstu viku? Þegar raunvaxtakrafan á húsbréfunum verður kannski komin upp í 9%. Og hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera þegar viðskiptabankarnir á grundvelli þess sem Seðlabankinn hefur nú þegar gert á verðbréfaþinginu hækka raunvaxtastigið í bankakerfinu upp í 11%? Vegna þess að það hefur almennt verið talið eðlilegt af hálfu viðskiptabankanna að raunvaxtastigið í viðskiptabönkunum væri í kringum 2% eða ekki minna fyrir ofan það sem er ávöxtunarkrafa spariskírteina á verðbréfaþinginu. Viðskiptabankarnir geta því með fullum rökum sagt við ríkisstjórnina og Seðlabankann: Við erum bara einfaldlega að framreikna það sem þið, ríkisstjórnin og Seðlabankinn, eruð búin að gera. Seðlabankinn og ríkisstjórnin eru með þessu búin að skrifa upp á 11% raunvexti í viðskiptabankakerfinu núna strax.
    Ég verð þess vegna að segja það við virðulegan fjmrh. að ég kalla það kraftaverk ef hann selur eitthvað af þessum spariskírteinum við þessar aðstæður. Og þetta er satt að segja svo dapurlegt, þetta er slík tragedía í efnahagsstjórn að það er eiginlega ekki hægt að gagnrýna þetta með hefðbundnum hætti í stjórnarandstöðu. Það er eins konar harmleikur á fyrstu vikum ríkisstjórnarinnar að hennar eina tæki sem átti að leysa allan þennan vanda sé með þessum hætti.
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki upphaflega að tala svona lengi og biðst afsökunar á því að hafa tekið hér meiri tíma en ég ætlaði mér. Mér er hins vegar rétt hér í ræðustólinn ljósrit af nýrri verðbólguspá frá Seðlabankanum. Þar kemur fram, ef ég les þetta rétt, að í stað þeirra 5% sem Seðlabankinn áður spáði að verðbólgan yrði á haustmánuðum eða fyrstu mánuðum vetrarins, ( Gripið fram í: Júní.) já, núna í júní og fram á haustið. (Gripið fram í.) Þá les ég þetta nú ekki alveg rétt, hv. þm., og kannski rétt að hv. þm. geri sjálfur grein fyrir því. ( Gripið fram í: Er það ekki rétt?) Jú, jú, en það stendur þó hér á þessu blaði frá formanni bankaráðs Búnaðarbankans, sem rétti mér þetta blað, að í stað 5% verðbólguspár sé komin tæplega 10. Er þetta ekki rétt lesið? --- Í stað 5% verðbólguspár sé komin ný spá um það að verðbólgan hafi

tvöfaldast, að verðbólguhraðinn hafi tvöfaldast vegna þessara aðgerða. Það er misskilningur, segir hæstv. fjmrh. Ég ætla að vona það. ( Fjmrh.: Það er vegna fyrri ríkisstjórnar.) Já, já, já, já, vegna fyrri ríkisstjórnar, elsku fjmrh. Já. Á þetta að vera þannig að þegar verðbólgan byrjar að loga og allt er hér komið í gamla farið af því að stefnan frá 1986 -- 1987 var endurvakin, kenningar Seðlabankans fengu aftur að sjást í framkvæmd, kenningar Sjálfstfl. fengu aftur að sjást í framkvæmd og þegar þeir skila nákvæmlega sömu niðurstöðu 1986 -- 1988, þá eigi bara að standa í brúnni bjartsýnn og gleiður og segja: Vegna fyrri ríkisstjórnar. Á þetta að vera þannig? Það ætla ég að vona að verði ekki.
    En það er auðvitað mjög merkilegt að fá í lok þessarar ræðu, þar sem ég var að lýsa því hvernig Seðlabankinn hefði brugðist við ákvörðun ríkisstjórnarinnar, afrit af verðbólguspá Seðlabankans sjálfs þar sem segir að hún sé að breytast úr 5% í 10%. Það er tilkynning frá Seðlabanka Íslands um það að þessi ríkisstjórn hafi með ákvörðunum sínum sett verðbólgubálið af stað á nýjan leik.
    Virðulegi forseti. Eins og ég sagði hér áðan ætlaði ég mér ekki að tala svona lengi. En hæstv. fjmrh. sagði hér áðan að það hefði enginn keypt skuldabréfin og þar var aftur verið að blanda saman ríkisvíxlum og spariskírteinum. Ég vil bara segja það hér og vona að hæstv. fjmrh. hlusti á það að það seldist meira, hæstv. fjmrh., af spariskírteinum ríkissjóðs á fyrstu þremur mánuðum þessa árs en á fyrstu þremur mánuðum ársins í fyrra. ( Gripið fram í: Hverjir eiga þessi spariskírteini nú og verðbréfin?) Það eru margir. Eitt af því góða sem okkur tókst er að búa til fjölmennan hóp, ég held að það sé nú þegar um 16 þúsund Íslendingar sem eru áskrifendur að spariskírteinum ríkissjóðs. En á fyrstu þremur mánuðum þessa árs á 6% vöxtum, virðulegi fjmrh., seldist meira af spariskírteinunum en í fyrra. Það er nú staðreyndin í málinu þrátt fyrir að vextirnir væru 6% á spariskírteinum og var selt meira af þeim í ár en í fyrra. Það er því auðvitað fullkomið rugl --- (Gripið fram í.) já, bíddu ögn rólegur, ég ætlaði líka að koma að því, ég veit allt um það, virðulegi ráðherra. En það er auðvitað fullkomið rugl þess vegna þegar virðulegur fjmrh. kemur hér í stólinn og segir að pappírarnir hafi ekki selst. Munurinn er sá, virðulegi fjmrh., að þeir sem stjórnuðu ríkisfjármálum hér fyrir nokkuð mörgum árum síðan gáfu út sérstakan bréfaflokk af spariskírteinum, nokkuð stóran, sem kom til innlausnar í febrúarmánuði. Og það kom auðvitað allt til innlausnar í febrúarmánuði á tiltölulega fáum vikum. Og vegna þess, eins og oft gerist, að það fólk sem hafði keypt spariskírteini fyrir nokkrum árum hafði ætlað sér að nota þann sparnað með einhverjum hætti þegar að innlausninni kæmi, þá innleysti það að hluta þessi spariskírteini. En það er auðvitað ekki hægt með nokkurri sanngirni að netta út heildarinnlausn sem kemur til framkvæmda á fáeinum vikum í febrúarmánuði á móti allri sölunni sem varð meiri en árið áður og segja: þar með var salan minni en í fyrra, og

fá þannig réttlætingu fyrir því að hækka vextina úr 6% í 7,9%.
    Ef menn trúa sjálfir svona málflutningi, ef þeir byggja efnahagsaðgerðir sínar á því að þeir trúi því að það sé rétt og eðlilegt að skoða veruleikann svona, þá er eðlilegt að þetta sé allt að fara hér í einhverja vitleysu á fyrstu 3 -- 4 vikunum. En ég trúi því ekki að þeir trúi þessu sjálfir. Þetta er bara sett fram í einhverju áróðursskyni. Því á þeim mánuðum sem ég bar ábyrgð á fjmrn. á þessu ári seldum við meira af spariskírteinum en í fyrra þrátt fyrir það að vextirnir væru þeir sömu og þeir voru í fyrra. Það er þess vegna ekki hægt að finna nein rök fyrir því að það þurfi að hækka vextina á spariskírteinunum til þess að selja meira af þeim. Hækkunin á ríkisvíxlunum ein gæti dugað en með því að hækka spariskírteinin var eingöngu verið að hækka vaxtagólfið í landinu í heild, enda hefur Seðlabankinn nú þegar á innan við viku afhjúpað blekkingarnar í því sem ríkisstjórnin er að gera.
    Virðulegi forseti. Ég hef í þessari ræðu borið fram nokkrar spurningar til virðulegra ráðherra. Sú sem mikilvægust er fyrir framhald þessarar umræðu er hvernig ríkisstjórnin fær út þessa 6 milljarða, sem eru lykiltalan í þessum tillögum, því það er ekki hægt að lesa hana út úr þeim gögnum sem ríkisstjórnin hefur lagt fyrir þingið.
    Í öðru lagi er mikilvægt að spyrja að því: Hvernig hyggst ríkisstjórnin leiða það í ljós hér á þinginu að það sé þingmeirihluti á bak við þessar aðgerðir?
    Í þriðja lagi. Reiknaði hæstv. ríkisstjórn með því að Seðlabankinn mundi umsvifalaust hækka ávöxtunarkröfu spariskírteina á verðbréfaþinginu upp í tæp 9%? Ef svo er, hvernig reiknar þá ríkisstjórnin með að framhaldið verði eða kom þessi hækkun Seðlabankans ríkisstjórninni fullkomlega á óvart? Og ef svo er, þá er kannski nauðsynlegt að þingið gefi ríkisstjórninni frí í nokkra daga eða vikur svo að hún geti sest upp í Stjórnarráðið á nýjan leik og reiknað allt sitt dæmi upp frá grunni.