Ríkisfjármál 1991
Miðvikudaginn 29. maí 1991


     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. hóf mál sitt hér í kvöld á því að segja að það hefðu verið óskir stjórnarandstöðunnar að um þessa skýrslu um ríkisfjármál færu fram sérstakar umræður. Það er út af fyrir sig rétt, enda ekki að undra að menn vildu fá að taka sérstaka umræðu hér í þingsölum um þessa skýrslu eða um þau stórtíðindi sem hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn virtust uppgötva, að erfitt ástand og alvarlegt væri ríkjandi í ríkisfjármálunum. En strax eftir stjórnarmyndunina var mikill hávaði gerður og farið með það í fjölmiðla með miklum látum að ríkisfjármálin væru í hreinu öngþveiti.
    Það var reynt að gera lítið úr þeim stöðugleika sem ríkti í efnahagsmálum og því jafnvægi sem hafði náðst og friði á vinnumarkaði sem kenndur hefur verið við þjóðarsátt. Það var reynt að gera lítið úr því og reynt að þyrla upp miklum látum út af því sem betur mætti fara. Auðvitað er alltaf eitthvað sem betur má fara. Ég býst við því að það sé í ríkisfjármálunum og víðast hvar í þjóðfélaginu sem finna má hluti sem má lagfæra og/eða bæta. En það var samt vandinn í ríkisfjármálunum sem átti að vera aðalbaráttumál hinnar nýskipuðu ríkisstjórnar að takast á við og átti m.a. auðvitað líka að hjálpa þeim hæstv. ráðherrum að þurfa ekki að standa við stór orð um skattalækkanir sem búið var að tala mikið um fyrir kosningarnar. Það var sem sagt gert lítið úr stöðu mála.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson talaði í sinni 40 mínútna löngu gömlu fjárlagaræðu m.a. um þetta og sagði að ég hefði hér í umræðum um stefnuræðu hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. forsrh. sagt að ríkisstjórnin hafi dregið upp ranga mynd af þjóðmálum. Ég sagði reyndar
að ríkisstjórnin hefði notað fyrstu daga sína illa af því að hún hefði reynt að draga upp ranga mynd af viðskilnaði fyrri ríkisstjórnar og þá átti ég einmitt við þetta sem ég hef nú verið að segja. Það var reynt að gera lítið úr því sem áunnist hafði og reynt að velta sér upp úr því sem e.t.v. má segja að hefði mátt betur fara. En það sem var að gerast var þó öllum ljóst. Mátti vera öllum ljóst. Það voru ýmis ákvæði, bæði í lánsfjárlögum og ýmis ákvæði og fyrirheit sem gefin höfðu verið um viðbótarútgjöld í væntanlegum fjáraukalögum sem hv. þm. sem hér sátu fyrir kosningar var í raun ljóst. Hv. þm. vissu það eða áttu að vita það.
    Það er að sjálfsögðu markmið allra ríkisstjórna að reyna að gæta aðhalds í ríkisbúskap og ríkisfjármálum og fara sem best með fjármuni skattborgaranna, reyna að draga úr ríkisútgjöldunum þar sem það er kleift. Stöðva útgjaldaþensluna og flytja þá á milli útgjaldaliða. Ef nauðsynlegt er að auka útgjöld á einum stað að leita þá að því hvar eða hvort hægt er að spara annars staðar. Þetta gerði síðasta ríkisstjórn og tókst vel á ýmsum sviðum.
    Ég ætla ekki út af fyrir sig að fara hér í flókinn talnaleik um þessi mál. Það hefur hæstv. fjmrh. reynt að gera og hv. þm. Pálmi Jónsson. Því hefur hv. þm.

Ólafur Ragnar, fyrrv. hæstv. fjmrh., svarað að verulegu leyti. Og það hefði auðvitað verið gaman ef hæstv. viðskrh. hefði aðeins tekið þátt í þeirri umræðu líka og greint frá því hvernig hann sá hlutina fyrir kosningarnar og í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og hvernig hann sér þá í dag ef það er svo að allt hafi umvenst og kúvent á svo sem tveimur eða þremur dögum, kannski einni viku, eftir kosningarnar.
    Þeir sem gegnt hafa embættum fagráðherra hafa verið miklu meira bundnir við sín mál. Í þeim málaflokki sem ég fór með voru gerðar ýmsar ráðstafanir til að reyna að draga úr ríkisútgjöldum. Ég hef reyndar greint frá þeim í umræðum um stefnuræðu hæstv. forsrh. og skal ekki eyða löngum tíma í það hér. Vissulega tókst ekki allt sem áformað var, m.a. vegna andstöðu Alþfl. Ég hef líka rætt það ítarlega og farið yfir það og skal því ekki heldur fara mörgum orðum um það, kem þó aðeins að því síðar í ræðu minni. En það er að hluta til ástæðan fyrir meiri halla á ríkissjóði en ráðgert var. Að hluta til ástæða fyrir þeirri stöðu sem nú er, ívið verri en fjárlög gerðu ráð fyrir, en var skilmerkilega greint frá í fjárlagafrv. og tillögur voru uppi um en náðist ekki samkomulag um að framkvæma fyrir kosningar. Væntanlega tekst nýjum heilbrrh. betur að ná fram áætluðum markmiðum í samstarfi við nýjan flokk en að sjálfsögðu þó fyrst og fremst með sínum eigin samstarfsmönnum í sínum eigin flokki sem voru áður á móti tillögunum.
    Í framsöguræðu hæstv. ráðherra var reyndar ekki mikið sagt um þær aðgerðir sem grípa á til og um þau ákvæði sem þessi skýrsla fjallar um. Hann sagði þó að það þyrfti að draga úr útlánum til húsnæðismála ef ég tók rétt eftir. Það þyrfti a.m.k. að ná jafnvægi á þeim markaði. Það ætlar hann kannski að gera með því að halda áfram að hækka vextina, halda áfram að hækka vextina á húsbréfunum, þannig að vaxtakapphlaupið haldi áfram eins og bent hefur verið á í umræðum hér áður og kom vel fram í lokaorðum hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar.
    Hann viðurkenndi líka að áhrif þessara vaxtahækkana væru nokkur á verðlag sem auðvitað allir vita og vissu fyrir. En það er meira en að það hækki verðlagið og hækki framfærsluvísitöluna. Auðvitað kemur þetta harðast niður á skuldugum tekjulitlum einstaklingum og svo auðvitað atvinnulífi sem hefur verið að rétta úr kútnum en á núna að skila þeim afkomubata til fjármagnseigendanna í hærri vöxtum.
    Það var ekki orð í ræðu hæstv. fjmrh. um þær niðurskurðartillögur og sparnaðaraðgerðir sem þó er reynt að leggja til í þessari skýrslu, enda veit hæstv. ráðherra trúlega nú þegar að það verður erfitt að koma þeim fram því blöðin og fjölmiðlarnir eru þessa dagana fullir af mótmælum hans stuðningsmanna, hv. þm. ríkisstjórnarinnar. Að lokum bað hæstv. ráðherra að vísu um tillögur frá stjórnarandstæðingum ef það mætti koma honum að gagni því hann sér það nú þegar að það koma engar tillögur frá stjórnarliðunum. Þeir ætla ekki einu sinni að styðja þessar tillögur sem hann hefur sjálfur reynt að setja á blað.
    Skýrslur um stöðu ríkisfjármála eru auðvitað góðra

gjalda verðar og það er gott að fá þessar upplýsingar hér upp á borðið og geta rætt um það hver staðan er þessa fyrstu fjóra mánuði. Við vitum þó og sjáum á þessu að sveiflur eru miklar á milli ársfjórðunga og það er ekki alltaf gott að segja til um það þó við sjáum hver staðan er í dag hver hún verður eftir einhverjar vikur eða mánuði í viðbót.
    Tillögurnar sem hér eru settar fram eru í sjálfu sér ekki merkilegar eða háreistar. Það eru, eins og margbúið er að tala um áður, vaxtahækkanirnar. Það er hér talað um að bæta innheimtu. Það er talað um að lækka útgjöldin. Þar er fyrst fyrir að taka að það eigi að hætta aðstoð við atvinnuvegina. Það er talað um að fyrirgreiðsla við atvinnuvegi skuli minnka. Það er þá verið að tryggja það fyrir fram að ekki verði farið að styðja við atvinnulífið þegar vaxtahækkanirnar eru farnar að segja til sín þar. Þá á það að vera ljóst að það atvinnulíf sem ekki getur borið þessar vaxtahækkanir skuli þá bara fara sinn veg.
    Í öðru lagi er hér talað um niðurskurð framkvæmda án þess að það sé þó nákvæmlega tilgreint í þessari skýrslu. Í þriðja lagi er svo auðvitað einu sinni enn talað um að útgjöld almannatrygginga skuli lækka.
    Þetta hefur auðvitað oft áður verið reynt. Menn hafa sest niður á miðju ári, reyndar stundum fyrr á fjárlagaárinu en núna. Ég hygg ég muni eftir því að hafa einhvern tíma sest niður með núv. hæstv. fjmrh. til að skoða fjárlög, gott ef ekki var strax í janúarmánuði, til að sjá hvort ekki væri hægt þá að koma fram með einhverjar tillögur til að draga úr ríkisútgjöldum. Það er allt saman góðra gjalda vert út af fyrir sig. En það eru ekki merkilegar tillögur sem hér eru settar fram, enda ekkert samkomulag um þær.
    Það er mikið talað um þenslumerki og að það þurfi að grípa til aðgerða til að draga úr því sem þar kann að vera að gerast. Og hvar á að draga úr þenslunni? Er það í Bolungarvík? Er hún að birtast þar? Ætli hv. þm. Einar Guðfinnsson geti upplýst okkur um það. Hann var a.m.k. að tala um það hér í ræðu fyrir einum tveimur eða þremur dögum síðan að það þyrfti að berjast gegn þessum þenslumerkjum. Eru þau kannski á Blönduósi? Ætli hv. þm. Pálmi Jónsson geti kannski upplýst okkur um hvernig ástandið er þar? Kannski það sé á Stokkseyri eða Eyrarbakka þar sem fulltrúar fiskvinnslu gengu á fund hæstv. ráðherra, ég hygg það hafi verið í gærkvöld, og tíminn var notaður til þess að ræða um stöðu fiskvinnslufyrirtækis þar sem er eitt af þeim sem ekki hefur tekist að koma fyrir vind eins og tókst þó með fjölmörg önnur fyrirtæki. En þar eiga líklega vaxtahækkanirnar að hjálpa til að draga úr að ekki verði þenslan á Stokkseyri og Eyrarbakka til þess að drepa atvinnulífið þar. Ég veit að þessi þensla er ekki á Raufarhöfn. Það er mér kunnugt um úr mínu eigin kjördæmi þar sem Raufarhöfn var sá staður sem fór einna verst af öllum út úr loðnubrestinum á sl. vetri og átti reyndar að reyna að laga aðeins til hvað varðar ástand mála þar með aðgerðum fyrrv. ríkisstjórnar en núv. ríkisstjórn ætlar að taka það til baka.
    Hvar munu þessi þenslueinkenni koma fyrst fram?

Ég hygg að það verði hér á höfuðborgarsvæðinu fyrst og fremst, a.m.k. alla vega fyrst. Og kannski hæstv. forsrh. gæti reynt að semja við virðulegan borgarstjóra í Reykjavík, jafnvel þótt sá virðulegi borgarstjóri sé nú í sumarfríi, að þeir ræði saman þessir ágætu félagar um það hvort hægt væri að draga eitthvað úr framkvæmdum hér á höfuðborgarsvæðinu á vegum borgarinnar. Þó mér sé kunnugt um það og við vitum það að þær framkvæmdir eru sjálfsagt mest og kannski eingöngu af tekjum borgarinnar, af sköttum, ekki beint að þar sé verið að berjast á lánamarkaði, gæti það dregið úr þenslunni. Og sú sérstaka staða Reykjavíkurborgar að hafa svo miklar tekjur úr að spila sýnir náttúrlega fyrst og fremst misskiptinguna í skattstofnunum og jafnvel misskiptingu í verkefnum milli sveitarfélaga og milli sveitarfélaga og ríkis en þó fyrst og fremst í skattstofnunum og er full ástæða fyrir hæstv. fjmrh. að taka það mál til athugunar.
    Það kemur fram hér í skýrslunni að vegna þessara þenslueinkenna hafi tekjur ríkissjóðs aukist um 2% að raungildi á þessum fyrstu mánuðum, nokkru meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það er hér síðan talað um skuldbindingar til langs tíma, hvar af reyndar Reykjavíkurborg er nú með eina af hærri tölunum. Ætli hæstv. forsrh. hafi verið algerlega ókunnugt um þá skuldbindingu? Svo mætti a.m.k. halda af því hvernig hæstv. ráðherrar hafa hér rætt um þessar skuldbindingar sem tengdust m.a. afgreiðslu lánsfjárlaganna.
    Stærsta skuldbindingin er auðvitað tengd búvörusamningnum. Nú er svo komið að við vitum í raun ekki hvert stefnir með það mál eftir umræður í þingi hér seinustu daga. Það er sjálfsagt að bera í bakkafullan lækinn að spyrja einu sinni enn um það hver sé afstaða hæstv. ráðherra í því máli og hvert stefni.
    Aðrar skuldbindingar eru t.d. Vestfjarðagöngin, Vesmannaeyjaferjan og yfirtaka lána hjá Byggðastofnun. Og hvar ætli eigi að bera niður í þessum sparnaðaraðgerðum? Ég kem kannski aðeins nánar að því síðar. Ég nefndi það að gert væri ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs hefðu aukist um 2% að raungildi, nokkru meira en reiknað var með, fyrstu fjóra mánuðina, en hins vegar hafa reiknimeistarar hæstv. fjmrh. komist að þeirri niðurstöðu að á ársgrundvelli verði tekjur ríkissjóðs 800 millj. kr. minni en áætlað var.
    Það er að vísu ekki stór misvísun, innan við 1%, nákvæmlega 0,78%, af heildartekjunum. En er ekki hæpið að binda sig algerlega við þá útreikninga ef nú þegar hefur orðið 2% raunaukning, sem er þó staðreynd þessara fyrstu fjögurra mánaða, en gefa sér það svo að það tapist og meira til á því sem eftir lifir ársins? Ég a.m.k. leyfi mér að vera með efasemdir um þennan útreikning. Ég leyfi mér að vera með efasemdir um hann án þess að ég ætli þó á þessu stigi að fullyrða nokkuð um það.
    Síðan er hér rætt um útgjöldin á hinn bóginn og þar er talað um hækkun á almennum rekstrarútgjöldum um 12,7%. Það segir hér: Hækkunin kemur að mestu fram í útgjöldum menntmrn. og heilbrrn., án þess að það sé nokkuð skýrt eða tilgreint í þessari

annars ágætu skýrslu. Þar spyr maður: Er þetta kannski sú ákvörðun að greiða ríkisspítölunum nú þegar 130 millj. kr. vegna halla sl. árs og það sett inn í greiðsluáætlun þó það hafi ekki verið gert ráð fyrir því í fjárlögum og síðan fyrirhugað að staðfesta það í fjáraukalögum síðar á árinu? Eða er þetta hvað varðar menntmrn., þó ég þekki reyndar minna til þar, sú fyrirframgreiðsla á framlagi til Lánasjóðsins sem upplýst hefur verið um að innt hafi verið af hendi?
    Tilfærslur eru hér tilgreindar líka og þar er hækkunin reyndar heldur minni en á almennum rekstrarútgjöldum, eða 10,1%. Mest á lífeyristryggingunum sem stafar af því m.a. að lífeyrisþegum fjölgar hlutfallslega og hefur verið að fjölga. Við höfum vitað um þessa þróun lengi og eigum sjálfsagt eftir að verða vör við hana í framtíðinni enn frekar. Einnig að ekki varð samkomulag um áætlaðar sparnaðaraðgerðir, m.a. með tekjutengingu grunnlífeyrisins. Hins vegar kemur hér fram að sjúkratryggingarnar hafa hækkað mjög lítið, eða um 1,5% milli þessara fyrstu fjögurra mánaða, frá árinu 1990 -- 1991. Þar hygg ég að sé að koma fram sparnaður sem gripið hefur verið til á því sviði og á sviði lyfjamála í ráðuneyti heilbrigðismála og hann sé nú að skila sér, þrátt fyrir það sem hæstv. utanrrh. sagði í Kastljósþætti 30. apríl sl. Þar sátu þeir saman hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. og leyfðu alþjóð og fréttamönnum tveim sem ég veit nú ekki hvaða hlutverki gegndu þar öðru en að hlusta á þá líka eins og við hin hæla hvor öðrum. Þar sagði hæstv. utanrrh.: ,,Sjúkrahús og heilsugæslustöðvar og lyfjamál þarfnast allt uppstokkunar og kerfisbreytingar.`` Fréttamaður skaut þá reyndar inn í spurninguna hvort ekki hefði verið reynt að gera eitthvað á þessu sviði. Hæstv. utanrrh. svaraði því til og sagði: ,,Nei, þar hefur aðeins farið fram prósentvíshömlun en ekki neinar aðgerðir.`` Nú er því komið að nýjum hæstv. heilbrrh. að framkvæma þessar aðgerðir sem þeir ágætu félagar vonandi ná nú saman um að vinna að.
    Reyndar finnst mér dálítið merkilegt að heyra þetta frá hæstv. utanrrh. og formanni Alþfl. vegna þess að eins og margoft hefur komið fram var það m.a. vegna andstöðu hans og hans flokksmanna sem ekki náðist að hrinda fram þeim hugmyndum sem fjárlög gerðu þó ráð fyrir.
    Á bls. 18 í skýrslunni er rætt um endurmat á útgjaldahlið. Þar er sagt m.a., með leyfi hæstv. forseta: ,,Á fjárlögum var gert ráð fyrir því að ná fram sparnaði með breytingum á lögum um almannatryggingar og breyttu skipulagi í innflutningi og dreifingu lyfja, samtals að fjárhæð um 400 millj. kr. Nauðsynlegar lagabreytingar hafa enn ekki náð fram.`` Nú er það reyndar svo að það sem ráðgert var að spara þar var enn meira en þessar 400 millj. kr. Í fjárlagafrv. segir að stefnt sé að sparnaði upp á 500 -- 600 millj. og ráðgert var að ná með breytingum á almannatryggingalöggjöfinni u.þ.b. 200 millj. kr. Hér erum við því að tala um kannski 700 -- 800 millj. kr. svoleiðis að þegar var nú vitað um þetta. Sú útgjaldaaukning sem nú er talin blasa við upp á 1500 -- 1700 millj. kr. í þessum geira er þess vegna ekki ítarlega útskýrð hér.

Hér eru taldir upp nokkrir liðir en ekki gerð grein fyrir því að þarna voru uppi hugmyndir um að ná verulegum hluta þessa inn með ákveðnum sérstaklega tilgreindum hugmyndum.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson sagði að á þessu sviði eins og mörgum öðrum væri vandanum velt á nýja ríkisstjórn. Og ég verð að segja að þar kemur vel á vondan, þ.e. Alþfl. og hæstv. fjmrh. ásamt hæstv. heilbrrh., að glíma við þessar tillögur. Ég út af fyrir sig hef lýst því yfir áður og geri enn hér að ég er tilbúinn að aðstoða þessa ágætu hæstv. ráðherra til góðra verka. Ég get auðvitað ekki ætlast til þess að menn fallist endilega á þær hugmyndir sem ég hafði sett fram, en það verður fróðlegt og forvitnilegt að sjá hvaða hugmyndir það eru sem þessir ágætu herramenn eiga eftir að sýna alþjóð.
    Mig langar í því sambandi að vitna örstutt í blaðaviðtal við hæstv. heilbr.- og trmrh. Sighvat Björgvinsson, sem birtist í Dagblaðinu 25. maí sl., þar sem hann segir m.a., með leyfi forseta: ,,Við viljum koma í veg fyrir að hægt sé að ávísa á lyf sem ekki eru á lyfjaskrá þannig að ríkið borgi vítamín o.fl. Það þýðir 80 -- 100 millj. kr. sparnað á heilu ári.`` Auðvitað er enginn vandi að lækka ríkisútgjöld með því að láta fólkið borga fyrir þjónustuna, með því að láta sjúklingana borga fyrir lyfin, með því að láta sjúklingana sem fara á heilsugæslustöðvarnar og í sjúkrahúsin borga fyrir þjónustuna þar. Það er enginn vandi að lækka útgjöldin í menntmrn. með því að láta menn borga fyrir skólavistina ef það er sparnaðurinn sem hæstv. ráðherrar ætla að grípa til. Í mínum huga er þetta tilfærsla og auðvitað skattheimta í öðru formi.
     Menn geta auðvitað sagt: Við ætlum ekki að hækka skatta. Hæstv. fjmrh. hristir höfuðið, enda hefur hann lýst því yfir að hann ætli ekki að hækka skatta. Hann ætlar hins vegar bara að láta almenning borga fyrir þjónustuna. Nú er ég ekki að segja að það komi ekki til greina í þessu tilviki sem hér er nefnt. En ég vil hins vegar að menn tali alveg skýrt og það sé ljóst að hér er auðvitað ekkert annað en verið að færa til. Það er ekki verið að spara. Það er ekki verið að draga úr heildarútgjöldum. Það er verið að láta
menn borga í öðru formi. Ef þeir eiga ekki að gera það í gegnum skattana, þá eiga þeir bara að gera það beint, borga lyfin, borga læknisþjónustuna eða hvað það nú er. ( Fjmrh.: Eins og fyrrv. heilbrrh. hefur gert á sumum sviðum.) Það hefur fyrrv. heilbrrh. reynt að forðast. Hann var að reyna að leita leiða til þess að draga úr þessum útgjöldum með ýmiss konar aðferðum sem bitnuðu ekki á þeim sem þyrftu á þessari læknisþjónustu að halda. (Gripið fram í.) Ég heyri að hæstv. fjmrh. nefnir lýtalækningarnar. Þar höfum við reynt að fara þá leiðina að flokka og velja það sem hægt væri að kalla fegrunaraðgerðir og segja: Fólk getur greitt fyrir fegrunaraðgerðir. Við höfum reyndar líka reynt þetta í sambandi við tannréttingar með því miður minni árangri og væri hægt að ræða um það nokkuð hér en það ætla ég ekki að gera í umræðunum á þessari nóttu. Það kann að verða tími til þess aftur síðar.

    Síðar í þessu samtali við hæstv. heilbr. - og trmrh. segir einnig: ,,Sparnaður í aðeins einum lyfjaflokki, magalyfjum, getur orðið 200 -- 300 millj. kr.`` Ég vona að þetta sé rétt og ég skal þá taka ofan fyrir hæstv. heilbr. - og trmrh. ef honum tekst þetta á þessu ári. Ég nota að vísu ekki mikið höfuðföt en ég mundi kannski fá það lánað hjá hæstv. utanrrh. bara til þess eins að geta tekið ofan fyrir hæstv. heilbr. - og trmrh. ef honum tekst þetta.
    Enn síðar segir hæstv. heilbr. - og trmrh. Ég krefst þess ekki að hann sé viðstaddur endilega þessa umræðu vegna þess að ég veit að hann þarf að koma hér um fjögurleytið í nótt til þess að svara fyrirspurnum frá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni, en þá mætti kannski í þeirri ræðu hv. þm. ítreka þetta til hæstv. heilbrrh. Hann segir hér: ,,Þá má nefna að við ætlum að fresta framkvæmdum í byggingu sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva sem ekki er búið að skuldbinda og reiknum einnig með sparnaði í rekstri. Samtals gerir þetta sparnað upp á meira en 600 millj. kr. á þessu ári.`` Hann er áður í viðtalinu búinn að segja að reksturinn eigi að spara 500 millj. þannig að hann ætlar að taka 100 millj. í niðurskurð á framkvæmdum.
    Ég hefði gjarnan viljað spyrja hæstv. heilbrrh. hvar þetta eigi að koma niður því að hann hefur ekki enn sýnt um það neina lista eins og þó hæstv. samgrh. hefur reynt að gera hvað varðar sinn málaflokk, að vísu við lítinn fögnuð sinna flokksmanna. En ég hygg við lestur á sérstöku yfirliti úr fjárlögum þessa árs um þær framkvæmdir sem á að ráðast í á þessu ári við byggingu sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða fyrir samtals 290 millj. kr. að erfitt verði að skera niður nú um mitt ár 100 millj. Ég hefði a.m.k. gjarnan viljað vita hvar það er.
    Ég held nefnilega að flest af því og allar stóru tölurnar sem hér eru tilgreindar eru vegna verka sem eru í gangi, eru jafnvel langt komin, verkefni sem eru búin að vera í gangi í nokkur ár. Það er ekki mikið af nýjum verkefnum og sé um það að ræða eru það smátölur. Ég leyfi mér að nefna eina: Grundarfjörður, heilsugæslustöð, 4 millj. kr. sem með loforði frá hæstv. heilbrrh., þáv. hv. formanni fjvn., var ákveðið að hefja framkvæmdir við á þessu ári. En hann ætlar kannski að bregðast því loforði nú og þá væri ágætt að vita það sem fyrst. Stór tala er hér í sjúkrahúsið á Ísafirði upp á 25 millj. kr. sem er fyrst og fremst endurgreiðsla á lánum. Svo er hérna önnur smátala, aðrar 4 millj. kr., í sjúkrahúsið á Patreksfirði sem ég gæti trúað að hv. fyrrv. formaður fjvn. hafi átt einhvern þátt í að koma hér inn. Kannski ætlar hann að skera það aftur. Jafnvel þó hann skeri þessar tvisvar sinnum fjórar og kannski fjórar einhvers staðar annars staðar í viðbót, þá verður honum erfitt að ná þessum 100 millj. Það er alveg áreiðanlegt.
    Á bls. 21 í skýrslu hæstv. fjmrh. er talað um lánsfjárþörf opinberra aðila og þar er einmitt talað um það sem er kannski stærsta meinið í þessu öllu saman og þyrfti e.t.v. fyrst og fremst að taka á, þ.e. húsnæðislánakerfið. Aukningin er einkum rakin til þarfa húsnæðislánakerfisins. Ég nefndi það í ræðu hér í gær

eða fyrradag að ég vonaðist til þess að hæstv. félmrh. tækist að glíma við þau vandamál sem þar eru uppi, en það verður ekki auðvelt fyrir þann ágæta ráðherra. Ég er alveg fullviss um það.
    Við þingmenn Framsfl. höfum sagt það hér áður að við teljum nauðsynlegt og tökum þar undir með hæstv. fjmrh., sem nefndi það í sinni ræðu hér áðan, að draga úr útgáfu húsbréfanna, draga úr útlánum á þessu sviði, en að lokun 1986 - kerfisins sé ekki lausnin. Það er aðeins tilflutningur. Það er ekki lausn. Það er ekki sparnaður. Hér verður að taka á málum og gildir þá kannski einu hvaða kerfi er um að ræða.
    Hæstv. forsrh. sagði hér áður í umræðum um stefnuræðuna að hann undraðist árásir framsóknarmanna á hæstv. félmrh. Ég vil segja við hann og hæstv. félmrh. að hér er ekki um að ræða neinar árásir. Ég a.m.k. tek það ekki til mín. Við vorum og erum enn þeirrar skoðunar að 1986 - kerfið hefði mátt lagfæra með ýmsum aðgerðum og það hefði mátt gera með breytingum en ekki byltingu. Við höfðum reyndar til samkomulags talið að það mætti reka þessi kerfi bæði tvö saman vegna hinnar miklu trúar margra og ekki síst hæstv. félmrh. á húsbréfakerfinu. En hverjir hefðu trúað því þegar verið var að ræða það og móta það kerfi og búa því lagaramma að ávöxtunarkrafan þar yrði 8 -- 9%, að vextirnir færu í 8 -- 9%? Nú eru þeir að nálgast 9% á húsbréfum. Og hverjir hefðu trúað því að afföllin færu í 22 -- 25%? Enginn. Ég fullyrði að enginn hefði trúað því. Hefði mönnum dottið það í hug á því stigi, þá hefðu menn ekki talið að það væri lausn á ríkjandi vanda. Ekki einu sinni hæstv. félmrh. gat dottið það í hug.
    Það sem mig undrar í sambandi við málflutning hæstv. félmrh. er það að tala enn um að allt sé í lagi og þetta muni lagast og einhver var nú að tala um það, fann það í skýrslu, að þetta mundi líklega lagast með hækkandi sól. Það er út af fyrir sig gott ef það gerir það, en þetta er ekki í lagi í dag.
    Það er ýmislegt fleira sem ekki hefur gengið eftir í sambandi við húsbréfakerfið og hæstv. félmrh. hefur reyndar bent á líka, t.d. innri fjármögnunin, sem átti að vera einn af stóru kostunum við þetta kerfi, að fá fjármuni frá þeim sem eru að selja húsnæðið. Það var gert ráð fyrir að næðust a.m.k. 30% en ef ég man rétt að hafa séð eða heyrt eftir hæstv. félmrh., þá hefur líklega ekki náðst nema um 20%, ef það hefur þá einu sinni náðst að vera það.
    Nei, tillögurnar hér eru fyrst og fremst vaxtahækkanirnar sem munu bitna harkalega á ýmsum aðilum í þjóðfélaginu, hinum skuldugu og atvinnulífinu, og færa, eins og ég sagði áðan, batann í atvinnulífinu til fjármagnseigendanna. Annað sem talið er upp í skýrslunni eru hertar innheimtuaðgerðir, sem líka er út af fyrir sig ágætt. Hér er og talað um að falla frá ráðningu í nýjar stöður --- einhvers staðar minnir mig nú að ég hafi heyrt þetta fyrr --- og beita almennu aðhaldi varðandi útgjöldin. Allt góðra gjalda vert. Allt saman hlutir sem hægt er að styðja. En svo koma hér nokkrar tillögur um niðurskurð rekstrarútgjalda og frestun á framkvæmdum.

    Ég hef reyndar þegar farið nokkrum orðum um frestun framkvæmda á heilbrigðisþjónustunni. Hér er um að ræða viðkvæma hluti sem ekki er sama hvernig að verður staðið. Þessir liðir eru m.a. taldir upp í skýrslunni á bls. 25, 26 og 27, þar sem reynt er að gera grein fyrir hugmyndum hæstv. fjmrh. Ég leyfi mér að segja að mér finnst ekki allar þessar hugmyndir geðugar. Hvað varðar almannatryggingarnar, þá ítreka ég það að ég trúi því ekki að það eigi að fara inn á þá braut að láta menn greiða fyrir þjónustuna. Ég var með tillögur um það að reyna að færa til innan almannatryggingakerfisins þannig að þeir sem þyrftu síður á aðstoð þess að halda létu nokkuð af því sem þeir fá úr þessu almenna kerfi okkar, þessu samfélagslega mikilvæga kerfi, almannatryggingunum, en þeir sem þurfa fremur á að halda nytu þess þá. Með þessu móti hefði átt að vera hægt að spara allnokkrar upphæðir, sem ég veit ekki hvort hæstv. núv. ríkisstjórn er sammála um að gera. Ég óttast að hún muni frekar fara þá leið að láta menn borga eins og mér sýnist þegar vera vísbendingar um í viðtalinu sem ég vitnaði til áðan við hæstv. heilbr. - og trmrh.
    Síðan eru hér nokkrir aðrir þættir sem hefði verið ágætt að einhverjir hv. stjórnarþingmenn hefðu velt fyrir sér og hlustað á upptalningu og kannski síðan svarað hvort þeir væru sammála. Það á að skera niður í hafnarframkvæmdum. Það á að skera niður í vegagerð. Það á að skera niður hjá Byggðastofnun. Reyndar hefði kannski þurft að fá einhverja skýringu á hvað þessi texti þýðir, en hæstv. fjmrh. lét nú ekki svo lítið að fara ítarlega yfir þessa þætti áðan. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:
    ,,Fyrirhuguð lántaka Byggðastofnunar um 900 millj. kr. lækkar um 300 millj. kr. og tengist þetta yfirtöku ríkissjóðs á 1200 millj. kr. skuldum stofnunarinnar.`` Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. fjmrh. útskýrði þetta aðeins nánar fyrir okkur síðar í nótt eða í fyrramálið eða hvenær það nú verður sem hann kemst aftur að.
    Síðan á að fella niður tjónabætur til Rafmagnsveitna ríkisins sem auðvitað þýðir hærra raforkuverð. Það á að breyta hér til um lántökuheimild til Landsvirkjunar, falla frá lántökunni upp á 400 millj. kr. sem var vegna þess að fallið var frá gjaldskrárhækkun. En þetta hlýtur þá að þýða að gjaldskráin á aftur að hækka.
    Ég nefndi áðan fyrirhugaðar fjárveitingar til nokkurra hafna í landinu á stöðum sem loðnubresturinn hafði bitnað harkalega á. Síðan á að skera niður fjárveitingar til síldarverksmiðja.
    Hvað eiga þessar tillögur allar sammerkt? Þess vegna hefði nú verið fróðlegt að hér hefði verið þó ekki væri nema einn hv. óbreyttur stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar, helst utan af landsbyggðinni vegna þess að þær eiga allar að bitna þar. Þar eru þenslumörkin sem á að bregðast við núna. Þar er þenslan sem nú örlar á. Þess vegna á auðvitað að ráðast á garðinn þar.
    Það kemur sem sagt fljótt fram hver stefna þessarar hæstv. ríkisstjórnar er gagnvart landsbyggðinni og þarf kannski engan að undra. Landsbyggðarþingmenn

ríkisstjórnarinnar hafa líka verið að láta frá sér heyra þessa dagana þó að við vitum það reyndar að þeir mega sín lítils eins og fram hefur komið. Þó að þeir hafi jafnvel sumir hverjir mótmælt þessu stjórnarsamstarfi mega þeir sín lítils vegna þess að þeir eru allir inni á þingi á atkvæðum kjósenda í Reykjavík og á Reykjanesi. Kjósendur í Reykjavík og Reykjanesi völdu þessa menn á þing þannig að þeir geta varla haft hátt.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa þetta öllu lengra. En þó eru nokkur atriði enn sem mig hefði langað að spyrja um. Ég sagði að vísu áðan að það væri sjálfsagt að bera í bakkafullan lækinn að spyrja meira um búvörusamning og afstöðu til hans. Þó er það dálítið merkilegt að lesa viðtöl í blöðunum undanfarna daga þar sem hæstv. fjmrh. er að velta því fyrir sér hvort ríkisstjórnin sé bundin af búvörusamningnum en landbrh. lýsir því yfir í Morgunblaðinu 23. maí að hann segist skyldur að starfa eftir búvörusamningnum.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson sagði það líka í blaðaviðtali nú á dögunum, þó að mér heyrðist hann hér áðan í frammíkalli vera að neita því, að hann væri afar óánægður með niðurskurðinn á hafnarframkvæmdafénu og taldi að það kæmi sér mjög illa, enda hefði hann verið að berjast fyrir framkvæmdum í sínu kjördæmi sem hefðu átt að greiðast af þessu fé.
    Allir sem horfðu á sjónvarpsfréttir í kvöld vita afstöðu hv. þm. Egils Jónssonar til tillagna hæstv. ráðherra, bæði fjmrh. og reyndar einnig samgrh., þ.e. hvernig samgrh. ætlar að fara að.
    Hæstv. menntmrh. segir í Morgunblaðinu 23. maí að ekki sé ljóst hvernig eigi að ná þeim sparnaði sem áætlaður er hjá Lánasjóðnum. Að vísu hafa síðar komið fram hugmyndir um það. Hvort hæstv. ráðherra gerir þær að sínum á eftir að koma í ljós. Auðvitað þarf að taka á málefnum Lánasjóðsins. Ég er ekki að gera lítið úr því og get út af fyrir sig fallist á það. Það sem þarf að gæta að þar er auðvitað að jafnrétti til náms sé eftir sem áður tryggt og menn eigi kost á því að stunda sitt nám. Það getur vel verið að það megi eitthvað skoða hvernig framfærsla er útreiknuð og hvernig áherslur eru lagðar í því. Ég þekki ekki það mál nægjanlega vel en vil ekki dæma fyrir fram um það að slíkt megi ekki gera ef meginmarkmiðin eru tryggð. Þetta voru viðbrögð hæstv. menntmrh. Hann vissi ekki hvernig átti að ná fram þessum sparnaði.
    Hv. þm. Matthías Bjarnason segir einnig í Morgunblaðinu að hann styðji ekki þann niðurskurð fjárveitinga til vegagerðar sem ríkisstjórnin hefur boðað. Hann lýsir því hér yfir að hann styðji bara ekki þennan niðurskurð.
    Það má halda áfram að telja svona. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson og Ingi Björn Albertsson hafa báðir lýst því yfir að þeir muni ekki styðja hugmyndir hæstv. fjmrh. um að hætta við lántöku vegna þyrlukaupa. Vafalaust er hægt að finna fleiri álíka yfirlýsingar úr blöðum og fjölmiðlum undafarna daga sem ég hirði ekki um að tína til, enda margkomið fram í

umræðum hér síðustu daga að ríkisstjórnin er ekki sammála um yfirleitt nokkurn skapaðan hlut nema vaxtahækkunina. Það virðist vera það eina sem enginn hv. þm. stjórnarinnar, ég hef þá a.m.k. ekki rekist á þá, hefur mannað sig upp í að mótmæla og þykir mér það reyndar furðu sæta.
    Virðulegi forseti. Við framsóknarmenn erum tilbúnir til þess að skoða allar hugmyndir sem fram eru settar og líta á þær. Við viljum skoða allar góðar tillögur um það hvernig hægt sé að gæta aðhalds í ríkisfjármálum og leita sparnaðar. En við hvorki getum né munum styðja tillögur sem bitna fyrst og fremst á landsbyggðinni og ég treysti því reyndar að það muni hv. stjórnarþingmenn ekki gera heldur þegar á reynir. Við sjáum það nú og fengum þær fréttir hér áðan úr ræðustól að verðbólgan væri þegar á skriði, þegar á uppleið á nýjan leik. Það væri fróðlegt að heyra það og það skulu vera mín lokaorð að spyrja hæstv. utanrrh., og ég vænti að einhver komi því til hans, hvað hann segi um þessar nýju spár eftir að hafa lýst því yfir á almennum fundi hjá Alþfl. að hann ætlaði ekki að sitja í ríkisstjórn sem hækkaði vextina og hann ætlaði ekki að sitja í ríkisstjórn sem hleypti verðbólgunni á skrið á nýjan leik. Nú er hins vegar ljóst að það er að gerast. Þær spár sem við stjórnarandstöðuþingmenn höfum verið að hafa uppi þessa dagana þegar fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru að líta dagsins ljós eru nú að sannast og það væri fróðlegt að vita hvernig hæstv. utanrrh. ætlar nú að standa við stóru orðin.