Ríkisfjármál 1991
Miðvikudaginn 29. maí 1991


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er búið að fjalla nokkuð um þessa skýrslu. Ég verð þó að segja í upphafi að það urðu mér nokkur vonbrigði að hæstv. fjmrh. skyldi ekki gera grein fyrir þeim niðurskurðaráformum sem eru í þessari skýrslu því það er margt sem ekki er alveg fyllilega ljóst og skýrt orðað þannig að ástæða hefði verið til að fá frekari upplýsingar um það frá hæstv. ráðherra.
    En ég vil fyrst víkja svona almennt að þessari skýrslu. Það má segja að það sé einkenni á henni að það er verið að draga upp ákaflega dökka mynd af ástandinu, mála mjög ljóta mynd og búa til þá tilfinningu hjá fólki að hér sé allt í voða og þurfi að gera eitthvað ákaflega róttækt til að færa hlutina til betri vegar. Síðan þegar maður skoðar þessar hugmyndir um aðgerðir, þá er maður mest hissa á hvað það er í raun og veru lítið í þessari skýrslu um aðgerðir borið saman við þá mynd sem búið er að draga upp.
    Ég vil nefna í sambandi við þetta að það er gert ráð fyrir því að þessar viðnámsaðgerðir minnki lánsfjárþörf hins opinbera úr 34 milljörðum kr., eins og það er áætlað að verði í dag, niður í 28 -- 29 milljarða miðað við þær tölur sem eru gefnar upp í skýrslunni. Hins vegar kemur þar fram að nýr sparnaður er áætlaður 26 milljarðar eða minni upphæð en gert er ráð fyrir að lánsfjárþörfin verði þannig að þær aðgerðir eru greinilega algjörlega ófullnægjandi til þess að færa hlutina til jafnvægis miðað við þær forsendur sem skýrslan er reist á. Það hlýtur að vekja upp þær spurningar hvaða áform stjórnarflokkarnir hafa til viðbótar þessari skýrslu því að miðað við það sem fram hefur komið og haldið hefur verið fram af hæstv. fjmrh. þarf að gera mun meira en þarna kemur fram til þess að einhver von sé um jafnvægi hér í ríkisfjármálum.
    Það kemur svona nýliða eins og mér líka dálítið á óvart hvað það eru í raun og veru litlar sveiflur í núverandi áætlun um tekjur og gjöld ríkissjóðs miðað við það sem gengið var frá í fjárlögum. Mér þykir í raun og veru ekki mikil skekkja eða stórt vandamál í þeim tölum sem um er að tefla ef menn eru að spá því núna að útgjöld ríkissjóðs verði um 1% hærri en þau voru áætluð eða liðlega 4 milljörðum kr. af 106. Þó að talan ein sér sé nokkuð há þá er þetta ekki há fjárhæð í svona stóru dæmi þannig að ég tel nú ekki ástæðu til að fara á taugum bara á því að skoða þetta litla frávik.
    Hitt kemur mér líka á óvart, þegar menn eru búnir að draga upp þá mynd að eyðslan sé hér að fara í gang með minnkandi sparnaði upp á 11 -- 12 þús. milljónir, að þá sé ekki gert ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs aukist neitt heldur þvert á móti er gert ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs minnki. Á bls. 17 í skýrslunni þar sem fjallað er um tekjur A - hluta ríkissjóðs er gert ráð fyrir því í endurmati 1991 að heildartekjur ríkissjóðs verði 800 millj. kr. lægri en þær eru í fjárlögum þannig að ekki er gert ráð fyrir því að ríkissjóður fái neinar tekjur af þessari þenslu. Það má vel vera, en ég fæ nú samt ekki skilið að ríkissjóður, sem byggir sína tekjustofna upp að meginhluta til af óbeinum sköttum, skuli ekki fá inn auknar tekjur í gegnum aukna eyðslu og væri kannski ágætt ef hæstv. fjmrh. mundi útskýra það í örfáum orðum.
    Ef við víkjum að einstökum málum vil ég fyrst nefna fyrirhugaðan niðurskurð í vegamálum um 350 millj. kr. Það hefur komið fram hjá hæstv. samgrh. að áformað er að lækka framlög til jarðgangagerðar á Vestfjörðum um 100 millj. kr. Jafnframt hefur komið fram yfirlýsing um að það muni ekki seinka verklokum. Ég hefði talið rétt að fá það fram með óyggjandi hætti hjá hæstv. ríkisstjórn hvort áform væru um að seinka verkbyrjun, breyta framkvæmdaáformum. Hins vegar gaf hæstv. samgrh. yfirlýsingu hér fyrr í kvöld sem mátti skilja þannig að það ætti að hefja framkvæmdir á þeim tíma sem áður hafði verið áformað. Ég vildi gjarnan beina því til hæstv. fjmrh. að hann skýrði það frekar hvort verkið muni hefjast á þeim tíma sem áformað hefur verið hingað til og hvort framkvæmdin muni ekki verða með þeim hætti sem gert hefur verið ráð fyrir. Og í öðru lagi, fyrst gert hefur verið ráð fyrir því að lækka fjárveitingu til þessarar framkvæmdar á þessu ári, hvort þá muni verða bætt við á næsta ári fé til að mæta þeim niðurskurði sem verður á þessu ári.
    Almennt verð ég að segja það um niðurskurð á þessu vegafé að ég er ákaflega óánægður með að það skuli vera farið í að skera niður þær 350 millj. sem ríkissjóður leggur fram til vegamála á þessu ári. Ég tel reyndar að ástandið í samgöngumálum í þeim kjördæmum sem niðurskurðurinn bitnar einna helst á, Austfjarðakjördæmi og Vestfjarðakjördæmi, sé ekki með þeim hætti að ástæða sé til að draga úr því sem þegar hefur verið ákveðið að gera í þeim efnum. Menn eru býsna langt á eftir í samgöngumálum í þessum kjördæmum miðað við mörg önnur kjördæmi og það er m.a. ein ástæðan fyrir því að mínu mati hversu erfið byggðaþróunin hefur verið í þessum kjördæmum, og þá sérstaklega Vestfjarðakjördæmi, á undanförnum árum. Ég hef ástæðu til að ætla að það sé einhver vafi á um það að niðurskurðurinn á vegafé njóti stuðnings meiri hluta á Alþingi. Það hafa komið fram yfirlýsingar frá tveimur þingmönnum stjórnarliðsins um það að þeir styðji ekki þennan niðurskurð. Það eru hv. 1. þm. Vestf. Matthías Bjarnason og hv. 3. þm. Austurl. Egill Jónsson. Og reyndar hef ég nokkra ástæðu til að ætla að þeir séu fleiri. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann telji að ríkisstjórnin hafi meiri hluta Alþingis á bak við sig í þessum niðurskurði.
    Ég vil líka benda á að í Morgunblaðinu í dag kemur skýrt fram í viðtali við hv. 1. þm. Vestf. að hann telur að það sé ekki hlutverk ráðuneytis eða Vegagerðar að skera niður framkvæmdir sem Alþingi hefur samþykkt. Hann telur að Alþingi eitt geti breytt þeirri ákvörðun sem búið er að taka. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort hann sé ósammála hv. 1. þm. Vestf. um það að ekki sé heimilt að skera niður

þessar framkvæmdir nema þá með samþykki Alþingis eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
    Það er fleira sem ástæða er til að fara yfir í sambandi við þessi niðurskurðaráform. Eins og hér var bent á áðan er það ansi sláandi að allmikið af þessum niðurskurði bitnar á landsbyggðinni. ( ÓÞÞ: Vegna þenslunnar þar.) Vegna þenslunnar á landsbyggðinni, bætir hv. 2. þm. Vestf. við. Ég vildi þá beina því til hæstv. fjmrh., af því að ég heyri að hann hlustar mjög grannt, hvort hann sé sammála þeirri skoðun sem hér hefur komið fram að þenslan sé á landsbyggðinni, að nauðsynlegt sé að draga þar saman fremur en annars staðar á landinu.
    Sem dæmi um framkvæmdir sem koma illa við okkur landsbyggðarmenn get ég í fyrsta lagi nefnt að skorið er niður framlag vegna loðnubrests um 100 millj. Tjónabætur vegna óveðurs eru skornar niður um 100 millj., sem ég hygg að sé fé sem eigi að renna til Rafmagnsveitna ríkisins til að mæta þeim útgjöldum sem fyrirtækið varð fyrir í vetur vegna óveðurs. Og hvernig hugsar ríkisstjórnin sér að Rafmagnsveitur ríkisins bæti sér upp þessar 100 millj. sem þær fá ekki? Eiga þær að bæta sér það upp með því að hækka gjaldskrána á sínu rafmagni?
    Þá nefni ég björgunarþyrlu. Því verki er frestað, alla vega þetta árið. Það þykir mér slæm tíðindi og ég veit að landsbyggðarmönnum almennt mun þykja það mjög vond tíðindi því við búum við þær aðstæður að byggja okkar afkomu og búsetu að miklu leyti á útgerð. Það er ekki stórmannlegt hjá hæstv. ríkisstjórn að ýta til hliðar þeirri samþykkt og þeim áformum að ráðast hér í það að kaupa þyrlu sem gæti dugað til þess að bjarga sjómönnum á hafi úti ef því væri að skipta. Mér finnst satt að segja það vera hálfkaldar kveðjur frá stjórnvöldum til þessarar stéttar og minni hæstv. fjmrh. á það að sjómannadagurinn er nk. sunnudag og betri fréttir hefði hann getað fært sjómönnum á þeim degi.
    Ég nefni líka niðurskurð á 400 millj. kr. lántökuheimild til Landsvirkjunnar og segir í skýrslunni að Landsvirkjun eigi að bera þessa fjárþörf að hluta með gjaldskrárhækkun og að hluta úr eigin rekstri. Það kemur fram í ársskýrslu Landsvirkjunar að það varð verulegur hagnaður á þeirri stofnun í fyrra. ( Fjmrh.: Bókhaldslegur.) Bókhaldslegur, sögðu Landsvirkjunarmenn. Alveg rétt hjá hæstv. fjmrh. Og þeir bentu reyndar á það líka að það hefðu verið greiðsluörðugleikar hjá þeim. Þeir hefðu í raun og veru verið í vandræðum með að eiga handbært fé fyrir útgjöldum þannig að ef þessi lántökuheimild verður skorin niður, þá eiga þeir ekki í neina sjóði að sækja til að standa undir sínum útgjöldum ef miðað er við þessar upplýsingar. Það er því einboðið að álykta sem svo að Landsvirkjun muni bæta sér þetta upp með því að hækka gjaldskrána. ( Fjmrh.: Eða fresta framkvæmdum.) Já, eða fresta framkvæmdum en ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það hjá hæstv. fjmrh. hvernig hann hugsar sér að þessum niðurskurði á lántökuheimild verði mætt, að hve miklu leyti fólk á von á því að niðurskurðinum verði mætt með því að hækka

raforkuverðið.
    Það er dálítið skondið hjá stjórnvöldum sem um daginn tóku ákvörðun um að auka niðurgreiðslur á þeim svæðum þar sem orkuverðið er hvað hæst --- og var út af fyrir sig ákaflega ánægjulegt að fá þau tíðindi --- að grípa svo til aðgerða fáum dögum síðar sem stuðla að því að taka þetta til baka. Og þá er ég að tala um þessa lántökuheimild Landsvirkjunar og tjónabæturnar hjá Rafmagnsveitum ríkisins.
    Ég var hér með spurningu til hæstv. fjmrh. sem reyndar hefur komið fram fyrr í umræðunum. Ég vildi kannski endurtaka hana þannig að hún félli örugglega ekki niður. Þegar ég fór að leggja saman þessar tölur á bls. 25 og 26, ef ég man rétt, af þessum niðurskurði, þá komst ég upp í 3650 -- 3750 millj. kr. en í skýrslum segir að stefnt sé að því að minnka lánsfjárhalla hins opinbera í heild um 6 milljarða kr. Þarna vantar um 2200 millj. upp á að ég nái þessari tölu heim og saman og ég óska eftir því að hæstv. ráðherra upplýsti mig um það hvar er að finna niðurskurð upp á þá upphæð. ( Fjmrh.: Ég hef áður kennt reikning.) Já, ég held að hæstv. ráðherra geti verið viss um að sú kennsla hafi dugað nokkuð vel þannig að hann geti verið nokkuð viss um að þessar tölur eru vel lagðar saman. ( Gripið fram í: Hefur ráðherrann kennt þingmanninum?) Já.
    Ég vil aðeins víkja að vaxtamálum. Það er að vísu búið að ræða þau ansi mikið þannig að ég ætla að sleppa því að fara mjög ítarlega yfir það mál. En ég vil láta þá skoðun koma fram að hækkun vaxta á íbúðarlánum er í mínum huga í raun og veru ekkert annað en skattahækkun. Hækkun vaxta eykur útgjöld þeirra sem greiða lánin og hlýtur einfaldlega að vera hækkun á þeim gjöldum sem þessar fjölskyldur þurfa að bera til að afla sér húsnæðis. Byggingarsjóður ríkisins er ekkert annað en sjóður í eigu ríkissjóðs og þessi sjóður er einfaldlega að hækka sína skatta til þess að ná inn tekjum. Hæstv. ráðherra benti hér áðan á að hækkun vaxta um 1,5% mundi þýða 0,5% hækkun á framfærsluvísitölu. Hækkun á framfærsluvísitölu þýðir hækkun á lánskjaravísitölu og það leiðir af sér hækkun á skuldum þannig að þeir sem skulda þessari stofnun munu þegar upp er staðið búa við það að skuldir þeirra hafi aukist í kjölfar þessara aðgerða og þessar hækkanir af skuldunum munu síðan leiða af sér aukna greiðslubyrði af vöxtum. Þá erum við komnir hringinn og vandséð í hverju hagur manna er fólginn, alla vega sé ég ekki betur en þessi hækkun vaxta leiði einfaldlega til kjaraskerðingar einu sinni ef ekki tvisvar.
    Þá er hér eitt atriði í sambandi við húsnæðismálin sem væri rétt að fara aðeins yfir. Það kemur fram í þessari skýrslu, það er
getið um það á bls. 21 að ein aðalástæðan fyrir aukinni lánsfjárþörf opinberra sjóða sé aukið fé í húsnæðislánakerfinu. Það kom hins vegar fram hjá hæstv. félmrh. í ræðu sem hún flutti hér fyrr í þessari viku að það væri hrein blekking að halda því fram. Ég mundi vilja beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh. hvort hann stendur á þessari skoðun sem fram kemur í skýrslunni eða hvort hann er sammála hæstv. félmrh. um það að framlög til húsnæðismála séu ekki orsökin fyrir þessari auknu lánsfjárþörf.
    Aðgerðir í húsnæðismálum eru samkvæmt þessari skýrslu um ríkisfjármál, þær einu sem ákveðnar eru, að hækka vexti af lánum Byggingarsjóðs ríkisins.
    Það kemur fram í plaggi sem ég er með hér undir höndunum og heitir kosningayfirlýsing Sjálfstfl. og er í hvítum lit, sem hæstv. forsrh. kallar lit uppgjafarinnar, að í húsnæðismálum ríki ófremdarástand og tafarlaust verði að grípa til aðgerða. Þær aðgerðir sem við höfum séð er vaxtahækkun á lánum Byggingarsjóðs ríkisins. Er það að mati hæstv. fjmrh. nægjanleg aðgerð til þess að ekki ríki lengur það ófremdarástand í húsnæðismálum sem Sjálfstfl. heldur fram í sinni kosningayfirlýsingu að sé eða hvað þarf frekar að gera í þessum málaflokki til þess að ástandið verði viðunandi?
    Nú hefur ríkisstjórnin tekið þá ákvörðun að svokallað húsbréfakerfi verði það íbúðalánakerfi sem við eigum að búa við á næstunni eða í ókominni framtíð. Um þetta húsbréfakerfi hefur margt verið rætt og vissulega er ástæða til þess að hafa verulegar áhyggjur af því hvernig mál hafa þróast í því kerfi. Þar sýnist mér að hlutirnir hafi að mörgu leyti farið á annan veg en til var stofnað og menn áformuðu. Ég vil vitna hér til hæstv. félmrh. sem hefur verið óþreytandi baráttumaður fyrir húsnæðiskerfi til handa launafólki sem a.m.k. að hans mati væri fullboðlegt. Þegar verið var að kynna þetta kerfi fyrir tveimur árum og hæstv. félmrh. var að berjast fyrir því innan þáv. ríkisstjórnar að vinna fylgi við þetta kerfi voru sett fram ýmis rök þessu kerfi til gildis sem áttu að sannfæra menn um hversu gott það væri. Þar voru m.a. sett fram þau rök að ekki mundu verða nein afföll á húsbréfum. Með leyfi forseta vitna ég hér orðrétt í viðtal við hæstv. félmrh. í Pressunni sem birtist 23. febr. 1989. ( ÓÞÞ: Það er til hreinnar fyrirmyndar að vitna svona í skjöl sem hægt er að sannreyna að rétt sé frá sagt.) Þar segir orðrétt:
    ,,Það hefur komið fram ótti við að það muni myndast afföll af þessum húsbréfum. Ég held að sá ótti sé ástæðulaus vegna þess að húsbréfin verða sambærileg eign og spariskírteini ríkissjóðs. Í núverandi kerfi hafa hins vegar afföllin af lánsloforðunum verið mjög mikil þar sem verðbréfamarkaðurinn hefur verið að græða á neyð fólksins og þörf þess fyrir skammtímafyrirgreiðslu. Það er ekkert slíkt uppi í þessu fyrirhugaða húsbréfakerfi. Það er ekkert slíkt uppi í húsbréfakerfinu að það verði nein afföll.``
    Þetta voru rökin fyrir rúmum tveimur árum. Ég efast í sjálfu sér ekkert um það að hæstv. félmrh. hafi verið þeirrar skoðunar þá og henni hafi verið talin trú um það af sérfræðingum að þetta mundi verða svona. En hver er veruleikinn í dag? Ég ætla að veruleikinn sé sá að afföllin séu 22 -- 23% og það séu ýmsir sem séu að græða á neyð fólksins. Miðað við þær tölur sem fram koma í skýrslu hæstv. fjmrh. um að á þessu ári verði gefin út húsbréf fyrir 12 milljarða kr., þá verða afföllin miðað við þessa tölu a.m.k. 2,5 milljarðar kr. Hver fær þennan pening í sinn vasa? Eitt er víst að það er ekki launafólkið sem fær þennan pening í sinn vasa. En það er launafólkið sem á að borga þennan pening.
    Hæstv. félmrh. sagði hér á Alþingi 5. maí í fyrra aðspurður af þingmanni sem þá hafði mikinn áhuga á húsnæðismálum og talaði oft um þann málaflokk, hæstv. núv. samgrh., sem spurði félmrh. að því hvort ástæða væri til þess að ætla að vextir mundu hækka þegar húsbréfakerfið yrði opnað 15. maí fyrir kaup á eldri íbúðum. Svar hæstv. félmrh. var eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Þegar það opnast núna 15. maí fyrir það fólk sem vill nýta sér húsbréfakerfið til kaupa á eldri íbúðum spurði hv. þm. hvort ástæða væri til að ætla að raunvextir mundu hækka við það. Ég tel ekki ástæðu til að ætla það.``
    Hæstv. félmrh. taldi ekki ástæðu til þess að ætla að frekari útgáfa húsbréfa mundi hækka raunvexti. Hver hefur reyndin orðið? Menn verða að átta sig á því að þegar við erum með takmarkað magn af fé sem hægt er að sækja í og ásóknin er aukin í þetta takmarkaða fé, þá leiðir það ekki til neins annars en gengisfellingar á þeim pappírum sem menn eru að reyna að selja í skiptum fyrir peninga. Eins og menn hugsa sér húsbréfakerfið í dag, þá þýðir það að menn muni gefa óhemjumagn út af þessum húsbréfum, bæði á þessu ári og næstu árum. Húsbréfin verða því sá pappír í umferð sem er langmestur að umfangi. Vilji menn selja slíka pappíra, eins og nauðsynlegt verður til þess að fjármagna þetta húsbréfakerfi, verða húsbréfin að vera besti ávöxtunarkosturinn á markaðnum. Að öðrum kosti munu þessi bréf ekki seljast í neinum verulegum mæli. Það þýðir einfaldlega að ávöxtunarkrafan verður að vera hæst af húsbréfum borið saman við aðra pappíra. Við sjáum hver þróun er að verða með ríkisskuldabréfin. Raunávöxtun á þeim er komin upp í 7,9%. Því miður eru engar horfur á því að afföllin af húsbréfunum muni neitt lækka á næstunni í ljósi þessa. Ég sé í rauninni ekki ástæðu til þess að ætla annað, því miður, en að afföllin muni aukist og þau muni verða viðvarandi á næstunni.
    Það er því alveg ljóst í mínum huga að húsbréfakerfið er komið út í ákveðnar ógöngur sem bitna eingöngu á því fólki sem í raun og veru er ætlunin að hjálpa. Það eru fleiri milljarðar sem menn eru að henda í þessi markaðsviðskipti og menn geta svo sem gert sér það í hugarlund hverjir það eru sem hirða þessa peninga.
    Ég vil nefna líka greiðsluerfiðleikalánin sem menn eru nýlega búnir að opna í þessu húsbréfakerfi með reglugerð frá 21. jan. sem á að gilda í tæpt ár og af þeim tíma eru liðnir núna fjórir mánuðir. Það eru nú þegar komnar um 1100 umsóknir um greiðsluerfiðleikalán. Meðalupphæð á þeim lánum sem búið er að afgreiða er um 3,3 millj. kr. Miðað við þessi afföll geta menn reiknað út hvað hver og einn er látinn borga í afföll til þess að geta fengið fyrirgreiðslu hjá Húsnæðisstofnun ríkisins til að koma einhverju lagi á sín fjármál. ( Félmrh.: Hvað kostar það fólk að vera

í vanskilum?) Það kostar býsna mikið fyrir fólk að vera í vanskilum. En ég vil benda hæstv. félmrh. á það að ef fólk hefur eitthvert fé til þess að semja við lánastofnanir og aðra lánardrottna, þá geta menn samið um afslátt á sínum skuldum, gert þær upp fyrir minni upphæð en fullkomlega uppreiknuð skuld gefur tilefni til. Með þessum húsbréfum er enginn afsláttur veittur, ekki ein einasta króna. Þeir sem eru að gera upp sínar vanskilaskuldir með húsbréfum verða að borga þær alveg upp í topp með lögfræðikostnaði, dráttarvöxtum og öllu. Og það er nú býsna hart fyrir fólk að jafnvel ríkisbankar eru farnir að taka þessi afföll af pappírum sem ríkissjóður Íslands ábyrgist.
    Nú er ég kannski kominn að nokkru leyti út fyrir þessa skýrslu um ríkisfjármál þegar ég er farinn að ræða svona mikið um þetta húsbréfakerfi og ég hygg að rétt væri að taka upp þessa umræðu síðar. Það mun örugglega gefast tækifæri til þess. En ég vil benda mönnum á það að engar líkur eru á því að sú aðgerð að loka 1986 - kerfinu og vísa því fólki sem þar hefur beðið í biðröð eftir afgreiðslu yfir í húsbréfakerfið muni minnka lánsfjárþörfina. Ég bendi á það að í húsbréfakerfinu geta menn fengið mun hærra lán en í 1986 - kerfinu. Mér sýnist því að menn séu í raun og veru að taka ákvörðun um það með þessu að heildarlánsfjárhæðin til þessa hóps verði hærri en hún hefði orðið í gamla kerfinu. Ég get ekki séð að gert sé ráð fyrir því í þessari skýrslu um ríkisfjármál að svo muni verða með þennan hóp sem eru nokkur þúsund manns og ég sé ekki heldur að það sé gert ráð fyrir því að allt stefnir í það að greiðsluerfiðleikalánin verði mun hærri í heildina tekið á þessu ári en áætlað er. Það kom fram hjá hæstv. félmrh. að á þessu ári væri áformað að 1 -- 1,5 milljarður kr. færi í greiðsluerfiðleikalán. Miðað við þann fjölda sem nú þegar hefur sótt um eftir 4 mánuði af 12, sem eru 1100 manns, og það að meðalupphæð lána er 3,3 millj. má ætla að þessi upphæð fari verulega fram úr þessari áætlun.
    Ég held að ég láti hér staðar numið. Það hefði vissulega verið ástæða til þess að fara frekar yfir einstaka liði í þessari skýrslu en ég læt þetta gott heita, enda orðið áliðið nætur eða snemma dags og ég held að það sé svo sem komið nægilegt fyrir hæstv. fjmrh. að moða úr í bili.