Ríkisfjármál 1991
Fimmtudaginn 30. maí 1991


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Það hafði verið um það rætt að reyna að stytta þinghald í dag og við kvennalistakonur höfum gert okkar til þess að svo mætti verða, en eftir ræðu félmrh. hér áðan sé ég ekki ástæðu til að reyna neitt sérstaklega að skera niður mitt mál. Mér finnst ýmislegt hafa komið þar fram sem ástæða er til þess að svara. Ég mun taka mér tíma í það en ég ætla mér hins vegar ekki að taka meiri tíma en nauðsyn krefur og mun reyna eftir bestu getu að hafa mál mitt stutt.
    Ég taldi mig hafa flutt hér í gær ræðu um húsnæðismálin sem hefði verið málefnaleg. Ég tók bæði galla og kosti á 1986 - kerfinu og ég tók líka galla og kosti á húsbréfakerfinu. Ég gekk meira að segja svo langt að lýsa því yfir að ég teldi húsbréfakerfið í grundvallaratriðum gott. Ég leyfði mér hins vegar að gagnrýna ýmsar hliðar á því og það skyldi ég auðvitað ekki hafa gert. Vei mér fyrir það. Vei mér fyrir það að segja nokkurn skapaðan hlut misjafnt um þetta húsbréfakerfi. Það var a.m.k. að skilja hér á félmrh. í pontunni áðan, og heggur þar sá er hlífa skyldi.
    Hæstv. félmrh. hélt því fram að ég hefði misskilið sitthvað en mér finnst félmrh. eiginlega hafa misskilið flest í mínu máli. Hún hélt því fram að ég hefði sagt hér í pontunni að húsbréfin væru til þess að fjármagna neysluna. Þar var ég að vísa í orð hv. 1. þm. Austurl. sem ræddi um þessi mál. Hann taldi og telur og sagði það hér áðan að húsbréfin séu notuð til þess að fjármagna neysluna. Ég benti á að þetta væri vissulega rétt að ákveðnu marki en þetta hefði líka gilt í 1986 - kerfinu. Ef hæstv. félmrh. hefði hlustað þá hefði hún tekið eftir því og ekki þurft að leggja mér orð í munn í pontunni áðan.
    Ég gerði aukningu til húsnæðislánakerfisins að umtalsefni í gær. Þar sagði félmrh. að hefði verið misskilningur á ferðinni hjá mér. Það er enginn misskilningur á ferðinni, það hefur orðið mikil aukning á fjármagni til húsnæðislánakerfisins með einum og öðrum hætti. Það er vissulega komið meira á eina hendi en áður var, en aukning hefur samt orðið. Ég taldi það upp í gær að það hefðu farið 12,3 milljarðar inn í húsnæðislánakerfið á árinu 1986 og núna eru þessir milljarðar komnir upp í 20,5 eða voru á síðasta ári. Vissulega veit ég að á þessum tíma, árið 1986, var talsvert lánað af lífeyrissjóðslánum til húsbygginga og ég veit að það voru líka bankalán. En það þarf enginn að segja mér að þar hafi verið 8 milljarðar á ferðinni. Það hefur orðið aukning, hvort sem menn vilja horfast í augu við það eða ekki. Spurningin er auðvitað sú: Höfum við efni á þessari aukningu? Eins og hv. 1. þm. Austurl. benti á verða þá að vera til peningar til þess að lána og það verða að vera til peningar sem ekki þarf að lána á okurvöxtum.
    Afföllin bar hér á góma. Hæstv. félmrh. hélt því fram að íbúðarkaupendur bæru ekki afföllin nema þau kæmu fram í fasteignaverði og hæstv. félmrh. hélt því fram að þau hefðu ekki komið fram í fasteignaverði því fasteignaverð væri stöðugt. Það kann að vera að

fasteignaverð hafi verið heldur stöðugra en oft hefur verið en engu að síður er það svo að þegar fólk er að leita sér að íbúð þá eru tvö verð í gangi. Það er annars vegar verð sem er svokallað staðgreiðsluverð og hins vegar verð ef greitt er með húsbréfum. Í bæklingi sem Húsnæðisstofnun gaf út, líklega fyrir svona eins og einu ári, var húskaupendum bent á það að hefðu þeir húsbréf þá jafngilti það staðgreiðslu. Þeir gætu farið með þessi húsbréf og fengið lægra verð út á þau. Nú er staðreyndin bara allt önnur. Þeir sem koma með peningana fá staðgreiðsluafsláttinn. Þeir sem koma með húsbréfin fá hann ekki. Staðreyndin er allt önnur heldur en gefin var upp í bæklingnum frá Húsnæðisstofnun ekki alls fyrir löngu. Kannski stendur þetta enn í þessum bæklingum, ég hef ekki skoðað nýjustu útgáfuna.
    Hæstv. félmrh. hélt því fram að umræðan hér á Alþingi ætti þátt í afföllunum og það hefur nú reyndar verið bent á fásinnuna í því af hv. 5. þm. Vestf. Hún hélt því líka fram hér í gær að það væri raunverulega fjölmiðlum að kenna hver afföllin væru orðin. Það er alltaf einhverjum öðrum að kenna. Málið er að þetta kerfi er að vissu marki gallað þó maður geti engu að síður sagt að það sé í grundvallaratriðum gott. En það eru þarna gallar. Það er of mikið af húsbréfum í umferð, það er of mikið af fjármagni í umferð.
    Hæstv. ráðherra hélt því fram að kostirnir væru aldrei dregnir fram, bara gallarnir. Ég verð að segja að mér finnst þetta dálítið barnalegar yfirlýsingar af hálfu félmrh., því umræðan sem ég hef orðið vitni að hér um þessi mál hefur verið málefnaleg og menn hafa séð kostina í húsbréfakerfinu. Félmrh. hélt því hér fram að húskaupendum væri enginn greiði gerður með því að vera með þessa gagnrýnu umræðu hér á þingi. Þeim er heldur enginn greiði gerður með því að félmrh. stingi höfðinu í sandinn og neiti að horfast í augu við staðreyndir.
    Mér var borið það líka á brýn af hæstv. félmrh. að ég hefði reynt að gera greiðsluerfiðleikalánin tortryggileg með því að taka eitt tiltekið mál og blása það upp. Ég er svo sannarlega ekki á móti því að fólk fái greiðsluerfiðleikalán en það sem ég var að benda á var sú sjálftaka sem á sér stað inni í húsbréfakerfinu, að fólk skuli geta komið og fengið 9,4 millj. kr. í greiðsluerfiðleikalán og jafnvel að fólk skuli yfirleitt geta komið og fengið 9,4 millj. kr. lán í þessu lánakerfi þar sem fjármunir eru af skornum skammti. Það var það sem ég var að gagnrýna í grundvallaratriðum, ekki það að fólki væru veitt greiðsluerfiðleikalán. Og það er útúrsnúningur, hæstv. félmrh., á mínu máli að setja það svona fram eins og gert var áðan.
    Hæstv. félmrh. benti á að það væru kannski aðeins liðlega 20 manns sem hafa fengið greiðsluerfiðleikalán yfir 5 millj. kr. Það kann vel að vera satt. En spurningin stendur engu að síður um það, eigum við að veita svona há lán, hvort sem þau heita greiðsluerfiðleikalán eða almenn húsbréfalán?
    Hæstv. félmrh. vék svo að því sem ég sagði um breytinguna á lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána. Sú breyting var gerð á þinginu í vor, daginn fyrir þinglausnir. Ég tel, og er í rauninni orðin enn staðfastari í því, að margir þingmenn hafi ekki áttað sig á því sem hér var að gerast. Hér gerast hlutir mjög hratt síðustu daga fyrir þinglok og eflaust hafa sumir hverjir vitað vel hvað hér fór fram en aðrir hafa ekki áttað sig á því. Hæstv. félmrh. sagði að hún hefði ekki skilið það sem ég sagði um greiðslujöfnun fasteignaveðlána. Hún hefði ekki skilið mín orð. Eins og ég sagði fyrr þá held ég að hún hafi yfirleitt ekki skilið mína ræðu eða a.m.k. kosið að skilja hana ekki. Hæstv. félmrh. sagði að þessi lög hefðu verið sett til þess að vaxtahækkun myndaði grundvöll til vaxtabóta. Vissulega gerist það með þessum lögum. En vaxtabótarétturinn skiptir bara engu máli. Hefðu lögin verið óbreytt, þá hefði greiðslubyrði fólks á hverju ári ekki aukist þrátt fyrir vaxtahækkun, heldur hefði lánstíminn lengst. Og það sem skiptir okkur öll máli sem erum að kaupa húsnæði er greiðslubyrðin á ári hverju. Hefði lögunum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána ekki verið breytt hefði lánstíminn einfaldlega lengst með raunvaxtahækkuninni en greiðslubyrði fólks orðið sú sama. Og það veit hæstv. félmrh. vel því lögunum var í rauninni breytt til þess að fá aukið fjármagn inn í Byggingarsjóð ríkisins. Það var aðalatriðið. Aðalatriðið var ekki að mynda rétt til vaxtabóta. Það sem ég sagði var að að óbreyttum lögum skipti það engu máli fyrir það fólk sem hefði fengið á sig raunvaxtahækkun þó það myndaðist ekki við það réttur til vaxtabóta vegna þess að það sem fer inn á jöfnunarreikninginn greiðist undir lok lánstímans. Það bætist við höfuðstólinn og greiðist upp undir lokin. Þá á fólk orðið það mikið í sinni eign að þó það hafi formlega rétt til vaxtabóta hefur það engan raunhæfan rétt til þeirra.
    Félmrh. ræddi lítillega um íbúðir fyrir aldraða og sagði að það hefðu verið veitt lán til 600 íbúða fyrir aldraða sem fá nú á sig vaxtahækkun úr 3,5 og 4,5% í 4,9%. Félmrh. svaraði því hins vegar ekki einu orði hvort þessi hópur hefði verið skoðaður sérstaklega, en sú var mín spurning, og hvort hugsanlegt væri að hann nyti lægri vaxta en þeirra sem nú tóku gildi almennt í Byggingarsjóði ríkisins, þ.e. á þessum lánaflokki væru ekki hærri vextir en er á almennum kaupleiguíbúðum. Sú var mín spurning og henni var ekki svarað hér og því var ekki svarað hvort þessi hópur hefði verið tekinn til sérstakrar skoðunar við þessa vaxtahækkun.
    Áður en ég fer héðan úr pontu langar mig til þess að lesa upp ályktun sem samþykkt var á útifundinum á Lækjartorgi sem haldinn var vegna, eins og það var kallað, vaxtaokurs og svika í húsnæðismálum. Ályktunin er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Útifundur á Lækjartorgi 30. maí 1991 mótmælir harðlega fram komnum vaxtahækkunum ríkisstjórnarinnar og varar við afleiðingum þeirra. Hækkun vaxta stríðir gegn markmiðum gildandi kjarasamninga og veldur enn frekari vaxtahækkunum í fjármagnskerfinu. Launafólk sættir sig ekki við að ávinningur af þjóðarsátt þess sé færður fjármagnseigendum á silfurfati með því að kynda undir vaxtaokri.`` --- Ég er tilbúin til þess að gera hlé á lestrinum meðan alþýðuflokksmennirnir ráðgast hérna, ég held þeir hefðu gott af því að heyra þessa ályktun.
    ,,Fundurinn fordæmir þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hækka vexti á húsnæðislánum afturvirkt til ársins 1984. Með þessu móti eru settar enn meiri álögur á húsnæðiskaupendur og kaupmáttur þeirra skertur.
    Fundurinn mótmælir harðlega þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að loka biðröðinni í almenna húsnæðislánakerfinu frá 1986 og svíkja þar með gefin fyrirheit. Þá mótmælir fundurinn því að ekki skuli staðið við lagabreytingar um að hækka lánshlutfall í húsbréfakerfinu í 75% af matsverði úr 65% fyrir þá sem eru að kaupa í fyrsta skipti. Fundurinn krefst þess að horfið verði frá öllum afturvirkum hækkunum og stjórnvöld, fjármagnskerfi og lífeyrissjóðir sameinist um að lækka vexti.
    Útifundur á Lækjartorgi krefst þess að hægt sé að treysta forsendum og fyrirheitum. Of lengi hafa stjórnvöld leikið sína séríslensku rúllettu í húsnæðis- og vaxtamálum með fjármuni launafólks og skuldbindingar að veði.``
    Það er kannski ástæða til þess að félmrh. kynni sér þessa ályktun vegna þess að hún hefur nú farið með þennan málaflokk nokkuð lengi, gefið ýmis fyrirheit og ýmis loforð þannig að það stendur ekki síst upp á hana að standa við þau.