Þingsköp Alþingis
Fimmtudaginn 30. maí 1991


     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Þannig háttar til að ég kom að þessu máli á sínum tíma sem þingflokksformaður Alþfl. og átti ásamt öðrum þingflokksformönnum nokkurn þátt í að móta þær tillögur sem sigla nú hraðbyri til þess að verða lög. Einnig hafði ég raunar átt sæti í nefnd sem endurskoðaði þingsköp á sínum tíma þar áður. Ég hef skrifað undir þetta nál. án fyrirvara og styð þær breytingar sem hér er gert ráð fyrir að verði að lögum.
    Að vísu skal það fúslega játað að um einstök atriði hér má hafa margar skoðanir og rökstyðja allar vel. Það er eitt atriði sem ég vil aðeins nefna í þessari umræðu sem ég er ekki fullsáttur við, enda þótt ég hafi um það ekki gert neinn ágreining og muni ekki gera það. Ég held að það sé misráðið þegar fyrirspurnir eru til umræðu að aðrir tali en fyrirspyrjandi og sá ráðherra sem svarar, einfaldlega vegna þess að þær ræður sem þar verða fluttar verða yfirleitt hvorki fugl né fiskur og bæta litlu við umræðuna. Ef menn vilja ræða þau mál sem ber á góma í fyrirspurnum þá geta menn auðvitað tekið þau upp með öðrum hætti. En ég geri engan ágreining enda er þetta minni háttar mál. Ég held að efnislega hefði verið skynsamlegra að hafa þetta þannig að eingöngu fyrirspyrjandi og sá sem svarar tækju til máls.
    Ég held að við séum hér á merkum tímamótum og get alveg heils hugar tekið undir með hv. 9. þm. Reykv. um það að nú getur orðið mikil breyting og breyting til batnaðar í störfum þingsins. En það er eins og ævinlega að veldur hver á heldur og það erum við öll sem eigum hér sæti og forsætisnefnd og forseti. Það er því ákaflega mikið undir því komið hvernig framkvæmdin verður á þessum lögum. Textinn er ekki nema hálf sagan, hvernig framkvæmdin verður skiptir auðvitað mjög miklu máli.
    Mér hefði fundist líka að stíga hefði mátt nokkru lengra í þá átt að setja skorður við löngum ræðuhöldum. En mér er alveg ljóst að það er umdeilt efni og ágreiningsefni margra hér. En ég held að það hafi ekki skaðað að settar verði þrengri skorður í þeim efnum. En einkanlega held ég þó og tek þar enn og aftur undir með hv. þm. Svavari Gestssyni að það þurfi kannski svolítið meiri þroska, held ég að hann hafi sagt eða eitthvað í þá veruna. Ég held að það eigi að gera miklu meira af því en gert hefur verið að þingflokkar geri með sér samkomulag, þegar verið er að ræða meiri háttar mál, um það hvernig umræðan skuli fram fara. Og að það samkomulag haldi. Oft hafa verið gerðar slíkar tilraunir þingflokksformanna og forseta um það að ætla umræðu um ákveðið efni svo og svo langan tíma. En það hefur nú verið allur gangur á hvernig það hefur haldið. Ég held að það mundi verða mjög til bóta og gera umræðu alla og umfjöllun mála hér á löggjafarþinginu markvissari, einbeittari og áheyrilegri ef menn kæmu sér saman um ramma fyrir umræður þar sem ræður væru ekki mjög langar. Ég held að það sé meginatriði og það sem kannski skilur þinghaldið hér hjá okkur mest frá því

sem tíðkanlegt er t.d. á Norðurlöndunum er þessi ómarkvissa umræða út um víðan völl.
    Sömuleiðis held ég, eins og var raunar vikið að hér áðan, að þetta með að kalla þing saman utan hins hefðbundna þingtíma sé nauðsynlegt og gott og gagnlegt alveg burt séð frá því hvaða meginmál er til umfjöllunar. Þá er ég ekki að tala sérstaklega um samningana um Evrópskt efnahagssvæði, alls ekki, bara önnur mál sem eru mikilvæg. Til þess að ríkisstjórn, hver sem hún er, og það veit ég að hv. þm. Svavar Gestsson og fleiri hér geta tekið undir, að forsenda þess að þing verði kallað saman er auðvitað sú að það verði samkomulag um þinghaldið í öllum meginatriðum og þingið sé kallað saman af sérstöku tilefni til að ræða sérstakt mál og menn virði það samkomulag, enda þótt freistandi sé að efna til flugeldasýninga af ýmsu tagi undir slíkum kringumstæðum. Þá verða menn líka að sýna þann þroska, svo ég noti aftur það orð, að hafa þinghaldið skipulegt, samfellt og láta það snúast um það mál sem kveikti umræðuna. Þetta held ég að skipti ákaflega miklu máli.
    Ég endurtek og legg á það þunga áherslu að ég held að það sé jafnmikið komið undir framkvæmd þessara þingskapa og hinum skrifaða texta sem hér liggur fyrir og það veltur því á miklu hvernig til tekst um framkvæmdina. Sjálfsagt má það vera rétt og eðlilegt að þessi þingsköp verði endurskoðuð mjög fljótlega í ljósi fenginnar reynslu því áreiðanlega mun nauðsynlegt reynast að gera á þeim einhverjar breytingar.
    Einu atriði langaði mig, herra forseti, til að víkja að áður en ég lýk máli mínu og það var atriði sem hv. 15. þm. Reykv. nefndi hér áðan varðandi það að í raun er hægt að samþykkja með einu já - atkvæði við nafnakall. Þetta er auðvitað rétt ábending og yfirborðsrökin sem hafa verið flutt í því máli hljóma nokkuð vel. En um þetta var ítarlega rætt og fjallað í nefndinni sem málið fékk til umfjöllunar í þessari hv. deild. Auðvitað er það svo að í rauninni er enginn munur á því hvort það er einn sem segir já eða hvort það eru 17 sem segja já, vegna þess að það er alltaf mikill minni hluti og ég sé ekki að það séu rök í sjálfu sér. Hins vegar eru meginrökin þau að með því að greiða ekki atkvæði eru þingmenn auðvitað að taka afstöðu í málinu. Ég skil að sumu leyti þann málflutning sem þeir sem hafa þessar skoðanir hafa hér í frammi. En ég get ekki á hann fallist og mér heyrðist það vera mjög almenn skoðun í nefndinni þegar þetta var rætt að það hafði ekki hljómgrunn.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð fleiri. Ég held að hér sé verið að vinna mjög gott verk og ég get út af fyrir sig tekið undir með þeim sem hér hafa sagt að það er miður og mér þykir það persónulega miður að upp skuli hafa komið ágreiningur nokkur um nefndarkjör á síðustu stigum málsins. Ég tek undir það. Mér þótti það miður og hefði verið betri svipur á því ef þetta hefði getað til efnda gengið í góðu samkomulagi. En það er nú bara eins og hlutir gerast hér og varð ekki við gert í þessu tilviki. En hér er verið að vinna gott verk og ég vona að það verði

störfum á hinu háa Alþingi til góðs.