Málefni EES
Föstudaginn 31. maí 1991


     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Tilefni þess að ég bað um þessar umræður hér er frétt í Morgunblaðinu fyrir tveimur dögum síðan undir fyrirsögninni: ,,Tilbúnir til tvíhliða viðræðna jafnhliða EES - viðræðunum.`` Þar er haft eftir aðalsamningamanni bandalagsins að bandalagið sé reiðubúið til að hefja tvíhliða viðræður við Íslendinga og Norðmenn um þessi mál, en áður hafði hann sagt að EB legði ríka áherslu á það að EFTA - ríkin veittu EB - ríkjum einhver veiðiréttindi. Ég vil því spyrja hæstv. utanrrh. vegna þess að mér finnst hans svör ekki vera nægilega skýr:
    1. Eru þessar viðræður aðeins framhald þeirra viðræðna um sjávarútvegsmál sem hafa farið fram allt frá árinu 1976?
    2. Er verið að flytja deiluna um að veiðiheimildir komi í stað frekari tollívilnana yfir í formlegar tvíhliða viðræður, þ.e. verður sú krafa uppi á borðinu í þeim viðræðum af hálfu Efnahagsbandalagsins að veiðiheimildir komi í stað tollívilnana?
    3. Við hverja munu þessar viðræður fara fram? Er það eingöngu við DG 14 sem ég veit að hæstv. utanrrh. kannast við?
    Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög varhugavert að flytja þessa deilu yfir í tvíhliða viðræður á þessu stigi. Ég get fallist á það að áfram verði kannað hvort mögulegt sé að ná rammasamningi um sjávarútvegsmál og að því loknu sé rétt að taka afstöðu til þess hvort gengið sé til formlegra, tvíhliða viðræðna sem ræðst að sjálfsögðu fyrst og fremst af því hvort krafan um veiðiheimildir er uppi á borðinu af hálfu Evrópubandalagsins. Hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða og það er afar mikilvægt að hæstv. utanrrh. tali skýrt í málinu og fari rétt með. Hann segir hér í þessu viðtali, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Að því er varðar okkur Íslendinga, þá höfum við áréttað við EB að okkar tilboð frá tíð fyrrv. sjútvrh. frá 1987 um að vera tilbúnir til viðræðna um rammasamning um fiskveiðimálefni á grundvelli tvíhliða samskipta standi.``
    Ég vil í þessu sambandi vitna til þess sem þar fór fram og hæstv. utanrrh. hefur stundum vitnað til áður. Þar kom fram að hér væri um að ræða að taka upp þráðinn aftur frá viðræðum sem stóðu frá 1976 til 1983 og annað ekki. Þetta kemur fram í fundargerð á fundi frá 7. mars, sem þáv. sjútvrh. ásamt embættismönnum átti við Manuel Marin, og þann 29. mars 1990 var fundur um þessi mál í sjútvrn., en þar kom fram: ,,Bandalagið lítur ekki á gerð slíks samnings, þ.e. rammasamnings, sem eftirgjöf af Íslands hálfu. Fyrir frekari viðskiptaívilnanir fyrir íslenskar sjávarafurðir yrðu að koma tilslakanir á sjávarútvegssviðinu í formi fiskveiðiheimilda til handa bandalaginu.``
    Ég vil þess vegna taka fram að þessar viðræður fóru ekki fram 1987 eins og hæstv. utanrrh. sagði í þessu viðtali heldur 1989 og þar var ekki um neitt tilboð að ræða, heldur voru þær viðræður áframhald viðræðna sem hafa staðið allt frá 1976. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að hæstv. utanrrh. fari rétt með

þessi mál ef hann vill ástunda góð samskipti og hafa góða samvinnu um úrlausn þessara mjög svo mikilvægu mála. Mér er það mjög vel ljóst að hann er þar í erfiðu hlutskipti og þarf á samstöðu að halda, en hann verður þá að fara rétt með mál í þessu viðkvæma máli.