Málefni EES
Föstudaginn 31. maí 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það sem komið hefur fram varðandi samningaviðræðurnar um Evrópskt efnahagssvæði og það sem Ísland varðar, krafa EB um sérstakar viðræður við Íslendinga og einnig Norðmenn að upplýst er, eru auðvitað veruleg tíðindi. Það sem hér virðist vera að gerast er það að EFTA - ríkin eru ekki lengur að tala einni röddu við Evrópubandalagið í þessum viðræðum. Það er verið að hverfa frá þeirri grundvallarafstöðu, sem mótuð var við upphaf EES - viðræðnanna af hálfu EFTA - ríkjanna og þar á meðal Íslands, að ætti eitt yfir alla að ganga í þessum viðræðum, þ.e. að EFTA - ríkin tefldu þar saman til loka. Nú er það að gerast að hluti af EFTA - ríkjunum beinir Evrópubandalaginu til sérviðræðna við Íslendinga um sjávarútvegsmál og við Norðmenn um sjávarútvegsmál. Og á morgun fara þrír íslenskir ráðherrar til fundar við fulltrúa ríkisstjórnar Noregs til þess að ræða þessa stöðu. Þannig virðist mér málið liggja. Og það er komið að því varðandi fórnarkostnaðinn, sem hæstv. utanrrh. ræddi svo oft í fyrravetur hér á Alþingi og sem aðrir þyrftu að taka á sig í sjávarútvegsmálum, ætla nú íslenskir ráðherrar að því er virðist og samkvæmt orðum hæstv. utanrrh. að fara til Noregs og biðja um að upp á þennan fórnarkostnað verði skrifað. Ég bið um það að hæstv. utanrrh. greini hér skýrt og skilmerkilega frá því í þessum viðræðum hvort EFTA - ríkin eru sundruð í þessu máli. Krenzler, aðalsamningamaður Evrópubandalagsins, segir á blaðamannafundi: Nú verða aðilar að gefa eftir í sjávarútvegsmálunum fyrir utan umferð í gegnum Alfalýðveldin, Austurríki og Sviss.
    Þetta er auðvitað stóralvarleg staða sem hér er uppi og það er alveg nauðsynlegt að hér sé talað skýrt.
    Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp hér og það væri sannarlega þörf á því að ræða það lengur en kostur er á undir formi þessara viðræðna.