Málefni EES
Föstudaginn 31. maí 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég tel það mjög sérkennilegt í þessari stöðu að verið sé að ræða um það milli tveggja EFTA - ríkja sérstaklega, án aðildar allra EFTA - ríkjanna, hvernig eigi að jafna á merinni, hvernig eigi að tryggja jafnvægi í heildarsamningum. Ég held að það sé mjög ills viti að nú sé í raun verið að taka upp tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið af Íslands hálfu á þessari stundu. Ég held að það veiti þeim og hinum EFTA - ríkjunum sem ekki standa í okkar sporum varðandi sjávarútvegsmál færi á því að skilja okkur eftir. Og ég tel það furðulegt í raun að hér skuli koma fram yfirlýsingar eins og frá formanni utanrmn. í gær að það sé eitthvert sérstakt fagnaðarefni að nú sé að koma til tvíhliða viðræðna við Evrópubandalagið um sjávarútvegsmál á þessari stundu. Ég held að það sé mikið vanmat á stöðunni. Og ég endurtek að ég hef miklar áhyggjur af þessari stöðu eins og hún blasir við varðandi okkar hagsmuni og er þó enginn talsmaður þess að þessir samningar um Evrópska efnahagssvæðið sem slíkir gangi upp. En auðvitað hljótum við að leggjast á árar a.m.k. að það fari ekki á versta veg.