Búvörusamningur
Föstudaginn 31. maí 1991


     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Þetta er nú orðin nokkuð þrálát umræða. Hér hefur verið talað um búvörusamninginn æ ofan í æ þessa fáu daga sem þing hefur setið og hafa þó verið gefin skýr svör um efni málsins og skýrari en einstök atriði í bókunum með búvörusamningi raunar eru. Þau markmið sem sett voru með búvörusamningi voru að stuðla að því að í landinu gæti þróast hagkvæmur og öflugur landbúnaður. Það er annað markmið að lækka verð á landbúnaðarvörum. Enn er það markmið að koma á jafnvægi milli framleiðslu og sölu mjólkur- og sauðfjárafurða, að þessi hagræðing í landbúnaði komi ekki niður á afkomumöguleikum bænda og leiði til lækkunar á opinberum útgjöldum til þessarar framleiðslu. Það eru þess vegna margvísleg markmið sem sett eru.
    Eins og forvera mínum í landbrn. er kunnugt er auðvitað fjarri því að unnist hafi tími til þess síðan hann fór úr ráðuneytinu að vinna úr samningnum í einstökum atriðum svo hægt sé að gera þinginu á þessari stundu nákvæma grein fyrir því hvernig undirbúningur stendur í sambandi við einstök lög eða reglur sem setja þarf. Ég nefni m.a. í tengslum við skattalög. Og einmitt á þessari stundu situr sjömannanefndin á fundi til þess að ræða framhald þessa máls og hvernig áfram skuli unnið að því að koma meiri hagræðingu í landbúnaðinn og koma markaðs- og sölumálum hans í nútímalegra horf.
    Um hitt, hvernig beri að efna einstakar bókanir og einstök atriði í tengslum við samninginn, er óhjákvæmilegt, hæstv. forseti, að lesa hér stuttan kafla úr einni bókun sem lýtur að landrækt og skógrækt. Þar stendur m.a., með leyfi forseta: ,,Í ljósi þeirrar lækkunar á ríkisútgjöldum sem verður til lengri tíma litið, ekki síst vegna afnáms útflutningsbóta, telja samningsaðilar eðlilegt að gera kröfu,`` ég endurtek, að gera kröfu --- ,,til þess að varið verði af hálfu ríkissjóðs í tengslum við nýja landgræðsluáætlun stórauknu fjármagni til þessara verkefna á komandi árum eða um 2 milljörðum kr. út samningstímann. Slík fjárveiting kæmi til viðbótar við aðrar fjárveitingar til landgræðslu og skógræktar.`` Svo mörg voru þau orð. Ekki held ég að nokkur maður geti litið þessa kröfugerð sem skuldbindandi fyrir næsta Alþingi. Og ég held satt að segja að varla sé til sá bóndi í landinu sem ekki lítur á þetta sem yfirboð þegar því er heitið í tengslum við nýjan búvörusamning að Alþingi eigi að verja á tilteknu árabili 2 milljörðum kr. til viðbótar því sem ella yrði lagt fram í tengslum við nýja landgræðsluáætlun. Þetta er í hæsta máta mjög loðið orðalag, alls ekki skýrt og gefur ekki tilefni til þess að fjölyrða um það. Ný landgræðsluáætlun liggur fyrir. Það var unnið að henni í tíð forvera míns í landbrn. Um hana var fullkomið samkomulag milli þeirra flokka sem sitja á Alþingi og það var talið þegar frá henni var gengið að við yrðum hér í þessari stofnun fullsæmd að því að geta staðið við þau fyrirheit sem þar voru gefin.