Búvörusamningur
Föstudaginn 31. maí 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti, hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hæstv. landbrh. að þessi umræða er orðin dálítið þrálát. En ástæðan fyrir því að umræðan er orðin þrálát er sú staðreynd að það skjal sem skrifað var úti í Viðey, stefnumarkandi skjal og vitnað hefur verið í af hæstv. utanrrh. og vitað er að verður birt í hvítri bók þegar haustar, hefur ekki fengist afhent þinginu í handritsformi til yfirlestrar. Ef þetta skjal hefði nú verið afhent þinginu til yfirlestrar þá væri óvissunni eytt. Þá þyrfti hæstv. landbrh. ekki að koma hér aftur og aftur og lýsa því yfir að hann væri stuðningsmaður búvörusamningsins. Þá þyrfti hæstv. forsrh. ekki að koma hér og tala eitthvert rósamál til þess að koma í veg fyrir að utanrrh. og landbrh. rjúki saman. Þá væri vitað hvað verið væri að tala um.
    Það hlýtur að vera grundvallaratriði, ef forseti vill tryggja að þingstörf geti gengið fram með eðlilegum hætti, að upplýsingum eins og þessum sé ekki haldið leyndum fyrir þinginu.