Búvörusamningur
Föstudaginn 31. maí 1991


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með þau sinnaskipti sem orðið hafa í röðum þeirra alþýðubandalags- og framsóknarmanna er þeim finnst nú að ríkisvaldið eigi að standa við gerða samninga sem varða kjör heilu stéttanna. Ég vil rifja það upp að fyrir kosningarnar 1987 gagnrýndum við kvennalistakonur harðlega hvernig þáv. landbrh. Jón Helgason stóð að búvörusamningnum. Okkur fannst þá og finnst enn að það sé mjög óeðlilegt að ríkisstjórn geri samning sem bindur hendur næstu ríkisstjórnar. Það eru óeðlileg vinnubrögð. ( Gripið fram í: Þetta er gert í kjarasamningum.)
    Það er stefna Kvennalistans að landbúnaður skuli rekinn eins og hver önnur atvinnugrein. Það þýðir að framleiðslan verður að standa undir kostnaði við reksturinn og að smám saman verður að draga landbúnaðinn undan pilsfaldi ríkisins. Íslenskur landbúnaður er oft borinn saman við landbúnað í öðrum Evrópuríkjum og bent á að á báðum þessum svæðum er landbúnaður ríkisstyrktur. En það má benda á að íslenskur sjávarútvegur nýtur ekki ríkisstyrkja þó að sjávarútvegur í Evrópuríkjum geri það. Þarna þyrfti að koma á sama fyrirkomulagi varðandi íslenskan landbúnað enda er slík verndarstefna á undanhaldi í heiminum.
    Íslenskur landbúnaður er að ganga í gegnum mjög sársaukafullar breytingar og þær eiga eftir að verða meiri líkt og gerðist t.d. í Danmörku þegar danskir bændur voru að aðlagast aðildinni að Evrópubandalaginu. En hér erum við að sumu leyti að glíma við annan vanda sem byggist m.a. á offramleiðslu og tæknibreytingum auk þeirrar miðstýringarkreppu sem íslenskur landbúnaður er í.
    Að mínum dómi gekk nýi búvörusamningurinn of skammt í nauðsynlegri aðlögun að ríkjandi aðstæðum enda var gengið mun skemmra en sjömannanefndin lagði til. Þessi búvörusamningur er gallaður að því leyti að þar er ekki tekið á verðmyndun, ekki tekið á vinnslu eða dreifingu landbúnaðarvara og þar er ekkert tillit tekið til landnýtingarsjónarmiða við fyrirhugaðan niðurskurð. Það er því nauðsynlegt að halda áfram því verki sem hafið er, að endurskoða landbúnaðarkerfið og létta af ríkissjóði miklum skuldbindingum sem hann hefur gagnvart landbúnaðinum. En samningur er samningur og hann á að virða, hvort sem hann er gerður við bændur eða BHMR. Og það hlýtur að vera ljóst að það er of seint að taka búvörusamninginn til endurskoðunar og breyta honum hvað varðar þetta ár. Bændur hafa þegar keypt sinn áburð og skipulagt sinn rekstur og það má ekki koma aftan að þeim með þeim hætti að rifta gerðum samningum. En að sjálfsögðu getur ríkisstjórnin skoðað þennan samning í samráði við bændur, og það er mjög mikilvægt. Ef það er vilji ríkisstjórnarinnar að endurskoða búvörusamninginn verður það að sjálfsögðu að gerast í samvinnu við bændur. Önnur vinnubrögð eru stjórnvöldum ekki sæmandi. Og ég ítreka þá spurningu sem hér hefur verið borin fram: Verður það ekki gert? Verður ekki staðið við samninginn og ef til endurskoðunar kemur, verður það þá ekki gert í samráði við bændur?