Búvörusamningur
Föstudaginn 31. maí 1991


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Vegna þessara umræðna vil ég taka fram að ekkert af því sem fram kom í mínum orðum fyrr við umræðuna stangaðist á við það sem hæstv. landbrh. hafði sagt. Ég fór yfir efnisþættina og ég vakti athygli á því að óheppilegt hefði verið að svo umfangsmikill samningur væri gerður þegar einn stjórnarflokka, burðarás í ríkisstjórn, hefði ríka fyrirvara um slíka samningsgerð. Og í rauninni mætti segja að kjósendur í landinu hafi talið almennt að fyrir utan þennan ríka fyrirvara eins stjórnarflokksins hefðu fleiri ríka fyrirvara. Ég vil vekja athygli á því að sjálfur sérfræðingur þingsins í þingsköpum, hv. 2. þm. Vestf. Ólafur Þ. Þórðarson, efsti maður framsóknarmanna, sagðist ekki geta stutt samninginn óbreyttan. Og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, efsti maður Alþb., tók í svipaðan streng og sagði: Ég styð samninginn í meginatriðum en með ákveðnum breytingum.
    Þingflokkur Alþfl. hefur ríka fyrirvara, þingmenn Framsfl. og þingmenn Alþb. styðja ekki samninginn óbreyttan. Þetta er sá grundvöllur sem er lagður fyrir kjósendur fyrir kosningarnar sl. vor. Það fer því ekki vel á því að tala með þeim hætti sem þingmenn hafa talað hér.
    Varðandi spurningar sem til mín var beint, hvort ég styddi minn landbrh., þá geri ég það að sjálfsögðu og geri engar athugasemdir við neitt í hans svari áðan.
    Varðandi lögfræðilegt álit ríkislögmanns er þar um að ræða minnisblað sem beðið var um. Það var beðið um minnisblað varðandi tvo þætti, annars vegar lagalegan grundvöll nýgerðs búvörusamnings, vegna þessa ríka fyrirvara eins stjórnarflokksins og vegna þess að tekið er fram að samningurinn er háður því að tilteknar lagabreytingar verði gerðar. Í annan stað var óskað eftir því að farið yrði yfir það hvaða lagabreytinga þarna væri verið að vitna til, hvaða lagabreytingar væru nauðsynlegar til þess að hægt væri að efna samninginn samkvæmt efni hans.
    Við höfum fengið áfangaálitsgerð frá ríkislögmanni og mér finnst eðlilegt að þegar ný landbn., sem starfar milli þinga, hefur verið kosin fái sú nefnd þessi plögg til skoðunar.
    Varðandi leyniskjalið fræga sem spurt var um þá hefur því þegar verið svarað. (Gripið fram í.) Þeirri spurningu hefur þegar verið svarað, hv. þm., og ekki bara einu sinni heldur margoft. En ég vek athygli á því að meginatriðið í samkomulagi stjórnarflokkanna sem lýtur að þessum þætti snýr ekki endilega að búvörusamningnum sem slíkum, heldur að taka til rækilegs endurmats vinnslu og dreifingu og markaðs- og sölumál í þessum mikilvæga þætti. Um það er enginn ágreiningur í ríkisstjórninni frekar en um annað hvað þennan málaflokk varðar, hversu mjög sem menn reyna að sýna fram á hið gagnstæða. Ástæðurnar fyrir því að menn eru með umræður af þessu tagi eru auðvitað þær að það var gengið frá þessu máli með þessum hætti af hálfu fyrrv. ríkisstjórnar. Það var gengið til svo viðamikils samnings án þess að allir

stjórnarflokkarnir stæðu á bak við hann og meira að segja þeir stjórnarflokkar sem þóttust standa að baki samningsins höfðu menn innan borðs eins og hv. 2. og 5. þm. Vestf. sem höfðu sjálfir ríka fyrirvara gagnvart þessum samningi.