Búvörusamningur
Föstudaginn 31. maí 1991


     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. upplýsti að hann vilji standa við samninginn í meginatriðum. Ég hlýt að taka undir það með hv. 2. þm. Vestf. að það er afar illt að fá ekki að sjá þetta sérstaka stefnuskjal sem hæstv. utanrrh. upplýsti að skrifað hefði verið úti í Viðey. Hver eru þessi meginatriði sem hæstv. forsrh. vill standa við?
    Ég vil hins vegar leiðrétta hæstv. forsrh. þegar hann fullyrðir að m.a. Framsfl. sé sömu skoðunar. Hér er um afar viðkvæma samninga að ræða og vissulega skiptar skoðanir á milli þingmanna en þingflokkur framsóknarmanna tók þá afstöðu að styðja þennan samning og það gerðum við framsóknarmenn í ríkisstjórn, svo við styðjum samninginn eins og hann er og það er ekki unnt að draga út úr þessum samningi einstök atriði og ætla að standa við önnur en ekki þau.
    Þótt óljós væru svör hæstv. landbrh. vil ég þó skilja hann svo að hann vilji standa við öll meginatriði samningsins.
    Eitt af meginatriðum samningsins er að ná fram lækkun á landbúnaðarafurðum og þar gerðu hv. alþýðuflokksmenn hvað þyngstar athugasemdir. Nú er það hins vegar að gerast, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, að vextir í bönkunum hækka töluvert meira en hæstv. ríkisstjórn hækkaði vextina og reið á vaðið með. M.a. er mér tjáð að afurðalánavextir hækki meira en allir aðrir vextir í landinu. Afurðalánavextir hækka úr 14,25%, ef ég man rétt, í 18,50%, a.m.k. hækka þeir meira en allir aðrir vextir í landinu og það eru afurðastöðvarnar sem fyrst og fremst bera þessa vexti. Hvað halda hv. þm. að þessi mikla vaxtahækkun muni hafa í för með sér? Mun hún hafa í för með sér lækkun á verði landbúnaðarafurða? Það væri kannski rétt að hæstv. viðskrh. svaraði þeirri spurningu. Hann er manna kunnugastur vaxtakerfinu í þessu landi.
    Hér er vitanlega hafin sú sprenging sem hlýtur að hafa það í för með sér að verðlag rýkur upp úr öllu valdi. Það kom mjög ítarlega fram í þeirri skýrslu sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór yfir í gær að lækkun fjármagnskostnaðar atvinnuveganna á hvað stærstan þátt í því að það hefur tekist að halda niðri verðlagi á tíma þjóðarsáttar til þessa. Og m.a. tókst að halda niðri verði á landbúnaðarafurðum betur en á nokkru öðru í þessu landi. Landbúnaðarafurðir hafa á einu ári aðeins hækkað um u.þ.b. 2%. Heldur hæstv. ríkisstjórn að þessi mikla hækkun á afurðalánavöxtum leiði til þess að svo verði áfram?
    Vitanlega hefði þurft, virðulegi forseti, að fá umræðu um þessa vaxtasprengingu og ekki takmarkaða heldur í allan dag. Ég hef þó ekki viljað fara fram á það. Ég er sannfærður um það að þeir beinverkir, sem nú hljóta satt að segja að hrjá hæstv. ríkisstjórn, og þau mótmæli sem heyrast alls staðar á landinu séu næg viðvörunarorð.