Búvörusamningur
Föstudaginn 31. maí 1991


     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Hér er tímabær umræða og væri vissulega ástæða til þess að hafa hana lengri en eina klukkustund. Nokkuð er ljóst að það mun verða eitt af okkar fyrstu verkum þegar við komum saman í haust að halda þessari umræðu áfram. En ég vildi aðeins minnast á það sem kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. þegar hann talaði um stefnuræðu forsrh. fyrir fáum dögum síðan þar sem hann sagði m.a.: ,,Við það er síðan að bæta að meðan á stjórnarmyndunarviðræðunum stóð, þótt þær stæðu yfir skamman tíma, var unnið sérstakt stefnuskjal um landbúnaðarmál sem er ítarlegra og lýsir þessu betur og er hugsað sem innlegg í þá hvítu bók sem meiningin er að gefa út á haustdögum.``
    Af þessu tilefni og vegna þess að það hefur margkomið fram í umræðum hér að menn hafa beðið um það að fá þessi skjöl hér afhent, en því hefur verið hafnað, þá vil ég beina orðum mín sérstaklega til hæstv. landbrh. í þessum efnum. Verum minnugir þess, þingmenn, að í desember árið 1990 stóð hv. þm. Halldór Blöndal hér dögum saman í ræðustól og krafðist trúnaðarskjala, vinnuskjala og undirstrikaði það nógu rækilega þá og rökstuddi rétt þingmanna til þess að fá slík skjöl afhent. Nú bið ég þennan mann, Halldór Blöndal ( Gripið fram í: Hæstv. ráðherra.), sem nú er hæstv. ráðherra, að lesa þessi ummæli, rifja þau upp og standa við stóru orðin og láta þingmenn hafa þessi vinnuskjöl þegar í stað. Það var hans krafa þá og við henni var orðið.
    Ég tek undir hvert orð sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði hér áðan um vaxtaokrið og þá svívirðu sem þar er höfð í frammi. Hvað halda menn að sé verið að leysa með þessari stefnu? Þensluna? Hvar er þessi þensla? Er hún vestur á Sléttu, hæstv. landbrh.? Er hún í Norðurlandskjördæmi eystra? Er þenslan þar? Er þenslan í Norðurlandskjördæmi vestra? Er þenslan að setja allt úr skorðum á Vestfjörðum, Einar Guðfinnsson? Nei. Það er hér sem vandamálið er og á því eiga menn að taka. En með þessari brjáluðu vaxtastefnu er verið að kollsigla velflest atvinnufyrirtækin í landinu. Og halda menn eins og hv. þm. Egill Jónsson og Pálmi Jónsson að þessi vaxtastefna, sem þeir eru að styðja, verði til þess að bjarga ungum bændum eða til að rétta hag afurðastöðvanna á Íslandi?