Búvörusamningur
Föstudaginn 31. maí 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti, hæstv. forseti. Ég tel að það sé ekki óeðlilegt þó að hæstv. forsrh. veki á því athygli að ég hafi séð annmarka á þeim búvörusamningi sem undirritaður hefur verið. Í þeim búvörusamningi eru mörg atriði sem menn hefðu viljað skoða og vafalaust setja niður á blað með misjöfnum hætti eftir því hver hefði frá samningi gengið. Hins vegar er hann í dag undirritaður af tveimur ráðherrum fyrrv. ríkisstjórnar og það er farið að vinna eftir honum.
    Eitt atriði bið ég þó hæstv. forsrh. að hugleiða hvort sé svo mjög skynsamlegt. Íslenska ríkið ætlar að fara að kaupa upp fullvirðisrétt í sauðfé. Það ætlar að byrja á þessu núna strax á vordögum. En á haustdögum er heimilt fyrir bændur að fara og kaupa fullvirðisrétt í sauðfé. Ef við hugsum okkur nú að jafnklókir menn búi á Íslandi og var þegar séra Sigvaldi stundaði búskap, þá er hætt við því að einhver bóndinn færi af stað og keypti fullvirðisréttinn á sama tíma og ríkið, en hliðraði til með dagsetningar.
    Með þessu tiltæki, að ætla að hleypa af stað frjálsum kaupum í haust en fara af stað núna í sumar með kaup ríkisins, er hættan á því að til flats niðurskurðar komi miklu meiri. En það er þessi jafni, flati niðurskurður sem má ekki eiga sér stað því að hann er í reynd í mörgum tilfellum hrein aftaka á bændum þar sem þeir eru ekki með stærri fullvirðisrétt en svo að verði hann minnkaður eins og þarna er verið að tala um, þá þýðir það að þeir verða að bregða búi. Þess vegna fannst mér það mjög ógætilegt að heimila kaup á fullvirðisrétti í sauðfé á haustdögum og ég taldi satt best að segja að menn væru ögn klókari þegar þeir stæðu að svona samningagerð en kemur fram í því að heimila það.
    Nú hef ég talað nokkuð skýrt, hæstv. forsrh., og vænt þætti mér um það ef það yrði í nokkru metið og skjalið góða yrði afhent til aflestrar.