Starfslok efri deildar
Föstudaginn 31. maí 1991


     Forseti (Karl Steinar Guðnason) :
    Hv. deildarmenn. Þetta verður síðasti fundur deildarinnar á þessu þingi. Við höfum nú afgreitt ný þingskapalög sem taka eiga gildi innan skamms. Áður hefur deildin samþykkt frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Bæði frv. sem deildin hefur afgreitt varða mikilsverða breytingu á starfsháttum Alþingis, raunar mestu breytingar á skipulagi þess og starfi síðan 1875, þegar Alþingi fékk löggjafarvald og hóf störf í tveimur deildum.
    Um þessi frv. hafa orðið talsverðar umræður, bæði á þessu þingi og eins á síðasta þingi þegar frv. til stjórnarskipunarlaga var samþykkt hið fyrra sinni og kynntar voru hugmyndir um ný þingskapalög. Ég vona að þær breytingar sem nú hafa verið samþykktar verði þingi og þjóð til góðs og að þær vonir sem menn hafa bundið við hið nýja skipulag um greiðari þingstörf og ekki síst sterkari stöðu Alþingis í stjórnkerfinu muni rætast á næstu árum.
    Þetta verður því síðasti fundur þessarar deildar, hv. efri deildar Alþingis. Lausleg athugun, reyndar eftir því sem næst verður komist, sýnir að þetta mun vera 7874. fundur deildarinnar frá því að fyrst var haldinn fundur í deildinni 1875. Deildin hóf störf í þessum sal nokkrum árum síðar, þ.e. 1881. Hér hafa margir merkir áhrifamenn átt sæti og miklir ræðuskörungar flutt mál sitt og hér hafa margar mikilsverðar ákvarðanir verið teknar.
    Efri deild Alþingis á sér merka sögu sem er með nokkuð öðrum hætti en hinnar deildar þingsins, neðri deildar. Í upphafi var efri deild skipuð með öðrum hætti en neðri deild. Í henni áttu sæti sex konungskjörnir þingmenn og sex þingmenn kjörnir af sameinuðu þingi. Sú skipan hélst í megindráttum fram til 1915 þegar konungskjörið var fellt niður, en þá kom í staðinn hið svokallaða landskjör þegar kjörnir voru til efri deildar sex þingmenn á landinu öllu. Sú skipan mála hélst til ársins 1934 þegar hið eldra landskjör féll niður og síðan þá hefur þriðjungur þingmanna verið kosinn til deildarinnar á fyrsta fundi sameinaðs Alþingis að afloknum alþingiskosningum.
    Ég veit að ég mæli fyrir munn allra sem hér eru að það hefur verið gott að starfa í efri deild Alþingis. Það hefur jafnan farið það orð af starfsanda deildarinnar að hann væri góður og hér ríkti meiri eindrægni heldur en í öðrum starfsdeildum þingsins. Umræður hafa verið styttri og samstaða betri.
    Nú við starfslok þessarar deildar verður þessi fundarsalur sem við nú erum í tekinn til annarra nota þannig að senn lýkur efri deild störfum hér og þinghaldi í þessum sal.
    Ég þakka ykkur, hv. deildarmenn, fyrir samstarfið á þessu stutta þingi sem hefur verið ánægjulegt og gott í alla staði. Mér hefur sem forseta þessarar deildar verið sýnd tillitssemi í hvívetna. Ég þakka skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis öllu fyrir aðstoð og ánægjulegt samstarf. Jafnframt færi ég varaforsetum og skrifurum deildarinnar þakkir fyrir þeirra störf og góða aðstoð.

    Ég óska öllum utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og heimkomu og ykkur öllum allra heilla í störfum sem fram undan eru.