Kosning forseta
Föstudaginn 31. maí 1991


     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Ég þakka hæstv. aldursforseta fyrir hlýjar árnaðaróskir í minn garð. Jafnframt þakka ég hv. alþm. það traust sem þeir hafa sýnt mér með því að kjósa mig forseta Alþingis.
    Þessi fundur markar tímamót í sögu og störfum Alþingis. Þegar stofnað var ráðgefandi Alþingi með tilskipun konungs 8. mars 1843, sem tók til starfa 1. júlí 1845, var það í einni málstofu. Í umræðum um aukin áhrif Alþingis var það krafa dönsku stjórnarinnar að Alþingi starfaði í deildum, að öðrum kosti yrði að torvelda þinginu að gera breytingar á frumvörpum stjórnarinnar. Árið 1874 setti konungur Íslandi stjórnarskrá. Samkvæmt henni skyldu eiga sæti á Alþingi 30 þjóðkjörnir þingmenn og sex konungskjörnir sem ættu sæti í tólf manna efri deild og hefðu þar stöðvunarvald í atkvæðagreiðslum.
    Það var upphaf skiptingar Alþingis í tvær deildir sem hefur staðið síðan þrátt fyrir miklar breytingar á stjórnskipan og tilhögun á vali þingmanna.
    Á undanförnum áratugum hafa öðru hverju vaknað hugmyndir um að hverfa frá skiptingu Alþingis í deildir en ekki orðið úr framkvæmdum. Menn hafa rökrætt hvað vinnist og tapist við þá breytingu, en nú hefur Alþingi tekið þá ákvörðun að starfa í einni málstofu. Þess er vænst að við það verði þingstörf greiðari og nefndastörf vandaðri. Eðlilega sakna einhverjir deilda Alþingis en þær heyra nú sögunni til og það er okkar að marka veginn og þá er mikils um vert að við þingmenn verðum öll samtaka og leggjumst á eitt um að veita hinni nýju skipan brautargengi svo að til farsældar megi verða þingi og þjóð.