Lánsfjárlög 1992

60. fundur
Mánudaginn 06. janúar 1992, kl. 13:45:00 (2514)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
     Hæstv. forseti. Þegar frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1992 var tekið út úr efh.- og viðskn. í fyrri hluta annarrar viku desembermánaðar bentum við á það, fulltrúar minni hlutans í nefndinni, að í raun skorti allar forsendur til að taka til umræðu frv. til lánsfjárlaga

fyrir árið 1992. Þar kom fyrst og fremst til að hjá hæstv. ríkisstjórn var þá allt í uppnámi varðandi helstu þætti ríkisfjármála og efnahagsmála og allar forsendur skorti til að leggja heildstætt mat á bæði útgjalda- og tekjuhlið fjárlaga fyrir næsta ár, sem og önnur veigamikil atriði sem snertu efnahagsstefnuna. Þessi óvissa var svo enn frekar undirstrikuð á Alþingi og í umræðum næstu daga og næstu vikur, enda fór það svo að hæstv. ríkisstjórn valdi þann kost að láta lánsfjárlagafrv. liggja órætt í deildinni frá 9. des. og þar til nú, sbr. dagsetningu á nál. meiri hluta og minni hluta efh.- og viðskn., en þau birtust í þinginu þann 9. des. sl. Skömmu áður en málið var tekið út úr efh.- og viðskn. höfðu enn eina ferðina orðið veigamiklar breytingar á forsendum þar sem voru tíðindi um að ekki yrði af margboðaðri og margsíendurtekiðundirskrifaðri byggingu álvers á Keilisnesi á næsta ári. Það þýddi að út úr frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1992 hurfu lántökuheimildir sem í frv. voru eins og það var þegar það var flutt af hæstv. ríkisstjórn á öndverðu hausti, lántökuheimildir upp á samtals um 6.000 millj. kr., og munar auðvitað um minna. Þetta leiddi aftur til þess að lítið svigrúm var til að meta áhrifin af þessari gerbreyttu stöðu hvað lántökur inn í þjóðarbúskapinn varðaði á næsta ári og bættist við alla þá óvissu sem upplausnarástand á vettvangi hæstv. ríkisstjórnar varðandi ríkisfjármál og efnahagsmál snertir.
    Síðan hafa satt best að segja, hæstv. forseti, ekki skýrst til mjög mikilla muna þær forsendur sem þurfa að liggja fyrir þannig að unnt sé með eðlilegum og fullnægjandi hætti að mínu mati að leggja mat á lánsfjárþörf og lánsfjáraðstæður hins opinbera og reyndar annarra aðila í þjóðfélaginu sem eðlilegt er að gera áður en lánsfjárlög eru endanlega afgreidd og þá sem síðasta meginmál efnahags- og ríkisfjármála hverju sinni. Það er kunnara en frá þurfi að segja að enn liggja hér óafgreidd veigamikil frv. á vegum hæstv. ríkisstjórnar á sviði ríkisfjármála. Á ég þar fyrst og fremst við frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem er í 2. umr. á hv. þingi og fleiri frv. sem tengjast tekjuforsendum fjárlagafrv. Með hliðsjón af þessu, hæstv. forseti, leyfi ég mér að koma þeirri tillögu þegar í stað á framfæri að efh.- og viðskn. taki þetta mál til sín á nýjan leik þegar nú við 2. umr. málsins, þ.e. að gert verði hlé á þeirri umræðu þegar henta þykir eftir atvikum eftir framsöguræðu meiri hluta og minni hluta eða eftir einhverjar umræður ef menn telja það heppilegra og nefndin taki málið fyrir á nýjan leik áður en 2. umr. lýkur.
    Ég tek undir það sem hv. formaður nefndarinnar sagði hér áðan. Það er óhjákvæmilegt að nefndin komi saman á nýjan leik til að fjalla um þetta mál og fara yfir breyttar forsendur, en ég kem þeirri ósk minni á framfæri að það verði gert undir 2. umr. Ég tel það mikið eðlilegra með hliðsjón af því að þingið starfar nú í einni málstofu eins og öllum er kunnugt og umræður um mál eru einungis þrjár. Þess vegna sé eðlilegra að þessi vinna fari fram nú og brtt. sem kynnu að leiða af þessari vinnu nefndarinnar gætu komist á dagskrá við 2. umr. Það er mikið mun skemmtilegra vinnulag að mínu mati að það sé þá eftir 3. og síðastu umræðu um málið, að loknum þeim breytingum sem ástæða kann að vera að gera á því í ljósi breyttra aðstæðna.
    Eðlilegast er og að mínu mati að þau fylgifrv. fjárlaganna, sem hæstv. ríkisstjórn er hér með í þinginu og ætlar að fá afgreidd á næstu dögum, komi til afgreiðslu á undan lánsfjárlagafrv. Maður hefur heyrt af því að enn séu ekki að fullu útkljáð ýmis atriði sem snúa að þeim frumvörpum eins og frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þetta kynni að hafa áhrif á niðurstöðutölu fjárlaganna fyrir yfirstandandi ár og þar með á endanlegar niðurstöðutölur í lánsfjáráætlun og lánsfjárlögum. Ég hygg, hæstv. forseti, að ekki þurfi í sjálfu sér mikið flóknari röksemdafærslur fyrir þessari sjálfsögðu ósk af minni hálfu og ég hygg að það sé samdóma afstaða minni hlutans í efh.- og viðskn. að fara þess á leit að vinnunni verði hagað með þessum hætti. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til að fara eins rækilega yfir einstök atriði í frv. og ella hefði verið, en mun þó lítillega gera grein fyrir

nokkrum þeirra, en áskil mér síðan rétt til að koma því sem eftir verður skilið á framfæri betur við síðari hluta 2. umr.
    Ég vil í fyrsta lagi almennt taka upp þá umræðu sem verið hefur um mikilvægi þess að ríkissjóður sé afgreiddur með sem allra minnstum halla og vægi þeirrar afgreiðslu hvað snertir jafnvægi á lánsfjármarkaði og í efnahagsmálum. Mér hefur nokkuð þótt gæta bókstafstrúar eða blindu á að þessi eina breyta í efnahagsmálunum væri sú sem öllu máli skipti og furðulegrar þráhyggju gæta í þeim efnum að menn festist þar jafnvel við tiltekna tölu öðrum tölum fremur eins og til að mynda töluna 4 milljarða kr. Það voru hvergi næg rök færð fram fyrir því að halli upp á nákvæmlega 4 milljarða sé á einn eða annan hátt heppilegri með tilliti til jafnvægis á lánsfjármarkaði í ríkisfjármálum eða efnahagsmálum en eitthvað hærri eða eitthvað lægri tölur.
    Athyglisverð grein birtist í blöðum skömmu fyrir jólaleyfi þar sem minnt var á þá staðreynd, sem furðu hljótt hefur verið um í umræðum um þessi efni, að allur viðbótarhalli ríkissjóðs á sl. ári var fjármagnaður með þeim ofureinfalda hætti að yfirdregið var á reikningi ríkissjóðs í Seðlabankanum og síðan verða þeir reikningar væntanlega jafnaðir með erlendri lántöku. Það er þess vegna beinlínis rangt, sem haldið hefur verið fram, að þessi viðbótarhalli ríkissjóðs hafi haft þensluáhrif á innlendum lánsfjármarkaði. Þvert á móti má ætla að þessi tilhögun, yfirdráttur á reikningi ríkissjóðs hjá Seðlabankanum og síðan erlend lántaka til að jafna þennan mun, hafi ef eitthvað er slegið á þá þenslu sem þó var á hinum innlenda lánsfjármarkaði. Ég bendi á m.a. athyglisverða grein eftir hagfræðing sem birtist um þetta efni í DV skömmu fyrir jólaleyfi. Ég held þess vegna að það sé nauðsynlegt að fara yfir þessar forsendur lánsfjármarkaðarins og ríkisfjármálanna nú á nýbyrjuðu ári í ljósi nýjustu upplýsinga um stöðu mála, m.a. þróunina á síðustu mánuðum sl. árs. Sömuleiðis skipta áform um innlendar og erlendar lántökur í þessu sambandi miklu máli, ákvarðanir um útgáfu skuldabréfa, húsbréfa o.s.frv. Allt þyrfti þetta að koma þarna til skoðunar.
    Skömmu áður en lánsfjárlög voru afgreidd til 2. umr. komu fram mjög athyglisverðar upplýsingar og fullyrðingar um áhrif húsbréfa á hinn innlenda peningamarkað og á ég þar fyrst og fremst við skýrslu Seðlabankans, skammdegisskýrsluna svonefndu sem birtist fyrstu daga desembermánaðar, hvar haldið var fram með mjög fortakslausum hætti að húsbréfin væru meginorsakavaldur hárra vaxta og þenslu á innlendum peningamarkaði. Það kom strax fram dagana á eftir að um þessa fullyrðingu var mikill ágreiningur í hæstv. ríkisstjórn og virtust hæstv. félmrh. og að nokkru leyti hæstv. forsrh. alls ekki taka undir þessa fullyrðingu Seðlabankans. Þessi mál hafa sáralítið skýrst síðan þetta var og er óviðunandi að mínu mati að lokið sé umfjöllun um lánsfjáráætlun og lánsfjárlög á Alþingi með þessa hluti meira og minna hangandi í lausi lofti, með augljósan ágreining uppi innan hæstv. ríkisstjórnar og milli einstakra ráðamanna og ráðherra og stofnana eins og Seðlabankans í þessu efni.
    Ég þarf ekki að rekja fyrir hv. alþm. þau mál sem ég hér nefni. Skýrsla Seðlabankans var ítarlega til umræðu í tengslum við fleiri en eitt og fleiri en tvö þingmál sem snertu lánsfjárlög og efnahagsmál og ég hygg að orðaskipti hæstv. félmrh. og þeirra seðlabankamanna séu mönnum í fersku minni í þessu efni. En allt ber það að sama brunni, að ákvarðanir um umfang húsbréfaútgáfu á þessu nýbyrjaða ári og önnur slík áform sem áhrif hafa á peningamarkaðinn hljóta að þurfa að koma til skoðunar áður en lánsfjárlög verða endanlega afgreidd.
    Það er óhjákvæmilegt, herra forseti, að minnast nokkrum orðum á frv. eins og það birtist þinginu flutt af hæstv. ríkisstjórn á sl. hausti og þær brtt. sem meiri hlutinn leggur til til að bjarga þar í horn varðandi ýmis atriði sem upp komu þegar tekið var til við

að skoða ákvæði frv. Ég hygg að hæstv. fjmrh. megi kallast harla feginn ef með tiltölulega kyrrlátum hætti verða gerðar þær breytingar á frv. sem meiri hlutinn leggur til í sínum brtt. af tilteknum ástæðum --- af þeim ósköp einföldu ástæðum að frv. eins og það var fram lagt, hefði það náð fram að ganga, hefði óumdeilanlega sætt miklum tíðindum í íslenskum efnahagsmálum, fyrst og fremst vegna þeirrar auknu miðstýringar og þess aukna valds og þess aukna handafls sem með því hefði komið í hendur hæstv. fjmrh. og kom satt að segja ýmsum á óvart að hæstv. fjmrh., hv. 2. þm. Reykv., Friðrik Sophusson, núv. hæstv. fjmrh., hefði gengið fram fyrir skjöldu með þeim hætti sem efni frv. að óbreyttu hefði boðað.
    Ég ætla þess vegna lítillega að gera grein fyrir því hvað í frv. annars vegar fólst eða felst eins og það stendur enn og svo hverju brtt. meiri hlutans valda og á ég þá fyrst og fremst við þau atriði sem lúta að valdi hæstv. fjmrh. til að stjórna eigin hendi og ákveða einhliða hvort lántökur fari fram innan lands eða erlendis á árinu sem og þær auknu ríkisábyrgðir á lántökum sjóða sem frv. að óbreyttu mundi hafa í för með sér. Það kom sem sagt í ljós þegar efh.- og viðskn. tók að skoða frv. að það boðaði hvort tveggja í senn: stórauknar ríkisábyrgðir á lántökum aðila úti í þjóðfélaginu og stóraukið vald hæstv. fjmrh. til að fara með lántökumálefni á næsta ári. --- Ég ætla að biðja hæstv. utanrrh. að tala á lægri nótunum við hæstv. forseta, en geri ekki aðrar athugasemdir við fundahöld þau sem þar fara fram.
    Ég bendi hv. alþm. á að athuga 6. gr. frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1992 ef menn skyldu hafa það skjal í höndunum. Þá segir þar ósköp einfaldlega í III. kafla undir fyrirsögninni Ýmis ákvæði, með leyfi forseta:
    ,,Fjmrh. ákveður hvort lántaka samkvæmt lögum þessum fari fram innan lands eða utan, í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli.`` --- Vantar nú bara að bæta við: eða fríðu.
    Það var meiningin hjá höfundum þessa frv., og ég er dálítið undrandi á því að það skuli ekki hafa orðið mönnum fréttaefni í verulegum mæli fyrr en þá nú ef það yrði í framhaldi af þessari umfjöllun, að breyta þessu á þann veg að fjmrh. einn fengi öll völd í hendur um það hvort lán og þá í hve miklum mæli lán yrðu tekin innan lands eða utan á næsta ári samkvæmt lánsfjárlögum og lánsfjáráætlun. Ég vek athygli á 7. gr. í framhaldinu, en hún er svohljóðandi:
    ,,Fjmrh. er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán að hluta eða öllu leyti í stað þess að veita ríkisábyrgð á lántökur þeirra aðila sem tilgreindir eru í II. kafla og endurlána til þeirra með þeim kjörum og skilmálum sem hann ákveður.``
    Í þessu tilviki er ,,hann`` hæstv. fjmrh. Með öðrum orðum: þegar lesin eru saman ákvæði 6. og 7. gr. frv. er alveg ljóst að hæstv. fjmrh. Friðik Sophusson hugðist ganga lengra en nokkur forvera hans hefur nokkurn tíma gert mér vitanlega varðandi það að sækja sér í hendur einræðisvald til að ráða lántökum og meðferð lánsfjárheimilda á nýbyrjuðu ári, sem sagt algert sjálfdæmi um það hve mikið yrði tekið að láni erlendis og hve mikið innan lands og jafnvel það að ákveða einhliða að í stað lántökuheimilda og ábyrgða til handa fjárfestingarlánasjóðunum t.d. gæti fjmrh. ákveðið sjálfur að taka lánin og endurlána þeim með þeim kjörum og skilmálum sem honum sjálfum byði. Það vakti óneitanlega þó nokkra athygli þegar efh.- og viðskn. fór að fara yfir þessi ákvæði, þessar miklu tilhneigingar hæstv. fjmrh. til að taka þarna völdin í sínar hendur og miðstýra eða stýra með handafli lánsfjármarkaðnum á næsta ári, og eðlilega vöknuðu ýmsar spurningar um hvað hæstv. fjmrh. hyggist þá fyrir í þessum efnum, hvernig hann hyggist beita þessu valdi sínu og m.a. ekki síst vegna þess að fulltrúar fjmrn. upplýstu á fundum í efh.- og viðskn. að í og með væri þetta mikla vald fjmrh. hugsað sem svipa á hinn innlenda lánsfjármarkað til að veita

þar ríkissjóði hagstæð lánskjör ella mundu lántökurnar fyrst og fremst færast erlendis til.
    Við þetta bætast svo hin óvenjulegu ákvæði II. kafla frv., þ.e. frá og með 1. tölul. þar sem í hlut á Landsvirkjun, sem reyndar verður nú umsvifaminni í lántökum en til stóð, og til og með Útflutningslánasjóði sem er 10. aðilinn sem í frv. er tilgreindur og falla undir II. kaflann. Eins og 7. gr. hljóðar er alveg ótvírætt að þessi lánsfjárlög, ef sett hefðu verið eins og frv. gerir ráð fyrir, hefðu tekið af öll tvímæli um ótvíræða ríkisábyrgð á öllum lántökum þessara aðila því það segir í 7. gr.:
    ,,Fjmrh. er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán að hluta eða öllu leyti í stað þess að veita ríkisábyrgð á lántökur þeirra aðila sem tilgreindir eru í II. kafla.``
    Ja, hvað sem því líður, hæstv. fjmrh., voru allir í efh.- og viðskn. sammála um að hefði verið vafi á um til að mynda ríkisábyrgðina á bak við lántökur Fiskveiðasjóðs áður yrði hann ekki fyrir hendi ef þetta yrði afgreitt með þessum hætti eins og orðanna hljóðan, lesið saman ákvæði II. kaflans og orðalag 6. og 7. gr. III. kafla, mundi það þýða að tekin væru af öll tvímæli um fortakslausa ríkisábyrgð á öllum lántökum þessara aðila. Það væri nýbreytni vegna þess að samkvæmt lögunum um t.d. Fiskveiðasjóð hefur ekki verið litið svo á að um almenna ríkisábyrgð á einstökum lánveitingum eða lántökum Fiskveiðasjóðs erlendis væri að ræða. Að sjálfsögðu er litið svo á að á bak við Fiskveiðasjóð, ef hann yrði gerður upp, stæði ríkisábyrgð þar sem sjóðurinn er í eigu ríkisins með svipuðum hætti og til að mynda gerir varðandi Stofnlánadeild landbúnaðarins. En menn óttuðust mjög, og reyndar meira en óttuðust, töldu það alveg ljóst, að ef frv. yrði afgreitt eins og það stendur óbreytt yrði þarna um meiri og fortakslausari ríkisábyrgð á þessum lántökum að ræða en áður hefði verið.
    Það er þetta, hæstv. forseti, sem ég tel óhjákvæmilegt að fjalla hér um þó svo að meiri hluti efh.- og viðskn. sé að breyta þessum ákvæðum nokkuð með brtt. sínum á þskj. 245, þ.e. með því að fella brott tölul. 7.--10. í 4. gr. þar sem eru Iðnlánasjóður, Iðnþróunarsjóður, Fiskveiðasjóður og Útflutningslánasjóður og breyta jafnframt orðalagi 6. og 7. gr. og reyndar sameina þær með því og að setja inn þak á þær erlendu lántökur sem fjmrh. sé heimilt að ástunda erlendis á árinu. Þar með er snúið til baka og horfið frá því að veita fjmrh. þetta fortakslausa og óskilyrta vald til að ráða hlutföllum erlendrar og innlendrar lántöku á árinu og ákvæði kæmi um að þak kæmi á lántökur erlendis á næsta ári.
    E.t.v. útskýrir hæstv. fjmrh. betur fyrir okkur hvað fyrir honum eða fjmrn. vakti með þessum ákvæðum frv. eins og það var flutt. Ég tel ástæðu til að það sé rætt áður en málið er afgreitt vegna þess að eftir sem áður verður mikið vald í þessum efnum í höndum hæstv. fjmrh. hvað varðar þýðingu á lántökum og möguleika til að hafa áhrif á lánsfjármarkaðinn innan lands og reyndar einnig í gegnum erlendar lántökur. Það er að sjálfsögðu svo veigamikill hluti af efnahagsstefnunni á hverjum tíma hvernig þessum lántökumálum er háttað að óhjákvæmilegt er að ekki bara heimildirnar sem veittar eru heldur og áform hæstv. ríkisstjórnar um nýtingu þeirra séu rædd á Alþingi áður en málin eru afgreidd.
    En í ljósi þess, herra forseti, að ég vænti þess að orðið verði við óskum okkar um að málið komi til skoðunar í efh.- og viðskn. þegar við 2. umr., áður en henni lýkur, sé ég í sjálfu sér ekki ástæðu til að fjölyrða um þessi efni. Ég vil þó taka fram fyrir mitt leyti að ég tel þær breytingar sem meiri hluti efh.- og viðskn. flytur til bóta í þeim skilningi að ég hefði talið óeðlilegt beinlínis að afgreiða hlutina með þessum hætti, jafnopið gagnvart valdi hæstv. fjmrh. í þessum efnum og raun ber vitni, eins og ætlunin var. Ég vona að enginn taki það sem gagnrýni sem beinist að núv. hæstv. fjmrh. sérstaklega. Svo er ekki. Ég treysti honum ekkert síður öðrum mönnum til að fara með sitt vald. Hér er eingöngu spurning um hvort það sé eðlilegt að framselja með þessum hætti jafnríkulega vald í hendur hæstv. fjmrh. úr því að Alþingi er yfirleitt á annað borð að setja einhvern ramma um lánastarfsemina eða lántökur á hverju ári. Það er alveg ljóst að Alþingi mundi framselja með þessum hætti, ef frv. hefði verið afgreitt óbreytt, mun ríkara vald í þessum efnum í hendur fjmrh. en mér er kunnugt um að áður hafi verið gert.
    Það gæti út af fyrir sig, herra forseti, verið ástæða til að fara yfir ýmsa liði sem inn í frv. koma. Ég hlýt að nefna til að mynda Lánasjóð ísl. námsmanna. Þar er enn ein stórfellda óvissan á ferðinni hvað það snertir að þegar frv. var til umfjöllunar í efh.- og viðskn. var ekkert komið fram um áform hæstv. ríkisstjórnar hvað varðaði breytingar á málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Það var marglýst eftir því í nefndinni af einstökum nefndarmönnum að fá áform hæstv. ríkisstjórnar í því efni inn á borð nefndarinnar þannig að unnt væri í ljósi þeirra að meta lánsfjárþörf lánasjóðsins á næsta ári. Það var ekki unnt að verða við þeim óskum ósköp einfaldlega vegna þess að hæstv. ríkisstjórn var þá ekki eða stjórnarflokkarnir búnir að koma sér saman um þær breytingar á málefnum lánasjóðsins sem nú eru boðaðar í frv. sem dreift var á þingi örfáum klukkutímum ef ég man rétt fyrir jólaleyfi. Þar liggja þó fyrir nú gjaldfest áform ríkisstjórnarinnar um hvernig málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna verði breytt á næsta ári og í því ljósi er full ástæða til þess að efh.- og viðskn. fari yfir það frv. og beri það saman við áformaðar lántökur lánasjóðsins samkvæmt frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1992.
    Það voru sömuleiðis ekki að mínu mati komnar fram þær endurmetnu forsendur í ljósi þeirrar niðurstöðu að ekki yrði af framkvæmdum við álver á næsta ári sem óskað var eftir strax og það lá fyrir í nefndinni af hálfu okkar í minni hlutanum. Það þarf ekki að fjölyrða um að sveifla upp á yfir 6.000 millj. kr. í minni erlendum lántökum á árinu og þar með minna innstreymi fjármagns inn í efnahagslífið er meira en nóg til þess að staldrað sé við og farið vandlega yfir efnahagsleg áhrif þess að ekki verði af þeim lántökum og þeim framkvæmdum sem á grundvelli þeirra áttu að koma til. Menn vörpuðu fram þeirri spurningu hvort ástæða gæti verið til að skoða einhverjar arðbærar framkvæmdir sem hvort eð er væri á dagskrá að ráðast í og flýta eftir atvikum eða ráðast í einhverjar slíkar til að hamla gegn þeim miklu samdráttaráhrifum sem við blasa og blöstu hvarvetna í þjóðarbúskapnum og hin nýja þjóðhagsspá gerir ráð fyrir. En til að vinna slíka hluti og fara ofan í saumana á þeim var satt best að segja sáralítill tími. Það var af hálfu hæstv. ríkisstjórnar lögð mikil áhersla á að afgreiða frv. til lánsfjárlaga út úr efh.- og viðskn. strax í annarri viku desembermánaðar, m.a. með þeim rökum að nefndin mundi síðan hafa svo mikið að gera vegna þeirra frumvarpa sem á færibandi kæmu til nefndarinnar og tengdust ýmsum ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og efnahagsmálum. Það voru að vísu orð að sönnu að síðan upphófst talsvert annríki í efh.- og viðskn. í framhaldinu, en það er engu að síður ekki sú röð á hlutunum sem æskilegust er að lánsfjárlög séu afgreidd á undan ýmsum öðrum frumvörpum sem afgerandi áhrif hafa á einmitt sjálfar lántökurnar, lánsfjáráætlunina og lánsfjárþörf ríkisins og annarra aðila. Þess vegna tel ég að allt beri þar að sama brunni, bæði þessar breyttu forsendur, nýjar upplýsingar sem í sumum tilvikum má segja að liggi fyrir, eins og í áformum hæstv. ríkisstjórnar um breytingar á Lánasjóði ísl. námsmanna, jafngeðfellt og það nú er og ætla ég ekki að ræða það efnislega undir þessu dagskrármáli, en í öðrum tilvikum vantar enn veigamiklar forsendur og vísa ég þá aftur til óvissunnar um afgreiðslu á ýmsum þáttum frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem hér liggur fyrir og er reyndar dagskrárefni þessa fundar.
    Margt fleira gæti orðið mönnum að umtalsefni. Það komu á síðustu stundu inn í frv. hlutir sem lúta að hitaveitunum og málefnum þeirra og fjárhag þeirra. Enn fremur óskaði Flugmálastjórn eftir hækkun á sinni lántökuheimild. Þetta voru þó kannski einar og sér ekki svo veigamiklar breytingar að þær kölluðu á að málið yrði tekið upp í veigamiklum atriðum. Enn fremur nefni ég málefni Framkvæmdasjóðs sem komu með síðari skipum inn

í nefndina og eru reyndar fyrir í þinginu í formi annars frv. og full ástæða gæti verið til að nefndin staldraði við og færi yfir í ljósi þess að nú er nýtt ár hafið og ekkert að vanbúnaði að taka sér þann tíma til að skoða hin stærri mál sem nauðsynlegt er og ekki lengur yfir höfðum vorum tímapressa vegna hátíðahalda eða jólaleyfa.
    Ég kýs því, hæstv. forseti, að hafa mína tölu ekki öllu lengri að þessu sinni og í ljósi þeirrar óskar sem ég hef fram borið um vinnutilhögunina að frv. og vænti ég þess að við verðum þess þá betur búin að ræða málið í heild og ítarlegar þegar það kæmi til framhalds 2. umr. á nýjan leik eftir skoðun í efh.- og viðskn.