Framhald umræðna um skýrslu Byggðastofnunar

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 13:36:00 (2518)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Með hækkandi sól er þess von að dagsbirtan nýtist betur til þingstarfa en var í þeim seinasta mánuði og þess er að vænta að hæstv. forseti hafi haft ráðrúm til að hugsa það mál til þrautar yfir hátíðarnar hvenær ætlunin væri að halda áfram umræðum um skýrslu Byggðastofnunar. Ég minnti hæstv. forseta á að þeirri umræðu er ólokið. Málið er á forræði hæstv. forsrh. og skildi ég það nokkuð vel að hann mundi ekki leggja mikið kapp á að ýta því máli áfram þegar mörg önnur mál voru á dagskrá. En forseti tók vel þeirri málaleitan minni í desember að hugleiða hvenær rétt væri að þetta mál kæmi á dagskrá og þar sem ég tel að sú hugleiðsla hafi nú farið fram þætti mér mjög vænt um ef það yrði upplýst hvenær því það má öllum ljóst vera að þegar svo langt líður á milli kallar þetta á að menn athugi að nokkru hvað rætt hefur verið þegar þeir hefja að nýju máls um þetta málefni.