Framhald umræðna um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 13:46:00 (2523)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Forseta hafði ekki borist ósk um að fresta umræðu um þetta mál en skilur vel það viðhorf sem fram kom í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. og telur í sjálfu sér ekki óeðlilegt að umræða um þetta mál verði látin bíða ef nefndin er að fjalla um þær breytingar sem væntanlegar eru. En forseti vill gjarnan minna á að þetta mál var í miðri umræðu og nokkrir á mælendaskrá er afgreiðslu þess var frestað fyrir jól og síðar var gert samkomulag við formenn þingflokka um að þetta mál yrði einmitt á dagskrá í dag. Forseti reynir að standa við samkomulag sem gert er og haga sér samkvæmt því.
    Hér er einnig á dagskrá annað mál, Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins, sem reyndar var ekki gert ráð fyrir að yrði tekið til umræðu í dag. En ef ekki verða gerðar athugasemdir við það er forseti tilbúinn að taka það mál fyrir þannig að það yrði þá mælt fyrir nefndarálitum í því máli í stað þess að taka fyrir ráðstafanir í ríkisfjármálum.
    En nú hefur kvatt sér hljóðs hv. 1. þm. Austurl. um gæslu þingskapa og vill forseti gjarnan heyra hvað hann hefur að segja í þeim efnum.