Fundahöld í allsherjarnefnd

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 13:54:00 (2527)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Samkomulag það sem gert var á milli stjórnar og stjórnarandstöðu fyrir jólahléið fjallaði ekki um nefndarstörf. Það getur forseti upplýst.
    Forseti hefur áður upplýst og ætlaði að svara hv. 1. þm. Austurl. því, upplýsti það í upphafi fundar, kannski hefur hv. þm. ekki verið kominn, að utandagskrárumræða hæfist kl. 3. Það er búið að ákveða þann tíma og forseti telur að það sé af ýmsum ástæðum rétt að halda sig við þá tímasetningu. Þess vegna verður 1. dagskrármálið ekki tekið fyrir þar sem hér hefur komið fram sá vilji að þeirri umræðu verði frestað á meðan fjallað er um það mál frekar í nefnd. Verður þá tekið fyrir 2. dagskrármálið og væntir forseti þess að ekki komi fram athugasemdir frá formönnum þingflokka þrátt fyrir að það hafi verið samkomulag um að taka það mál ekki til umræðu fyrr en á morgun.