Fundahöld í allsherjarnefnd

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 13:56:00 (2528)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil á engan hátt tefja þingstörf, en ég hafði getið þess að ég væri ekki undir það búinn að hefja þessa umræðu nú þegar. Það má vel vera að frsm. meiri hluta þurfi að ræða alllengi um málið, en ég bendi á að hæstv. sjútvrh. er ekki viðstaddur og ég spyr: Hefur hann verið látinn vita af þessari breytingu? Því að ég tel alveg útilokað að ræða þetta mál að sjútvrh. fjarstöddum. Ég vænti þess hins vegar að flestir nefndarmenn sjútvn. séu í þinginu, en ég veit ekki til þess að þeim hafi sérstaklega verið gert viðvart um það sem ég tel nánast nauðsynlegt áður en umræðan byrjar og vildi fara þess á leit að það sé gert eitthvert hlé á fundinum.