Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 15:50:00 (2533)

     Ragnar Arnalds :
     Herra forseti. Hér er um harla flókið mál að ræða og er því kannski ekki úr vegi að draga fram í örfáum setningum það sem virðist vera kjarni þessa máls.
    Ég vil þá fyrst benda á að þau samningsdrög sem nú er verið að ræða eru í grundvallaratriðum ólík því tilboði sem Ísland setti fram fyrir einu ári. Í þessum samningsdrögum er verið að afnema í eitt skipti fyrir öll innflutningsbann á búvörum og opna fyrir innflutning flestra afurða á mjög lágu verði. Erlend framleiðsla yrði boðin til sölu í samkeppni við innlenda framleiðslu, en eftir sem áður yrði þessi erlenda framleiðsla stórlega niðurgreidd. Beinar greiðslur til bænda samkvæmt búvörusamningi fengjust ekki viðurkenndar sem svokallaðar grænar greiðslur og ættu því að lækka um 20% nema þær breytist í almenna styrki óháðar því hvort menn vinna eða vinna ekki. Búvörusamningnum yrði kollvarpað. Það er nokkuð ljóst að þúsundir manna mundu hverfa frá landbúnaði vegna þess að rekstrargrundvelli búanna væri kippt burt. Afurðaverðið hefði væntanlega lækkað um allt að 50% og vafalaust í flestum tilvikum meira en nemur launaliðnum í verðmyndun íslenskra búvara.
    Ég tel að þetta mál varði fleiri en bændur. Ég tel ljóst að einum af grundvallaratvinnuvegum landsmanna er ógnað með nokkuð einstæðum hætti og verði þessi ógn að veruleika mun það hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir fjölmenn byggðarlög, bæði sveitir og þéttbýli, sem víða byggja afkomu sína á úrvinnslu landbúnaðarvara. Upplausn í landbúnaði og vaxandi atvinnuleysi sem því fylgdi mundi síðan hafa umtalsverða skerðingu þjóðartekna í för með sér. Mér sýnist því nokkuð ljóst að fyrir utan samningana um Evrópska efnahagssvæðið er þessi GATT-samningur líklega stærsta og örlagaríkasta málið sem ríkisstjórn, Alþingi og reyndar þjóðin öll stendur frammi fyrir á þessum vetri.

    Ég vek líka athygli á því í upphafi að með afnámi útflutningsbóta hafa Íslendingar þegar gengið lengra en nokkur önnur þjóð í átt til frjálsari viðskiptahátta eins og GATT-samningarnir stefna að. En sú aðlögun á markaðsaðstæðum sem nú stendur yfir í íslenskum landbúnaði virðist samt sem áður ekki tekin inn í myndina á nokkurn hátt. Ég tel að ríkisstjórn Íslands verði að láta skýrt í ljós að hún geti ekki unað við samningsdrögin eins og þau liggja nú fyrir og verði því að hafa fyrirvara um nokkur mikilvæg atriði. Þessir fyrirvarar verða að koma fram af hálfu Íslands fyrir 13. janúar því ella verður ekki mark á þeim tekið.
    Ég verð að játa að stefna ríkisstjórnarinnar í þessu máli er mér algjör ráðgáta og svo fer áreiðanlega um fleiri. Hæstv. utanrrh. og hæstv. landbrh. virðast alls ekki tala sama tungumálið þegar þetta mál ber á góma, t.d. í viðræðum við fjölmiðla. Hæstv. utanrrh. fullyrti í gær í viðræðum við útvarp og sjónvarp að í raun og veru væri þetta mál sem skipti sáralitlu máli. Hann fullyrti einnig að tilboð Íslands, það sem sett var fram í fyrra, gengi jafnvel lengra eða væri a.m.k. alveg hliðstætt og það sem nú væri verið að ræða um. Hæstv. landbrh. hefur hins vegar sagt, þó hann hafi ekki sagt margt, því miður, að samningsdrögin eins og þau liggja nú fyrir séu ekki ásættanleg og ég er feginn að heyra þá yfirlýsingu af hálfu landbrh. En ríkisstjórnin í heild hefur enga stefnu mótað í þessu máli. Og það var eftirtektarvert að heyra hæstv. landbrh. upplýsa þingheim um að málið hafi verið til umræðu í ríkisstjórninni í morgun og verði það áfram næstu daga. --- Niðurstaða engin.
    Í þessum samningsdrögum er gert ráð fyrir að innflutningshömlur verði afnumdar. Heimsmarkaðsverð á að ráða verðmyndun á innlendum markaði að viðbættu svonefndu tollígildi sem fyrst í stað nemur mismun innlends verðs og heimsmarkaðsverðs en á síðan að lækka um 36% á sex árum. Til skýringar má nefna að heimsmarkaðsverð t.d. á mjólkurvörum er talið vera sem næst verði Efnahagsbandalagsins. Ef tekið er dæmi af mjólkurafurðum mun auðvelt að áætla miðað við ákveðnar líklegar forsendur að lækkun á afurðaverði til bænda yrði um 38% ef með er talin lækkunin á niðurgreiðslum. Nú er það svo að þriðjungur afurðaverðsins er laun framleiðenda. Það er því ljóst af þessu að laun bænda mundu með öllu þurrkast út ef þessi samningur yrði að veruleika og kæmi til framkvæmda hér á landi.
    Ég vek líka athygli á að aðeins ferskt og fryst kjöt eða egg verða undanþegin innflutningi, en það felur í sér að ódýrt soðið kjöt kynni að koma hér á markað í samkeppni við íslenskt kjöt. Hversu mikil hætta er hér á ferð er ekki gott að átta sig á, en hún er greinilega til staðar. Auk þessa ber að leyfa innflutning sem svarar til 3% framleiðslunnar sem á að hækka síðan í 5% og sá hluti innflutningsins á að vera á lágum tollum og hafa því algjöran forgang. Það má því segja að þessi 5% verða eins konar forskot sem erlendir framleiðendur fá. Hvers konar stuðningur við landbúnaðarframleiðslu sem telst markaðstruflandi skal lækka um 20%. Undir þetta falla beinar greiðslur til bænda. Til þess að beinar greiðslur teljist ekki markaðstruflandi verður því að breyta þeim í hreina styrki sem mundu þá verða greiddir hvort sem bændur framleiddu eða framleiddu ekki. Menn geta rétt ímyndað sér hvað slík regla hefði í för með sér fyrir stöðu landbúnaðar hér á landi.
    Það er óvíst með öllu hvort upphæðir verða verðbættar. Hæstv. landbrh. upplýsti hins vegar að í einhverjum undirskjölum, sem ekki höfðu náð inn til landbn. í morgun, muni vera gert ráð fyrir að verðbætur verði leyfðar ef verðhækkanir eru meiri en 10% á ári og viðurkenndi að í þessu hlyti að felast gífurleg lækkun á þessum greiðslum við hefðbundnar aðstæður í íslensku efnahagslífi.
    Það er ljóst að búvörusamningurinn yrði felldur úr gildi ef þessi samningsdrög yrðu að veruleika og þar með væri verið að kippa grundvellinum undan þeirri miklu hagræðingu í landbúnaðarframleiðslu sem nú stendur fyrir dyrum. Útflutningsbætur eiga að lækka um 36%, en í raun og veru er það ekki aðalatriði málsins. Hitt er kannski miklu merkilegra að 64% af núverandi útflutningsbótum eiga að standa áfram. Ríkustu þjóðir heims munu sem sagt verja gífurlegum fjárhæðum til að greiða niður sína framleiðslu til útflutnings og til að komast inn á markað hjá þeim sem skyldaðir verða til að opna sína markaði. Þó mun minnkun útflutningsbóta leiða til hækkunar á sumum landbúnaðarafurðum, t.d. á korni.
    Afleiðingar fyrir íslenskan landbúnað verða að sjálfsögðu margvíslegar og hér hafa margar þeirra verið raktar. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag var á það bent og það kom reyndar einnig fram áðan hjá hv. fyrirspyrjanda að skerðingin á beinu greiðslunum yrði væntanlega miklu meiri en 20%, kannski 50--60%, þegar haft er í huga að viðmiðunarárin eru mjög óhagstæð fyrir okkur hér á Íslandi. Skerðingin yrði síðan enn meiri ef ekki yrði um hagstæðari verðtryggingarákvæði að ræða en rætt hefur verið um.
    Áætlanir benda sem sagt til þess að afurðaverð til bænda muni lækka um 20--50% á næstu sex árum og talsmenn bændasamtakanna hafa haldið því fram að framleiðsla mjólkurafurða kunni að dragast saman um 30--50% en sauðfjárafurða eitthvað minna. Þeir hafa einnig bent á að alifuglarækt muni vafalaust hverfa á örfáum árum. Ég tel því ekki ofmælt hjá talsmönnum samtaka bænda að hrun í íslenskum landbúnaði væri fram undan ef þessi yrði niðurstaðan.
    Ég vil líka minna á að það er reginmunur á fyrirliggjandi samningsdrögum og því tilboði sem Ísland gerði í GATT-viðræðunum fyrir rúmu ári. Þá var ekki rætt um ótakmarkaðan innflutning búvara heldur einungis um hugsanlega allt að 3% innflutningsheimild og að öðru leyti innflutningsbann. Það var gert ráð fyrir tollum eða jöfnunargjaldi á því sem flutt væri inn, þessum 3%, en nú er reiknað með að þessi 3% og síðan 5% verði án tolla eða með mjög lágum tollum og síðan verði þá lækkunin á tollunum á því sem umfram þetta lágmark er. Verðtryggingarákvæði voru skýr fyrir einu ári, en þau eru það ekki lengur. Þá var gengið út frá því að GATT-samningurinn mundi engu breyta um beinar greiðslur til bænda. Þær áttu að heita grænar greiðslur jafnvel þótt þær væru framleiðslutengdar. Og þá var reiknað með að tollígildi miðuðust við fob-verð, sem felur í sér fjarlægðarvernd fyrir íslenskan landbúnað, en nú er miðað við cif-verð innfluttrar vöru og það veldur því að tollígildið verður töluvert lægra.
    Hér hef ég þegar nefnt fimm atriði, öll mjög mikilvæg, öll frábrugðin því sem fólst í tilboðinu sem sett var fyrir einu ári. Geta menn borið það saman við þá glæfralegu fullyrðingu hæstv. utanrrh. í fjölmiðlum í gær að staða málsins og samningsdrögin séu í meginatriðum hliðstæð því sem um var að ræða fyrir einu ári þegar þetta tilboð var gefið.
    Herra forseti. Tími minn leyfir ekki að fjalla öllu ítarlegar um þetta mál. Ég legg þó áherslu á að við Íslendingar erum háðir milliríkjaviðskiptum, meira en flestar aðrar þjóðir og við höfum mikinn hag af sem frjálsustum viðskiptum. Við leitum stíft eftir tollfrjálsum aðgangi að mörkuðum annarra þjóða og heimtum fríverslun með fisk og okkur var auðvitað ekki stætt á því að taka ekki þátt í þessum GATT-samningum og reyna þannig að koma til móts við aðrar þjóðir á sviði landbúnaðarmála. Hitt er alveg ljóst að við verðum að gæta okkar vel ef við eigum að tryggja framtíð íslensks landbúnaðar og við höfum þegar með afnámi útflutningsbóta gengið lengra í átt til frjálsari viðskiptahátta en nokkur önnur þjóð. En vegna þess að samningsdrögin sem nú liggja fyrir taka aðallega mið af sérhagsmunum Bandaríkjanna og Evrópubandalagsins er mikil hætta á því að innfluttar niðurgreiddar búvörur kippi grundvellinum undan íslenskum landbúnaði á mörgum sviðum.
    Ég tel vissulega óljóst í dag hvort samningsdrögin verði samþykkt á næstu vikum. T.d. hefur Efnahagsbandalagið ekki enn samþykkt tillögurnar, en gerir það kannski innan

fárra vikna með einhverjum breytingum. Það er almennt viðurkennt að úrslitaslagurinn um efni væntanlegs samnings muni standa á næstu vikum og verða til lykta leiddur á næstu tveimur mánuðum. Ríki sem ekki segir frá fyrirvörum sínum meðan viðræður standa yfir getur ekki haft uppi mótmæli þegar samningsdrögin eru komin í höfn. Viðkomandi ríki á þá á hættu að ekkert mark sé tekið á síðbúnum fyrirvörum og þeim verði jafnvel svarað með refsiaðgerðum. Ríkisstjórnin verður því að taka skýra og ótvíræða afstöðu í þessu máli þegar í stað svo ekki verði sagt að mótmæli Íslands hafi verið of seint fram komin.