Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 16:05:00 (2534)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Herra forseti. Hér uppi á vegg til hægri handar hangir mynd af Jóni Sigurðssyni sem reyndar gekk hér aldrei um sali heldur sótti fundi í öðrum húsum meðan Alþingi starfaði í gamla Latínuskólanum. En eitt af helstu baráttumálum Jóns Sigurðssonar og annarra sem leiddu sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. öld var verslunarfrelsi. Þá höfðu Íslendingar búið við einokun og verslunarhöft öldum saman, en það náðist fram árið 1855 að Íslendingar fengu verslunarfrelsi. Það má segja að frelsi í viðskiptum okkar Íslendinga hafi aukist jafnt og þétt síðan þá en því er ekki að leyna að viðskipti með landbúnaðarvörur skera sig þar úr eins og reyndar gildir víða í heiminum. Það má líka minna á að um það leyti sem Jón Sigurðsson gekk hér um götur hafði verið barist fyrir auknu viðskiptafrelsi í u.þ.b. 100 ár í Evrópu og Ameríku til þess að losna þar undan hagfræðistefnu sem kölluð var merkantílismi og byggðist á endalausum tollum, einkaleyfum og verndun á innanlandsframleiðslu. Þar sem annars staðar hefur frelsi í viðskiptum aukist statt og stöðugt, en landbúnaðurinn er þar að miklu leyti undanskilinn. Þetta á sér ýmsar orsakir og vekur margar spurningar.
    Hér eru til umræðu drög að samningi um aukið frelsi í viðskiptum milli landa sem byggist á hinum svokölluðu GATT-viðræðum. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þessa samnings meðan hann liggur ekki fyrir heldur langar mig til að velta vöngum yfir ýmsum atriðum þessa samnings.
    Af þeirri umræðu sem fram hefur farið í dag mætti halda að þessi samningur snúist eingöngu um landbúnaðarmál og viðskipti með landbúnaðarvörur. En samningarnir snerta mun fleiri svið, þar með talið afnám tolla og lækkun tolla sem m.a. snertir sölu á fiski. Þessir samningar snúast um almennan markaðsaðgang, vefnaðarvörur, viðskiptareglur, hugverk í viðskiptum, stofnanir og viðskipti með þjónustu, auk landbúnaðar, sem reyndar er langerfiðasta viðfangsefnið eins og hér hefur komið fram. Þessir þættir GATT-samningsins snerta okkur misjafnlega mikið, en það er langt í frá að það sé eingöngu landbúnaðarkaflinn sem okkur ber að ræða á Alþingi Íslendinga. Hvað um viðskipti með þjónustu svo dæmi sé nefnt?
    Í umræðum um atvinnusköpun hér á landi á næstu árum hefur verið margbent á að við Íslendingar höfum mikla þekkingu sem við getum nýtt til að selja í formi ýmiss konar þjónustu til annarra landa og menn eru þegar byrjaðir á slíku eftir því sem kostir gefast. Ef þessi GATT-samningur verður að raunveruleika eins og hann lítur út núna býður hann upp á ýmsa nýja möguleika á þjónustusviðinu, en þýðir auðvitað um leið að erlend þjónustufyrirtæki geta boðið fram sína krafta hér á landi. Þetta er atriði sem mér finnst alls ekki síður ástæða til að vega og meta þegar þessi samningur er ræddur.
    Annað atriði varðar vefnaðarvörur sem hafa verið háðar miklum takmörkunum og búið við ýmiss konar vernd, en það er talið að aukið frelsi í viðskiptum með vefnaðarvörur muni hafa mikla þýðingu fyrir ríki þriðja heimsins, koma þeim mjög til góða, enda veitir nú ekki af að lyfta þeim upp. Við getum spurt þeirrar spurningar hvort þarna kunni að felast einhverjir möguleikar fyrir íslenskan ullariðnað sem því miður býr við mikla niðurlægingu. Þannig er ekki allt svart í þessu samhengi ef menn reyna að nýta sér þá möguleika sem gefast.
    Þá má líka nefna tollalækkanir sem snerta útflutning okkar á fiski, svo sem inn á Asíumarkaðina, í löndum eins og Japan og Kóreu, en það kemur reyndar fram í þeim skýrslum sem við höfum fengið að sjá að á því sviði ríkir nokkur tregða og eru þessar Asíuþjóðir að vernda sína hagsmuni.
    En áður en ég vík að landbúnaðinum sérstaklega vil ég enn og aftur minna á að viðskiptafrelsi er enn mikilvægara smáum þjóðum en stórum þar sem heimamarkaðurinn er smár og því einhæfari sem framleiðslan er því mikilvægara er að hafa greiðan aðgang að erlendum mörkuðum og það sem víðast. Þetta þekkjum við Íslendingar vel. Og þó að landbúnaður hér á landi sé mikilvægur og menning okkar sé sprottin upp úr bændasamfélagi skulum við ekki gleyma því að þessi þjóð lifir á að selja fisk. Þegar við vegum og metum þennan samning er mikilvægast að setja heildarhagsmuni þjóðarinnar í öndvegi og meta samninginn allan út frá því. Við getum ekki einungis spurt að því hvað þessi samningur þýði fyrir bændur heldur verðum við að spyrja líka: Hvað þýðir hann fyrir neytendur og aðrar atvinnugreinar, ekki síst sjávarútveginn?
    En ég ætla að víkja sérstaklega að landbúnaðinum. Það er algjörlega ljóst að eins og GATT-samningurinn lítur út núna boðar hann bændum þessa lands mikil tíðindi. Það er engin furða þótt þeir séu uggandi um sinn hag. Eins og við vitum hefur íslenskur landbúnaður búið við ákveðna vernd fyrir innflutningi á ákveðnum vörutegundum, hann hefur verið verndaður í bak og fyrir um áratugaskeið. Ef við lítum til lengri tíma sjáum við að útflutningur á íslenskum landbúnaðarvörum hefur dregist mjög mikið saman á öllum sviðum og því hefur íslenskur landbúnaður fyrst og fremst þurft að einbeita sér að innanlandsmarkaði þar sem framleiðslan hefur aukist verulega.
    Sú vernd sem hér hefur verið í gildi hefur verið í ýmsu formi, svo sem innflutningsbanni og eins hafa verið hér í gildi heilbrigðisreglur sem að mínum dómi eiga vissulega rétt á sér. Ég tel að í þeim viðræðum sem fram undan eru varðandi GATT-samninginn, því það er langt í frá að þeim sé lokið, séu einmitt heilbrigðisreglur það sem ber að leggja mikla áherslu á. Við höfum okkur til stuðnings að saga íslensks landbúnaðar sannar svo ekki verður um villst að okkar dýrastofnar eru ákaflega viðkvæmir fyrir ýmsum sjúkdómum sem hér hafa ekki tíðkast, sem betur fer, og þess vegna er þetta atriði sem vert er að leggja mjög mikla áherslu á.
    Samkvæmt þeim drögum sem nú liggja fyrir verður að opna fyrir innflutning á landbúnaðarvörum, en á móti verður tímabundið reynt að verja innlenda framleiðslu með tollum og reglum um sjúkdómavarnir. Menn greinir mjög á um hversu vel þessar reglur muni duga, hvað sjúkdómavarnirnar muni reynast landbúnaðinum góð vörn, og eins er spurning hvað tollarnir duga, en þeir verða fyrst og fremst sem eins konar aðlögun að þeim breytingum sem fram undan eru.
    Það hljóta að vakna mjög margar spurningar varðandi landbúnaðinn í ljósi þessara atburða og við hljótum að spyrja hvað eigi að ganga langt í því að verja innlenda framleiðslu, hversu miklu eigi að kosta til. Eiga hagsmunir bænda að ráða þar för eða á að bjóða neytendum upp á hugsanlega sambærilegar vörur á lægra eða sambærilegu verði? Þar er komið að mjög mikilvægu atriði vegna þess að mér finnst gleymast í þessari umræðu að öllum þeim ríkjum sem eiga aðild að GATT-samningnum verður gert að draga saman sinn stuðning við landbúnaðinn sem þýðir þá að vöruverð mun væntanlega hækka, þó það sé ekki ljóst hversu lengi það verður, þannig að á móti hækkun og erfiðleikum í innlendri framleiðslu kemur hækkun á vörum erlendis. Einn af fulltrúum landbrn. sem kom á fund landbn. hélt því fram að þessi samningur yrði neytendum alls ekki í hag. En ég verð að

segja að ég á mjög erfitt með að trúa því að það verði ekki verðlækkanir þegar til lengri tíma verður litið og menn verða búnir að skipuleggja þessa framleiðslu.
    Í þessu samhengi vil ég líka nefna það, sem skiptir okkur máli eins og aðrar þjóðir, að talið er að GATT-samningurinn muni koma mörgum ríkjum þriðja heimsins mjög til góða. Það er einfaldlega hagsmunamál alls heimsins að staða þeirra ríkja batni. Við erum hluti af þeim heimi líka.
    Menn hljóta líka að velta fyrir sér þeirri grundvallarspurningu að hve miklu leyti er æskilegt að þjóð brauðfæði sig sjálf. Ég held að við hljótum að vera sammála um að það sé æskilegt að við getum sinnt okkar þörfum að sem mestu leyti, en það má ekki kosta hvað sem er. Við þekkjum dæmi um þjóðir eins og t.d. Breta sem hreinlega tóku þá ákvörðun á 19. öldinni að fórna sínum landbúnaði. Þeir þurftu reyndar á vinnuaflinu að halda í annað og sáu fram á að þeir gætu náð í mat annars staðar á sambærilegu verði og þeir einfaldlega fórnuðu sínum landbúnaði. Ég er ekki að leggja það til að sú leið verði farin.
    Síðan vaknar líka sú spurning hvort staða íslensks landbúnaðar sé jafnslæm og bændur vilja vera láta og hvort þessi samningur muni ríða honum hreinlega að fullu eins og fram hefur komið í umræðunni.
    Það hefur þegar verið mörkuð sú stefna hér á landi að draga úr stuðningi við landbúnaðinn og þar er þegar farin af stað mikil endurskipulagning, en sú stefna sem mörkuð hefur verið gengur nokkuð þvert á þá leið sem verið er að fara í GATT-samningnum og því ekki að ástæðulausu að bændur eru áhyggjufullir þar sem hér hefur verið farin sú leið að taka upp beinar greiðslur til bænda en fella niður útflutningsbætur meðan nákvæmlega þveröfug leið er farin í GATT-samningnum.
    Mín skoðun er sú að bændur verði að setjast niður og skoða sína stöðu rækilega og treysta fyrst og fremst á gæði og aftur gæði íslensks landbúnaðar. Ég tel að í gæðum felist sá kraftur sem við getum byggt á. Mér finnst bændur draga upp allt of dökka mynd af því ástandi sem fram undan er og ég held að ef við horfum raunsætt á þetta mál muni verða fyrst og fremst um að ræða innflutning á grænmeti, blómum, ostum og hugsanlega unnum kjötvörum. Ég held að þrátt fyrir allt sé fjarlægðin okkur nokkur vörn því við skulum ekki gleyma því að t.d. mjólkurvörur, eins og nýmjólk, jógúrt og fleira, hafa takmarkað geymsluþol og er ekki beinlínis spennandi ef hér verður farið að flytja slíkar vörur inn þó með flugvélum væri og því fylgir auðvitað töluverður kostnaður.
    Ég held líka að við megum ekki vanmeta íslenska neytendur. Við skulum heldur ekki gleyma því að landbúnaðurinn úti í Evrópu er víða byggður á þrautpíndri jörð. Þar má t.d. nefna Holland. Er ekki ólíklegt að Hollendingar ásamt fleiri þjóðum verði að draga úr sinni framleiðslu á næstu árum. En grundvallaratriðið er að landbúnaðurinn er að ganga í gegnum breytingar, hann mun ganga í gegnum enn meiri breytingar og hann verður að verða samkeppnisfær og reyna að standa sig eftir því sem kostur er.
    Ég tel að verði af þessum samningi og reyndar áður en hann verður samþykktur verði að skoða allar leiðir til að styrkja landbúnaðinn og samningurinn gerir ráð fyrir því að það verði hægt. Byggðastyrkir verða leyfilegir. Styrkir vegna umhverfisverndar verða leyfilegir. Og þar mætti fleira telja.
    Við vitum ekki enn þá hvað verður um þennan samning á næstu vikum. Landbúnaðarráðherrar Evrópubandalagsins hafa lýst því yfir að þessi samningur sé þannig að hann sé ekki hægt að samþykkja, en það er æðra vald í Evrópubandalaginu en landbúnaðarráðherrarnir og því ekki gott að segja hvað um samninginn verður.
    En að lokum þetta, herra forseti, þegar við skoðum þennan samning er mikilvægt að skoða hann allan og meta hverjir eru heildarhagsmunir íslensku þjóðarinnar.