Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 17:35:00 (2540)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
     Herra forseti. Snemma í þessum ágætu umræðum lét ég skrá mig á lista og var ekkert viss um hvort ég endilega mundi tala í umræðunum en tel samt komið tilefni til að ég geri það og mun reyna að stytta mál mitt.
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir gat þess að hún hefði ekki orðið vör við að í utanrmn. hefðu þessi mál verið rædd. Þau hafa auðvitað verið rædd þar oft og mörgum sinnum í tengslum við Evrópumálin sem við höfum rætt í mörg ár, ýmist í Evrópustefnunefndinni sem enn er við lýði og hefur gefið út heila bók um þessi málefni og líka í utanrmn. Í morgun voru þeir í landbn. svo elskulegir að bjóða mér sem formanni utanrmn. að sitja tveggja tíma fund um þessi málefni, einmitt núna á þessum degi, og síðan var fundur í utanrmn. einmitt um þessi sömu mál. Það er því ekki rétt að við höfum ekki sinnt þeim málum, síður en svo, enda má geta þess að fundir utanrmn. hafa verið allmargir og svo vill nú til að fundurinn í morgun var sá 799. talsins frá upphafi í 63 ára sögu þannig að 800. fundurinn verður núna einhvern tíma bráðlega hvort sem við höldum eitthvað upp á hann eða ekki. En það hafa verið mjög tíðir fundir í nefndinni og yfirleitt vikulega á þessu þingi.
    Ég ætla aðeins að fá að lesa inngang að þeim drögum sem unnin hafa verið fyrir

Búnaðarfélag Íslands af Katli Hannessyni og eru dags. 2. jan., sem sagt fyrir fáum dögum. Og þau heita, með leyfi forseta: ,,Hugleiðingar um hugsanleg áhrif samkomulags GATT-þjóðanna á íslenskan landbúnað, inngangur.``
    ,,Stefnt er að því að skrifa undir nýtt samkomulag GATT-þjóðanna í janúar 1992 sem m.a. hefur mikil áhrif á viðskipti með landbúnaðarvörur. Samningsdrögin í heild eru yfir 200 síður og skiptast í marga kafla, landbúnaðarkaflinn er 72 síður. Lokadrög voru lögð fyrir 20. des. 1991 sem reynt verður að ná samkomulagi um í janúar 1992. Aðildarlönd eiga að skila inn athugasemdum fyrir 13. jan. 1992.``
    Ég hef verið sakaður um að hafa a.m.k. í eina 5--6 mánuði farið um það sem rætt hefur verið í utanrmn. og annars staðar um Evrópubandalagsstörfin og sérstaklega Evrópskt efnahagssvæði óvirðulegum orðum, þetta væru drög að samningum, slitrur hef ég notað líka. Ég held að ég hafi einhvern tíma líka sagt eitthvað í þá áttina að þetta væri uppkast að slitrum. Síðasta plaggið sem við fengum hét meira að segja ,,draft outline``. Hérna eru miklu betri enskumenn en ég. Einhverjir þeirra mundu sjálfsagt geta snúið þessu á góða íslensku, en ég held að það sé ekkert ofsagt, mínar þýðingar. Og þetta er svo enn. Hverjir hafa staðfest það best nema þeir sem mest hafa gumað af stuðningi sínum við allar þessar Evrópuhreyfingar og Evrópubandalagið sjálft þegar þar segir að það standi ekki steinn yfir steini, þetta sé allt saman brot á Rómarsáttmála og sé ólög? Þeir hafa dæmt allt þetta starf nákvæmlega jafnsterkt og ég hef gert eða jafnveikt, hvort orðalagið sem menn vilja hafa.
    En þetta er ekkert grínmál. Ég vil ekki að menn haldi að í mínum huga séu Evrópusamskiptin eitthvert grínmál. Ég hef sagt að við værum Evrópuþjóð og vildum fá að vera það, en vildum líka fá að vera það í friði. Það hef ég sagt á mörgum fundum með þessum herramönnum, bæði sem formaður Evrópustefnunefndar og utanrmn., að við ætluðum ekki að fórna því sem við ættum, miklu verðmætari hluta af yfirborði jarðar en þeir sjálfir. Við eigum nú eftir réttum reglum hafréttarins stærðarsvæði af yfirborði jarðar, allt norður undir pól, og með samningum við Breta getum við náð um 600 mílur suður í höf og 350 mílur á Reykjaneshrygg t.d. Þar eru öll karfamiðin sem verið er að ræða um. Þetta er allt í hendi og við ætlum ekki að fórna neinu af þessu. En við viljum fá leyfi til að lifa í friði og nýta okkar auðlindir í friði.
    Nú er búið að færa að því mjög sterk rök í mörgum ágætum ræðum í dag að við höfum nú þegar ákveðið að greiða ekki útflutningsbætur með þeim vörum sem fara til útlanda. Við ætlum okkur ekki að stunda útflutning á landbúnaðarvörum, a.m.k. ekki að neinu marki. Við þurfum ekkert að skammast okkar fyrir að mæta þessum herrum og segja: Við ætlumst til þess sama af ykkur. Raunar átti sama við um deilurnar í sambandi við Evrópubandalagið og það allt saman.
    Þar hefur t.d. Henning Christophersen, aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópuráðsins sagt, orðrétt man ég það nú ekki, hafði það reyndar hér á borðinu, en þó held ég að ég muni það nokkurn veginn, að Íslendingar hefðu uppfyllt, hann sagði það fyrir 1 1 / 2 ári eða svo við Evrópustefnunefndina alla saman, í einu og öllu uppfyllt allar sínar skyldur. --- Þeir hafa opnað alla sína markaði fyrir okkar iðnaðarvarning og okkar varning yfirleitt. En við höfum brugðist, sagði hann. Það þarf að koma réttlæti þarna á. Við höfum ekki staðið við það sem við lofuðum að gera, sagði þessi forustumaður Evrópubandalagsins. Allt þetta get ég lesið upp orðrétt ef menn vilja, en ég ætla ekki að tefja tímann. Menn vita að ég fer með rétt mál.
    Við höfum allt að sækja og við þurfum ekki að knékrjúpa fyrir þessu fólki í Evrópu. Og þeir ætlast heldur ekki til að við knékrjúpum. Af einhverri ástæðu bera þeir einhverja virðingu fyrir okkur Íslendingum því að við höfum getað byggt upp þetta velmegunarþjóðfélag, þessi litla þjóð úti í miðju Atlantshafi, og þeir vilja styrkja okkur en ekki arðræna. Við eigum ekki að bjóða þeim að arðræna okkur. Þeir ætlast ekki til þess, vilja ekki sjá það. Ef rétt er á málum haldið er allt að vinna og engu að tapa að mæta þessum mönnum án blygðunar og við þurfum ekkert að biðja afsökunar á því að við erum til.
    Þessi drög eru rúmar 300 síður sem mér skilst á sumum að þeir telji að þeir hafi lesið og viti hvað standi í. En það hef ég ekki gert frekar en aðrir, alla þessa pappíra og öll fylgiskjölin sem eru með þeim. Síðan segir að það megi skipta þeim í markaðsaðgang, sérstök öryggisatriði, innanlandsstuðning, útflutningsbætur, takmörkun á innflutningi vegna dýra o.s.frv. Þetta hefur enginn maður hér inni getað haft tíma til að læra að því gagni að hann geti sagt nákvæmlega hvað í þessu felst. Auðvitað er þetta allt enn þá í mótun og verður í mótun og við eigum að flýta okkur hægt.
    Við eigum ekki að fórna neinu af þeim stórkostlega ávinningi sem við höfum unnið í sambandi við okkar landhelgismál og hafréttarmál yfirleitt sem allt er nú tvinnað saman. Og um okkar áhrif erlendis þar sem við viljum beita þeim eins og við gerðum t.d. í deilunni um Eystrasaltslöndin og nutum virðingar fyrir, við eigum ekkert endilega að vera að flagga því að við höfum gert þetta eða gert hitt. Við eigum að gera það sem við teljum rétt og þegar við teljum það rétt og við höfum betri aðstöðu til þess oft og tíðum en stórveldin að ganga á milli manna og taka kannski einhverja áhættu.
    Kannski unnum við þorskastríðin af því að við vorum nógu litlir til þess að það var ekki hægt að skjóta á okkur, en þá vorum við að vinna réttindi ekki bara fyrir okkur heldur líka fyrir Breta og önnur strandríki. Og okkar áhrif voru þau að strandríkin sameinuðust um að vísu kannski of miklar kröfur vegna þess að það var talað um að sameiginleg arfleifð mannkyns ætti að vera a.m.k. hluti hafsbotnsins og eitthvað af 200 mílunum. Við vorum hins vegar strandríki og þau eru um það bil 3 / 4 hlutar af löndum heims, strandríkin eru svo mörg --- og við höfum tekið okkar rétt.
    Við getum áreiðanlega komið til móts við margt fólk í þessum heimi, en við látum ekki svo undan að við fórnum okkar lífshagsmunum og því sem við eigum að alþjóðalögum.
    Ég þarf svo sem ekki að segja neitt meira nú. Það er alveg ljóst að það verður ekki eins og í innganginum er nefnt að um lokadrög sem voru lögð fram 20. des. 1991 verði reynt að ná samkomulagi í janúar 1992 og síðan eigi að skila athugasemdum fyrir 13. janúar. Það er sjálfsagt að skila athugasemdum. Við erum þegar búnir að því. Við erum búnir að leggja fram okkar plögg sem eru alveg jafngild þeim sem fínu mennirnir með fínu nöfnin hafa verið að senda frá sér. Mér finnst sjálfsagt að athuga það í utanrmn. og ríkisstjórnin gerir það strax á morgun að árétta alla fyrirvara um allt sem þarna stendur. Og það er algerlega fáránlegt að svona víðáttumikil og við skulum segja voldug, alla vega eru það heimssamtök sem eru með GATT-reglurnar, algerlega útilokað að nokkur svo stór samtök geti afgreitt nokkuð í þessu líki á nokkrum vikum. Það verður ekki gert. Við höldum okkar striki og gerum okkar kröfur og stöndum á okkar rétti og sjálfsagt að senda frekari athugasemdir til að tryggja okkur lagalega. En þetta á eftir að taka langan tíma, guði sé lof. Við skulum bara halda okkar striki og okkar ró.