Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 17:47:00 (2541)

     Steingrímur Hermannsson :
     Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið, en á fáein atriði vildi ég minnast.
    Ég vil í fyrsta lagi fara nokkrum orðum um meðferð þessa máls í fyrri ríkisstjórn. Mig langar einnig til að varpa fram nokkrum spurningum til hæstv. utanrrh., m.a. með tilvísun til þess sem hann hefur sagt um þennan samning og þá ekki síst hagsmuni neytenda í því sambandi.
    Um landbúnaðinn hefur verið ítarlega rætt hér í dag og skal ég stytta mál mitt mjög um hann. Ég átti að vísu ekki kost á að hlusta á hæstv. landbrh., ég var fjarverandi af ákveðnum ástæðum, en mér skilst að skýrsla hans hafi verið mjög samhljóða þeirri skýrslu sem bændasamtökin hafa tekið saman. Sú skýrsla er afar augljós. Þar segir hreint út á síðustu síðu að íslenskur landbúnaður muni aldrei geta keppt við landbúnað annarra landa þar sem heimilt verður að greiða 64% útflutningsbætur áfram eða halda óbeinum styrkjum. Hvorugt af þessu höfum við ætlað okkur. Og það segir í þessari skýrslu og því er ekki á móti mælt að þetta muni þýða að landbúnaður leggist niður í harðbýlli löndum og það er Ísland alveg tvímælalaust. Spurningin er í fyrsta lagi: Viljum við Íslendingar leggja niður okkar landbúnað að mestu leyti? Er það okkur til hagsbóta sem sjálfstæðri þjóð? Er það neytendum til hagsbóta? Ég svara öllum þessum spurningum tvímælalaust neitandi.
    Svo ég komi að meðferð þessa máls í fyrri ríkisstjórn verður að segjast eins og er að við vöknuðum upp við vondan draum, getum við sagt, á haustmánuðum þegar við sáum hvert stefndi með þessa samninga í GATT þar sem ekki virtist gætt þeirrar sérstöðu sem Íslendingar hafa í landbúnaðarframleiðslu, ekki síst með tilliti til legu landsins o.s.frv. Þetta var rætt margsinnis í ríkisstjórninni og niðurstaðan varð sú að samkomulag varð um að leggja fram ákveðið tilboð af Íslands hálfu sem ég veit að hæstv. fyrrv. landbrh. hefur rakið hér. Ég vek athygli á að á þessu tilboði, sem var samstaða um í ríkisstjórninni, m.a. af hálfu hæstv. utanrrh., hefur orðið gífurlega mikil breyting í það sem nú er rætt um. Í því tilboði sem við lögðum fram var gert ráð fyrir að heimila innflutning á 1--2% landbúnaðarafurða. Þarna var ekki gert ráð fyrir ótakmörkuðum innflutningi með tollígildum eða slíkri vernd. Ég þarf ekki að fara nánar út í það því ég veit að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur rakið það.
    Ég sé ekki betur, þegar ég les það sem ég hef fengið í hendur um þennan samning nú, en að um algjöra kollsteypu sé að ræða. Ég sé ekki betur en verið sé með þessum samningi að ná saman sjónarmiðum EB og Bandaríkjanna, bókstaflega ekkert annað. Fyrri samningar strönduðu á því að þessi stórveldi, ef ég má kalla EB það, eða þríhöfða þurs eins og hæstv. utanrrh. kallar það gjarnan, gátu ekki komið sér saman. Á því strandaði þessi GATT-meðferð um áramótin 1990--1991. Nú hefur framkvæmdastjóri GATT lagt sig fram um að mæta þessum tveimur ólíku sjónarmiðum. Og hvernig hefur það verið gert? Það hefur verið gert með því að leyfa þessum tveimur, Bandaríkjunum annars vegar og EB hins vegar, að halda obbanum af því sem þau leggja áherslu á. Það vita allir menn að Bandaríkjamenn styðja sinn landbúnað, jafnvel meira miðað við þjóðarframleiðslu en flestar aðrar þjóðir. Þeir gera það hins vegar með aðferðum sem í þessum samningi eru skilgreindar sem ekki markaðstruflandi. Þeir borga bændum milljarða eftir milljarða fyrir að taka land úr framleiðslu. Þeir borga tekjutryggingar og þeir kaupa upp framleiðslu til að halda uppi verði o.s.frv. Þetta er leyft af því það er ekki talið markaðstruflandi. Það má eflaust lengi deila um það hvort þetta er ekki markaðstruflandi. Fallist er á meginsjónarmið Evrópubandalagsins að mega halda áfram sínum beinu styrkjum við landbúnaðinn, 64% útflutningsbótum. Að Íslendingar --- og ég vil reyndar segja Norðurlöndin --- skuli fallast á slíkt sjónarmið er ofar mínum skilningi. Ég skil það ekki.
    Mér skilst að Kanadamenn hafi haldið þarna langbest á spöðum og andmælt og að við skulum ekki skipa okkur í þann flokk er hreint og beint ótrúlegt og hlýtur að vera af því, sem ég heyrði áðan hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að hæstv. utanrrh. hafi ekki haft tíma til að sinna þessu. Ég vil ekki trúa því, sem sumir segja, að hæstv. utanrrh. og reyndar hæstv. viðskrh. trúi því svo fastlega að allt sem erlent er sé best fyrir okkur Íslendinga. Það er heldur alls ekki svo. Við erum í allt annarri stöðu en þessar þjóðir og

hljótum að halda fram okkar sjónarmiðum og okkar stefnu, því sem okkur hentar eins og hv. formaður utanrmn. sagði áðan, og ég treysti því að hann haldi þar fast á spöðum.
    Þetta er það fyrsta sem ég vildi leggja áherslu á. Hér er um allt annan samning að ræða en gefið var undir fótinn með í fyrri ríkisstjórn, gjörsamlega ólíkt. Þetta er að leggjast flatur á magann fyrir Bandaríkjunum og Evrópubandalaginu og ekkert annað. Vitanlega eigum við ekki að taka þátt í því og hafa þar harða fyrirvara fyrir Íslands hönd.
    Það eru nokkur atriði, eins og ég sagði áðan, sem hæstv. utanrrh. hefur nefnt, sem komu mér mjög á óvart eftir að ég fór að lesa þennan samning Hæstv. utanrrh. sagði í fjölmiðlum í gær að það væri hrein endaleysa að íslenskum landbúnaði stafaði einhver hætta af þessum samningi. Eingöngu yrði leyfður innflutningur á þremur af hundraði af allri íslenskri landbúnaðarframleiðslu. Er það rangt hjá mér þegar ég les þennan samning, og ég var að lesa hann aftur nú eða það sem ég hef um hann? Leyfður er ótakmarkaður innflutningur, en það má leggja á hann tollígildi sem kallað er eða jöfnunartoll. En þessi tollígildi verða að lækka um 36% á sex árum. Þar með verður íslenskur landbúnaður að lækka sig. Á sama tíma ætlum við að afnema útflutningsbætur hér og beina styrki, en Evrópubandalagið fær að halda því. Það fær hvert smábarn séð hvað það er fáránlegt í raun og veru að leggja sig undir slíkt.
    Mig langar til að spyrja hæstv. utanrrh.: Hefur hann lesið þennan samning? Er það virkilega hans skoðun að hér eigi eingöngu að leyfa 3% innflutning á landbúnaðarafurðum? Er rangt hjá mér að það eigi að leyfa innflutning á öllu öðru, en með tollígildum sem eingöngu verða til fárra ára? Eða er það virkilega svo að verið sé að kaupa frið fyrir íslenskan landbúnað til fárra ára? Ætla hæstv. utanrrh. og aðrir Íslendingar ekki að búa í þessu landi lengur eða hvað?
    Það kemur mér líka á óvart, sem ég heyrði reyndar haft eftir hv. þm. Árna Mathiesen nýlega, að mikil vörn væri í þessum samningi af heilbrigðisástæðum. Samkvæmt þeirri skýrslu sem bændasamtökin hafa gert og mér skilst að hæstv. landbrh. styðji er þar eingöngu um að ræða hráar og frystar kjötafurðir. Allar unnar kjötafurðir yrðu frjálsar, allar mjólkurafurðir frjálsar. Eins og hv. þm. eflaust veit framleiðum við ekki smjör án þess að hafa einhvern afgang og ekki rjóma án þess að hafa afgang o.s.frv. Sú fjarlægðarvernd sem hæstv. utanrrh. talaði um yrði þá eingöngu fyrir neyslumjólk. Hefur verið skoðað hvað hún er í raun mikil eða er hagkvæmt fyrir íslenskan landbúnað að framleiða eingöngu neyslumjólk og hafa enga vinnslu úr mjólk?
    Ég lýsi einnig undrun minni þegar menn eru að lýsa mikilvægi þessa samnings fyrir neytendur á Íslandi. Ég skil það satt að segja ekki. Vera má að hægt sé að ná fram einhverri verðlækkun með tímanum, en við vitum að til að byrja með mun verða veruleg hækkun t.d. á kornvöru, svo mikil að t.d. svínarækt og kjúklingarækt hér verður líklega útilokað. Við skulum láta það vera þó það sé vissulega mikilvægt. En öll brauðvara og allt slíkt mun hækka. En jafnvel þó það lækki svo einhvern tímann í framtíðinni og heildarlækkun verði á landbúnaðarafurðum hafa menn þá reiknað það dæmi til enda? Hafa menn reiknað þá hagsmuni sem felast í því að neytendur vinna við flutning og vinnslu á landbúnaðarafurðum í landinu? Hafa menn skoðað hvað það er mikill fjöldi sem vinnur við slíkt um landið allt og hafa menn skoðað það atvinnuleysi sem mundi svo sannarlega fylgja eða líta menn bara einhliða á verðið? Eða hvernig er það, hafa menn gert sér grein fyrir því hvort landbúnaðarafurðir sem við fengjum væru af sömu gæðum og þær sem við framleiðum sem eru viðurkenndar sem hágæðavara? Hvernig með hormónakjötið sem fólk erlendis borðar í stórum stíl? Hafa menn athugað það? Hvað segja menn um það? Getum við stöðvað innflutning á slíku?
    Nei, ég leyfi mér að fullyrða að neytendur mundu kaupa þetta svokallaða frelsi ofurverði fyrir utan að kippt er einni stoð undan fullveldi og sjálfstæði þessarar þjóðar. Ég ætla ekki að rekja það hér. Það vekur undrun mína hvað núverandi hæstv. ríkisstjórn leggst lágt í þessum málum og leitar stöðugt forsjár erlends valds. Það megum við Íslendingar að sjálfsögðu aldrei nokkurn tímann leyfa okkur.