Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 17:59:00 (2542)

     Einar K. Guðfinnsson :
     Virðulegi forseti. Nú er komið að nokkrum þáttaskilum í alllöngu ferli viðræðna á vegum GATT sem hafa staðið yfir frá árinu 1986. Mér finnst eins og það hafi svolítið örlað á því í umræðum upp á síðkastið að menn hafi ekki fyllilega gert sér grein fyrir því að þessar viðræður hafi staðið allan þennan tíma og meginmarkmið viðræðnanna hafi verið þau að auka viðskiptafrelsi á tilteknum sviðum, m.a. á sviði landbúnaðar, og auka heimsviðskiptin m.a. á sviði landbúnaðar. Þessu var þó rækilega gerð grein fyrir í upphafi viðræðnanna og þess vegna ætti mönnum ekki að koma svo mjög á óvart að núna þegar við erum komin að ákveðnum þáttaskilum í þessu máli blasa við okkur tillögur sem fela í sér rýmkun á viðskiptum með þessar afurðir. Kannski má þó segja að viðbrögð fráfarandi ríkisstjórnar hafi borið keim af þessu, að menn hafa gert sér grein fyrir að eðli þessara viðræðna var í raun og veru að auka viðskiptafrelsið með tiltekna vöruflokka því auðvitað var það þannig, hvernig svo sem við annars lítum á tilboð hæstv. fráfarandi ríkisstjórnar, að það fól í sér verulega breytingu á þeim viðskiptaháttum sem höfðu átt sér stað með landbúnaðarvörur hér á landi.
    Ég vek athygli á því, sem kom fram í máli hæstv. landbrh., að samkvæmt því tilboði sem var lagt fram fyrir rúmu ári skuldbundu Íslendingar sig til að draga úr stuðningi innan lands í raungildum um allt að 25% fram að árinu 1996. Jafnframt því lýstum við því yfir að við værum reiðubúnir að rýmka innflutningsheimildir og draga úr magntakmörkunum á unnum mjólkur- og kjötafurðum. Við vorum reiðubúnir samkvæmt þessu tilboði að breyta innflutningstakmörkunum í tolla á vissar landbúnaðarafurðir. Þá kom líka fram í þessu tilboði sá vilji fráfarandi ríkisstjórnar að draga úr útflutningsbótum með það að markmiði eftir 1996 að þær væru felldar niður að fullu. Þetta segir okkur að eðli þeirra viðræðna sem nú eru komnar á nýtt stig var að auka viðskiptafrelsi með tiltekna vöruflokka eins og landbúnaðarafurðir og auka heimsviðskiptin með þessa þætti.
    Ég tel hins vegar mikilvægt að leggja áherslu á það, sem fram kom í mjög athyglisverðri og fróðlegri ræðu hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur, 18. þm. Reykv., þar sem hún dró fram að þessar viðræður snúast um miklu fleiri atriði en bara landbúnaðarmálin. Og þó að landbúnaðarmálin hafi að þessu sinni verið tilefni þessarar utandagskrárumræðu er ástæða til að vekja athygli á að ef við náum bærilegum samningi, ef það næst bærileg niðurstaða í viðræðum GATT-ríkjanna, geta falist í þessu gríðarleg sóknarfæri fyrir okkur Íslendinga á mjög mörgum öðrum sviðum og er fullkomlega ástæðulaust að drepa því máli á dreif. Hér er um að ræða mjög þýðingarmikla þætti sem geta skipt miklu um framtíðarþróun íslensks atvinnulífs, sjávarútvegs og iðnaðar eins og fram kom m.a. í máli hennar.
    Það er ljóst að í þessum miklu viðræðum, sem hafa staðið yfir allan þennan tíma, hafa hagsmunir mjög vegist á. Það stangast á hagsmunir einstakra ríkja og ríkjaheilda eins og fram hefur komið. Að hluta til ber málamiðlunartillaga Arthurs Dunkels þessa merki. Hún er tilraun til að sætta tiltekin sjónarmið. Vissulega er það rétt, sem fram hefur komið, að hvað landbúnaðarkaflann áhrærir ber tillagan þess merki að þar hafa m.a. ást við ríki Evrópubandalagsins og Bandaríki Norður-Evrópu. Það er engin ástæða til að draga dul á það. Hinu er líka ástæða til að vekja athygli á, að það er ekki svo að dagsetningin 13. janúar sé einhver lokadagsetning í þessum viðræðum. Því fer víðs fjarri.

    Ég vek athygli á að á fundi landbúnaðaráðherra Evrópubandalagsins kom fram, og það er raunar sjónarmið Evrópubandalagsins, að það sem muni gerast mánudaginn 13. janúar sé einfaldlega að þessi 108 ríki GATT geti lagt fram sitt álit á málamiðlunartillögu Arthurs Dunkels, framkvæmdastjóra GATT. Að því búnu hefst umræða á nýjan leik þar sem verður vegið og metið innlegg hvers og eins ríkis. Það sem augljóst er m.a. af umræðum sem átt hafa sér stað innan Evrópubandalagsins er að á þeim bæ eru menn fráleitt sammála þeim hugmyndum sem fram hafa komið hjá framkvæmdastjóra GATT. Þeir líta á þetta sem eins konar samningsplagg, eins og ég hygg að Andriessen hafi orðað það, og þeir eru býsna neikvæðir á marga þætti þessa plaggs. Það má líka vekja athygli á því að a.m.k. þrjú þessara ríkja hafa haldið uppi mjög harðri andstöðu við tillögu Dunkels, Frakkar, Írar og Belgíumenn.
    Ég er þeirrar skoðunar að við Íslendingar eigum að ganga til GATT-viðræðnanna uppréttir og óhræddir. Í þessum viðræðum geta falist, eins og ég hef áður sagt, mjög miklir möguleikar fyrir okkur og það væri alveg fráleitt fyrir okkur að loka einhverjum dyrum í því sambandi.
    Vissulega eru hagsmunir landbúnaðarins okkur mjög þýðingarmiklir og þá má síst bera fyrir borð og við þurfum að hyggja að ýmsu í þeim þáttum sem marka sérstöðu þessarar atvinnugreinar hér á landi. Ég nefni í þessu sambandi atriði sem komu með beinum og óbeinum hætti fram í ágætri ræðu hæstv. landbrh. þar sem hann m.a. vakti athygli á því að það væri nauðsynlegt fyrir okkur að hyggja að mörgu til að geta fallist á þessi ítarlegu samningsdrög Dunkels. Ég hygg að þau séu ekki upp á 300 blaðsíður eins og var nefnt áðan heldur las ég í Economist að þau væru 436 blaðsíður svo að það er kannski ekki við því að búast að við fáfróðir höfum lesið þetta allt frá orði til orðs. Það er sem sagt nauðsynlegt að mínu mati til þess að við getum fallist á þessi drög að það komi til í fyrsta lagi veruleg rýmkun á skilyrðum varðandi grænar greiðslur þar sem tekið sé tillit til okkar aðferða við innlendan stuðning við landbúnaðinn. Það er ljóst að við höfum skipað þeim málum í ákveðinn farveg og haft m.a. að leiðarljósi að draga úr almennum stuðningsaðgerðum við landbúnaðinn, gera honum kleift að standa á eigin fótum og skipa málum þannig að það verði ekki um að ræða umframframleiðslu. Sérstöðu okkar varðandi okkar aðferðafræði í þessum efnum verður að viðurkenna með einum eða öðrum hætti. Annars er ekki um að ræða ásættanlega niðurstöðu.
    Það hefur líka komið fram að sérstaða okkar bústofns og sú staðreynd að við höfum búið við fjarlægðarvernd og einangruð skilyrði hefur gert að verkum að við þurfum að gera mjög miklar kröfur varðandi innflutning á lifandi dýrum. Sjónarmið okkar í þessu sambandi verða fyllilega að fá viðurkenningu. Mér er ljóst að það hníga mjög umtalsverð vísindaleg rök að því að ekki komi til greina að heimila innflutning á lifandi dýrum til landsins, en þetta þarf að vera niðurneglt og tryggt til þess að við getum fallist á þá rýmkun í viðskiptum með landbúnaðarvörur sem er verið að impra á.
    Í þriðja lagi má nefna, svo að ég tæpi á nokkrum atriðum, að viðmiðunartíminn árið 1986 er okkur afar óheppilegur. Þess vegna hljótum við að gera kröfu til þess að staða okkar í þessu máli sé skoðuð alveg sérstaklega og rýmkað til í þessu sambandi.
    Þetta eru nokkur atriði sem ég taldi ástæðu til að árétta í ræðu minni. Ég ítreka enn á ný að ég tel að við Íslendingar eigum mikla hagsmuni af því að frelsi í heimsviðskiptum sé sem mest. Við erum vöruútflutningsþjóð sem lifir á því að eiga sem greiðastan aðgang með afurðir inn á sem flesta markaði. Þróun mála í heiminum hefur líka verið þannig alveg frá lokum heimsstyrjaldarinnar að heimsviðskiptin hafa verið að aukast. Á sama tíma og vöruframleiðslan jókst í GATT-ríkjunum fimm- eða sexfalt á árunum 1950--1984 jukust heimsviðskiptin a.m.k. fimmtánfalt með þessar vörur. Það segir okkur að þróunin í

heiminum er einfaldlega í þessa átt. Árið 1986 komust menn að þeirri niðurstöðu að eðlilegt væri að stíga næsta varfærnislega skrefið m.a. á sviði landbúnaðar og fleiri þátta. Við eigum að taka þátt í þeim viðræðum með opnum huga, djarfir og óhræddir, en við eigum að halda fram okkar sérstöðu sem er allnokkur. Við getum fært að því gild rök og það eigum við að gera eins og mér fannst ræða hæstv. landbrh. vissulega bera vitni um.