Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 18:33:00 (2547)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Hver eru meginatriði þessa máls? Mætti ég biðja hv. þm. að kynna sér greinargerð frá hagfræðingi bændasamtakanna þar sem hann dregur saman hver séu meginatriði þessa máls og allir þeir sem þekkja þetta mál vita hver eru? Þau eru þessi:
    Hvaða tillögur eru uppi um að draga úr innanlandsstuðningi við landbúnað? Í íslenska tilboðinu var að draga það saman um 25%, í núverandi umræðuvettvangi um 20%.
    Annað meginatriðið varðar útflutningsbætur. Í íslenska tilboðinu var tilboð um að draga úr þeim allt að 60%. Í þeim samkomulagsgrundvelli sem nú liggur fyrir 36%.
    Hvert var þriðja meginatriðið í þessum samningum? Það er um hvort eigi að opna fyrir viðskipti með landbúnaðarafurðir í staðinn fyrir bann eða kvóta. Og þriðja meginatriðið í tillögum fyrrv. ríkisstjórnar var að það var opnað fyrir innflutning á unnum mjólkur- og kjötafurðum. Það kom skýrt fram í mínu máli að auk þess hefðu verið settir fyrirvarar þar sem aðalatriðin væru annars vegar heilbrigðisreglugerðir, hins vegar vísan til mismunar í verðbólguþróun.
    Fjórða meginatriðið varðar það að úr því að búið var að gera tilboð um að draga úr magntakmörkunum og heimila þann innflutning sem hér stendur fallast Íslendingar á að lækka jöfnunargjöldin sem kæmu í staðinn um allt að 30% á sex árum. Í umræðugrundvellinum nú er verið að ræða um 36%.
    Ég bið hv. þm., sem fer með stóryrði um að verið sé að snúa út úr, að halda sig við staðreyndir. Ég hef ekkert sagt annað en það: Þetta eru staðreyndirnar um aðalatriði hins íslenska tilboðs. Það hefur enginn mótmælt því að þetta eru staðreyndirnar, enda verður þeim ekki haggað, hv. þm. Svo geta menn sagt: Já, en það er sitthvað fleira. Ég hef í stuttu máli einungis haldið mig við aðalatriðin og þau standa óhögguð, hv. þm.