Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 18:51:00 (2556)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þm. sem bað um utandagskrárumræðu í dag, hv. 2. þm. Suðurl. Mér sýnist að það hafi verið fyllilega tímabært að hér á landi færi fram einhver umræða um þessi mál.
    Í dag er 7. jan. og fyrir 13. janúar þurfum við að vera búin að koma á framfæri okkar athugasemdum. Ég hef ekki orðið vör við að mikið hafi verið fjallað um þetta, hvorki í fjölmiðlum né heldur á Alþingi undanfarnar vikur. Aftur á móti hefur verið mikil umræða í Noregi um þessi mál og þar hefur því verið velt upp síðustu vikur hvaða hag eða ekki hag Noregur hefði af því að gerast aðili að því samkomulagi sem nú liggur fyrir og hefðum við gjarnan mátt taka frændur okkar þar til fyrirmyndar. Þar virðast þeir nefnilega vera að ræða það sem skiptir máli í framtíðinni en ekki alltaf að ræða það sem við hefðum helst átt að ræða í gær og afgreiða í fyrradag og get ég þar vitnað til fjárlaga sem voru afgreidd á síðustu dögunum fyrir jól, en þeim áttu að fylgja ýmis frumvörp sem enn þá er verið að ræða þó að þau hefðu átt að fara í gegnum hv. Alþingi fyrir áramót. Í þessu efni þyrftum við alþingismenn að taka okkur tak og þó sérstaklega hæstv. ríkisstjórn.
    Hér hefur á undanförnum árum verið staðið í því að reyna að aðlaga landbúnaðarframleiðsluna í landinu markaðnum innan lands. Í því sambandi hafa verið gerðir búvörusamningar til að vinna þar með bændum. Búvörusamningarnir hafa haft að markmiði að hafa samvinnu við bændur um málið og það er einnig stefna Kvennalistans að hafa það. Á næsta hausti á að hætta að greiða útflutningsbætur en við sjálf að vera okkur nóg um þá framleiðslu sem hér er, að hún dugi okkur til þess viðurværis sem við þurfum af landbúnaðarframleiðslu.

    Vitaskuld hafa búvörusamningarnir og sú skerðing sem bændur hafa þar tekið á sig verið þeim að ýmsu leyti óhagstæð, en þeir hafa verið samvinnufúsir og viljað reyna að samlaga sig þeirri þróun sem er að verða í heiminum. Ég tel ekki á tímum samdráttar í atvinnulífi landsmanna að það sé verjandi að auka innflutning á landbúnaðarvörum og bæta þar með enn þá fleirum á atvinnuleysiskrá því að það er vitað mál að verði leyfður innflutningur á landbúnaðarvörum eins og drög að GATT-samningi gera ráð fyrir mun það enn auka erfiðleika bændastéttarinnar og verða til að draga enn frekar úr þeirri atvinnu sem þar er. Við eigum aftur á móti frekar að styðja þá atvinnusköpun sem er í landinu og hefur verið, ekki reyna að rífa hana niður heldur vinna í samvinnu að því við bændur að aðlaga þetta nútímaháttum. Við eigum ekki á sama tíma að leyfa að landbúnaður annarra þjóða, sem er ríkisstyrktur mjög, fái aðgang að okkar mörkuðum og finnst mér þess vegna alls ekki koma til greina að leyfa frjálsan innflutning búvara meðan við höfum hér framleiðslu sem annar okkar þörfum.
    Frá Búnaðarfélagi Íslands hefur komið ályktun þar sem m.a. segir að útflutningsbætur og annar stuðningur sé heimill í samkeppnislöndunum í slíkum mæli að íslenskir bændur væru í mörgum tilvikum alveg varnarlausir gagnvart innflutningi þessara þjóða.
    Ég tel að við séum að semja um landbúnaðarmál. Við erum að ræða um landbúnaðarkafla þessara GATT-samninga. Við erum líka að ræða um önnur atvinnumál, það er rétt, og þurfum vitaskuld að taka tillit til þeirra þegar við ræðum landbúnaðarmál rétt eins og önnur atvinnumál. En við eigum ekki að fórna íslenskum landbúnaði vegna hagsmuna annarra atvinnugreina heldur verðum við að finna leið til að koma því heim og saman. Ég tek því undir með bændum sem hafa sent frá sér þessa ályktun og segja, með leyfi forseta, að reynist ekki unnt í áframhaldandi viðræðum að tryggja samning sem íslenskur landbúnaður getur búið við verði Íslendingar að fá sérstöðu sína viðurkennda með sérákvæðum innan samningsins.
    Í öllum þeim orðaskiptum sem fóru fram áðan var m.a. vitnað í minnisblað. Þar segir skýrum stöfum að innflutningur á soðnum og unnum landbúnaðarafurðum verði ekki takmarkaður af heilbrigðisástæðum. Það liggur því í augum uppi, þó að setja eigi ákvæði um það að hægt sé að takmarka innflutning landbúnaðarafurða af heilbrigðisástæðum, að það verður ekki hægt. Til þess að það væri gerlegt yrðu að fara fram mjög miklar rannsóknir hér á landi og ég hef enga trú á því að við Íslendingar gætum staðið í því að sinna þeim þætti svo að viðunandi sé né heldur að það verði tekið það mark á því að innflutningur verði takmarkaður af heilbrigðisástæðum.