Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 20:12:00 (2562)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Virðulegur forseti. Ég vil eins og fleiri ræðumenn byrja á að þakka málshefjanda fyrir að hlutast til um að fá þessa umræðu hér. Það var sannarlega þarft og tímabært og að mínu mati mjög mikilsvert að hún hefur getað farið fram og ég tek undir orð hv. 2. þm. Norðurl. v. í þeim greinum að ég tel að hæstv. ríkisstjórn hafi fengið mikilvæga leiðsögn um afstöðu þingheims í málinu. Svo tiltölulega samhljóma hefur megintónninn í þessari sinfóníu verið sem hér hefur verið slegin.
    Ég sakna þess hins vegar að hæstv. ríkisstjórn sýni umræðunum þá virðingu og þinginu að hlýða á hana í ríkari mæli en raun ber vitni og það er sannarlega dapurlegt að til að mynda hæstv. utanrrh., hæstv. viðskrh. og svo að sjálfsögðu hæstv. landbrh. skuli ekki sitja í þessari umræðu að staðaldri. Item mætti náttúrlega hæstv. forsrh., sem svo á að heita að fari með byggðamál, gjarnan hafa í huga að hér eru ræddir þeir hlutir sem gætu haft ekkert lítil áhrif á byggðamunstur á Íslandi ef illa tækist til. Reyndar er það svo að maður er orðinn ýmsu vanur í þessum efnum, hæstv. forseti, og ég kippi mér þess vegna ekki mikið upp við það þó að hæstv. utanrrh. hagi sér með þeim hætti sem hann gerir hér, þ.e. að vaða í ræðustólinn og tala eins og hann hafi einkarétt á staðreyndum, enginn annar sé um það bær að fullyrða hvað sé rétt og hvað sé rangt í neinu máli nema hans hágöfgi, hæstv. utanrrh. sjálfur, og rjúka svo héðan úr þingsalnum og hverfa á braut þar með og vera ekki til svara eða til þess að hlýða á þegar aðrir ræðumenn t.d. rökræða málflutning hans.
    Hæstv. utanrrh. bar mig þeim sökum að ég rökstyddi ekki mínar ásakanir í hans garð. Það hafði ég reyndar gert í fyrri ræðu minni og ætlaði mér að gera í þessari og ég vísaði til fjölmargra raka sem komið höfðu fram í máli annarra ræðumanna, en ég ætlaði þó að gera aðra tilraun, eins og ég reyndar sagði við hæstv. utanrrh., með því að fara nokkuð yfir og bera saman í tölusettum liðum, sem hentar hæstv. utanrrh. vel eins og kunnugt er, að hlutirnir séu taldir fram í fyrsta, öðru og þriðja lagi o.s.frv., þannig að hæstv. utanrrh. næði kannski að nema það sem rétt er í þessu máli að mínu mati. En það er umhendis að gera það að honum fjarstöddum. Ég get ekki, býst ég við, gert kröfur til þess og vil það ekki vegna annarra þátttakenda að umræðunum verði frestað og utanrrh. kallaður til fundar því að mér er tjáð að hann sé rokinn úr húsinu, en ég átel þessa framkomu og mótmæli henni og vona að þau mótmæli berist hæstv. utanrrh. t.d. í gegnum

hæstv. forseta þingsins.
    Það er alveg ljóst að umtalsverðar og miklar grundvallarbreytingar hafa orðið á, ekki bara því tilboði sem Ísland sendi inn í viðræðurnar síðla árs 1990 og svo þeim drögum að samningi sem Arthur Dunkel hefur lagt fram heldur endurspeglar tilboð Dunkels mikið fráhvarf frá þeim meginanda umræðnanna innan GATT sem staðið hafa lon og don um landbúnaðarmálin í fimm ár. Frá upphafi hafa verið þar skiptar skoðanir og frá upphafi hafa fjölmargar þjóðir lagt mjög ríka áherslu á að þær vildu geta varðveitt það byggðamunstur og það fæðuöryggi sem þeirra landbúnaður veitti þeim. Ísland hefur verið í þessum hópi. Sameiginlega með fjórum Norðurlandanna hefur Ísland í gegnum málflutningsmann EFTA-Norðurlandaþjóðanna, formann finnsku sendinefndarinnar í Genf, ævinlega flutt þennan málstað og verið í þessum hópi. Og það hefur frá upphafi og fram til þessa dags að ég hélt verið ein megináhersla Norðurlandaþjóðanna að það yrði að fást hvað landbúnaðinn snertir tekið tillit til svonefndra óviðskiptalegra þátta eða ,,non-trade factors non-trade concerns`` eins og það er kallað á erlendu máli í þessum umræðum. Þar er átt við að hlutir eins og byggðamál, fæðuöryggi, félagslegar aðstæður, atvinnuöryggi og aðrir slíkir þættir yrðu að fást teknir með inn í þessa mynd þegar viðskiptafrelsið eða rýmkun á viðskiptareglum væri til umræðu. Það er því alveg furðulegt að heyra menn tala hér, t.d. hæstv. utanrrh., eins og þeir hreinlega viti ekki hvernig málstaður Íslands hefur að svo miklu leyti sem hefur verið um slíkt að ræða verið fluttur á þessum vettvangi.
    Ég held að ég verði að endurtaka það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, að ég fann ekki fyrir því þegar ég fór að sinna þessum málum, aðallega á árunum 1989 og síðan 1990, að málstaður Íslands hefði mikið verið þarna fram borinn nema það sem fór að bera á í landbúnaðarumræðunum í gegnum samráð okkar við hinar Norðurlandaþjóðirnar og fyrir því stóð landbrn. á fundum landbúnaðarráðherra Norðurlandanna og í gegnum m.a. samflot norrænu bændasamtakanna. Ég held að ég hljóti að verða að segja það að að mínu mati virðist svo sem íslenska utanrrn. hafi verið steinsofandi varðandi þessar GATT-umræður lengi framan af, að vísu með þeirri undantekningu, sem ég áður nefndi, að fastafulltrúi Íslands í Genf hefur að mínu mati reynt eftir bestu getu að sinna þessu ásamt með öðrum verkum.
    Svo ég nefni aðeins í nokkrum liðum þau atriði sem hvað mest eru frábrugðin í samningsgrundvelli Dunkels annars vegar og tilboði Íslendinga frá 1990 hins vegar, þá er það auðvitað í fyrsta lagi það grundvallaratriði að samkvæmt grundvelli Dunkels yrði með öllu fallið frá magntakmörkunum eða möguleikum þjóða til að takmarka innflutning með beinum hætti í gegnum kvóta eða hreinlega innflutningsbönn. Þar með hverfur sú vernd, sem hefur verið umreiknuð í peningaígildi upp á milljarða kr., sem landbúnaðarframleiðslunni innan lands er veitt með þeim takmörkunum. Ef menn muna eftir þeim AMS-útreikningum sem gerðir voru í tengslum við þessar viðræður, þá muna menn væntanlega einnig að meginhluti stuðningsins eins og hann birtist fyrir hönd innlendu framleiðslunnar fólst í þessari vernd, ekki í fjárframlögum íslenska ríkisins. Þegar sú vernd sem landbúnaðinum var veitt með innflutningstakmörkunum og innflutningsbönnum var umreiknuð í peninga með því að bera saman heimsmarkaðsverðið annars vegar og verð á innlenda markaðnum hins vegar, þá var þetta orðinn meginhluti stuðningsins við landbúnaðinn sem þarna mundi hverfa á einu bretti.
    Ég vil bæta því við að þessu tengist að sjálfsögðu að ekki yrði um að ræða að hægt yrði að koma við neinni framleiðslustjórn eða öðrum slíkum atriðum sem byggja á þessari vernd og það er það sem bændasamtökin benda réttilega á að kollvarpar í raun og veru möguleikanum á því að reka sjálfstæða innlenda landbúnaðarstefnu.
    Í öðru lagi er grundvallarbreyting fólgin í þeim markaðsaðgangi sem grundvöllur

Dunkels gerir ráð fyrir, þ.e. að opnað verði fyrir innflutning á vörum sem ekki hafa verið fluttar inn, 3% sem vaxi í 5% á þessu árabili, á niðursettu verði. Það skyldu menn athuga að við yrðum neyddir til að hleypa þeim hluta inn á markaðinn á mun lægra verði en gengur og gerist með innlenda framleiðslu með þeim truflandi áhrifum sem það mun hafa að eitthvert tiltekið magn af kjötvörum og mjólkurvörum yrði hér til sölu innflutt á mun lægra verði af því að það er einungis heimilt að leggja tiltölulega lága tolla þar á. Á þeim tíma sem við settum fram okkar tilboð, þ.e. 1990, eins og umræður stóðu þá var gert ráð fyrir að hinn takmarkaði markaðsaðgangur upp á 1--2% yrði tollaður að fullu þannig að hann yrði á sambærilegu verði við innlenda framleiðslu. Einnig að þessu leyti hefur því orðið grundvallarbreyting.
    Í þriðja lagi nefni ég mikið mun óhagstæðari skilgreiningar varðandi flokkun stuðningsgreiðslna en menn töldu að náðst gætu fram á árinu 1990, þ.e. flokkun í græn og gul svæði, og það er alveg ljóst að Bandaríkjamenn hafa þarna mikil áhrif á leikreglurnar sem settar eru varðandi flokkun þessara stuðningsaðgerða. Þær koma þannig út að meginhluti stuðnings Bandaríkjamanna við eigin landbúnað fellur utan hinna óleyfilegu stuðningsaðgerða. Þannig er það t.d. að Bandaríkjastjórn beitir mjög víðtækum óbeinum áhrifum til að hafa áhrif á afkomu bandarískra bænda. Bandaríkjastjórn kaupir allt umframkorn, setur það í geymslur og borgar geymslukostnaðinn á kornið og sér um að flytja það út og greiða það niður til Rússlands eins og annað eða inn á Ástralíumarkað þar sem það er núna selt í stórum stíl á niðurgreiddu verði þannig að jafnvel hin hagkvæma ástralska kornframleiðsla ræður ekki við það. Bandaríkjamenn veita miklum greiðslum í bandarískan landbúnað sem taka mið af landi og ekru en ekki framleiðslu og ekki launum bænda og það er ýmist til að þetta land sé ekki í ræktun eða út á land sem er notað og þessar greiðslur falla ekki undir hinn óleyfilega geira, teljast ekki með o.s.frv.
    Tímans vegna get ég ekki farið nánar út í þetta, en það er alveg ljóst að þessar skilgreiningareglur koma mjög illa við okkur Íslendinga, í raun og veru eins illa og hugsast getur. Það sem er meginbreytingin frá því sem menn gerðu sér vonir um 1990 og þegar búvörusamningurinn var gerður var að menn bundu vissar vonir við það að beinar greiðslur til bænda með þeim hætti sem nýi búvörusamningurinn gerir ráð fyrir mundu sleppa sem leyfilegar stuðningsaðgerðir og ekki hafa bein markaðstruflandi áhrif af því að þá var talið að með því að tengja þær við afkomutryggingu bændanna í gegnum beinar greiðslur með þessum hætti, um slíkt gæti tekist samkomulag í skilgreiningunum.
    Ég nefni í fjórða lagi að þarna vantar verðbætur. Þær voru að sjálfsögðu í tilboði okkar. Að sjálfsögðu átti stuðningurinn að vera framreiknaður og síðan verðbætast ef verðbólga yrði á samningstímanum. Hér er um að ræða að annars vegar rýrnar þetta frá og með viðmiðunarárunum við þá verðbólgu sem síðan hefur verið og síðan með verðbólgu samningstímans.
    Í fimmta lagi nefni ég að hér á að slaka stórlega á heilbrigðiskröfum og snúa þar sönnunarbyrðinni við þannig að við sem höfum áður getað fyrirskipað þeim sem ætluðu að flytja hér inn vöru að sýna fram á það með vottorðum að hún væri heilnæm, samanber ítalskar kartöflur sem ég lét senda til útlanda og/eða henda vorið 1989 af því að heilbrigðisvottorð frá Hollandi reyndist ekki fullnægjandi á kartöflum frá Suður-Evrópu sem fluttar voru í gegnum Holland til Íslands og úldnuðu síðan hér á hafnarbakkanum af því að við stóðum fast á því að þær skyldu standast okkar kröfur. Þá vorum það við sem settum reglurnar, þá voru það útflytjendurnir til okkar sem þurftu að sýna fram á að þeir væru með sín mál í lagi. Hér yrði það öfugt. Við yrðum í hverju tilviki að sýna fram á það og sanna að sjúkdómshætta væri fyrir hendi og það getur verið snúið eins og menn þekkja.
    Ég nefni í sjötta lagi búvörusamninginn. Það er alveg ljóst að búvörusamningurinn er þegar kominn til framkvæmda í veigamiklum atriðum. Alþingi er búið að fullgilda hann með tvennum lögum og tvær ríkisstjórnir hafa framkvæmt hann. Það eru annars vegar lánsfjárlögin frá 1991 og það eru hins vegar fjárlögin fyrir yfirstandandi ár og hefur hæstv. ríkisstjórn ekki áttað sig á því að hún er með afgreiðslu fjárlaga núna í desembermánuði búin að ákveða að hefja framkvæmd búvörusamningsins hvað beinu greiðslurnar snertir þannig að í þeim skilningi hefur verið aflað viðbótarlagastoðar fyrir framkvæmd búvörusamningsins?
    Ég nefni að það kemur mjög óhagstætt við okkur sú niðurstaða sem nú virðist í sjónmáli að útflutningsuppbætur verði lækkaðar minna en markaðsaðgangur hafður hins vegar opnari en áður var talið. Þetta verður mjög umhendis fyrir okkur í ljósi þeirrar stefnu sem hér hefur verið mörkuð og bersýnilega mjög óréttlátt. Hefði hæstv. utanrrh. verið hér hefði ég séð ástæðu til að lesa upp fyrir hann það tilboð sem Íslendingar settu í GATT-viðræðurnar á haustinu 1990 því að hann las það mjög eins og ónefndur aðili í sögunum les Biblíuna, hann las sumt en sleppti öðru. Hann las t.d. sáralítið af fyrstu síðu tilboðsins þar sem skýrt er tekin fram sérstaða Íslands og þeir fyrirvarar sem við setjum. Og hann sleppti ýmsu sem ástæða hefði verið til að taka með í þessari umfjöllun um hið gamla tilboð.
    Það er alveg ljóst, hæstv. forseti, í mínum huga að það er að mörgu leyti slæmt ef þessar miklu viðræður, GATT-viðræðurnar, enda með þessum ósköpum á einn veg eða annan, þ.e. annaðhvort slitni upp úr þeim eða hins vegar að knúin verði þar fram í lokin mjög óréttlát niðurstaða hvað eitt víðtækt samningssvið snertir eins og hér virðist blasa við með landbúnaðinn, mjög óréttlát niðurstaða þar sem risarnir í leiknum gefa skít í hagsmuni annarra aðila en sjálfra sín og knýja fram niðurstöðu bersýnilega eingöngu í eigin þágu. Menn skulu ekki halda að þó svo Ástralir, Nýsjálendingar og Argentínumenn og aðrar þjóðir í Keynes-hópnum telji það illskárra en ekki að kyngja þessari niðurstöðu séu þær ánægðar því þær vita vel hvað þarna er á ferðinni hjá Bandaríkjamönnum og Evrópubandalaginu. En það liggur hins vegar ekki þannig í þeirra tilviki því að nánast hvaða breytingu sem er í þessa veru telja þeir vera sér til bóta og þess vegna munu þeir frekar en ekki neitt samþykkja slíkt að lokum grátandi, en það er síður en svo að þeir vilji vel því ástandi sem þarna er og er í sjónmáli, samanber móttökur Bush höfðingjans í Ástralíu þegar hann var þar á ferðinni.
    Ég tel þess vegna einboðið að ríkisstjórnin verði að koma fyrirvara Íslands þegar í stað á framfæri og verður að liggja fyrir skýrt fyrir næstu helgi hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að fara með sína afstöðu og móta hana. Auðvitað liggur fyrir að þar er allt út og suður eins og venjulega. Og ég segi: Það verður að gefa hv. Alþingi skýrslu þegar ríkisstjórnin hefur komist að niðurstöðu, ef einhver verður, og það verður að gerast í tæka tíð fyrir þann 13. þannig að Alþingi geti þá tekið ákvörðunina ef ríkisstjórnina brestur kjark til þess, þannig að Alþingi geti þá tekið ákvörðun um það hvaða skilaboð verða send fyrir hönd Íslands í þessar viðræður fyrir 13. janúar nk.
    Ég tel að umræðan í dag hafi sýnt og sannað með skýrum hætti að yfirgnæfandi meirihlutastuðningur er á Alþingi fyrir því að setja fram varanlegan fyrirvara gagnvart þessu tilboði og/eða hafna því ef menn hafa ekki trú á að á því náist fram þær leiðréttingar sem nauðsynlegar eru. Þess vegna, herra forseti, ítreka ég og tek undir þær óskir að það verði séð fyrir því að við fáum skýrslu, þegar ríkisstjórnin hefur tekið sína ákvörðun í málinu, mótað sína afstöðu, þá verði gefinn tími til umræðna um skýrslu sem gefin verði af hæstv. ríkisstjórn í þessu efni og það verði gert með einhverra daga fyrirvara áður en hinn 13. gengur í garð.