Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 21:10:00 (2568)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Herra forseti. Ég hygg að óumdeilanlegt sé að það tilboð sem Ísland gerði varðandi innanlandsstuðninginn og lækkun hans á sínum tíma hefði þýtt í reynd réttindi til að viðhalda mun meiri stuðningi en grundvöllur Dunkels gerir. Árið 1988 var ekki valið af handahófi. Það lá fyrir að þá jukust niðurgreiðslur og voru miklar og það ár var til umræðu hjá fleiri þjóðum og þess vegna var það beinlínis valið af okkar hálfu til að tryggja okkur í byrjun háa viðmiðun. Það var kannað og kom í ljós að menn sáu það þannig fyrir sér að um yrði að ræða mælingu á brúttóstuðningi við greinina og þá skipti ekki máli hvort um væri að ræða að einhver hluti þess stuðnings væri merktur til að mynda endurgreiðslum á söluskatti eða öðrum óbeinum sköttum. Þetta var kannað og svo vel sem ég man þetta varð niðurstaðan að engu máli skipti hvernig sá stuðningur væri merktur þannig að það var brúttóupphæðin án frádregins söluskatts sem þarna var í huga manna. Það held ég að ég geti alveg fullvissað hæstv. viðskrh. um að var í okkar huga og var til umræðu á vettvangi GATT einmitt á þeim tíma.
    Í öðru lagi var ljóst og í tilboði Íslands stendur að að sjálfsögðu skuli þessi stuðningur framreiknast með tilliti til verðlagsþróunar og tilboð Íslands var sett fram á verðtryggðum grundvelli, þ.e. það er tekið fram í hinum enska texta að það skuli vera ,,in real terms`` þannig að þar leikur ekki neinn vafi á um að þessa þætti þarf að taka inn í myndina þegar þetta tvennt er borið saman og það gerði hæstv. utanrrh. ekki áðan þegar hann með sínum ómálefnalega og billega hætti framkvæmdi sinn samanburð.
    Ég hlýt að harma þá afstöðu hæstv. ráðherra Alþfl., sem kemur fram nú hjá hæstv. viðskrh. og í sjónvarpsfréttum í kvöld hjá hæstv. utanrrh., að Íslendingum beri að lýsa yfir stuðningi við tillögur Dunkels um að ljúka GATT-viðræðunum á þeim grundvelli sem hann hefur lagt til. Öðruvísi gat ég ekki skilið orð þeirra hér þó svo að einhverjar athugasemdir, ef einhverjar yrðu, yrðu gerðar varðandi landbúnaðarþáttinn. Því mótmæli ég. Þeim mun brýnna er í ljósi þessara upplýsinga sem hér hafa komið fram og ummæla hæstv. viðskrh. síðast að Alþingi geti á nýjan leik tekið þetta mál fyrir fyrir mánudaginn 13. og sjálft ákveðið ef ekki vill betur til hvernig verði þarna með atkvæði Íslands farið.