Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 21:28:00 (2577)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Nú hefur það gerst að hæstv. viðskrh. hefur gefið þessari umræðu nýtt líf og er nauðsynlegt að koma aðeins inn á nokkra þætti sem hann fjallaði þar um. En ég ætla ekki að vera langorður.
    Í fyrsta lagi ræddi hæstv. viðskrh. um að við ættum ekki annarra kosta völ en ganga að þeim GATT-samningi sem byggðist á Uruguay-viðræðunum. Nú ætla ég ekki að taka neina efnislega afstöðu til þess hvort það sé skynsamlegt hjá okkur eða ekki. En mér fannst hæstv. viðskrh. taka mjög afdráttarlaust til orða miðað við það sem hefur komið fram hjá þeim fulltrúum utanrrn. sem hafa komið til fundar hjá landbn. Á fundi landbn. í morgun sagðist Sveinn Björnsson ekki geta sagt neitt um hvaða áhrif þetta hefði á eldri GATT-samninga, en benti þó á að í landbúnaðarkaflanum sem hér er til umfjöllunar sé á fleiri en einum stað, í stað þess að vera með efnislega umfjöllun, vitnað til eldri samnings sem benti þá til þess að mínu mati að hann verði að vera í gildi áfram.
    Enn þá afdráttarlausari var skoðun Guðmundar Eiríkssonar þjóðréttarfræðings sem ég hef í það minnsta álitið að væri einn okkar færasti maður á þessu sviði. --- Nú, virðulegi forseti, fer ég að hafa efasemdir um að hæstv. viðskrh. hlusti á mál mitt. Það eru í gangi miklar samræður inni í hliðarherbergi. --- En Guðmundur Eiríksson sagði nánast fyrirvaralaust að ef þjóðir höfnuðu þessum samningi, sem nú væri í burðarliðnum, mundu eldri samningar gilda. Þetta er finnst mér allt mjög á reiki og er eitt af því sem er mjög nauðsynlegt að verði skýrt í þessari umræðu. Miðað við tal hæstv. ráðherra Alþfl. í dag, þar sem m.a. hæstv. viðskrh. ræddi um hinar formlegu staðreyndir málsins, má ætla að þeir hafi nánast einkarétt á staðreyndum í þessu máli, en ég hef samt kosið að bregða upp því ljósi sem þessir tveir virtu embættismenn brugðu á þetta mál hjá okkur í landbn. og er nokkuð annað en það sem hæstv. viðskrh. nefndi áðan. En ég segi aftur að ég er ekki með þessu að taka neina efnislega afstöðu til þess hvort það sé skynsamlegt eða ekki af okkur að ganga að þessum samningi þegar við sjáum endanlega hvernig hann verður, einungis að benda á að það er mjög óljóst eftir að hafa rætt við þessa valinkunnu embættismenn hver staðan er gagnvart þessu atriði.
    Í öðru lagi varðandi ummæli hæstv. viðskrh. áðan og umhyggju hans fyrir þróunarlöndunum er það í mínum huga orðið alveg ljóst að landbúnaðarkafli þessa GATT-samkomulags eins og hann liggur fyrir núna í hugmyndum Dunkels og eins og ég rökstuddi í ræðu minni í dag snýst ekkert um fríverslun með landbúnaðarvörur. Hann snýst að vísu um breytingar á viðskiptaháttum milli landa með landbúnaðarvörur, breytingar sem náist

samstaða um og verði þóknanlegar annars vegar Evrópubandalaginu og hins vegar Bandaríkjunum. Ég hygg að hæstv. viðskrh. hafi hlýtt á mál mitt í dag um þetta þannig að ég fer ekki nánar út í það. Þannig er mikill misskilningur að halda því fram að þarna sé um að ræða eitthvað sem sé þróunarlöndunum sérstaklega þóknanlegt eða stórt skref til fríverslunar með landbúnaðarvörur. Það er mjög langt frá því.
    Að síðustu vildi ég beina til hæstv. viðskrh., það tengist einnig því sem ég ræddi í fyrri ræðu minni í dag, hvað sé um aðra hagsmuni sem eru í húfi í þessari lotu GATT-samninganna. Í allri þeirri umfjöllun sem um þetta hefur verið hef ég ekkert um það heyrt. Ég ætla ekkert að draga í efa að þeir séu miklir, en ég fer þess á leit við hæstv. viðskrh. af því að það er ekki einu sinni að nóttin sé ung heldur er kvöldið rétt byrjað að hann sem viðskrh., sem hlýtur þess vegna að hafa fylgst með því hvað felst í þessum samningum að öðru leyti, noti þær 15 mínútur sem hann á eftir af þessari umræðu, ef hann kýs að taka til máls í annað sinn, til skýra fyrir okkur í fáum og skýrum orðum, eins og ég veit að honum er lagið, hvað felst annað í þeim samningi sem nú er í burðarliðnum. Ég held að það væri mjög æskilegt fyrir málið að það kæmi fram.
    Að lokum, virðulegi forseti: Þar sem við höfum bæði hlýtt á það í sjónvarpinu í kvöld hverja fyrirvara hæstv. utanrrh. telur að þurfi að setja gagnvart tilboði Dunkels og síðan áðan á samhljóða álit hæstv. viðskrh. treysti ég því að hér komi mjög skýrt fram frá hæstv. landbrh. hverja fyrirvara hann telur nauðsynlegt að setja í málinu.