Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

62. fundur
Miðvikudaginn 08. janúar 1992, kl. 15:01:00 (2590)

     Forseti (Gunnlaugur Stefánsson) :
     Að gefnu tilefni og vegna orða hv. 15. þm. Reykv. um það að ég hefði á forsetastól túlkað þingsköpin öðruvísi en skapast hefði hefð um fram að þessu þá vil ég upplýsa hv. þm. um að ég hef á forsetastól jafnan túlkað þingsköpin eins og þau standa hér í þingsköpunum, 56. gr., ég les þessa setningu eins og hún stendur hér og reyni að stjórna fundi samkvæmt þeim texta sem hér er og þar segir mjög skýrt og skorinort: ,,Forseti getur leyft þingmönnum að veita stutt andsvar við einstökum ræðum strax og þær hafa verið fluttar.``
    Ég lít svo á að þegar annar þingmaður er kominn í ræðustól þá hljóti þetta hugtak strax að vera liðið og þar með verði að fjalla um aðra ræðu en þá sem andsvar á að gefa við.