Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

62. fundur
Miðvikudaginn 08. janúar 1992, kl. 15:03:00 (2591)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég vil aðeins geta þess að seinast í gærkvöldi fékk ég orðið í andsvari eftir þeim hætti sem hér hefur tíðkast. Það var eftir ákveðna ræðu og það var eftir að a.m.k. eitt andsvar hafði komið fram og þetta var góðfúslega leyft. Það var hins vegar haldið mjög strangt við 15 mínútna regluna og geri ég enga athugasemd við það. Ég tel að það sé hárrétt túlkað og ég vonast til þess að forsetar muni ræða þetta sín á milli og tel ég þá að a.m.k. þrír aðrir forsetar sem ég hef reynt að þessu muni geta upplýst þann forseta sem nú situr í stólnum um það að þessi túlkun hefur verið við lýði. Það er mjög mikið öryggi fyrir okkur þingmenn að vita hvar við stöndum þar.
    En ástæðan fyrir því að þetta er mjög nýtilegt er að ekki komu fram í andsvari, öðru andsvari, þær upplýsingar sem ég sóttist eftir og þess vegna taldi ég mjög nauðsynlegt að fá að gera andsvar sem ég hefði ella ekki gert við þá ræðu sem haldin var. Að sjálfsögðu var andsvarið við ræðuna og það hefur líka verið strangt gengið eftir því að það væri haldið, enda eðlilegt.