Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

62. fundur
Miðvikudaginn 08. janúar 1992, kl. 15:08:00 (2594)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (um þingsköp) :
     Herra forseti. Ég geri ekki athugasemd við það að það álitaefni sem hefur verið gert að umtalsefni í þingskapaumræðu verði borið upp á fundi forsætisnefndar, en vegna þeirra efasemda sem fram komu í máli forseta að svo kynni að vera að hann væri einn þeirrar skoðunar sem hann lýsti í túlkun sinni á þessu ákvæði þingskapa, vil ég taka fram af minni hálfu að svo er ekki. Forseti er ekki einn um þá skoðun að túlka beri þingsköpin með þessum hætti. Ég lít svo á að hann hafi túlkað þingsköpin rétt. Hér er með mjög afdráttarlausum hætti tekið fram að þessi ósk skuli strax borin upp. Það er ekki sagt að hún skuli borin upp að lokinni umræðu. Alþingi þótti rétt að taka það fram að það skyldi gerast strax og ég hygg að það eigi skýra stoð í því að það er ekki til þess ætlast að andsvör séu veitt við andsvari heldur aðalræðu. Menn hljóta að verða að gera sér grein fyrir því um leið og henni er lokið hvort tilefni er til þess af þeirra hálfu að óska eftir andsvari og þurfa ekki neinnar íhugunar þar um. Þannig að ég ítreka það að mín skoðun er sú sama og forseta og endurtek að hann er af þeim sökum ekki einn um þá skoðun sem fram kom í túlkun hans á þessu ákvæði.