Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

62. fundur
Miðvikudaginn 08. janúar 1992, kl. 15:14:00 (2600)

     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég vil láta það koma fram vegna ummæla hæstv. sjútvrh. að ég lít svo á að forsetar þingsins gangi úr skugga um það sjálfir hvort mál séu lögð fram með lögmætum hætti og hef ekki uppi efasemdir um það að fyrra bragði. Það kom hins vegar fram þegar umræður hófust um þetta frv. að ekki hefði verið haft samráð við sjútvn. þingsins. Af því tilefni spurði ég hæstv. sjútvrh. að því í ræðu minni hvort haft hefði verið samráð við hagsmunasamtök eins og kveðið er á um í lagagreininni. Hæstv. ráðherra svaraði ekki þeirri spurningu. Ég leit á og skildi svar hans þannig að það hefði ekki verið gert. Það sem fram hefur komið í umræðum síðar hefur í raun og veru staðfest þennan skilning. Þegar þetta lá fyrir skoraði ég á hæstv. sjútvrh. að draga frv. til baka.