Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 13:55:00 (2605)

     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Ég tel að hv. þm. Halldór Ásgrímsson sé kominn út á mjög hálar brautir að vera að ýja að því að einn þm. Alþfl. hafi skipt um skoðun í þessu máli. Þau tíðindi hafa nefnilega gerst í þessari umræðu að einn maður hefur skipt um skoðun og það er hv. þm. Halldór Ásgrímsson. Halldóri Ásgrímssyni hefur nefnilega tekist að hafa tvær skoðanir á því hvort um auðlindaskatt sé að ræða eða ekki. Vegna þess að ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir þessum hv. þm. og talið að hann skæri sig frá Framsfl. að því leyti til að hann hefði yfirleitt bara eina skoðun í hverju máli en ekki eins og sá ágæti flokkur sem hefur tíðkað það að vera með tvær skoðanir í mörgum málum, vera bæði með og á móti, stundum kallað að vera opinn í báða enda, tel ég að rétt sé að fara aðeins yfir þann málflutning sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson hefur viðhaft varðandi þetta atriði.
    Í maí 1990 skilgreindi hv. þm. auðlindaskatt með eftirfarandi hætti í umræðum, með leyfi forseta:
    ,,Auðlindaskattur gengur út á það að skattleggja greinina og taka til annarra þarfa samfélagsins.`` Hér er hins vegar um það að ræða að verið er að taka afgjald fyrir veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs sem fer til þess eins að kosta rannsóknir sjávarútvegsins og fer því ekki til þess sem þingmaðurinn sjálfur kallar aðrar þarfir samfélagsins. Samkvæmt þessari skilgreiningu hv. þm. frá 1990 er því ekki um auðlindaskatt að ræða. Hv. þm. Halldór Ásgrímsson var sjálfur þessarar skoðunar þegar málið kom til umræðu þann 28. nóv. á þessum vetri. Þá sagði þingmaðurinn orðrétt, með leyfi forseta: ,,Ég ætla mér ekki að kalla þessa breytingu sem nú er verið að fara út í auðlindaskatt.`` Hvaða skoðun hefur hv. þm. núna? Í nál. sem hann skrifaði sjálfur fyrir hönd minni hluta sjútvn. nokkrum dögum fyrir jól er hann að fikra sig að því að skipta um skoðun. Þar segir nefnilega að verið sé að stíga fyrsta skrefið til að afla tekna í ríkissjóð af sölu veiðiheimilda og koma á auðlindaskatti. Þarna var sem sagt um það að ræða að stíga fyrsta skrefið að dómi hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar og í gær, í umræðum hér í þessum sal, fór þessi hv. þm. heilan hring í málinu því að þá sagði hann, með leyfi forseta: ,,Ég tel þetta auðlindaskatt að því leyti sem hér erum skatt að ræða sem fer til sameiginlegra viðfangsefna ríkisins.``
    Ég vil endurtaka það sem ég sagði í umræðunum í gær. Hæstv. fyrrv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson skuldar þinginu skýringu á þessum sinnaskiptum sínum. ( SJS: Má ekki skipta um skoðun eins og flokk?) Ég skipti um flokk án þess að skipta um skoðun.