Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 14:04:00 (2609)

     Frsm. minni hluta sjútvn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Ég ætla ekki að halda því fram að ég hafi engu gleymt og ég býst ekki við því að það hafi heldur komið fyrir hv. þm. að hann hafi aldrei gleymt neinu. En ég hef haft frumkvæði um það að lesa það upp sem ég hef sagt um þetta mál, auðlindaskattinn, á Alþingi. Ég hef gert það í mínum ræðum og ég hef útskýrt hvað ég á við. Þess vegna skil ég ekki þessa áráttu þingmannsins að koma hér upp aftur og aftur til að hengja sig í þetta orð. Það fer eftir því hvaða merkingu menn leggja í það og ég ætla ekki að hafa lengri ræður um það.
    Síðan vitnaði hann til frv. til laga um Stjórnarráð Íslands. ( ÖS: Og orða þinna í gær.) Orða minna í gær. Ég stend við þau orð. Þetta frv. um Stjórnarráð Íslands var samið af nefnd og ákveðið var að leggja það fram til kynningar vorið 1989. Það var aldrei tekin efnisleg afstaða til þess, hvorki í ríkisstjórn né þingflokkum. Þar fyrir utan stendur í þessu frv., hv. þm., og taktu nú vel eftir: ,,Hafi verulegir annmarkar komið fram á rekstri stofnunar og ekki er bætt úr þrátt fyrir fyrirmæli ráðuneytis er ráðherra heimilt að ráða sérstakan eftirlitsaðila um stundarsakir, þó ekki lengur en til eins árs í senn . . . `` Þetta á við um allsherjarendurskoðun á lögunum um Stjórnarráð Íslands sem bæði ríkisstjórn og þingflokkar áttu eftir að taka afstöðu til. Það sem hér er verið að segja er allt annað. Svo mikið liggur á að það þarf að skjóta inn sérstöku ákvæði og hvað eiga þeir að gera? Þar stendur, hv. þm., sem er ekki sambærilegt: ,,Hlutaðeigandi ráðherra er þó heimilt að setja mann eða nefnd manna, um tiltekinn tíma, til að vera tilsjónarmenn stofnana, einnar eða fleiri í senn,`` --- ekki eftirlitsmenn. ,,Starfssvið tilsjónarmanna er að skipuleggja og hafa eftirlit með reikningshaldi og gerð fjárhagsáætlana stofnana og taka ákvarðanir um fjárskuldbindingar, þar á meðal umfang starfsmannahalds, . . . `` Þetta er ekkert annað en póltískt kommissarakerfi og ætti hv. þm. að viðurkenna það eða þá að hafa forustu um að draga þetta vitlausa ákvæði til baka. Það er alveg út í hött að fara nú að draga upp úr skúffum Stjórnarráðsins. Ég veit að menn hafa mikið verið ofan í þeim og ættu að fara að komast upp úr þeim í stað þess að vera alltaf í þessum fortíðarvanda. Eina málsvörnin sem núv. stjórnarliðar hafa er að grafa upp gömul plögg úr skúffunum í Stjórnarráðinu.