Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 16:34:00 (2615)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
     Virðulegi forseti. Í upphafi ræðu minnar hafði ég raunar gert ráð fyrir að eiga orðastað við hv. 17. þm. Reykv. og mig langar til að spyrja hvort hann er í húsinu samkvæmt töflu en ef svo er ekki mun ég fara fram á að ég fái að hnika til í ræðu minni. Að vísu verður þá kannski eitthvað á annan veg en ég hefði kosið. Ég fer hins vegar fram á að hann sé viðstaddur þessa umræðu þar sem við eigum býsna brýnt erindi við hann. Ég veit að hann gerði sér grein fyrir því að í þessari umræðu vildum við fá að ræða við hann, við sem störfuðum með honum í sjútvn. ( Forseti: Hv. 17. þm. Reykv. er í húsinu og hann mun áreiðanlega koma hér á þingfundinn því að hann er einn af þeim sem tekur þátt í þessari umræðu og hlýtur að koma hér á hverri stundu.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir.
    Ég verð þá eiginlega að hafa endaskipti á ræðunni minni og byrja þá á því sem e.t.v. átti að vera í lokin ef hv. þm. er ekki rétt að koma, en það er í sjálfu sér gott og gilt. Með þessum algjöru endaskiptum byrja ég á því að beina máli mínu til hæstv. ráðherra sem mér sýnist ég sé að missa úr salnum líka, hæstv. sjútvrh. (Gripið fram í.) Jæja, það var gott. Ég byrja þá, ef ég má, að ávarpa ráðherra. Ég bið virðulegan forseta að afsaka, en ég get eiginlega ekki ávarpað ráðherra nema hann sé hér við og ég hélt að hann hefði heyrt það sem ég sagði, en hann þaut út um leið og ég lét í ljós ósk um að fá að tala við hann. ( Forseti: Án þess að forseti viti sýndist forseta að verið væri að kalla hann fram í einhverjum ákveðnum erindum, væntanlega í síma, en ég held að hæstv. ráðherra viti örugglega af því að það sé beðið eftir honum.) Ég skal athuga hvort ég finn eitthvað þar sem ég á orðastað við hvorugan, en mér þykir þetta þó ansi snautlegt. Ég verð að viðurkenna það. Mér finnst ekki til of mikils mælst að annar hvor og helst báðir þessara manna, hæstv. ráðherra og hv. frsm. meiri hluta sjútvn., séu hér staddir.
    Virðulegi forseti. Ég sé að hér birtist ráðherra og vona ég að mér haldist á honum í gegnum tvær spurningar og hef ég þá mál mitt ef hann er ekki horfinn. --- Nei, nú get ég bara byrjað á réttum stað í ræðunni þar sem hv. frsm. meiri hluta sjútvn. er mættur. Ég þakka kærlega fyrir og hef ég þá mál mitt.
    Virðulegi forseti. Það er engin furða að hv. frsm. meiri hluta hv. sjútvn. þyki ástæða til að fara mikinn, býsnast og berjast um í þessu frekar vonda máli. En þótt hátt sé talað og hrópað á stundum verður efnið jafnrýrt og snautlegt fyrir það. Ég saknaði þess mjög er hann mælti fyrir nál. meiri hlutans í gær að heyra næsta lítið gert grein fyrir þeim sjónarmiðum sem þó komu fram í allt of knappri umfjöllun sjútvn. um þetta mál sem við nú ræðum. Raunar var það svo lítið að mér heyrðist helst að honum hefði tekist að afgreiða það á örstuttri stundu er ég varð að víkja mér í hliðarsal hér í gær því að ekki heyrði ég

það. Ég tók mig því til og spurði hv. þm. beint hvort hann hefði sagt frá þeim er komu á fund nefndarinnar og hann sagðist hafa talið þá skilmerkilega upp og meira að segja getið þess samviskusamlega að þeir væru á móti frv. og þakka ég þær upplýsingar þó að ég hafi ekki heyrt þær. Kannski er málið svo einfalt í raun í hans huga að ekki þurfi að segja mikið meira, að allir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi og byggðamálum sem spurðir voru séu meira eða minna á móti og samt skuli málið í gegn.
    Það er annað sem mig langar til þess að gera athugasemdir við. Þótt ég hafi ævinlega gaman af því að heyra vitnað til orða hv. 1. þm. Austurl. hefði ég frekar kosið að hv. flm. meirihlutaálits sjútvn. greindi frá ummælum þeirra hagsmunaaðila er fjarstaddir eru þegar málið er í umræðu á Alþingi en þeirra sem eru nærstaddir og fullfærir um að flytja sitt mál sjálfir. En ég ætla ekki að gera athugasemd við stíl manna hér. Ég er aðeins að greina frá því hvers ég hef saknað. Ég skal þá reyna að bæta úr einhverju fyrir hv. 17. þm. Reykv. og upplýsa eitthvað af því sem fram kom í máli þeirra sem nefndin kallaði á fund sinn.
    Í fyrsta lagi er það alveg rétt og satt að þeir voru á móti þessu frv. og það skilst mér raunar að þegar hafi komið fram. ( Gripið fram í: Að hluta.) Hér er kallað fram í að aðeins sé um hluta af málinu að ræða og ég tel raunar að síðari hluti ræðu minnar eða það sem eftir er muni gera nógsamlega grein fyrir því hvílíkt grundvallaratriði þessi hluti er. Ég held að þetta sé sjálfur kjarni málsins sem fólkið var á móti sem fékk að tjá sig um þetta og það dugar mér.
    Margir voru á móti málinu vegna alvarlegra efnisatriða, ekki síst vegna byggðasjónarmiða. Einnig komu upp rökstuddar efasemdir um fjármögnun á úreldingu og einhverjir gátu þess að þeir teldu að of bratt væri að hækka hlutfall greiðslna, þ.e. úreldingarstyrks, úr 10% í 30% af húftryggingarverðmæti fiskiskipa, a.m.k. í einum áfanga. Fleiri atriði voru gagnrýnd en ekki síst finnst mér rétt að fram komi að nær allir tilgreindu meðal ástæðna að þeir teldu ótímabært að krukka í löggjöf um Hagræðingarsjóð fyrr en með heildarendurskoðun á fiskveiðistefnunni. Undir þetta tek ég og flestir aðrir sem hér hafa tjáð sig um málið.
    Mér er sjálfri efst í huga að líta á byggðasjónarmiðin. Það gleður mig mjög að í umræðunni nú og einnig við 1. umr. málsins hafa þau sjónarmið verið mjög eindregið studd en ekki með beysnari árangri en þeim að við sitjum uppi með gjörsamlega innstæðulausar en, ég vil taka það skýrt fram, áferðarsnotrar brtt. varðandi byggðaþáttinn.
    Í gildandi lögum um Hagræðingarsjóð var tekið inn eftir langvinnar umræður um sjávarútvegsmálin almennt mjög mikilsverður þáttur um að beinlínis væri unnt að hjálpa byggðarlögum sem lentu í vanda þegar skip væri selt burt og byggðarlagið missti þannig kvóta. Sú hjálp fólst ekki einasta í því að koma fram með máttlaust tilboð um forkaupsrétt á veiðiheimildum á fullu verði eins og brtt. þær sem nú hafa verið lagðar fram við þetta frv. gera. Nei, þarna var um að ræða raunverulegan möguleika til að rétta hjálparhönd.
    Með leyfi hæstv. forseta tel ég rétt að lesa þá grein laganna um Hagræðingarsjóð sem nú á að fella úr gildi án þess að okkuð bitastætt komi í staðinn. Ég vísa til síðustu mgr. 1. gr. þessara laga þar sem stendur:
    ,,Sjóðurinn skal koma til aðstoðar í einstökum byggðarlögum með því að efla vinnslu sjávarfangs á þeim stöðum þar sem straumhvörf hafa orðið í atvinnulífi vegna sölu fiskiskipa. Í þessu skyni getur sjóðurinn framselt tímabundið veiðiheimildir enda verði aflanum landað til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi.``
    Hér er sem sagt gert ráð fyrir því að hægt sé að framselja veiðiheimildir, ekki að selja á fullu verði og á því er grundvallarmunur. Það hefur einnig komið fram hér hverjar breytingarnar eru í greinargerð eða athugasemdum um frv. sem við erum hér að fjalla um og, með leyfi forseta, langar mig að grípa niður neðst á bls. 3 í þeim athugasemdum sem frv. fylgja og raunar þá áður en brtt. voru lagðar fram:
    ,,Þá er í frv. lagt til að það hlutverk sjóðsins að koma til aðstoðar við einstök byggðarlög verði fellt úr gildi. Mun eðlilegra er að Byggðastofnun eða öðrum stjórnvöldum sé falið að grípa til þeirra ráðstafana sem þurfa þykir til að hafa áhrif á byggðaþróun í landinu.``
    Það er nákvæmlega þetta sem við gagnrýnum hér að ekki eru nein teikn á lofti um að tekið verði á málunum öðruvísi en á máttlausan og í rauninni ónothæfan hátt m.a. með þeirri brtt. sem meiri hluti nefndarinnar hefur nú lagt fram um að hægt sé að ráðstafa fjórðungi veiðiheimilda sem Hagræðingarsjóður hefur til ráðstöfunar til þess að selja sveitarfélögum í vanda á fullu verði. Þetta er nákvæmlega ekki það sem sveitarfélög í vanda þurfa á að halda. Þau þurfa á því að halda að einhver raunveruleg hjálp komi til þegar svona háttar en þau þurfa ekki á því að halda að kaupa á markaðsverði þær veiðiheimildir sem þeim er í flestum tilvikum ómögulegt að ráða við. Ég er ekki enn farin að skilja hver hjálpin er.
    Það er rétt að láta það koma fram hér að umræða um þetta mál hefur verið mjög villandi. Í fyrsta lagi vegna þess að það hefur ekki komið fram hvað, samkvæmt gildandi lögum, er um að ræða. Það má fara alveg upp í helming þeirra veiðiheimilda sem Hagræðingarsjóður hefur til ráðstöfunar. Undir vissum kringumstæðum, þegar neyð er og ég sé enga ástæðu til þess að það sé komið til hjálpar nema þegar raunveruleg neyð er, er hægt að framselja þessar veiðiheimildir tímabundið núna án endurgjalds, sé það sú hjálp sem sveitarfélög þurfa á að halda. Eftir sumum þeim fregnum og þeirri umfjöllun sem hefur verið í gangi mætti halda að þær brtt. sem nú eru komnar fram við þetta frv. fjalli um það að nú sé í fyrsta skiptið verið að ráðstafa fjórðungi veiðiheimilda í þágu sveitarfélaga eða gefa kost á því. En það er nú eitthvað annað. Það er þvert á móti verið að skera niður úr helmingi í fjórðung veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs, það sem má ráðstafa í þágu sveitarfélaga. Í öðru lagi er verið að bjóða upp á hjálp sem ég hef efasemdir um að sé nokkur hjálp. Verið er að bjóða upp á það að sveitarfélög megi kaupa veiðiheimildir fullu verði. Það hefur raunar komið fram í umræðum, einkum innan nefndarinnar, að það er mál flestra þeirra sem við töluðum við að sveitarfélög geti í raun og veru fengið þessa ,,hjálp`` með því bara að kaupa á þeim markaði sem er nú þegar með kvóta, hversu góður sem hann er. Hann er að mínu mati afleitur og sú leið, sem valin hefur verið, að kvóti sé verslunarvara í stað þess að nýtast í þágu landsmanna eins og lög um stjórn fiskveiða segja eða kveða á um. En látum það vera. Það er sem sagt verið að bjóða upp á ekki neitt. Þetta er auðvitað það stærsta sem ég tel ástæðu til að gagnrýna.
    Mig langar næst að koma að þeirri staðreynd að ekki er forsvaranlegt að krukka í lög um Hagræðingarsjóð án þess að það sé hluti af heildarendurskoðun sjávarútvegsstefnunnar. Ég held að reynslan hafi sýnt svo að ekki verði um villst að nauðsynlegt er að athuga stöðu byggðarlaga í samhengi við sjávarútvegsstefnuna. Það hefur komið í ljós að það var rétt sem við kvennalistakonur óttuðumst að núverandi kvótastefna hefur opnað fyrir gífurlega byggðaröskun. Við höfum dæmin sem sanna að það hefur gerst og það er ekki alltaf til hagræðingar þótt sem betur fer hafi það stundum gerst. En það er dýrt þegar dýr mannvirki standa ónotuð vegna þess að kvóti er horfinn úr byggðarlaginu. Fiskvinnslan er e.t.v. komin á fárra hendur, eins og þróunin virðist vera að verða, og jafnvel út á sjó sem er kannski eitt það alvarlegasta en ég ætla ekki að fjölyrða um það hér að svo stöddu.
    Það er einnig dýrt að hagræða aðeins í þágu hinna stóru og öflugu sem hafa helst efni á að kaupa kvóta en þetta er nákvæmlega það sem núverandi kerfi býður upp á og

þess vegna er mikilvæg þessi litla viðleitni til að taka tillit til byggðarlaganna sem var í lögum um Hagræðingarsjóð og er sem betur fer enn þá. Þess vegna er það kannski það einasta sem við höfum þó haft sem bendir til þess að menn hafi verið að hugsa um að tengja kvóta og byggðarlög eins og við kvennalistakonur höfum alltaf viljað. Ég vona að enginn misskilji mál mitt þannig að ég sé á móti því að hér sé aflakvóti. Ég er hlynnt því. Það sem ég er að gagnrýna er það hvernig hann hefur gengið kaupum og sölum og hvernig hann hefur verið eignfærður og verið í eigu aðeins eins hagsmunaaðila, þ.e. útgerðarinnar, en ég vil að tekið sé tillit til byggðanna þess í stað og út á það gengur byggðakvótastefna Kvennalistans. Kvóti er nauðsyn, ekki síst vegna verndunarsjónarmiða. Við höfum ekki það sem við viljum þ.e. nógan fisk í sjónum. Auðvitað viljum við það en hann er bara ekki fyrir hendi. Meðan verðum við að finna stjórn fiskveiða þann farveg sem bestur er. Ég tel nauðsynlegt að þetta komi fram þótt ég ætli engum að hafa haldið annað.
    Ég held stundum að enginn velkist í vafa um stefnu okkar kvennalistakvenna í sjávarútvegsmálum. Mér hefur hins vegar fundist slegið í og úr með undirtektir við þessa stefnu. Ég hef heyrt marga í orði a.m.k. lýsa mjög miklum skilningi á vanda byggðarlaga þegar verið er að ræða hvernig ráðstafa skuli kvóta og það er vel. Það urðu mér þess vegna sár vonbrigði þegar í ljós kom í umfjöllun nefndarinnar einmitt um þetta mál að sú endurskoðun á stjórn fiskveiða sem nú er í gangi hefur ekki, að mér heyrist á nefndarmönnum, gengið á nokkurn hátt út á það að taka inn af fullri alvöru þessi byggðarsjónarmið. Þetta þykja mér mjög slæm tíðindi.
    Mig langar til upplýsingar að taka örlítið af röksemdum okkar kvennalistakvenna fyrir því hvers vegna við höfum lagt áherslu á byggðakvóta. Við höfum bent á það að í fyrsta lagi er lífríki hafsins ein dýrmætasta auðlindin sem við Íslendingar höfum aðgang að og þessa auðlind verður að sjálfsögðu að umgangast á þann hátt að ekki sé hætta á ofnýtingu. Við verðum að taka vextina en láta höfuðstólinn ósnertan. Þetta þýðir einfaldlega að það er ekki nóg til skiptanna handa öllum og þess vegna stöndum við í þessu stappi með að skipta takmarkaðri auðlind. Við höfum bent á að það sé óhjákvæmilegt að stýra nýtingu fiskstofna. Við höfum einnig bent á að núgildandi fiskveiðistjórnun hefur byggst á því að úthluta veiðiheimildum beint til einstaklinga og útgerðarfélaga sem síðan geta ráðskast með þær að eigin geðþótta án tillits til sameiginlegra hagsmuna þjóðarinnar. Þessi stefna hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir atvinnu og byggðaþróun. Þessu gerum við okkur vel grein fyrir og við erum að reyna að gera öðrum grein fyrir þessu raunar líka. Við höfum bent á að þetta er í algerri mótsögn við ákvæði laga um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Þá ber að okkar mati að nýta til þess að treysta atvinnu og byggð í landinu.
    Við umræður um stjórn fiskveiða og við afgreiðslu á frv. um stjórn fiskveiða höfum við kvennalistakonur lagt fram mjög vel útfærðar tillögur sem hafa í rauninni tekið á öllum málum er varða stjórn fiskveiða. Við teljum affarasælast að 80% heildarafla verði úthlutað til byggðarlaga með hliðsjón af lönduðum afla næstliðinna ára. Þau ráðstafi síðan aflanum eftir eigin reglum. 20% aflans höfum við lagt til að renni í sameiginlegan veiðileyfasjóð og við höfum verið með ýmsar hugmyndir um hvernig best væri að ráðstafa þar þeim afla. Við höfum bent á að tekjum þessa sjóðs verði að verja í þágu sjávarútvegsins. Markmiðið er að rjúfa það óeðlilega samband sem nú er milli skips og veiðiheimilda, taka tillit til byggðasjónarmiða, draga úr ofstjórn og miðstýringu, efla rannsóknir og hvetja til betri nýtingar og bættrar meðferðar sjávaraflans, treysta innlenda fiskvinnslu og búa betur að fólki í sjávarútvegi. Þetta er stefna Kvennalistans. Auðvitað er margt fleira sem þarf að gera heldur en bara að krukka í kvótamálin en kannski er marklaust að tala um nokkuð slíkt fyrr en við höfum komið kvótamálum í það horf að í raun sé hægt að tala

um einhverja sanngjarna skiptingu og sanngjörn sjónarmið við skiptingu á þessari takmörkuðu auðlind okkar.
    Við höfum einnig bent á að það verði að vinna markvisst að fækkun í fiskiskipaflotanum. Ég held að enginn sé á móti því að það þurfi að koma á vissri hagræðingu og vinna verði skipulega að úreldingu fiskiskipa. En það þarf að gera með þeim hætti að það sé í fyrsta lagi framkvæmanlegt, í öðru lagi að markmiðin séu augljós og í þriðja lagi að tryggt sé fjármagn til þessarar úreldingar og er þá aðeins fátt eitt af því nauðsynlegasta nefnt. Þetta eru auðvitað svo sjálfsagðir hlutir að í raun finnst mér mjög sérkennilegt að standa hér og rekja þetta núna en tilefnið hefur því miður komið upp. Þrátt fyrir á margan hátt mjög skynsamlegar umræður um þessi mál í nefnd og hér á Alþingi detta menn skyndilega niður á afstöðu sem er þvert á þetta allt saman. Er furða þótt við sem höfum starfað með sjútvn. rekum nú upp stór augu eftir þessa afgreiðslu mála.
    Þetta er það stóra mál sem við stöndum nú frammi fyrir. Við erum að karpa um það hvort eigi að krukka í þessa sjávarútvegsstefnu, svona hér og þar eftir einhverri tilviljun án þess að taka málið fyrir í samhengi. Og við erum jafnframt, a.m.k. við kvennalistakonur, mjög ákveðnar í því að sjónarmið byggðarlaga megi ekki sniðganga en það er kannski það alvarlegasta sem verið er að gera með þessu frv.
    Sem betur fer höfum við heyrt svipuð sjónarmið hjá ýmsum þingmönnum úr ýmsum þingflokkum og raunar stjórnarflokkum líka þar sem menn gera sér grein fyrir því að ekki er hægt að sniðganga byggðasjónarmiðin. Mig langar fyrst til að benda á og ítreka það sem fram kom að mig minnir fyrr í dag í máli hv. 1. þm. Austurl. Þar rakti hann þær breytingar sem hv. 1. þm. Vestf. reyndi að gera á frv. til laga um stjórn fiskveiða þar sem sérstaklega var verið að hugsa um byggðasjónarmið. Sú tillaga féll í neðri deild á jöfnu, með 21:21 atkv. Mér þykir það mjög athyglisvert vegna þess að ég sé ekki hvernig sjálfstæðismenn geta annað en tekið undir þessi sjónarmið hv. 1. þm. Vestf. Mér finnst svo dagljóst að þau eru rétt. Það þarf að taka tillit til þess hvernig byggðarlög standa. Ég er hér með þessa brtt. og vonast nú til þess að geta leyft mönnum að heyra hvernig hún hljóðaði svo það það sé alveg ljóst um hvað ég er að tala. Þessi tillaga var lögð fram á 110. löggjafarþingi og er brtt. á þskj. 479 frá Matthíasi Bjarnasyni. Og þar stendur í 3. gr., með leyfi forseta:
    ,,Sé skip með veiðiheimild selt úr byggðarlagi, sem að mestu byggir á fiskveiðum og fiskvinnslu, skal ráðherra heimilt að bæta viðkomandi byggðarlagi aflatapið þannig að veiðiheimildir þeirra skipa sem eftir eru verði auknar. Heimild þessari má þó því aðeins beita að sala skips valdi straumhvörfum í atvinnulífi og hætta sé á byggðaröskun af þeirri ástæðu.``
    Ég er ekki að segja að þetta sé óskaútfærsla okkar kvennalistakvenna, en þessi tillaga var, miðað þau lög sem verið var að fjalla um, afskaplega sanngjörn að mínu mati og nálægt þeim byggðakvóta sem við kvennalistakonur boðuðum. Mér finnst í raun alveg afleitt að þetta skuli ekki lengur vera stefna Sjálfstfl. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. sjútvrh. geti upplýst mig um hvort þessi hugsun er alveg horfin úr Sjálfstfl. eða hvort hún er e.t.v. í, ég ætla nú ekki að segja veiðibanni, en í einhvers konar orlofi og mun þá væntanlega heyra eitthvað örlítið meira frá honum í leiðinni. Mér finnst alveg nauðsynlegt að greint sé frá þessu í umræðunni.
    Jafnframt gleðst ég yfir því að hér í umræðunni hefur a.m.k. einn þingmaður, hv. 3. þm. Vesturl., mjög skýrt úttalað sig um það að gæta verði sjónarmiða byggðarlaga í sambandi við kvótamál. Allir, sem tekið hafa þátt í þessari umræðu, hafa á einhvern hátt viðurkennt að staða byggðarlaga og tenging þeirra við sjóinn, þeirra byggðarlaga sem byggja á fiskveiðum og það eru flest byggðarlög landið um kring, verður að vera inni í

umræðunni og hagsmuna þeirra verður að gæta. Það er ekki hægt að grípa til einhverra flausturskenndra ráðstafana.
    Virðulegi forseti. Nú langar mig að koma að þeim tveimur spurningum sem ég æski svara við hjá ríkisstjórninni og tel það raunar eðlilegt í þessu sambandi. Ég vona að hæstv. sjútvrh. sé að hlusta og jafnframt er honum velkomið að fá þessar spurningar á blaði á eftir óski hann þess. Mig langar þá í fyrsta lagi að spyrja hann: Með hvaða hætti hyggjast stjórnvöld tryggja öryggi þeirra byggðarlaga sem lenda í alvarlegum kröggum við missi kvóta ef þetta frv. verður að lögum og ekki lengur hægt að aðstoða þau með raunhæfum hætti gegnum Hagræðingarsjóð?
    Í öðru lagi: Stendur til að taka upp einhvers konar tengingu kvóta við byggðarlög, úthlutun kvóta til byggðarlaga eða á annan hátt að taka tillit til sjónarmiða hinna fjölmörgu sem gera sér grein fyrir hve mikilvægur kvóti er byggðarlögum við endurskoðun fiskveiðistefnunnar? Ef svo er, með hvaða hætti yrði það helst gert? Ég sætti mig mætavel við það að hæstv. sjútvrh. svari þessum spurningum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar enda þekkir hann manna best hvernig þessi umræða hefur farið fram og um hvað er verið að ræða. Ég þóttist raunar sjá hæstv. forsrh. hér áðan og hans vegna hefði ég kosið að hann væri við þessa umræðu. Það er skaði, vegna þess að hæstv. forsrh. fer með byggðamál, að hann skuli ekki hafa verið meira við umræðuna. Ég tel að hann hefði vissulega haft gagn af því að heyra ýmislegt af því sem hér hefur verið sagt í þessari umræðu, bæði í gær og í dag.
    Það kom fram í örvæntingarfullri viðleitni sjútvn. til þess að afla sér upplýsinga á þessum, ég vil segja, skammarlega stutta umfjöllunartíma sem við höfðum, en byggðasjónarmið höfðu alls ekki verið rædd í sambandi við útfærslu fiskveiðistefnunnar innan þeirrar nefndar sem við fengum tækifæri til að spjalla við eina stutta morgunstund. Ég heyrði heldur ekki á þeim tveimur formönnum, sem veita forstöðu nefndinni sem margir kusu að kalla yfirnefnd, að þetta hefði verið rætt. Ég held að ég muni það rétt að ég hafi einnig spurt þá. Öll var þessi umfjöllun með slíkum flaustursbrag og flumbrugangi að það getur vel verið að eitthvað hafi skolast til.
    Þessi mál sem ég hef vikið að eru í mínum huga mjög stór. Ég er ekki að gera lítið úr mikilvægi hafrannsókna, síður en svo. Hins vegar finnst mér ekki forsvaranlegt að gera hafrannsóknir að einkamáli útgerðarinnar. Ég tek undir með þeim sem segja að þetta sé hagsmunamál allrar þjóðarinnar og ég er í rauninni undrandi að við skulum þurfa að karpa um það. Ég er ekki bara að ræða það að útgerðin stendur illa að vígi núna. Það er staðreynd og það er staðreynd sem við getum svo sannarlega ekki litið fram hjá en það eru önnur atriði sem munu íþyngja útgerðinni meir en þetta. Hins vegar sætti ég mig ekki við það sjónarmið að hafrannsóknir séu einungis á vegum útgerðarinnar og greiddar í gegnum útgerð. Ég held að það mundi falla um sjálft sig ef aðrir færu með kvótann. Það væri mögulegt að líta á þessi mál ef öll þjóðin gæti ráðstafað kvótanum. Þá mætti kannski hugsa sér að á þann hátt væri farið að koma með kerfi sem allir nytu góðs af. Byggðarlögin nytu góðs af þeim kvóta sem við hefðum og lagt væri til hafrannsókna frá öllum og þá meina ég öllum. Þótt útgerð sé aðeins stunduð frá byggðarlögum við sjávarsíðuna þá nýtur öll þjóðin góðs af því að hér sé öflug, góð og skynsamleg fiskveiði.
    Hér hefur verið reynt að bregða upp þeirri mynd, að vísu get ég ekki sagt að það hefði tekist, að þeir sem eru á móti því að fara þá leið, sem boðuð er í þessu frv., séu í rauninni á móti því að hafrannsóknir fái meira fjármagn. Því fer auðvitað víðs fjarri og ég bara vísa því . . . ( Gripið fram í: . . . miklu meira fjármagn.) Gott. Þá hef ég bara misskilið þann mann sem mælir hér og ég tek þetta aftur. Ég þóttist greina að verið væri að stilla því þannig upp að með þessu frv. væri þetta hægt en, það var þó undanskilið, ekki á annan hátt. Mér þykir vænt um að heyra þetta dregið til baka og þá er það ekki lengur vandamál. Þá gerir hv. frammíkallandi sér grein fyrir, eins og aðrir, að vel má fara allt aðrar leiðir heldur en boðaðar eru í þessu frv. til þess að efla hafrannsóknir og er það vel. Ég hafði reyndar látið blekkjast, ég viðurkenni það.
    Efling hafrannsókna og ekki síst þeirra rannsókna sem nú á að fara að gera almennilegar og eru þessar fjölstofnarannsóknir, mér vefst tunga um tönn þegar svona stofnanaleg orð koma inn í umræðuna, er auðvitað eitt af því sem við verðum ávallt að taka tillit til. Þetta frv. snýst um það en við verðum hreinlega að finna aðrar leiðir þar sem við teljum þetta ekki nothæfa leið til þess að efla hafrannsóknir.
    Ég hef tilgreint nokkuð af því sem ég tel ástæðu til að fara í gegnum. Mig langar til þess að geta þess að ég lýsi mig samþykka nál. minni hluta hv. sjútvn. Það eru einkum ákveðnir kaflar þar sem ég tel að séu til góðs og mig langar til þess að fara örlítið í gegnum þetta álit. Því miður á ég ekki formlega sæti í hv. sjútvn. en hef setið þar fundi og tekið þátt í störfum og tel það mjög gagnlegt. Ég hef talið að þegar tími hefur unnist til hafi þessi nefnd unnið mjög málefnalega og af mikilli ábyrgð. Því svíður mér sárt að þessari ágætu nefnd er nú gert að afgreiða mál með þeim hætti sem gert var. Það er búið að afgreiða þetta mál úr nefndinni með töluverðri óánægju, að ég segi nú ekki meira, alls minni hluta sjútvn. Þetta eru einfaldlega vinnubrögð sem stinga mjög í stúf við það sem nefndin annars hefur staðið fyrir. Mér þykir mjög leiðinlegt að svo er. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að rekja úr þessu nál. minni hlutans mjög málefnalega grein sem tekur í rauninni á þeim margvíslegu sjónarmiðum sem voru innan minni hlutans en samt sameina okkur öll. Ég vil jafnframt segja dálítið frá því hvers vegna þetta skiptir svona miklu máli. Með leyfi forseta byrja ég neðarlega á bls. 2 í þessu nál. sem er á þskj. 310. Þar stendur:
    ,,Í framhaldi af allri þessari umfjöllun``, þ.e. umfjöllun um stjórn fiskveiða, ,,var gerð tillaga um það að úreldingarsjóðurinn fengi nýtt hlutverk og þjónaði byggðarlögum þar sem sérstakar aðstæður hefðu komið upp. Jafnframt var ákveðið í ljósi þess nýja hlutverks að breyta nafni hans og nefndist hann eftir það Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins. Aðstoðarhlutverki sínu í þágu byggðarlaga sem höllum fæti standa átti sjóðurinn að sinna með því að ráðstafa aflaheimildum sem honum eru úthlutaðar í þessu skyni, enda verði honum landað til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi. Samkvæmt núgildandi lögum verður ástæða vandans að vera sala fiskiskips eða fiskiskipa úr viðkomandi byggðarlagi sem leiðir til fyrirsjáanlegrar fækkunar starfa og byggðaröskun sé yfirvofandi af þeim sökum.``
    Ég geri hér aðeins hlé á tilvitnuninni þar sem mig langar til að það komi fram að okkur var bent á það í umfjöllun nefndarinnar að þessi binding við fiskiskip gæti jafnvel undir vissum kringumstæðum verið til trafala. Það eru raunar engin sérstök tíðindi fyrir okkur kvennalistakonur. Við höfum ekkert viljað binda þetta við fiskiskip en þetta er skásta leiðin sem hægt var að fara miðað við á stefnu sem tekin var um stjórn fiskveiða er þessi lög voru sett, þ.e. lög um Hagræðingarsjóð og samhliða lög um stjórn fiskveiða því að þetta eru nátengd mál eins og margoft hefur komið hér fram. Ég held þá áfram tilvitnun minni, með leyfi forseta:
    ,,Áður en ákvörðun er tekin um slíka aðstoð er ljóst að heildarúttekt á atvinnumálum í viðkomandi byggðarlagi verður að liggja fyrir og aðstoð sjóðsins að vera tímabundin hjálp meðan varanlegri úrræða er leitað. Hafi ákvörðun um aðstoð verið tekin skal fyrst og fremst veita sveitarstjórn í viðkomandi byggðarlagi kost á að ráðstafa þeim aflaheimildum sem samþykkt hefur verið að verja í þessu skyni gegn greiðslu samkvæmt gangverði. Kjósi sveitarstjórn ekki að hafa slíka milligöngu skal stjórn sjóðsins ráðstafa aflaheimildunum til einstakra skipa annaðhvort á almennu gangverði eða til hæstbjóðanda. Það

ræðst því af aðstæðum á hverjum stað hvað útgerðir einstakra skipa eru tilbúnar að greiða til að fá heimildir til að veiða viðbótarafla með því skilyrði að honum verði landað til vinnslu á staðnum. Séu skip, sem skortir aflaheimild, gerð út frá viðkomandi stað eða liggi hann vel við miðum og sé nærri heimahöfn annarra skipa er líklegt að útgerðaraðilar væru tilbúnir til að greiða eðlilegt verð fyrir viðbótarheimildir enda þótt þær væru bundnar slíku löndunarskilyrði. Séu aðstæður örðugri,`` og nú, virðulegi forseti, langar mig að koma að áhersluatriðinu, ,,t.d. um afskekkt byggðarlag er að ræða með lélega hafnaraðstöðu mundi endurgjald, sem fengist fyrir aflaheimildirnar, verða lægra og í undantekningartilfellum getur stjórn sjóðsins fallið frá endurgjaldi að fengnu samþykki ráðherra.``
    Virðulegi forseti. Ég kem enn með innskot. Hér er ekki verið að fara gáleysislega með en hér er hins vegar verið að opna mjög mikilvæga heimild og held ég þá áfram tilvitnuninni:
    ,,Ekki er talið líklegt að slík staða komi upp almennt þar sem mikil umframafkastageta er hjá fiskiskiptaflotanum og ætti því að vera fremur auðvelt að fá skip til veiða.
    Eftir mikla umfjöllun um þetta mál varð ekki samstaða um betri lausn til að koma til móts við þessi sjónarmið og tryggja visst öryggi fyrir þau byggðarlög í landinu sem byggja allt sitt á sjávarútvegi. Hér er um að ræða lausn sem byggir á því að nýta umframafkastagetu fiskiskipaflotans til að leysa tímabundin og staðbundin vandamál sem upp kunna að koma. Margvísleg önnur sjónarmið voru að sjálfsögðu uppi um hvernig skyldi bregðast við þessum vandamálum en almennt var talið að hér væri um mikilvægt skref að ræða sem rétt væri að reyna í framkvæmd.``
    Þetta er í raun það sem hangir á spýtunni, virðulegi forseti. Hér er rædd lausn sem allir gátu á endanum sætt sig við. Það er verið að koma til móts við sjónarmið. Ég hefði auðvitað viljað sjá að það væri gengið mun lengra til móts við sjónarmið þeirra sem vilja byggðakvóta en það er svo sannarlega verið að finna lendingu sem allir gátu sætt sig við og flestir viðurkenndu að það yrði að koma einhvern veginn til móts við byggðarlögin. Það er ekkert launungarmál og þarf ekki annað en líta á umræðurnar til þess að komast að raun um að þegar verið var að taka afstöðu til stjórnar fiskveiða og ná þar ákveðinni lendingu voru ekki allir ánægðir. Þetta var eitt af því fáa sem menn náðu þó samkomulagi um og því í ósköpunum að vera einmitt að fórna því. Ég sætti mig ekki við það.
    Hér langar mig að taka upp stutta tilvitnun í viðbót úr þessu nál. sem ég lýsi mig samþykka og, með leyfi forseta, stendur hér:
    ,,Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar kemur fram að eðlilegra sé að Byggðastofnun eða öðrum stjórnvöldum sé falið að grípa til þeirra ráðstafana sem þurfa þykir til að hafa áhrif á byggðaþróun í landinu. Engar slíkar ráðstafanir virðast vera í sjónmáli enda gert ráð fyrir að skerða möguleika Byggðastofnunar í hvívetna. Forstjóri Byggðastofnunar upplýsti á fundi nefndarinnar að hann sæi enga möguleika fyrir Byggðastofnun að hjálpa til í málum sem þessum. Það er því ljóst að núv. ríkisstjórn og fylgismenn hennar hafa ákveðið að virða að vettugi þau sjónarmið sem hafa verið uppi varðandi þennan viðkvæma þátt fiskveiðistefnunnar. Með þeim breytingum sem nú á að keyra í gegn á Alþingi án eðlilegrar umfjöllunar er samstöðu um breytingar á fiskveiðistefnunni stefnt í verulega hættu. Er með ólíkindum að svo stóru hagsmunamáli skuli vera stefnt í slíka óvissu.``
    Ég vil láta þess getið að ég bað um að allmargir fleiri en á endanum voru kallaðir til mundu lýsa skoðunum sínu á þessu frv. og þá er ég sérstaklega að tala um fulltrúa byggðarlaga. Það hefur komið hér fram og sé ég ekki ástæðu til að tíunda það í smáatriðum hvernig staðið var að því. Við fengum einhvers konar umsagnir sem margar voru þó á þann veg að það væri ekki hægt að gefa umsögn frá fulltrúum ákveðinna byggðasamtaka. Við fengum þær umsagnir í mýflugumynd eins og þessar stjórnir svæðisbundinna samtaka héraðsnefnda og fjórðungssamtaka hefðu í raun enga möguleika til að setja sig inn í málið. Mér þykir það mjög alvarlegt og ég ítreka það hér að ekki skuli hafa verið send með lög um Hagræðingarsjóð þegar beðið var um þessar umsagnir. Ég gagnýni það og ég ítreka að það skuli hafa verið afgreitt á þann hátt sem gert var, þ.e. að leyfa þessum aðilum aðeins að tjá sig eftir að hafa fengið einn eða tvo sólarhringa til að skoða frv. Það verður að segjast eins og er og ég ítreka það, ég hef hitt mjög marga sem hafa algerlega misskilið þetta frv. og halda að nú fyrst sé verið að gefa heimild til þess að ráðstafa 25% af veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs til byggðarlaga. Ég er ekki sérlega undrandi á því. Þetta er vegna þess að fregnir hafa verið á þennan veg, brtt. var á þennan veg. Þessi ráðstöfun er í rauninni alls ekki neitt, eins og ég hef margkomið að, bæði hér og annars staðar. Ég tel að það sé óforsvaranlegt að fara áfram með þetta frv. nema að því tilskildu að það verði í raun talað almennilega við forsvarsmenn byggðarlaga og við höfum tíma til þess, það hefur margkomið fram. Það liggur ekki svona mikið á. Það verður hreinlega að fjármagna hafrannsóknir öðruvísi hvort eð er.
    Það kom fram er við ræddum við fulltrúann frá Byggðastofnun og eins og fram kemur í þessu nál. að ekkert annað tekur við ef þessi leið verður farin. Við erum í rauninni að taka það litla sem við höfum úr umferð og bjóða upp á nákvæmlega ekki neitt, reyndar minna en ekki neitt í staðinn, vegna þess að það er frekar verið að draga úr framlögum til byggðamála en hitt. Þetta er því alvarlegt mál.
    Mig langar að lokum til þess að stikla í gegnum þá minnispunkta sem ég tók niður á þessum mjög svo snautlegu fundum sem við höfðum með hagsmunaaðilum í sjávarútvegi. Ég spurði eftir því sem ég gat. Ég reyndi að vinna eins samviskusamlega og hægt var við þessar erfiðu aðstæður en ég verð að segja eins og er að ég eins og aðrir hafði ekki möguleika til að vinna mína vinnu nógu vel við þessar aðstæður.
    1. Ég vil ítreka það að enginn mælti með þessu frv., og flestir lögðust mjög eindregið gegn því.
    2. Fulltrúi frá Félagi smábátaeigenda hafði mjög alvarlegar áhyggjur af því að ekki væri tekið tillit til byggðasjónarmiða og benti sérstaklega á að í rauninni væri ekkert sem tæki við núna í lögum um stjórn fiskveiða eða annars staðar sem kæmi á nokkurn hátt til móts við þá sem vildu að byggðasjónarmiða væri gætt. Ég vil vekja athygli á því að ég er ekki að segja að lög um Hagræðingarsjóð séu réttasti staðurinn til þess að geyma þessi mikilsverðu ákvæði þar sem byggðasjónarmiðin eru tekin inn um stjórn fiskveiða en þetta er eini staðurinn sem við höfum nú og ég vil ekki eiga þátt í því að þessu verði fórnað.
    3. Margir þeirra er komu á fund sjútvn. gagnrýndu sérstaklega vinnubrögð í sambandi við þetta frv.
    4. Mjög margir á þessum fundum tóku undir að það væri ekki hjálp fyrir byggðarlög að kaupa kvóta á fullu verði. Mér finnst nauðsynlegt að það komi fram að samkvæmt þeim brtt. sem nú er verið að leggja til er sagt að svo verði. Þetta er ekki eitthvert nöldur í okkur í minni hlutanum heldur er þetta raunverulegt mat margra og þarf í rauninni ekkert óskaplega mikið hugmyndaflug til þess að gera sér grein fyrir að svona eru málin hreinlega.
    Í þeim athugasemdum sem fram komu á fundunum er mjög áberandi að margir hafa efasemdir í sambandi við þær tölur sem fram eru settar. Einkum er verið að gagnrýna að ekki sé litið raunsætt á hve mikið sjóðurinn hafði til ráðstöfunar miðað við hver úrelding þurfi að vera. Ég hef þegar getið þess að einhverjum þótti farið of bratt að hækka þann styrk sem hægt er að greiða til úreldingar, þ.e. úr 10% í 30% af húftryggingarverðmætinu á fiskiskipunum. Ég vil líka að það komi fram að okkur var bent á ýmsar aðrar leiðir sem ástæða væri að líta á og sumar þeirra voru mjög forvitnilegar. Ég ítreka að það er

alveg nauðsynlegt að gefa okkur meiri tíma. Annað er í raun og veru ekki sæmandi.
    Í þeim fáu athugasemdum sem við fengum í hendurnar kom eitt og annað upp og m.a. voru ýmsar vangaveltur þar sem ég tel fulla ástæðu að líta betur á, spurningar og augljóslega var verið að gagnrýna að málið lægi ekki nógu skýrt fyrir. Því er ég alveg sammála og hef lýst því nú þegar.
    Þau atriði sem ég hef rakið eru svo vel rökstudd gagnrýni að ég undrast það og harma að við skulum enn vera að ræða þetta mál, meira og minna ófullburða og í vitlausu samhengi og án þess að hafa fengið nokkur önnur svör en þau að þeir eru á móti sem spurðir voru af ýmsum ástæðum, margvíslegu ástæðum, misjöfnum ástæðum og það skal samt í gegn.