Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 17:31:00 (2616)

     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Nú er það svo að stefna Kvennalistans er ekki öllum og ekki heldur þeim þingkonum Kvennalistans ævinlega svo föst í hendi, samanber þau skammvinnu skoðanaskipti sem þingkonur höfðu á álveri þegar verið var að mynda nýja ríkisstjórn sl. vor. Ég ætla ekki að fara mikið út í það. Mig langar hins vegar til þess að kasta fram örstuttum spurningum til hv. þingkonu Önnu Ólafsdóttur Björnsson af því að það voru ákveðnir hlutir sem ég skildi ekki vel í hennar máli. Hún sagði að hún væri aðili að þessu nál. eins og fram hefur komið og af því tilefni þætti mér vænt um að fá örlitla útskýringu á því af hverju hún telur að sala veiðiheimildanna jafngildi auðlindaskatti. Hún er kjarnyrt kona og ég veit að það mun ekki vefjast fyrir henni að svara þessu á örskömmum tíma. Jafnframt langar mig til þess að fá útskýringar hjá henni hvernig standi á því fyrst hún er sammála því sem kemur fram í nál. þar sem segir að sala veiðiheimilda sem allir vita að verður til þess að efla hafrannsóknir og þar með möguleika sjávarútvegsins til þess að afla tekna, að hún telur að þetta auki tekjur ríkissjóðs en ekki sjávarútvegsins?