Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 17:36:00 (2620)

     Frsm. minni hluta sjútvn. (Halldór Ásgrímsson) :
     Herra forseti. Ég hafði við fyrstu ræðu mína farið þess á leit að a.m.k. hæstv. utanrrh. væri viðstaddur og ég þakka fyrir það að hann hefur séð sér fært að verða við þeirri ósk. Ég hafði jafnframt óskað eftir því að hæstv. forsrh. væri hér en get skilið það að hann hefur í ýmsu að snúast og erfitt fyrir hann að verða við því í hvert sinn að vera hér viðstaddur umræður þó að það verði nú að ætlast til þess að hann sé hér þegar mjög mikilvæg mál eru til umfjöllunar á Alþingi.
    Það hefur nú vakið nokkra athygli að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki séð ástæðu til að vera mikið viðstödd umræðuna jafnvel þótt í ríkisstjórninni sitji afar margir áhugamenn um málið sem héldu um það langar ræður og sýndu því mikinn áhuga áður fyrr á Alþingi. Má í því sambandi alveg sérstaklega nefna hv. þm. Halldór Blöndal sem væri áreiðanlega tilbúinn til þess að hjálpa hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni í skilgreiningarvandamáli hans á auðlindaskatti. Sömu sögu má segja um hæstv. heilbrrh. Sighvat Björgvinsson sem var mjög mikill áhugamaður í þessu máli. En ég heyri það að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur mikinn áhuga á því að skilja þá hluti sem fram eru settir og vænti ég þess að þar sé komin skýring á því að hann sé áhugasamur um það að vera í sem flestum flokkum og heyrði ég ekki betur áðan en hann hefði hug á að ganga í Kvennalistann til þess að fá frekari skýringar á hugsjónum þess flokks. ( ÖS: Ég get það ekki samkvæmt skilgreiningu.) Hann getur það ekki samkvæmt skilgreiningu, en nú til dags virðist vera hægt að gera ólíklegustu hluti. Ég ætla ekki að gera það að frekara umræðuefni en það er mjög undarlegt að hv. þm. fái ekki skilið hvað við er átt og hann skuli þurfa að halda því fram skipti eftir skipti að ég hafi sett fram tvær skoðanir. ( ÖS: Þær voru reyndar þrjár.) Það er með ólíkindum hversu fundvís hv. þm. er á margar skoðanir. Ég hef einfaldlega sagt það og skal endurtaka það enn fyrir hv. þm. að ég tel það vera auðlindaskatt ef gjald er tekið af nýtingu náttúruauðlindar og sú gjaldtaka notuð til sameiginlegra útgjalda þjóðfélagsins. Ég hef sagt það í ræðu að um það megi deila hvort hafrannsóknir séu sameiginleg útgjöld samfélagsins eða aðeins vegna sjávarútvegsins. Ég hef sagt það

sem mína skoðun að ég líti á það sem sameiginlegt verkefni samfélagsins og þar af leiðandi megi flokka þessa gjaldtöku undir auðlindaskatt.
    Ég hef hins vegar tekið fram í einni af ræðum mínum sem eru orðnar allmargar um þetta mál og þökk sé hv. þingflokksformanni Alþfl. að það væri e.t.v. nokkuð langt gengið að gefa þessu það nafn, auðlindaskatt, og ég veit að hv. þm. hefur lesið þessar ræður allar sem ég er mjög ánægður með en í þessu felast ekki margar skoðanir. En ég vil upplýsa hv. þm. um það að áður fyrr fékkst ég nokkuð við kennslu og hef ekki vanist því að það væri aðeins til svart og hvítt. Ég hef vanist því að það væru ýmsar hliðar á málum og jafnvel ýmsar hliðar á málefnum hagfræðinnar og það yrði ekki eftir því sem henta þykir, sem þingmanninum virðist vera tamast, heldur verður að viðurkenna margvísleg sjónarmið þegar mál eru brotin til mergjar. En ég heyri á hv. þm. að honum er illa við að litið sé til margra átta í málum sem þessum, aðeins eigi að vera svart og hvítt og annað finnist ekki. Ég held að það væri mikilvægara fyrir hv. þm. að átta sig á stefnu Alþfl. í málinu og vera ekki sífellt að reyna að botna í stefnum annarra flokka nema hann sé eingöngu kominn í Alþfl. til þess að reyna að botna eitthvað í stefnu þeirra og fæ ég þá skilið inngöngu hans í þann flokk. Það hefur ekki eingöngu verið leiði á hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni sem nú gengur í salinn. En ég hafði skilið það svo áður að slíks leiða hefði eitthvað gætt svipað og hefur gætt hjá hæstv. utanrrh. varðandi þingstörf.
    En tilefni þess að ég bað hæstv. utanrrh. að koma eru ummæli hans í annars mjög ítarlegu máli í Alþýðublaðinu og ég sagði, hæstv. utanrrh., að það hefði verið gleðilegt hvað Alþýðublaðið hefði verið efnismikið þennan dag og er eiginlega leitt til þess að vita að það skuli ekki vera svo alla daga því það er mikilvægt að sem flest blöð komi út til þess að tryggja lýðræðið. Þar segir hæstv. utanrrh. þegar hann er að lýsa afrekum sínum eins og títt er um alla stjórnmálamenn og þeir vilja tíunda það sem þeir hafa náð fram, en hann segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Einnig náðum við inn lögunum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins.`` Nú tel ég það nokkuð ofmælt hjá hæstv. utanrrh. að þeir hafi náð þessu inn. Það var hins vegar sameiginleg niðurstaða sem má gjarnan rekja og fleiri komu nú að en Alþýðuflokksmenn eins og vill verða í öllum samsteypustjórnum. En hvað um það, Hagræðingarsjóður sjávarútvegsis og lögin um hann eru staðreynd og þau lög eru hluti af sjávarútvegsstefnunni.
    Nú hefur hæstv. ríkisstjórn samið um að breyta stefnunni og er mjög óljóst hvað í því samkomulagi felst. Við í stjórnarandstöðunni höfum haldið því fram að það eigi að líta á þessi mál í heild sinni og það eigi að reyna að halda sem mestri samstöðu um þetta mál í þjóðfélaginu. Hæstv. ríkisstjórn hefur kosið að fara aðrar leiðir eins og í flestum öðrum málum. Hún hefur ekki talið ástæðu til að hafa samráð við stjórnarandstöðu í málinu og er leitt til þess að vita, ekki vegna stjórnarandstöðunnar heldur vegna þessa mikilvæga málefnis sem er eitt mikilvægasta verkefni samfélags okkar nú á næstunni að ná niðurstöðu í. Ekki hefði veitt af að reyna að hafa þá sveit sem glímir við það sem breiðasta. En látum það liggja á milli hluta. Síðan segir hæstv. utanrrh.:
    ,,Því höfum við fylgt eftir í tíð núv. ríkisstjórnar með samkomulagi um að aflaheimildir hans verði seldar á markaði á gangverði.`` Og síðan segir hæstv. utanrrh. sem er það merkilegasta í máli hans: ,,Það er fyrsti vísir að komandi veiðileyfakerfi í sjávarútveginum.``
    Nú er alveg ljóst að það er veiðileyfakerfi í sjávarútveginum þannig að það hefur ekki verið fundið upp í sambandi við Hagræðingarsjóðinn. Það er niðurstaða mikillar vinnu sem fór fram á vegum margra aðila og fólks úr öllum flokkum og það ber að virða þá vinnu sem þar hefur átt sér stað. En nú upplýsir hæstv. utanrrh. að þetta mál sem hér er verið að fjalla um sé fyrsti vísir að nýju veiðileyfakerfi. Þar með er staðfest að það er rétt

sem við segjum í stjórnarandstöðunni að verið sé að breyta fiskveiðistefnunni að þessu leyti án þess að taka það inn í heildarendurskoðun. Því er haldið fram af hæstv. utanrrh. að kominn sé fyrsti vísir að hinu nýja kerfi.
    Ég hef haft mikinn grun um það að hæstv. utanrrh. og hæstv. núv. forsrh. hafi komið sér saman um það hvernig skyldi staðið að þessum málum í samtölum sínum í Viðey og mér finnst að það sé að koma smátt og smátt í ljós hvað hafi gerst þarna úti í Viðey. Það dettur upp úr ráðherrunum annað slagið, m.a. í ítarlegu máli sem þessu, hvað þar hafi raunverulega farið fram. Ekki hefur farið fram hjá neinum að núv. hæstv. sjútvrh. hefur sem betur fer verið í andstöðu við þessi sjónarmið og ekki talið efni til að leggja sérstaklega á sjávarútveginn við þessar aðstæður sem nú eru þótt hæstv. utanrrh. virðist hafa gengið mjög hart fram í því við myndun núv. ríkisstjórnar og telur það henni helst til gildis eftir því sem ég hef skilið að tekist hafi að leggja nokkrar álögur á sjávarútveginn.
    Ég vil benda hæstv. utanrrh. á það að einn mesti vaxtarbroddur í íslensku samfélagi á síðasta ári er aukning sjávarframleiðslunnar og sjávarframleiðslan er á síðasta ári rúmlega 80% af heildarútflutningstekjum á sama tíma og iðnaðarútflutningurinn hefur því miður dregist saman. Vaxtarbroddurinn í íslensku þjóðfélagi er því á þessu sviði og ef menn ætla að auka hagvöxt á næstunni þá er það kórvilla að leggja sérstaklega til atlögu við þennan atvinnuveg og skattleggja hann sérstaklega. Það hefur núv. ríkisstjórn hafið sem mun að sjálfsögðu draga mátt úr sjávarútveginum og þar með úr framleiðslu landsmanna og þar með minnka atvinnu. Það er mikilvægt verkefni að reyna að ná fjárlagahallanum niður. En ekki má ganga svo langt að allur kraftur og blóð sé dregið úr útflutningsframleiðslunni. Ég vil því spyrja hæstv. utanrrh.: Hvað liggur hér að baki? Fyrst þetta er fyrsti vísir að komandi veiðileyfakerfi í sjávarútveginum, hver er næsti vísir? Hvernig í ósköpunum stendur á því að þetta mál er ekki tekið fyrir í sérstakri nefnd ríkisstjórnarinnar sem var sett til að endurskoða sjávarútvegsstefnuna? Við höfum beðið um viðtöl við formenn nefndarinnar, en svo vill til að þeir eru tveir sem er mjög óvenjulegt. T.d. hefur engum manni dottið í hug að hafa tvo formenn í Alþfl. eða öðrum stjórnmálaflokkum en mönnum datt í hug að hafa tvo formenn í þessari nefnd sem er einsdæmi í nefndarskipan í landinu.
    Hjá báðum formönnum nefndarinnar hefur komið skýrt fram að þeir telja ekki vera sitt verkefni að fjalla um þetta mál og hafa ekki einu sinni tekið það fyrir. Ég spyr: Hvernig stendur á því, hæstv. utanrrh., að þeir hafa ekki verið látnir vita af því að kominn væri fyrsti vísir að nýju veiðileyfakerfi í sjávarútveginum? Ef það er rétt að hér er kominn fyrsti vísir að veiðileyfakerfi í sjávarútveginum á að sjálfsögðu að vísa þessu máli tafarlaust frá og taka það til umfjöllunar með málinu í heild, enda stendur í lögum að þessi mál skuli endurskoða fyrir árslok 1992. Ég trúi því vart að hæstv. utanrrh. fari með rangt mál í þessu sambandi en hér er um svo mikilvægt mál að ræða að ég tel alveg nauðsynlegt, fyrst hæstv. forsrh. sá sér fært að vera hér jafnframt sem ég þakka honum fyrir það, að hann staðfesti með hvaða hætti verði staðið að þessu máli og hvort þetta sé rétt hjá hæstv. utanrrh. því að það sem hann segir stangast á við það sem hæstv. sjútvrh. hefur sagt.
    Nú geri ég mér ljóst að væntanlega verður það ofan á sem formenn stjórnarflokkanna hafa komið sér saman um á Viðeyjarfundum og er að sjálfsögðu mikilvægt að þinginu sé það ljóst hvernig þeir hyggjast standa áfram að málum.
    Það er svo sem margt sem styður það að hæstv. utanrrh. fari með rétt mál, t.d. eins og þessi skýrsla Seðlabankans um ECU-tenginu. En hæstv. viðskrh. hefur lýst því yfir að þessi tenging verði tekin upp í ársbyrjun 1993 ef ég man rétt. En í skýrslu Seðlabankans er einmitt bent á að það sé mikilvægt að komin sé niðurstaða í málið sem er verið að tala um en þeir segja m.a., með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Leiðin til lausnar þessum vanda er að jafna metin með sérstöku gjaldi á veiðarnar svo sem fiskihagfræðin leggur áherslu á eða takmarka veiðarnar með aflakvótum eða sóknarmarki. Fyrri leiðin samræmist frjálsræði í athöfnum og jafnræði til tekjuöflunar en hin síðari byggist á úthlutun verðmætari réttinda til sumra aðila umfram aðra.`` Síðan segir í lokin: ,,Hins vegar þykir rétt að benda á að væntanleg stefnumótun þessa efnis getur haft áhrif á upphafsstöðu tengingar gengisins við ECU.``
    Þeir segja jafnframt að í þessu felist viss viðurkenning á veilum í ríkjandi fiskveiðistjórnkerfi, þ.e. nefndarskipun ríkisstjórnarinnar einkum að því er varðar jafnræði milli megingreina veiða og vinnslu. Nefnd hefur verið sett á laggirnar til þess að gera tillögur um í hvað þessu skuli felast í nánari atriðum. Úrslit þessa máls gætu haft áhrif á stöðu gengismála til frambúðar.
    Ég trúi því vart að seðlabankamenn leyfi sér að nota sína blýanta í að skrifa efni sem þetta, hæstv. utanrrh., ef þeir hafa ekkert fyrir sér í því hvað hæstv. ríkisstjórn ætlast fyrir og þess vegna rekst maður oft á ýmislegt sem styður þá skoðun að stjórnarflokkarnir hafi samið um að koma á veiðileyfagjaldi og líti á þessa breytingu sem hér er verið að leggja til sem fyrsta skref í þessu efni. Ég held að það ætti að vera alveg skýrt fyrir hæstv. utanrrh. og forsrh. hvað það er sem ég er að fara fram á að þeir svari og vænti þess að þeir muni verða við þeirri ósk minni.