Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 17:55:00 (2621)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Ég vil aðeins nefna það eins og málið liggur fyrir hér og nú, að það er ekki eins flókið eins og hv. 1. þm. Austurl. vildi vera láta, að í rauninni varð samkomulag um það við gerð fjárlaga að fyrirtæki, stofnanir og atvinnugreinar skyldu í vaxandi mæli taka þátt í kostnaði við þá þjónustu sem veitt var af opinberri hálfu í þeirra þágu. Þetta er alþekkt. Ákveðið var, til þess að láta sjávarútveginn taka þátt í þeirri þjónustu sem honum var sérstaklega veitt, að fara þá leið sem rakin hefur verið varðandi Hagræðingarsjóðinn. Heldur er ekkert launungarmál að það var jafnvel ætlunin að ganga lengra í þeim efnum en gert var en samkomulag varð um þá upphæð sem þarna var um að tefla.
    Ríkisstjórnin eða stjórnarflokkarnir gerðu ekkert samkomulag um það með hvaða hætti þetta skyldi verða túlkað og eru menn frjálsir að því. Ég þykist muna að sumir talsmanna Alþfl., m.a. hæstv. iðnrh. hafi opinberlega túlkað það skref sem var stigið varðandi Hagræðingarsjóðinn í tíð fyrrv. hæstv. sjútvrh. sem skref í þá sömu átt og nefnt er að formaður Alþfl. líti á þessa ákvörðun. Það er túlkun þeirra. Ég fjalla ekkert um hana hér og nú. Ég lít eingöngu þannig á eins og fjárlögin báru með sér að þetta var aðferð sem notuð var til þess að fá sjávarútveginn til að taka þátt í kostnaði við þá þjónustu sem Hafrannsóknastofnun veitir honum.