Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 18:03:00 (2625)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. 1. þm. Austurl. að menn geta varið tíma sínum til einhvers annars þarfara en að deila um staðreyndir. Við ræðum um frv. til laga um breytingu á lögum um Hagræðingarsjóð og okkur sem hér erum saman komin er vel kunugt um aðdraganda þeirra laga, breytingar sem á þeim hafa orðið á undanförnum árum frá upphaflegri mynd Úreldingarsjóðs. Það sem er um að ræða að því er varðar þá spurningu sem til mín var beint er þetta: Samkvæmt þessu frv. er nú heimilt að selja veiðiheimildir sem Hagræðingarsjóði eru faldar samkvæmt nánari reglum á gangverði, markaðsverði. Með öðrum orðum er um að ræða veiðiheimildir sem seldar eru á gangverði, gjaldtaka fyrir veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs. Þetta eru bara staðreyndir og þarfnast engrar túlkunar.
    Ef spurningin væri hins vegar sú hvort samkomulag hafi tekist í ríkisstjórninni um að gera þá breytingu á núverandi úthlutun veiðiheimilda að taka almennt gjald fyrir veiðiheimildir er svarið við því nei. Um það er ekki samkomulag. Þetta þekkja allir sem hér eru. Menn vita að Alþfl. hefur gert upp hug sinn um afstöðu í þeim málum og hefur boðað það sem vænlega lausn til lengri tíma litið að því er varðar aðgang að auðlindinni að taka upp gjaldtöku fyrir veiðileyfi. Það skýrðum við rækilega í stefnuskrá okkar fyrir kosningar. Við létum þess getið að við gætum hugsað okkur að sú þróun yrði í áföngum á löngum tíma, t.d. einum áratug. Við gerum okkur fyllilega grein fyrir því að um þetta mikla mál eru mjög skiptar skoðanir. Við vitum að innan annarra flokka t.d. í Sjálfstfl. og í Alþb. eru menn sem eru svipaðrar skoðunar og við. Við gerum okkur líka grein fyrir því að gegn þessu er hatrömm andstaða.
    Nú er það út af fyrir sig ekki það sem er hér til umræðu heldur annars vegar þær staðreyndir sem ég var að lýsa og hins vegar spurningin um það hver verði líkleg þróun. Þeirri spurningu get ég ekki svarað, ég hef engu slegið föstu um það. Ég er hins vegar persónulega þeirrar skoðunar að rekja megi ákveðna þróun þessa máls frá því að við áttum upphaflega samstarf um það í tíð fyrri ríkisstjórnar að koma á hinu geysimikilvæga ákvæði um sameign þjóðarinnar á fiskstofnunum til þess þegar enn var gerð sú breyting að styrkja það ákvæði frekar með því að binda í fiskveiðistjórnarlögin ákvæðið sem kveður á um það að núverandi úthlutunarkerfi myndi undir engum kringumstæðum stjórnarskrárvarinn eignarrétt né heldur bjóði heim skaðabótakröfum á hendur ríkinu ef af breytingum verði. Enn einn áfanginn var breyting á frv. þáv. sjútvrh., hv. 1. þm. Austurl., sem lagði fram frv. um Úreldingarsjóð. Samkomulag tókst eins og hann vék að um það að breyta því í nokkrum veigamiklum atriðum. Eftir það heitir sjóðurinn Hagræðingarsjóður. Sjóðurinn hefur haft þessar veiðiheimildir. Það sem nú hefur verið ákveðið er að selja hluta þeirra samkvæmt nánari reglum á gangverði, þ.e. gjaldtaka fyrir þau veiðileyfi. Það er laukrétt sem síðan hefur fram komið að þetta er á þessu stigi málsins þáttur í þeirri verkáætlun sem lögð var til grundvallar fjárlögum og var reynt að beita á fleiri sviðum, þ.e. um kostun fyrir þjónustu veitta af hálfu ríkisins við atvinnuvegi þannig að út af fyrir sig fer þetta tvennt saman.
    Hægt að tala langt mál um þetta mikla mál, fiskveiðistjórn og sjávarútvegsstefnu. Ég sé ekki sérstakt tilefni til þess. Við höfum ærin tilefni til þess. Eins og hv. þm. vita fer nú fram endurskoðun á fiskveiðistjórnarlögunum samkvæmt lögum og núv. ríkisstjórn hefur ákveðið að veita því máli í ákveðinn farveg. Þar eru að verki bæði fulltrúar stjórnarflokkanna í svokallaðri átta manna nefnd sem jafnframt ræðir með reglubundnum hætti við fjölmennan hóp fulltrúa hagsmunaaðila. Þetta er mikið verk. Það er nýhafið. ( ÓÞÞ: Hverjir eru hagsmunaaðilar?) Þetta er að vísu ágæt spurning hverjir eru hagsmunaaðilarnir því að margir hafa hagsmuna að gæta. Þjóðin öll hefur hagsmuna að gæta. Það er skylda stjórnarinnar og stjórnarflokkanna að leggja fram vinnu að þessu leyti í samræmi við stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar en hún ræðir einnig við þá sem gegna ábyrgðarstörfum og fara með stóran eignarhlut í atvinnuveginum sjálfum sem er orðin lenska að kalla hagsmunaaðila sérstaklega og vísa ég þá til þess hvernig fyrrv. sjútvrh. vísaði til þess sem hins sjálfsagða hlutar að ræða bæri við hagsmunaaðila. En læt ég þar með útrætt um það.
    Ekki veit ég hvort þessi svör teljast fullnægjandi að mati þess sem hér spurði en aðalatriðin eru þessi: Hér er verið að taka gjald fyrir veiðiheimildir en það hefur engin ákvörðun verið tekin á þessari stundu um það hvort lengra verður stigið á þeirri braut eða ekki.